Ný heildarsamtök bænda?

Að undanförnu hefur verið unnið að endurskipulagningu Bændasamtaka Íslands og í Bændablaðinu, því sem út kom þann 17. desember 2020, er heilsíðuumfjöllun til kynningar á niðurstöðu sem virðist vera komin í málið undir yfirskriftinni:

,,Nýtt skipulag á félagskerfi landbúnaðarins“.

Þar segir að hið nýja skipulag:

,,…byggist á þeirri sýn að Bændasamtök Íslands [verði] öflugt félag bænda sem [verði] í virkum tengslum við neytendur og stjórnvöld á hverjum tíma. Til að ná þessu fram eru lögð fram nokkur atriði […].“

Í kynningunni kemur fram að til standi að sameina búgreinafélögin og Bændasamtökin í eitt félag og að fyrirtæki og aðrar eignir búgreinafélaganna eigi að renna inn í B.Í. og að félagar þeirra komi til með að verða ,,beinir“ aðilar að samtökunum.

Aðild og ráðstöfun eigna.

 

Sá sem þetta ritar, gerir ekki athugasemd við að rekstrareiningar bænda og bændur sem reka bú sín í eigin nafni séu ,,beinir aðilar“ að samtökunum, en hefur afar takmarkaðan skilning á því að búgreinafélög sem slík verði það á þann hátt sem lagt er upp með.

Búgreinafélögin eru til orðin utan um sérverkefni, sérmál og sérhagsmuni viðkomandi búgreina og hafa sannað sig sem slík.

Tekið er fram í kynningu blaðsins að ráðstöfun eigna búgreinafélaganna verði eigi að síður háð samþykki viðkomandi búgreina og er gott að þessi varnagli er sleginn, varnagli sem er í mótsögn við það sem áður er fram komið!

Eyrnamerkingar.

Orðið ,,eyrnamerkt“ kemur nokkrum sinnum fyrir í textanum og við munum að lömbin eru eyrnamerkt og mörkuð á vorin af eigendum sínum!

Sagt er að hugsanlegar tekjur af þessum eignum (eignum búgreinafélaganna), komi til með að ,,renna til Bændasamtaka Íslands“, en eigi samt sem áður að skila sér með eyrnamerkingu til viðkomandi búgreinafélags, sem síðan ráðstafi þeim eftir því sem ,,nefnd viðkomandi búgreinar“ ákveður, þó þannig að sú ráðstöfun gangi ekki gegn markmiðum BÍ.

Minnir þetta dálítið á það sem gerist þegar foreldrar leyfa börnum sínum að eiga bankabók til að safna í aurum sínum, en ráðstöfunin er samt sem áður háð samþykki foreldranna.

Fáum sögum mun fara af því að búgreinafélögin hafi fram til þessa notað eignir sínar til að beita sér gegn Bændasamtökunum. Það er mun auðveldara að benda á dæmi um að búgreinafélögin hafi sinnt málefnum sem ekki hefur verið sinnt af heildarsamtökunum.

Sjálfstæðið.

 

Að loknum fyrrnefndum skýringum kemur eftirfarandi texti og eyrnamerkingarnar halda áfram:

,,Þá verði þeir sjóðir sem hver og ein búgrein heldur á við sameiningu einnig eyrnamerktir viðkomandi búgrein með sama hætti. Aðildarfélög búgreinafélaga eru sjálfstæð og verður það hverrar búgreinadeildar að skipuleggja samstarf [Bændasamtakanna] við þau.“

Aðildarfélögin eru sem sé ,,sjálfstæð“, eftir því sem hér segir og því er vandséð til hvers þessi flækjuflétta er yfirleitt sett á svið.

Tekið skal fram, að í beinu framhaldi er vísað í skipurit (mynd) til frekari skýringar og í textanum segir: ,,… Allar þessar stoðir verða að tala saman til að hámarksárangur náist í kerfinu.“ Já það er gott að talað sé saman. Enn betra hefði verið að byrja á samtali. Samtal sem fer fram eftir þann gjörning sem hér er kynntur, er ekki víst að verði árangursríkt.

Aðalfundurinn (Búnaðarþing).

Útskýrt er svokallað ,,Búnaðarþing“, samkoma sem hefur verið einhverskonar aðalfundur Bændasamtakanna og þó ekki, því samkoman hefur verið svo hátimbruð að vandséð er að hún hafi fram til þessa verið til annars, en að vera skrautsýning með sjálfvirkri afgreiðslu á fyrir fram ákveðnum hugmyndum.

Í stað þess að breytt verði til batnaðar, er svo að sjá sem ætlunin sé að halda svo sem unnt er í það furðulega kerfi sem fram til þessa hefur verið varðandi ,,þing“ þetta og að í stað þess að fram fari aðalfundur samtakanna, svo sem vanalegt er hjá hagsmunagæslusamtökum, þá er ætlunin að halda í hið gamla fyrirkomulag svo sem unnt er.

Sést það m.a. af því að gert er ráð fyrir að aðalfundurinn (Búnaðarþing) verði skipaður 63 fulltrúum og þar af 9 fulltrúum sem ekki eru fulltrúar búgreinanna sem að Bændasamtökunum standa!

Ekki er tekið fram að þessir gestir aðalfundarins séu án atkvæðisréttar. Þannig að gera má ráð fyrir að um sé að ræða aðila sem komi til með að greiða atkvæði um málefni sem snerta muni hagsmuni búgreinanna sem ætlunin er að myndi samtökin.

Þrír þessara fulltrúa eru þegar með fulltrúa í gegnum búgreinafélög en hinir eru fulltrúar sex búnaðarsambanda!

Nær hefði verið að stilla dæminu þannig upp að aðalfundarfulltrúar yrðu mun færri. Til dæmis 3 til 5 frá hverju búgreinafélagi og að sjálfsögðu engir fulltrúar frá óviðkomandi félögum.

 

Vægi búgreinanna.

Í Bændablaðinu segir:,,Hver búgreinadeild fær að lágmarki einn fulltrúa á þingið en eftir það skiptist fjöldi fulltrúa á milli búgreina þar sem velta greinarinnar hefur 50% vægi og fjöldi félagsmanna 50% vægi“

Búgreinarnar eru: Sauðfjárrækt, nautgriparækt, garðyrkjurækt, svínarækt, kjúklingarækt (þ.m.t. kalkúna), Félag eggjaframleiðenda, hrossarækt, geitfjárrækt, eða a.m.k. 8. Hver búgrein fær einn fulltrúa á aðalfund og sé þetta rétt upptalning (sem ekki er alveg víst, því verið getur að a.m.k eitt félag (búgrein) vanti, t.d. Félag kartöflubænda sem eitt sinn var til og er ef til vill enn starfandi), þá eru fyrirfram ákveðnir fulltrúar 3+6+8(?)= 17(?) og með þeim fyrirvara að að upptalningin sé rétt, eru eftir 46 fulltrúar sem verða kosnir á þingið eftir 50/50 reglunni sem lagt er til að verði notuð (,,þar sem velta greinarinnar hefur 50% vægi og fjöldi félagsmanna 50% vægi.“).

Eins og áður segir mætti fækka aðalfundarfulltrúunum meira en þetta og það hlýtur að vera krafa allra sem getu hafa til að rífa sig upp úr því einkennilega félagsformi sem Bændasamtök Íslands hafa verið í, að svo verði gert.

Hagsmunagslan og kynning Bændasamtakanna.

Markmiðið hlýtur að vera að koma á fót raunverulegum hagsmunagæslufélagsskap fyrir búgreinarnar í landinu. Sé ekki vilji til þess, þá er óþarfi að vera að þessu brölti öllu og bíða þess bara í rólegheitum að samtökin hverfi af sjálfu sér á vit sögunnar.

Í stað þess að gera svo sem gert hefur verið áður í landssamtökum, sem innibera margvísleg og misstór fyrirtæki sem þó byggja á sama eða svipuðum grunni, þá er hér búin til reikniregla (50/50) sem ekki er auðvelt að sjá, að nái að spegla búgreinarnar og skiptingu þeirra.

Á öðrum endanum er fjölmenn búgrein sauðfjárræktin, sem framleiðir afurðir samkvæmt búvörusamningum við ríkisvaldið og sem er með mikla veltu (í gegnum þá samninga) og síðan marga félagsmenn. Á hinum endanum eru búgreinar með mikla veltu á hverja framleiðslueiningu (bú) og fáa framleiðendur (m.v. sauðfjárræktina) og eru utan búvörusamninga s.s. alifuglaræktin og svínaræktin og eru oftar en ekki reknar í formi hlutafélaga (nautgriparæktin, alifuglaræktin, svínaræktin og garðyrkjan).

Hér er verið að búa til reglu sem stefnir að því að Bændasamtökin verða hér eftir sem hingað til fyrst og fremst hagsmunagæslusamtök sauðfjárbænda. Annars vegar vegna fjölda þeirra einstaklinga sem greinina stundar og hins vegar, vegna veltunnar sem kemur í gegnum búvörusamninga.

Vel getur verið að velta greinanna sem eru reknar á búvörusamningum verði metin með öðrum hætti, en komi það fram þá hefur undirrituðum sést yfir það.

Sé þetta eins og lesa má í fyrrnefndri útskýringu í Bændablaðinu, er vandséð hvert erindi búgreinar s.s. alifuglaræktin, svínaræktin, eggjaframleiðslan og jafnvel nautgriparæktin og garðyrkjan eiga inn í fyrirhuguð samtök.

Búnaðarþingsfulltrúar ættu að spegla búgreinarnar í landinu en ekki hvort menn eru ungir eða gamlir, lífrænir eða ólífrænir(!?), eða hvort þeir selja afurðir sínar beint frá býli eða gegnum afurðastöð og að sjálfsögðu á að að fækka fundarfulltrúunum þannig, að fulltrúar hverrar búgreinar verði ekki fleiri en tveir til fimm og fari það eftir því hve marga fulltrúa hver búgrein kýs að senda til fundarins. 

Í skeyti sem er fyrir neðan fyrrnefnda kynningu og sem er frá Bændasamtökum Íslands, er eftirfarandi niðurlag:

,,Veltutengt félagsgjald er [verður] innheimt árlega eftir ákvörðun Búnaðarþings. Við sameiningu falla niður bein félagsgjöld til núverandi búgreinafélaga og eitt félagsgjald verður greitt til BÍ. Ætlast er til að félagsmenn skrái veltu búa sinna með reglubundnum hætti og geri grein fyrir veltu eftir búgreinum. Með þessum aðgerðum er BÍ að bregðast við þeim breytingum sem starfsumhverfi samtakanna kallar eftir. Með þessu verði aukinn slagkraftur bæði einstakra félaga og heildarsamtakanna þannig að BÍ geti sem öflugt félag bænda, staðið vörð um hag þeirra og verið í virkum tengslum við neytendur og stjórnvöld.“

Af þessu sést að hugmyndin er að núverandi búgreinafélög hverfi með fullu og öllu inn í BÍ. Þá er gert ráð fyrir að að félagsmenn búgreinafélaganna ,,skrái veltu búa sinna með reglubundnum hætti og geri grein fyrir veltu eftir búgreinum“ eins og þar segir.

Hvernig þetta á að ganga upp er vandséð og hvernig búgreinafélög án allra tekjustofna eiga að starfa (og samt ekki starfa!) inn í Bændasamtökunum er torvelt að átta sig á.

Niðurstaðan.

 

Bændasamtök sem eru fyrst og fremst samtök sauðfjárræktarinnar, annars vegar vegna fjöldans sem greinina stundar og hins vegar veltu af framleiðslunni sem verður til með með búvörusamningum auk stuðnings ríkissjóðs við það sem flutt er úr landi, eru augljóslega ekki samtök sem eru fær um að gæta hagsmuna annarra búgreina. Og skiptir þá litlu máli hversu einlægur viljinn er til að standa sig í þeim efnum, því hætt er við að traustið verði lítið.

Málið þarf að vinna mikið betur, með það að markmiði að jafna hlutfallslega aðkomu búgreina að samtökunum.

Hugmyndirnar sem settar eru fram í Bændablaðinu eru að mati þess sem þetta ritar, lítið annað en plagg sem eftir er að taka til umræðu; hugmyndir sem þörf er að endurskoða og laga og geta ekki orðið eins og þær eru núna, grundvöllur að nýjum Bændasamtökum Íslands og geta jafnvel búið til meiri vanda, en þann sem þeim er ætlað að leysa.

Höfundur er fyrrverandi formaður Félags kjúklingabænda.


Ritdeila tveggja ,,fyrrverandi" á síðum Morgunblaðsins.

Þeir takast á, á síðum Morgunblaðsins tveir fyrrverandi ráðherrar og báðir fyrrverandi landbúnaðarráðherrar og annar auk þess fyrrverandi fjármálaráðherra með meiru.

Annar þekktur fyrir að kveða fast að orði og leggja orðunum áherslu með rödd sem margir þekkja strax og þeir heyra, hinn þekktur fyrir að hafa steytt hnefa, talað hratt og talað mikið en sagt færra og nú síðustu daga fyrir að hafa ekki grenjað, heldur lýst því hvernig aðrir sem ekki eru honum sammála, eða a.m.k. efins um að rétt sé að stofna til þjóðgarðs á hálendi landsins hafi grenjað.

Við vissum það ekki fyrr en vitum það nú, að maðurinn er bráðsnjall íslenskumaður, auk þess að vera náttúrufræðingur og því tekur hann okkur, þessi venjulegu og/eða óvenjulegu, í kennslustund á síðum Morgunblaðsins.

Skýrir orð sín með slíkri snilld að við sem fórum hjá okkur við að verða vitni að því að virðulegur ,,forseti“ þandi sig og steytti hnefa og hrópaði um ,,grenjandi minnihluta“ – já, og við vorum víst þar undir allmörg – urðum að horfast í augu við það að við skildum ekki tungu okkar réttum skilningi:

Grenja þýðir nefnilega lítill ef ekki vesæll, kannski lítill og ræfilslegur; grenjandi rigning er sama og lítil rigning og lítill bylur að vetri er sem sagt ,,grenjandi bylur“.

Svo lengi lærir sem lifir að sagt er og við sem lifum, getum sem sagt enn lært og meðtekið fróðleik frá þeim sem meira vita, kunna og geta.

Báðir hafa þeir verið landbúnaðarráðherrar fyrir utan allt annað eins og áður sagði og málskýrandinn mikli var það eitt sinn og gerði vafalaust eitthvað gott og ef rétt er munað snerist það um kindur.

Þeir eiga það víst sameiginlegt að ,,elska“ sauðkindina og finnast gott að borða hana líka. Já, finnst það gott, við sem elskum hundinn okkar eða köttinn og erum einföld og fáfróð, finnist það sérkennileg afstaða, en tökum undir að best og eðlilegast er að vera góður við húsdýrin sem við önnumst og notum til framfærslu og að lokum neyslu sum hver.

Íslenskukennari alþingis hugsaði víst eitthvað (og eflaust vel) um þá loðnu búfjártegund þegar hann var ráðherra hennar og það gerði líka þingmaðurinn fyrrverandi og ráðherra af Suðurlandi og hann hugsaði um fleira og þó hann elski sauðkindina ef til vill umfram önnur húsdýr, þá mundi hann að tegundirnar eru fleiri og þótti líka vænt um þær.

Kyssti jafnvel kýr, enda eru það yndislegar skepnur sem vert er að elska og kyssa!

Sá sem það gerði og heilsaði uppá strúta og fékk af þeim pest ritar pistil í Morgunblaðið, tekur hnefa-steyti í sögustund, rifjar upp ýmislegt úr sögunni, enda áhugamaður um sögu og minnir á að þingforsetinn hafi viljað láta þjóðina borga skuldir óreiðumanna.

Við erum reyndar ekki viss um að sú söguskýring sé hárrétt þegar að er gáð, en hvað við munum og hvað við munum ekki skiptir litlu máli í þessum slag, en við munum alla vega fylgjast vel með Morgunblaðinu næstu daga því ólíklegt er að sögunni sé lokið.

Þingforsetinn á næsta leik og hvort hann verður grenjandi klár, grenjandi kurteis, grenjandi fræðandi, eða grenjandi hitt eða þetta, treystum við okkur ekki til að spá fyrir um, en stillum okkur um að grenja af hlátri, því þegar tveir ,,hæstvirtir“ annar núverandi og hinn fyrrverandi takast á er best fyrir minni háttar spámenn að anda djúpt og fylgjast bara með.

 


Viðtal við framkvæmdastjóra F.a. í hádeginu á Rás1

Ágæt umfjöllun var um tollamál landbúnaðarins í þættinum ,,Hádegið" í hádegisútvarpi Rásar 1, næst á eftir veðurlýsingu (18.12.2020) og var fjallað m.a. um tollamál varðandi landbúnaðarvörur og tollafrumvarp landbúnaðarráðherra, það sem nú liggur fyrir Atvinnuveganefnd Alþingis.

Rætt var við Ólaf Þ. Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda um málið og skýrði hann þar sjónarmið innflytjenda kjötvara.

Ólafur benti á, að samkvæmt hans mati ætti styrkja landbúnaðinn eftir öðrum leiðum og nefndi í því sambandi eins milljarðs styrk sem ákveðið var fyrir nokkrum dögum að veita til sauðfjárræktar og nautgriparæktar.

(En auk þess eru þær búgreinar styrktar samkvæmt búvörusamningum um marga milljarða fyrir, eins og flestum er kunnugt.)

Milljarðurinn fyrrnefndi er sem sagt COVIT-19 viðbót sem veitt er þessum ,,ríkisreknu" búgreinum vegna samdráttar í sölu.

Samdráttur í sölu vegna COVIT-19 hefur líka komið fram hjá fleiri búgreinum s.s. alifugla og svínabændum og það er því ekki hægt að halda því fram að eingöngu sé um samdrátt að ræða hjá sauðfjár og nautgripabændum.

Ólafur nefndi ekki, að til að þessi innflutningsjafna nálgist fullkomnun, þarf að opna fyrir innflutning á kindakjöti á sambærilegan hátt og er varðandi alifugla og svínakjöt.

Auk þess þyrfti að koma á laggirnar styrkjakerfi fyrir alifugla og svínabúskap sambærilegu því sem fyrir er varðandi sauðfjár og nautgriparækt.

Vilji menn ekki taka upp styrkjakerfi af því tagi verður að tryggja jafnræði, en ekki auka mismunun milli ,,frjálsu“ búgreinanna og hinna ,,ríkisreknu“.

Það jafnræði er ekki fyrir hendi og hefur ekki hingað til verið:

Annarsvegar eru búgreinar sem reknar eru á ,,frjálsum,, markaði og utan þess styrkjakerfis sem við þekkjum langt aftur í tímann. Hins vegar eru búgreinar sem reknar eru, að stórum hluta til, á fjárlögum ríkisins.

Nær hefði verið og frekar hefði maður átt von á, að framkvæmdastjórinn legði til að ríkisrekstur búgreina yrði minnkaður en ekki aukinn.

Það var verið að auka hann með milljarðinum fyrrnefnda, þeim sem Ólafur minntist réttilega á í viðtalinu.


Innflutningur, tollar eða ekki tollar.

Enn berast fregnir af glímu landbúnaðarins við afleiðingar COVIT-19.

Tollafrumvarp landbúnaðráðherra bíður afgreiðslu Alþingis innflytjendum kjötvara til takmarkaðrar ánægju. Þeir vilja innflutning án takmarkana, en virðast þó vera nokkuð sáttir með samningana sem gerðir voru fyrir fimm árum af þáverandi ráðherra Framsóknarflokksins.

Gera má ráð fyrir að heldur vildu þeir þó að staðan væri sú, að þeir gætu framfylgt hugsjón sinni til fulls og gætu flutt inn eins hugur þeirra stendur til, þ.e. án takmarkana.

Nú er Framsóknarflokkurinn aftur kominn í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og landbúnaðarráðherrann kemur frá þeim flokki og í hans hlut kemur að minnka afleiðingarnar af framsóknarsamningnum og flokksbræður landbúnaðarráðherrans í verslunarstétt eru óhressir.

Pólitíkin er skrítin skepna og landbúnaðarpólitík helmingaskiptaflokkanna illskiljanleg.

Allt fer í hring að sagt er og því megum við gera ráð fyrir, að til þess muni koma fyrr en varir að við sjáum landbúnaðarráðherra af framsóknargerð poppa upp í Sjónvarpi allra landsmanna með yfirlýsingu um að nú sé allt orðið gott:

Hann sé búinn að gera samning við ESB-ið um að blessuðum heildsölunum sé heimilt að flytja inn tollfrjálst eða tolllítið kjöt og osta þjóðinni til blessunar.

Hve lengi þessi hringekja mun snúast er ekki gott að segja, en þó má reikna með að það verði svo lengi sem viðkomandi pólitíkusar pólera ráðuneytisstóla með botni sínum. Og það eru kjósendur sem þeirri tímalengd ráða.

Sú andategund er seinþreytt til vandræða og því getur biðin eftir breytingum orðið löng.


Hugleiðingar út frá nýju riti frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Undir mynd í ritinu ,,Loftslag, kolefni og mold" eftir Ólafur Arnalds og Jón Guðmundsson er eftirfarandi texti:

,,Land í tötrum í Sandvatnshlíðum á Biskupstungnaafrétti. Þetta land var áður skógivaxið fram eftir öldum. Gróðureyja til hægri er til vitnis um horfna landkosti – maður vinstra megin við barðið gefur mælikvarða. Jaðrar barðsins hafa verið græddir upp. Tap á 1‐2 m þykku jarðvegslagi af hundruðum km2 þannig að auðnin ein situr eftir er ótrúleg gjöreyðing sem á sér fáar hliðstæður á jörðinni. Hér hafa glatast ókjörin af kolefni, sem má áætla að samsvari til um 50 000 tonnum C á km2 (um 180 000 tonn CO2 á hvern ferkílómetra). Tapið reiknað á hundruð ferkílómetra er af geigvænlegri stærðargráðu (tugir milljóna tonna CO2‐ígilda). Myndin er tekin árið 2020."

Ritið virðist vera mikill áfellisdómur yfir landbúnaðarstefnu okkar Íslendinga. Það staðfestir að stefnan sem hefur verið rekin til margra áratuga er skaðleg landi og líka óæskilegt framlag til aukningar kolefnisspors þjóðarinnar.

Fram kemur að u.þ.b. 5,2 milljörðum er varið af almannafé til meðgjafar með framleiðslu kindakjöts og að til þeirrar framleiðslu er rakið hve illa er komið fyrir afréttarlöndunum. Þá má hafa í huga að nýlega var það framlag aukið um u.þ.b. einn milljarð.

Texti undir yfirskriftinni ,,Stóra myndin", þar sem rammað er inn hvað þurfi að hafa í huga, er eftirfarandi:

,,Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi þegar landið er ekki meðtalið er um 5 milljón tonna CO2‐ígilda á ári (tafla 1). Losun gróðurhúsalofttegunda frá landi vegna nýtingar og lélegs ástands vistkerfa (votlendi og þurrlendi) er meiri en öll önnur losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi, líklega yfir 10 milljón CO2‐ígilda á ári. Tap á kolefni úr vistkerfum landsins frá landnámi telst í þúsundum milljóna tonna CO2‐ígilda. Eitt mikilvægasta verkefnið sem þjóðin hefur tekist á hendur er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna manna, en ekki síður að minnka losun frá landi og binda gróðurhúsalofttegundir í vistkerfum. Fjallað er nánar um alla þessa þætti í ritinu, en gott er að hafa samhengi og stærðargráður í huga við lestur ritsins (Tafla 1)".

Hér  er gerður aðgengilegur margvíslegur fróðleikur með góðum útskýringar á hugtakanotkun eins og hér er dæmi um:

,,C eða CO2. Það er eðlilegt að loftslagsvísindin miði við koltvísýring (CO2) því það er það efni umfram önnur sem veldur hlýnuninni. En í öðrum náttúruvísindum er algengt að nota frumefnaformið kolefni (C), enda getur C verið í afar mörgum myndum eða efnasamböndum í hringrás kolefnis og orku. Til þess að umbreyta 1 g af kolefni (C) yfir í g CO2‐ígildi er margfaldað með stuðlinum 44/12 = 3,667. Hver CO2 sameind inniheldur eitt C atóm (mólmassi = 12) og tvö O atóm (mólmassi 16). Mólmassi CO2 er því =44 Hvert kíló kolefnis(C) sem losnar úr mold verður að 3,667 kílóum CO2 ef það er brotið niður að fullu. Aðrar gróðurhúsa lofttegundir eins og CH4 eru umreiknaðar í CO2‐ígildi út frá þeim áhrifum sem þau hafa til hlýnunar í andrúmsloftinu. Hlýnunar áhrif CH4 eru 25‐föld á við CO2 og svarar 1 g af CH4 því til 25 g CO2‐ígilda, þ.e.a.s. 1 g CH4 hefur sömu áhrif og 25 g CO2"

Ritari gerir ekki ráð fyrir að um sé að ræða ,,jólabókina í ár", en vel mætti svo vera, því það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli hvernig fer fyrir landinu okkar og Jörðinni sjálfri.

Þá skiptir það einnig miklu máli að raunhæfar upplýsingar og staðreyndir liggi fyrir og séu aðgengilegar. Þetta framlag er þakkarvert framtak til að svo sé.

Rétt er að hafa það sem sannara reynist:

Í gærmorgun 16.12.2020 hringdu í mig tveir bændur, annar búsettur á Norðvesturlandi, hinn á Suðurlandi. Báðir bentu mér á að nokkurrar ónákvæmni gætti þar sem segir að sauðfjárbændur hafi fengið u.þ.b. einn milljarð til viðbótar við þá 5,2 sem fyrir voru. Rétt er að hafa það sem sannara reynist og það mun vera svo að það eru sauðfjár- og nautgripabændur sem fengu tæpan milljarð. Samkvæmt frétt RUV er um að ræða einn  milljarð sem skiptast mun milli fyrrgreindra búgreina. Hvernig það skiptist kemur ekki fram í fréttinni. Ég þakka þessu bændum báðum fyrir ábendinguna og ánægjulegt og fróðlegt spjall.


Nokkur orð um og tilvitnanir í rit LbhÍ nr 130 (2020)

Komið er út ritið ,,Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa" eftir Ólaf Arnalds. Hér verður farið yfir hluta þess rits og vitnað til texta sem undirrituðum þykir áhugaverður. Ætlunin er ekki að fara yfir allt ritið, aðeins er gripið niður í það sem undirrituðum þykir áhugavert. Yfirferðin er sem sagt ekki tæmandi, fjarri því.

Byrjum á kynningunni og höldum síðan áfram eftir því sem ritara finnst vera áhugavert og það fyrsta er eftirfarandi:

,,Í ritinu er fjallað um núverandi ástand íslenskra vistkerfa á landi,hrun þeirra og ýmsar af þeim undirliggjandi ástæðum sem viðhalda skaðlegri landnýtingu enn þann dag í dag."

Óhætt er að segja að ritið er hlaðið fróðleik um stöðu vistkerfa í landi okkar og í upphafi fyrsta kafla er bent á þá augljósu staðreynd að illa farið land ætti ekki að nota til sauðfjárbeitar. Tekið er fram að áherslan sé lögð á „útjörð“, en ekki akuryrkjuland, skógræktarsvæði eða frjósöm afgirt beitarhólf.

Hér verður ekki lagt í það að fara yfir ritið lið fyrir lið en óhætt er að mæla með að þeir sem áhuga hafa á bættri meðferð ,,útjarðarinnar" kynni sér það.

Í þessu sambandi má hafa í huga hve undarlegt það er að þegar umhverfisráðherra kemur fram með frumvarp til samþykktar á Alþingi um friðun hálendisins og stofnun samnefnds þjóðgarðs, að þá er ekki lagt til að nauðbeitt landið verði friðað fyrir sauðfjárbeit, heldur ýmsu öðru sem ekki er vitað til að valdi því tilfinnanlegum skaða. En skoðum ritið áfram.

Í kafla 3.1 má lesa eftirfarandi: ,,Hér á landi eru gömul lög um búfjárhald, afréttarmálefni og fjallskil notuð til að viðhalda lausagöngu búfjár (Lilja Jónsdóttir 2020) sem oft leiðir til beitar fjáreigenda á land annarra án þeirra leyfis. Landeigendur geta orðið fyrir tjóni og þurft m.a.s. að leggja í mikinn kostnað við að smala eigið land og afhenda eigendum búfjárins gripina, enda þótt þeir hafi aldrei gefið leyfi fyrir beitinni. Að öðrum kosti geta eigendur búfjárins smalað eigin búfé af landi annarra á kostnað landeigenda, sem voru þó fullkomlega mótfallnir þessari beit, og höfðu engin leyfi veitt fyrir beitinni. Auk þess stuðla þessar lagagreinar að ósjálfbærri afréttanýtingu (Ólafur Arnalds 2019a,b).

Við erum eflaust nokkur, svo ekki sé meira sagt, sem könnumst við að land okkar sé beitt án leyfis og við könnumst líka við það að sumar af kindum nágrannanna séu þess eðlis að ekki sé nokkur leið að girða fyrir þær; að þær stökkvi yfir 10 strengja voldugar veggirðingar og reyni að grafa sig undir slíkar líkt og hundar séu, ef þær treysta sér ekki til að stökkva yfir.

Við þetta má bæta að sé vilji til, er vel hægt að rækta hátterni af þessu tagi úr fjárstofni. Það gerði kona mín á ótrúlega stuttum tíma meðan við vorum með fé. Lógaði garðárum og setti ekki á lömb undan þeim, svo einfalt var það.

Lesum lengra í kaflanum: ,,Lagalegir þættir og stjórnsýsla geta valdið rofi á tengingum á milli ástands lands og samfélagslegra þátta (e. decoupling). Dæmi um það er þegar lélegt ástand landsins hefur ekki áhrif á ákvarðanatöku um landnýtingu heldur er hún keyrð óbreytt áfram – slæmt ástand hefur þá ekki afleiðingar inn í samfélagið. Þá geta styrkjagreiðslur stutt við óbreytta landnýtingu enda þótt ástand landsins sé slæmt. Stuðningurinn getur líka rofið tengsl ástands lands við samfélagið þegar fjárveitingar minnka í raun þörfina á að halda vistkerfum í góðu ástandi. Þetta eru aðeins dæmi sem sýna að taka verður þessa þætti með í reikninginn við rannsóknir á ástæðum þess að landi er viðhaldið í slæmu ástandi.“ ,,[…] Ákvarðanir um landnýtingu á „landbúnaðarlandi“ og „öðru landi“ eru oftast á höndum landbúnaðarnefnda sem eru einkum skipaðar aðilum sem hafa hagsmuni að óbreyttu fyrirkomulagi. Þetta er um margt úrelt stjórnsýsla – umsýsla þessa lands sem hér um ræðir (land í slæmu ástandi) ætti ekki að flokkast sem „landbúnaðarland“ í skipulagi eða stjórnsýslu. Möguleikar til annarra nota geta verið mjög margvíslegir og því ætti breiður hópur hagaðila að koma að skipulagi á því landi sem hér um ræðir

Hér er verið að benda á kerfisgalla sem auðvelt ætti að vera að laga ef ályktunarhæfni og þokkaleg rökhugsun væri látin stjórna för í stað þess að afgreiða hlutina á þann veg: að svona hefur það verið gert og við gerum því eins áfram.

Í kafla 3.2. Hagrænir þættir og landbúnaðarstyrkir er farið nokkrum orðum um hvernig þeim málum er háttað í veröldinni og þar segir m.a.: ,,Stuðningsgreiðslur við landbúnað í heiminum nema 700 til1000 milljörðum dollara á ári en aðeins um 1% af því fé er talið tengt umhverfismálum og náttúruvernd með einhverjum hætti (The Food and Land Use Coalition 2019). Aðeins hluti framleiðslunnar er styrktur – stuðningurinn er ekki miðaður við almannaheill og takmarkað fjármagn rennur til umhverfistengdra verkefna (Smith o.fl. 2017). Innan Evrópusambandsins námu styrkirnir um 60 milljörðum evra árið 2019 (EU data portal). Þar hefur verið mikil áhersla á umhverfistengingu styrkja og að setja skilyrði um að nýting spilli ekki landkostum (e. cross compliance), en deilt er um hversu vel gengur að ná slíkum markmiðum. Árangur landbúnaðarstyrkja við að tryggja fæðuöryggi og búsetu í dreifbýli er ákaflega misjafn á milli landa og tegundar styrkja. Landbúnaðarstyrkir hafa oft þau áhrif að festa ákveðnar framleiðslugreinar í sessi, sem getur komið í veg fyrir sveigjanleika, til dæmis gagnvart breyttu fæðuvali neytenda eða vegna umhverfiskostnaðar framleiðslunnar (t.d. sótspor; sjá Ólaf Arnalds og Jón Guðmundsson 2020).“

1% er tengt náttúruvernd og umhverfismálum segir þar og verður manni þá hugsað á heimaslóðir og hvernig almannafé er varið til að styrkja framleiðslu sauðfjárafurða á landi sem er löngu orðið illa farið, graslítið og jafnvel örfoka.

Í kafla 3.2.1. er fjallað um landbúnaðarstyrki: ,, Á Íslandi unnust mál fyrir Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, árið 2018 (nr. 747/2018) og 2020 (nr. 876/2020), eftir nokkrar beiðnir um upplýsingar og í kjölfarið voru gögn um landbúnaðarstyrki gerð aðgengileg (Ólafur Arnalds 2020 a,b). Upplýsingar um landbúnaðarstyrki á heimsvísu draga fram dökka mynd af kerfunum. Í Bretlandi er það að meginhluta auðugir landeigendur, þeirra á meðal drottningin og krónprinsinn, sem fá stóran hluta styrkjanna. Sama á við í Mexíkó þar sem kom í ljós að styrkirnir runnu í miklum mæli til velstæðra landeigenda, en einnig til starfsmanna stjórnvalda – en ekki til fátækra smábænda eins og ætlunin var (The Food and Land Use Coalition 2019). Fullvíst má telja að styrkirnir nýtast víða ekki með þeim hætti sem ætlað er (Smith o.fl. 2017). Að bakistendur oftast gríðarlega sterkur hagsmunahópursem viðheldur úreltum kerfum, svo sem landeigendur í landbúnaðarnefndum þjóðþinganna, t.d. í Bandaríkjunum (Congress). Bændur eru þá beggja megin borðsins, sem á sér skýra hliðstæðu í stjórnmálum á Íslandi.“

Í kafla 3.2.2. er fjallað um hvernig landbúnaðarstyrkjakerfið varandi sauðfjárrækt sé á Íslandi: ,,Landbúnaðarstyrkir hafa margháttuð áhrif á íslenskt umhverfi – hugsanlega er þessi þáttur sá afdrifaríkasti fyrir vistkerfi landsins nú um stundir (mynd 8). Upplýsingar um landbúnaðarstyrki á Íslandi sem voru gerðar opinberar árið 2020 leiddu í ljós að hér sem annars staðar hefur margt farið úrskeiðis við framkvæmdina. Þannig fengu hundruð tómstundabænda og aðila utan lögbýla styrki til að framleiða dilkakjöt (gögn frá 2016), stundum til heimabrúks og oft í hróplegri andstöðu við nauðsynlegar breytingar á landnýtingu við þéttbýli, eða þar sem ástand lands er slæmt. Þá hafa vaxið upp gríðarlega stór bú sem hljóta háa styrki (allt að 20 milljónir króna á ári í heildargreiðslur á sauðfjárbú), sem er bæði andstætt byggðasjónarmiði styrkjanna (fá stór bú) og umhverfissjónarmiðum, því það getur leitt til ofbeitar að safna miklum fjárfjölda á eitt bú, sem hefur raunar gerst án tillits hvaða svæði eru heppileg til framleiðslunnar. Enda eru litlar kvaðir eða eftirfylgni með upplýsingum um hvort nægt beitiland sé til staðar (Ólafur Arnalds – óbirt gögn um umsóknir að aðild að gæðastýringu í sauðfjárrækt). Aðgerðir til að tengja styrkina við ástand landsins (e. cross compliance) hafa misheppnast hérlendis – rangsnúnir hvatar í sauðfjárframleiðslu viðhalda ósjálfbærri landnýtingu víða um landið (Ólafur Arnalds 2019a). Landbúnaðarstyrkir voru einnig drifkraftur framræslu votlendis seinni hluta síðustu aldar sem leiddi til þess að stór hluti votlenda landsins hefur verið ræstur fram með afar neikvæðum áhrifum á vistkerfi, samfara stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum (Sólveig Ólafsdóttir 2013). En það má ekki gleyma því að framræslan gjörbreytti aðstæðum til fóðurframleiðslu í landbúnaði, sem þarf að vega á móti neikvæðum umhverfisáhrifum.

Þegar ég var að ljúka við þessa lítilfjörlegu samantekt barst mér á öldum rafeindanna, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja sauðfjárræktini aukið framlag úr ríkissjóði upp á um einn milljarð króna. 

Á sama tíma liggur fyrir Alþingi frumvarp um að stofnun svokallaðs ,,Miðhálendisþjóðgarðs" og í því er gert ráð fyrir friðun fyrir m.a. virkjunum o.fl., en ekki er gert ráð fyrir friðun fyrir sauðfjárbeit!

Ekki verður farið lengra í þessari umfjöllun, eins og fram kom í upphafi þessarar takmörkuðu samantektar, er hún engan veginn tæmandi.

Hugsunin með þessum línum er fyrst og fremst sú að vekja athygli á ritinu ,,Ástand og hrun íslenskra vistkerfa“. Ritið sýnist vandað og vel þess virði að þeir sem áhuga hafa á þessum málum kynni sér það.


Blóðmerar, minkar og riða.

Kjarninn vefrit, fjallar um minkamálið sem skekið hefur Dani síðustu vikur í grein sem birtist 29. nóvember 2020.

Eins og mörgum er kunnugt ruku dönsk stjórnvöld upp til handa og fóta og fyrirskipuðu niðurskurð allra minka vegna rökstudds gruns um að fundist hefði stökkbreytt afbrigði af Sars-CoV-2 vírusnum sem sett hefur heimsbyggðina á annan endann að undanförnu.

Skemmst er fá því að segja að dönsk stjórnvöld fóru full geyst í sakirnar; lög voru sett eftirá og annað var eftir því. Mette Frederiksen forsætisráðherra fór síðan í heimsókn til minkabændanna og var brugðið, táraðist og beygði af.

Allt er málið hið nöturlegasta, fólk er svipt ævistarfinu, milljónir dýra eru drepin, urðunarstaðir eru skammt frá vatni sem fólk hefur notað sér til útivistar, þ.e.a.s. bæði vatnið og nágrenni þess. Þá er ótalið að minkahræin voru grafin svo grunni að við gasmyndun sem verður í þeim, þrýstast þau upp á yfirborðið aftur. Um er að ræða hvorki meira né minna en 17 milljónir minka, enda Danir stórtækir í framleiðslu minkaskinna.

Málið er allt hið ömurlegasta eins og fyrr sagði og afar ólíkt því sem gerðist varðandi niðurskurð sauðkinda og geita norður í Skagafirði á Íslandi. Þar voru það vísindamenn sem tóku ákvörðunina, byggðu hana á vísindalegum rökum og lögum. Fyrir eru í landinu lög sem tryggja bændum bætur á fjárhagslegu tjóni og að auki er búið að gera samning um sálfræðiaðstoð fyrir bændafólkið til að auðvelda því að komast í gegnum skaflinn.

Við eigum okkar Mette, því einn íslenskur alþingismaður lýsti því opinberlega yfir að honum fyndist að það sama ætti að gera hér á landi. Hann hafði veitt því eftirtekt að í landinu bláa væru nokkur minkabú og það fannst honum ekki gott; hefur líkast til fundist sem, að ef Íslendingar vildu endilega skreyta sig með loðkrögum, gætu þeir látið sér nægja að notast við eitthvað sem búið er til úr olíuefnum.

Stjórnmálamaður þessi er svo uppljómaður af áhuga sínum á að vera góður við dýrin, að nýlega tjáði hann sig um það að hætta ætti eldi hryssna í því skyni að notaðar yrðu til blóðtöku. Það eru sem sé að hans mati eingöngu menn sem leggjast mega á bekkinn til að gefa blóð.

Langoftast er þar um að ræða hryssur sem ekki hefur tekist að temja vegna einhverra skap- eða líkamsgalla. Svoleiðis skepnur vill viðkomandi þingmaður væntanlega láta skjóta strax, nema að hugmyndin sé, að þeim verði beitt á guð og gaddinn fram í elli, eða þar til að þær verði settar á til þess gerð hrossaelliheimili. Ekki gott að segja og sumt er erfitt að skilja.

Fyrr í þessum pistli var nefnt að sauðfjárbændum norður í landi stæði til boða sálfræðiaðstoð á vegum hins opinbera vegna hremminganna sem þeir hafa orðið fyrir. Um er að ræða nýjung sem ekki hefur verið verið í boði áður fyrir fólk sem orðið hefur fyrir svipuðum áföllum. Lítill er mikils vísir og í framtíðinni má reikna með því að svona nokkuð verði alsiða: að þegar fólk verður fyrir miklum áföllum muni hið opinbera stíga inní og auk þess að bæta peningalegt tjón, verði bætt andlegt tjón: riðubætur og andlegar bætur hverskonar.

Að þessu sögðu er gott til þess að vita að á Alþingi þjóðarinnar skuli sitja þingmenn og ráðherrar með göfugar hugsjónir, hugljómanir og einlægan áhuga á að láta gott af sér leiða.

Verði niðurstaðan í blóðmeramálinu ógurlega ekki sú sem umræddur þingmaður óskar, má þó í öllu falli gera ráð fyrir að þingmaðurinn geti átt von á hringingu frá ráðherra landbúnaðarmála, sem muni spyrja hann hvernig hann hafi það og muni síðan í framhaldinu bjóða honum aðstoð til að bæta hið andlega áfall.

Undirritaður setur upp rússnesku loðhúfuna sem hann keypti fyrir austan á dögum sovétsins og kveður.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband