Að tryggja matvælaframleiðslu þjóða

Í grein Ernu Bjarnadóttur sem er á bls. 42 í Bændablaðinu (2. tbl. 2021) fer hún yfir og ber saman ,,hvernig ESB og Noregur standa vaktina í hagsmunagæslu fyrir framleiðendur landbúnaðarvara til að tryggja framleiðslu þeirra".

2021-01-31 (2)Erna bendir á að: ,,ESB greiðir stóran hluta stuðnings síns til bænda í formi styrkja sem ekki eru skilyrtir framleiðslu tiltekinna afurða.“

Og spyr síðan: ,,Af hverju framleiða þá bændur innan ESB landbúnaðarafurðir? Og svarið er: ,,[...]af því að verð á þeim er nógu hátt [...] til að það borgi sig að framleiða." Hún bendir síðan á að ESB ,,tollverndin" sé stillt þannig af að vilji bændanna til að framleiða haldist.

Hún veltir því fyrir sér hvers vegna framkvæmdastjóri FA hafi kosið að vitna aðeins í hluta af 19. grein EES samningsins þ.e.a.s. þann hluta, þar sem því er lýst yfir að menn vilji stefna að auknu frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir, en framkvæmdastjórinn kjósi ekki að nefna til skilyrðin sem tekin eru fram í sömu grein.

Undir lok greinar sinnar bendir Erna á, að landbúnaðarstefna ESB samanstandi af tollvernd, styrkjum og öðru sem sé til ætlað að framleiðsla haldist uppi og falli ekki niður fyrir tiltekið lágmark.

Orðrétt segir Erna síðan: ,,það er ótrúlegt ef einhver telur að landbúnaðarstefna ESB miði ekki að því að tryggja viðgang landbúnaðar og að fjölbreytt framleiðsla landbúnaðarafurða eigi sér stað sem víðast í ríkjaheildinni." og bætir því síðan við að það sé skrifað inn í Lissabon sáttmálann sjálfan.

Niðurlagið er eftirfarandi: ,,Tollvernd er ein stoð í [...] kerfi bandalagsins. Þá lágmarkskröfu verður að gera til þeirra sem gera tillögur um gjörbreytingu á rekstrarumgjörð íslensks landbúnaðar að þeir segi þá sögu til enda en freisti þess ekki með hálfkveðnum vísum og fagurgala að afla fylgis við hugmyndir sem verulegar líkur eru á að leiði til samfélagslegrar niðurstöðu sem fæstir landsmenn vilja sjá."

 

Lönd tryggja matvælaframleiðslu sína af góðum og gildum ástæðum og það er ekkert sérstaklega bundið við Ísland, ef einhverjum skyldi hafa dottið það í hug. Þjóðir sem ekki búa við fæðuöryggi eru ekki í góðum málum og gott væri að hinir dugmiklu kaupmenn okkar hefðu það í huga.

Ef svo er að íslenskur markaður dugi ekki til að þeir geti fengið útrás fyrir þá athafnaþörf sem þeir búa yfir, þá er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að fá þörfinni fullnægt á stærri mörkuðum, því þó þjóðinni hafi fjölgað talsvert undanfarin ár, er hún enn sem komið er ekki stærri en sem svarar einu bæjarfélagi í Evrópulöndunum.

Þjóðin okkar er vel upplýst og dugleg og með sterka atvinnuvegi og landbúnaðurinn er einn af þeim. Við ættum að haga þjóðarbúskap okkar þannig að hann geti starfað eðlilega og það gildir um verslunina sem aðra atvinnuvegi.                                               

 

Ýmis fyrirtæki hafa haslað sér völl á erlendri grundu og ástæðulaust er að ætla að hinir kraftmiklu og hugmyndaríku kaupmenn okkar geti ekki gert það líka. Þarna úti er fullt af fólki sem bíður eftir því að geta notið ávaxtanna af dugnaði og útsjónarsemi þeirra og þó dæmi finnist um að þeir hafi reynt fyrir sér, þá má alltaf gera betur og gera meira.


Skammsýni ráðherra veldur bændum vanda

Hann er sem vonlegt er þungur á brún, formaður Bændasamtakanna þegar hann horfir fram á afleiðingar samningsins við ESB um lækkun tolla á innflutningi kjöts, nema kindakjöts.

2021-01-30 (3)Við þessum samningi var núverandi formaður Framsóknarflokksins og þáverandi landbúnaðarráðherra varaður, en hann kaus að hlusta ekki á varnaðarorðin.

Hann virtist trúa því að það væri þess virði fyrir íslenska þjóð (og íslenska bændastétt) að fórna hagsmunum valinna búgreina fyrir ímyndaða hagsmuni ríkisrekstrarins í sauðfjárrækt.

Honum var bent á að kjötmarkaðurinn væri að stórum hluta ein heild og að innflutningurinn myndi bitna á sauðfjárræktinni líka. Hann kaus að trúa því ekki og ekki er víst að hann trúi því enn.

Ástæða þess að afleiðingar samningsins komu ekki strax fram af fullum þunga fyrir nautgriparæktina, svínaræktina og alifuglaræktina, er ferðamannastraumurinn sem var, þar til COVIT-19 ástandið helltist yfir.

Vonir um vænan markað fyrir íslenskt kindakjöt í ESB löndum rættust ekki, en flest er þó hægt að selja ef verðið er nógu lágt og afkoma þeirra sem framleiða vöruna er tryggð með framlögum af almannafé.

En er það góð hagfræði að framleiða eitthvað með ærnum kostnaði og selja það síðan fyrir hvað sem er?


Næsta ríkisstjórn?

Formaður Framsóknarflokksins útilokar ekki að taka þátt í myndun ríkisstjórnar með Miðflokknum.

Það er ágætt að hugrenningar af þessu tagi komi skýrt fram fyrir kosningar.

Vitað er að Framsóknarflokkurinn hefur fáar grundvallarreglur í pólitík, aðrar en þær að komast í ríkisstjórn og skiptir þá litlu máli hverjir stíga í ístaðið og bregða sér á bak með þeim.

Markmiðið er það eitt að komast að, komast í stóla, geta úthlutað gögnum og gæðum o.s.frv. Stefnan er óskýr og við vitum að flokknum líður einna best í helmingaskiptum með Sjálfstæðisflokknum.

Miðflokkurinn er klofningur úr Framsóknarflokknum eins og flestir vita og eins líklegt er að vel geti farið á með hinum gömlu félögum, því í raun var ágreiningurinn, sem klofningnum olli einungis um keisarans skegg.

Ef kjósendur kjósa sem formaðurinn óskar getum við átt von á ríkisstjórn Framsóknarflokks, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks. Við getum átt von á þrískiptingu í stað helmingaskipta, auknum höftum á ýmsum sviðum og fleiru af því tagi.

Miðflokkurinn mun annað hvort sporðrenna orkupökkum framtíðarinnar og fortíðarinnar, sem hverjum öðrum orkustöngum, eða öfugt.

Framsóknarflokkurinn mun kyngja með ánægju og góðri lyst hverju því sem að höndum ber frá samstarfsflokkunum, lítill efi þar á.

Hvernig Sjálfstæðisflokkurinn mun höndla þennan veruleika afturhalds og fortíðarþrár er ekki eins ljóst. En hann er æfður og sleipur og mun eflaust takast að stjórna hinum leikbrúðunum eftir eigin höfði; verður í miðju vefsins og kippir í strengina eftir því sem hentar og lætur brúðurnar dansa.


Ríkis eða einkabankar

Samkvæmt því sem segir hér í frásögn Kjarnans.is hefur Gylfi Zoega skilning á því að menn hrökkvi við þegar rætt er um sölu bankanna frá ríkinu til einkaaðila og bendir á að:

,,Mikil áhætta gæti skap­ast í rekstri kerf­is­lega mik­il­vægra banka ef þeir eru í einka­eigu, sökum tak­mark­aðrar ábyrgð eig­enda þeirra og trygg­ingar um að ríkið komi þeim til bjargar þegar illa geng­ur."

En Gylfi bendir einnig á hina hliðina:

,,að rík­is­rekstur bank­anna gæti einnig aukið hættu á spill­ingu innan fjár­mála­kerf­is­ins, þar sem stjórn­mála­menn gætu hlut­ast til í ákvörð­unum um lán­veit­ing­ar."

Og við sem munum eftir gömlu ríkisbönkunum (og frjálsa okurlánakefinu sem starfrækt var neðanjarðar) getum bent á, að ekki var sá bankarekstur alheilbrigður, né til neinnar sérstakrar fyrirmyndar.

Þar voru sumir jafnari en aðrir og stundum guldu menn fyrir skoðanir sýnar. Hvort heldur sem um var að ræða skoðanir í stjórnmálum eða á einhverju öðru og komið gat fyrir að menn ,,voru teknir niður" og neitað um lánafyrirgreiðslu.

Jafnvel gat það gerst að gengið væri svo langt, að þeir sem voru hinum ráðandi ekki þóknanlegir, ekki í réttum félagsskap, stjórnmálaflokki eða öðrum samböndum, væru keyrðir í þrot í þeim tilgangi að losna við þá.

Einnig gat það líka gerst, að þegar þeir sem rétt voru staðsettir í kerfinu og rétt innmúraðir, en voru komnir upp að vegg í brölti sínu: að þá væru þeir einfaldlega ,,greiddir út" með almannafé, sem sem kom eftir dularfullum leiðum úr ríkissjóði.

Það eru sem sagt tvær hliðar á þessum peningi. Gamla ríkisbankakerfið var alls ekki gallalaust og al-,,frjálsir" ríkisbubbabankar eru það ekki heldur. Því þarf að vanda til verka.

Lán sótt í banka

Í þessu sambandi rifjast upp saga af ungri konu sem fór í banka til að fá afgreitt húsnæðislán sem hennar beið. Var konunni vísað til bankastjóra í útibúi hins gamla Búnaðarbanka og er þangað kom, boðið til skrifstofu útibússtjórans, manns sem ekkert hafði í raun með málið að gera. Fyrir honum átti hún að bukta sig og beygja eftir að hafa beðið afgreiðslu til þess eins að eyða tíma sínum. Er hún gekk inn á skrifstofu útibússtjórans, heilsaði hann með þessum orðum: ,,Hverra manna ert þú góða mín?"

Konan sem var bæði skörp og stolt, svarað að bragði: ,,Hvað kemur það málinu við?" 

Bankastjórinn sá að sér, sagði lítið meira, afgreiddi lánið og lét gott heita.

Á þessum árum var það þannig, að lán til íbúðarhúsabygginga í sveitum voru afgreidd í gegnum Búnaðarbankann. Sá banki var ekki viðskiptabanki konunnar þegar þetta var, en seinna var hún og hennar fjöskylda neydd til viðskipta við bankann vegna viðskipta sem greidd voru með víxlum sem ekki mátti selja nema í Búnaðarbanka(!), banka sem auk vaxta tók af upphæðinni ákveðna prósentu og lagði inn á bundinn reikning hjá sjálfum sér.

Þá upphæð var hægt að fá greidda út með föstu ástigi í ístaðið, blönduðu svipusveiflu og hótunum. Væri það hins vegar gert, var eins líklegt að þar með væri viðskiptum með Búnaðarbankavíxla lokið í þeim banka og alls ekki öruggt að aðrir bankar keyptu slíka víxla.

Önnur saga og eldri

Aðra sögu og til muna ljótari má lesa um í bók Njarðar P. Njarðvík ,,Spegill Þjóðar". Þar segir frá því í kaflanum ,,Veröld móður minnar" hvernig ,,bankastjóri gekk miskunnarlaust að" foreldrum Njarðar - en faðir hans rak netagerðarverkstæði - eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði fellt gengið um 42,6% og lét síðan samþykkja lög nr. 120 28. desember 1950, á Alþingi um afskriftir skulda útgerðarmanna um 98%. Faðir hans fékk m.ö.o. 2% af því sem útgerðin skuldaði og það ekki allt í einu, heldur með vaxtabréfum til 15 ára! 

Þetta var ,,hrun" þessarar litlu fjölskyldu og því var ekki að heilsa að þáverandi forsætisráherra trommaði upp með skrípasýningu sem hann kallaði ,,leiðréttingu". Öðru nær, því hér var kné látið fylgja kviði og bankastjórinn gekk miskunnarlaust að föður Njarðar og kom eigum hans í hendur flokksbróður síns úr Framsóknarflokknum. Eftir að faðir Njarðar lést notaði Framsóknarmaðurinn í bankastjórasætinu síðan tækifærið og kom ekkjunni endanlega á kné, sem þar með stóð uppi sem ,,allslaus 47 ára ekkja" árið 1957. Njörður vitnar síðan í lok kaflans í orð Jóns Hreggviðssonar: ,, Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti".

Niðurstaða

Það er sem sé að ýmsu að hyggja í bankamálunum og alls ekki víst að viðskipti við ríkisbanka séu ,,heilbrigðari" en við einkabanka. Veldur hver á heldur eins og þar stendur og svo mikið er víst, að Landsbankinn, sem var viðskiptabanki þeirrar sem hér sagði fyrr frá, beitti ekki sömu brögðum og Búnaðarbankinn gerði í sínum viðskiptum við ungu konuna. Konuna sem kunni ekki að meta ávarp bankasstjórans.


Að skrifa skemmtilegar greinar

2021-01-23 (5)Vilhjálmur Bjarnason er einn af þeim sem skrifar aðsendar greinar í Morgunblaðið og þó ég viti ekki um aðra, þá er það svo að ég reyni að missa aldrei af þeim og les þær með athygli.

Textinn er meitlaður, skýr og skemmtilegur aflestrar. 

Vilhjálmur lýsir því hvernig hann hafi í sífellur verið færður niður á lista miðað við það sem átt hefði að vera, miðað við úrslit í prófkjörum.

Verður manni þá hugsað til þess hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig hjá Samfylkingunni að undanförnu.

Þar vildi sitjandi þingmaður halda áfram en hlaut ekki til þess fylgi. Þau sem með málin fóru, buðu honum þriðja sætið sem væntanlega hefur þá þýtt að aðrir færðust því sem næmi neðar.

Þingmaðurinn hafnaði því og hefur eflaust talið að ekki væri öruggt að hann gæti komist á þing sem þriðji þingmaður flokksins í kjördæminu, þrátt fyrir afar góða vinnu á þingi á síðasta kjörtímabili, að eigin sögn. 

Niðurstaðan varð að hann kaus að fara þá leið að hafna alfarið að taka sæti á listanum!

Vilhjálmur gefst ekki upp, þrátt fyrir rangsleitni.

Ágústi nægir ekki að vera hampað, miðað við úrslit, og tekur hatt sinn og staf.

Ætti ég kost á að taka þátt í þessum kosningum, kysi ég Vilhjálm.

 

 


Fréttir af íslenskum kjötmarkaði

2021-01-21 (2)Í frétt sem Helgi Bjarnason skrifaði í Morgunblaðið (22.1.2021) segir frá því að sala á kjöti sem framleitt er innanlands hafi minnkað um 1500 tonn og að sala á kindakjöti hafi dregist saman um 12,6%.

Samdrátturinn í sölu á kindakjöti var um 1000 tonn og birgðaaukning í þeirri kjöttegund um 800 tonn.

Þá greinir frá því að vinsældir kjöttegundanna eru þannig, að í fyrsta sæti er alifuglakjötið, þá kemur svínakjötið og að lokum kindakjötið í þriðja sæti.

Eins og gera mátti ráð fyrir er það veirufaraldurinn (COVIT-19) og fækkun erlendra ferðamanna sem veldur samdrættinum.

Í fréttinni kemur fram að flutt hafi verið út til Spánar kindakjöt svo nemur hundruðum tonna en nú finnist ekki kaupendur að því kjöti lengur þar suður frá vegna minnkandi ferðamannastraums þar í landi.

Muna má að fyrir nokkrum vikum var greint frá því í fréttum, að ársgamall kindakjötsgámur hafi komið á land í Færeyjum og kjötið verið þar til sölu með nýjum merkimiðum sem settir voru á kjötinu til yngingar. Þannig að nú getum við átt von á, að senn birtist greinar eftir fyrrverandi framsóknarformann um ,,jarmandi" íslenskt kjöt í frystiborðum færeyskra matvöruverslana!

Unnsteinn Snorri Snorrason framkvæmdastjóri Landsambands sauðfjárbænda, telur vandann ,,ekki óyfirstíganlegan" varðandi kindakjötið, en nefnir í sömu andrá ,,offramleiðslu" á nautakjöti sem stafi m.a. af innflutningi á þeirri kjöttegund.

Og rifjast þá enn einu sinni upp hvernig á því stendur að flutt er inn nautakjöt, svínakjöt og alifuglakjöt.

Það er vegna þess að núverandi formaður Framsóknarflokksins samdi um að svo skyldi það vera, til að hægt yrði að flytja út offramleiðsluna á kindakjötinu, því sem fyrrnefndur Unnsteinn er talsmaður fyrir. Og til þess að allt gengi það nú vel var komið á laggirnar fyrirbærinu Icelandic Lamb til að annast markaðssetningu ríkisframleiðslunnar innanlands sem utan.

Af því er sopið seyðið nú sem áður og þjóðin borgar.

Myndin með grafinu er úr grein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu


Gjafmildi á íslenska hagsmuni

,,Vandinn raungerist" er yfirskrift fréttar Helga Bjarnasonar blaðamanns á Morgunblaðinu.

Í fréttinni sem er frá 15. janúar síðastliðnum - sem er um stöðuna sem komin er upp í landbúnaðinum - er fjallað um ýmsar hliðar þess vanda sem blasir við bændum og þar koma ýmsar áhugaverðar upplýsingar fram.

  • Gripir bíða slátrunar heima á búunum vegna uppsöfnunar hjá sláturleyfishöfum.
  • Kvótinn sem auglýstur er fyrir Bretland bætist við það sem kemur frá ESB löndunum

Það er sem sagt þannig á spilunum haldið, samkvæmt því sem fram kemur í fréttinni, að í samningum við erlend ríki, er allt gert er sem unnt er til að grafa undan íslenskum landbúnaði.

Haldið er áfram þeirri iðju sem núverandi formaður Framsóknarflokksins lagði upp með, að semja um tollkvóta fyrir innflutning á landbúnaðarvörum til landsins. Hann gerði það til að liðka til fyrir sölu á offramleiðslu ríkisins á kindakjöti til ESB.

Trúlega er hér það sama á ferðinni, því Bretar hafa verið frekar afkastamiklar kindakjötsætur. 

Framsóknarforinginn gerði það undir því yfirskini að liðka ætti til fyrir útflutningi á kindakjöti. Núverandi ríkisstjórn er á sömu slóðum.

Hafa menn hugsað sér að standa þannig að málum til framtíðar, að ef svo fer að fleiri lönd sem eru innan ESB, taka upp á að ganga úr bandalaginu í bresku fýlukasti, að þá muni í sífellu verða aukinn tollkvótinn, á þann hátt að eftir sitji í ESB kvótinn, sem samið var um í upphafi af framsóknarforingjanum, en við bætist nýr og aukinn kvóti fyrir brottfararlandið?

Sér er nú hver gjafmildin á íslenskum hagsmunum.


Hugleiðingar út frá grein í Bændablaðinu

Bændablaðið birti grein þann 14 janúar eftir Ernu Bjarnadóttur hagfræðing. Greinin ber yfirskriftina ,,Hafa skal það sem sannara reynist" og er yfirferð yfir þær aðstæður sem íslenskur landbúnaður býr við samanborið við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum.

Ólafs þáttur

Erna telur skrif Ólafs Stephensen að undanförnu, ekki byggja á sanngjörnum kröfum varðandi viðskipti milli Íslands og ESB landa, en í þeim leggur Ólafur áherslu á að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur ættu að vera sem minnstir eða jafnvel engir. 

Ernu tekst að sýna fram á með trúverðugum hætti að Ólafur og fleiri fari villur vegar í umræðunni er þeir láta í veðri vaka að tollvernd sé séríslenskt fyrirbrigði.

Erna vitnar í heimildir máli sínu til sönnunar þar sem fram kemur: 

[...],,að mun víðtækari undanþágur frá samkeppnisreglum gilda í Noregi (öðru EFTA-ríki, aðila að EESsamningum) og innan ESB (aðila að EES samningnum) fyrir framleiðendur landbúnnaðarafurða.[...] Auk þessarar skýrslu hefur verið bent á að vegna COVID-19 heimsfaraldursins hefur framkvæmdastjórn ESB samþykkt styrki til bænda að fjárhæð allt að 15,6 milljónir króna og lánafyrirgreiðslur að fjárhæð allt að 31 milljón króna ) auk frekari undantekninga frá samkeppnisreglum." 

Og Erna bendir á að:

,,Á undanförnum misserum hafa hagsmunasamtök bænda bent á þann aðstöðumun sem er á milli norskra og evrópskra bænda annars vegar og íslenskra bænda hins vegar hvað þessi atriði varðar."

Millilandaviðskipti með landbúnaðarvörur

Upplýst er að staðhæfingar um tollfrjáls viðskipti varðandi landbúnaðarvörur eru síður en svo einhver algild regla og að fjölmargar, ef ekki flestar þjóðir, leggja áherslu á að vernda sína landbúnaðarframleiðslu.

Nærtækt dæmi um brengluð viðskipti með landbúnaðarvörur og ef til vill það sem skemmst er að minnast, er þegar hömlur (bann) voru settar í viðskipti með þær milli Rússlands og ESB landa. Bann sem gekk út á, að bannað var að selja landbúnaðarvörur til Rússlands! 

Ísland tekur þátt í því fráleita viðskiptabanni, en landbúnaður blómstrar í Rússlandi sem aldrei fyrr og það svo, að Rússar eru orðnir stórtækir í útflutningi á þeim vöruflokki.

Af þessu má vera ljóst, að þjóðir bregðast við með ýmsum hætti til að styðja matvælaframleiðslu í löndum sínu þegar erfiðleikar steðja að og þætti íslenskum bændum, eða afurðastöðvum þeirra, vafalaust fengur í fyrirgreiðslum af því tagi sem fyrr var lýst að gert er í ESB löndum.

Þrasið

En þrasið snýst um það, hvort verja skuli íslenskan landbúnað með tollum t.d. á innflutt kjöt. Fljótt á litið og án tengingar við veruleikann, má segja sem svo að best væri að sleppa öllum tollum og láta íslenska bændur einfaldlega sjá um sig sjálfa í samkeppninni; treysta á að til framtíðar megi gera ráð fyrir að nægt framboð verði frá öðrum löndum og því sé betra, að íslenskir bændur snúi sér að einhverju öðru, sér og sínum til framfæris.

Þetta er hins vegar mikil einföldun á veruleikanum og það er ekki að ástæðulausu að flestar þjóðir reyna að tryggja með ýmsum hætti, að matvælaframleiðsla sé stunduð í löndum sínum. Sú var reyndar tíð að gott þótti að stunda útflutning á kindum og hrossum frá Íslandi, en það breyttist fljótt eftir að þjóðirnar sem hlut að áttu, höfðu jafnað sig, eftir þær manngerðu hörmungar sem yfir þær höfðu gengið.

Núverandi staða

Núna er staðan sú að flutt eru úr landi hross með góðum efnahagslegum ávinningi. Sá ávinningur dugar samt skammt til að jafna upp tapið af því sem verið er að reyna, að baslast við að selja af kindakjöti til annarra landa. Og þar sem enginn markaður fyrirfinnst í víðri veröld sem nokkur von er til að fáist til að greiða kostnaðarverð þeirrar framleiðslu, liggur í augum uppi að draga þarf saman seglin, þar til hún hæfir íslenskum markaði. 

Ríkisrekstur af því tagi sem þar er stundaður er dæmdur til að renna sitt skeið. Hvenær það verður, fer væntanlega eftir því hvenær almenningur gefst upp á dæminu og kýs til valda flokka og fólk sem kærir sig ekki um að kosta gæludýrahald af þessu tagi.

Niðurstaðan

Allt þetta breytir ekki því að gott er að fjölbreyttur landbúnaður sé stundaður í landinu okkar, eftir því sem aðstæður bjóða uppá að raunsætt sé að gera. Vel getur verið að framtíðarmöguleikar felist í útflutningi og þá er að sjálfsögðu rétt að nota sér það þegar þar að kemur, en varast að gera það á þeim grundvelli sem stundaður er eins og fyrr var nefnt.

Starfsemi af því tagi getur ekki verið á marga vetur setjandi og fjármunum sem í það er varið, mætti örugglega ráðstafa betur. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband