Hugleiðingar út frá nýju riti frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Undir mynd í ritinu ,,Loftslag, kolefni og mold" eftir Ólafur Arnalds og Jón Guðmundsson er eftirfarandi texti:

,,Land í tötrum í Sandvatnshlíðum á Biskupstungnaafrétti. Þetta land var áður skógivaxið fram eftir öldum. Gróðureyja til hægri er til vitnis um horfna landkosti – maður vinstra megin við barðið gefur mælikvarða. Jaðrar barðsins hafa verið græddir upp. Tap á 1‐2 m þykku jarðvegslagi af hundruðum km2 þannig að auðnin ein situr eftir er ótrúleg gjöreyðing sem á sér fáar hliðstæður á jörðinni. Hér hafa glatast ókjörin af kolefni, sem má áætla að samsvari til um 50 000 tonnum C á km2 (um 180 000 tonn CO2 á hvern ferkílómetra). Tapið reiknað á hundruð ferkílómetra er af geigvænlegri stærðargráðu (tugir milljóna tonna CO2‐ígilda). Myndin er tekin árið 2020."

Ritið virðist vera mikill áfellisdómur yfir landbúnaðarstefnu okkar Íslendinga. Það staðfestir að stefnan sem hefur verið rekin til margra áratuga er skaðleg landi og líka óæskilegt framlag til aukningar kolefnisspors þjóðarinnar.

Fram kemur að u.þ.b. 5,2 milljörðum er varið af almannafé til meðgjafar með framleiðslu kindakjöts og að til þeirrar framleiðslu er rakið hve illa er komið fyrir afréttarlöndunum. Þá má hafa í huga að nýlega var það framlag aukið um u.þ.b. einn milljarð.

Texti undir yfirskriftinni ,,Stóra myndin", þar sem rammað er inn hvað þurfi að hafa í huga, er eftirfarandi:

,,Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi þegar landið er ekki meðtalið er um 5 milljón tonna CO2‐ígilda á ári (tafla 1). Losun gróðurhúsalofttegunda frá landi vegna nýtingar og lélegs ástands vistkerfa (votlendi og þurrlendi) er meiri en öll önnur losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi, líklega yfir 10 milljón CO2‐ígilda á ári. Tap á kolefni úr vistkerfum landsins frá landnámi telst í þúsundum milljóna tonna CO2‐ígilda. Eitt mikilvægasta verkefnið sem þjóðin hefur tekist á hendur er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna manna, en ekki síður að minnka losun frá landi og binda gróðurhúsalofttegundir í vistkerfum. Fjallað er nánar um alla þessa þætti í ritinu, en gott er að hafa samhengi og stærðargráður í huga við lestur ritsins (Tafla 1)".

Hér  er gerður aðgengilegur margvíslegur fróðleikur með góðum útskýringar á hugtakanotkun eins og hér er dæmi um:

,,C eða CO2. Það er eðlilegt að loftslagsvísindin miði við koltvísýring (CO2) því það er það efni umfram önnur sem veldur hlýnuninni. En í öðrum náttúruvísindum er algengt að nota frumefnaformið kolefni (C), enda getur C verið í afar mörgum myndum eða efnasamböndum í hringrás kolefnis og orku. Til þess að umbreyta 1 g af kolefni (C) yfir í g CO2‐ígildi er margfaldað með stuðlinum 44/12 = 3,667. Hver CO2 sameind inniheldur eitt C atóm (mólmassi = 12) og tvö O atóm (mólmassi 16). Mólmassi CO2 er því =44 Hvert kíló kolefnis(C) sem losnar úr mold verður að 3,667 kílóum CO2 ef það er brotið niður að fullu. Aðrar gróðurhúsa lofttegundir eins og CH4 eru umreiknaðar í CO2‐ígildi út frá þeim áhrifum sem þau hafa til hlýnunar í andrúmsloftinu. Hlýnunar áhrif CH4 eru 25‐föld á við CO2 og svarar 1 g af CH4 því til 25 g CO2‐ígilda, þ.e.a.s. 1 g CH4 hefur sömu áhrif og 25 g CO2"

Ritari gerir ekki ráð fyrir að um sé að ræða ,,jólabókina í ár", en vel mætti svo vera, því það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli hvernig fer fyrir landinu okkar og Jörðinni sjálfri.

Þá skiptir það einnig miklu máli að raunhæfar upplýsingar og staðreyndir liggi fyrir og séu aðgengilegar. Þetta framlag er þakkarvert framtak til að svo sé.

Rétt er að hafa það sem sannara reynist:

Í gærmorgun 16.12.2020 hringdu í mig tveir bændur, annar búsettur á Norðvesturlandi, hinn á Suðurlandi. Báðir bentu mér á að nokkurrar ónákvæmni gætti þar sem segir að sauðfjárbændur hafi fengið u.þ.b. einn milljarð til viðbótar við þá 5,2 sem fyrir voru. Rétt er að hafa það sem sannara reynist og það mun vera svo að það eru sauðfjár- og nautgripabændur sem fengu tæpan milljarð. Samkvæmt frétt RUV er um að ræða einn  milljarð sem skiptast mun milli fyrrgreindra búgreina. Hvernig það skiptist kemur ekki fram í fréttinni. Ég þakka þessu bændum báðum fyrir ábendinguna og ánægjulegt og fróðlegt spjall.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband