Nokkur orð um og tilvitnanir í rit LbhÍ nr 130 (2020)

Komið er út ritið ,,Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa" eftir Ólaf Arnalds. Hér verður farið yfir hluta þess rits og vitnað til texta sem undirrituðum þykir áhugaverður. Ætlunin er ekki að fara yfir allt ritið, aðeins er gripið niður í það sem undirrituðum þykir áhugavert. Yfirferðin er sem sagt ekki tæmandi, fjarri því.

Byrjum á kynningunni og höldum síðan áfram eftir því sem ritara finnst vera áhugavert og það fyrsta er eftirfarandi:

,,Í ritinu er fjallað um núverandi ástand íslenskra vistkerfa á landi,hrun þeirra og ýmsar af þeim undirliggjandi ástæðum sem viðhalda skaðlegri landnýtingu enn þann dag í dag."

Óhætt er að segja að ritið er hlaðið fróðleik um stöðu vistkerfa í landi okkar og í upphafi fyrsta kafla er bent á þá augljósu staðreynd að illa farið land ætti ekki að nota til sauðfjárbeitar. Tekið er fram að áherslan sé lögð á „útjörð“, en ekki akuryrkjuland, skógræktarsvæði eða frjósöm afgirt beitarhólf.

Hér verður ekki lagt í það að fara yfir ritið lið fyrir lið en óhætt er að mæla með að þeir sem áhuga hafa á bættri meðferð ,,útjarðarinnar" kynni sér það.

Í þessu sambandi má hafa í huga hve undarlegt það er að þegar umhverfisráðherra kemur fram með frumvarp til samþykktar á Alþingi um friðun hálendisins og stofnun samnefnds þjóðgarðs, að þá er ekki lagt til að nauðbeitt landið verði friðað fyrir sauðfjárbeit, heldur ýmsu öðru sem ekki er vitað til að valdi því tilfinnanlegum skaða. En skoðum ritið áfram.

Í kafla 3.1 má lesa eftirfarandi: ,,Hér á landi eru gömul lög um búfjárhald, afréttarmálefni og fjallskil notuð til að viðhalda lausagöngu búfjár (Lilja Jónsdóttir 2020) sem oft leiðir til beitar fjáreigenda á land annarra án þeirra leyfis. Landeigendur geta orðið fyrir tjóni og þurft m.a.s. að leggja í mikinn kostnað við að smala eigið land og afhenda eigendum búfjárins gripina, enda þótt þeir hafi aldrei gefið leyfi fyrir beitinni. Að öðrum kosti geta eigendur búfjárins smalað eigin búfé af landi annarra á kostnað landeigenda, sem voru þó fullkomlega mótfallnir þessari beit, og höfðu engin leyfi veitt fyrir beitinni. Auk þess stuðla þessar lagagreinar að ósjálfbærri afréttanýtingu (Ólafur Arnalds 2019a,b).

Við erum eflaust nokkur, svo ekki sé meira sagt, sem könnumst við að land okkar sé beitt án leyfis og við könnumst líka við það að sumar af kindum nágrannanna séu þess eðlis að ekki sé nokkur leið að girða fyrir þær; að þær stökkvi yfir 10 strengja voldugar veggirðingar og reyni að grafa sig undir slíkar líkt og hundar séu, ef þær treysta sér ekki til að stökkva yfir.

Við þetta má bæta að sé vilji til, er vel hægt að rækta hátterni af þessu tagi úr fjárstofni. Það gerði kona mín á ótrúlega stuttum tíma meðan við vorum með fé. Lógaði garðárum og setti ekki á lömb undan þeim, svo einfalt var það.

Lesum lengra í kaflanum: ,,Lagalegir þættir og stjórnsýsla geta valdið rofi á tengingum á milli ástands lands og samfélagslegra þátta (e. decoupling). Dæmi um það er þegar lélegt ástand landsins hefur ekki áhrif á ákvarðanatöku um landnýtingu heldur er hún keyrð óbreytt áfram – slæmt ástand hefur þá ekki afleiðingar inn í samfélagið. Þá geta styrkjagreiðslur stutt við óbreytta landnýtingu enda þótt ástand landsins sé slæmt. Stuðningurinn getur líka rofið tengsl ástands lands við samfélagið þegar fjárveitingar minnka í raun þörfina á að halda vistkerfum í góðu ástandi. Þetta eru aðeins dæmi sem sýna að taka verður þessa þætti með í reikninginn við rannsóknir á ástæðum þess að landi er viðhaldið í slæmu ástandi.“ ,,[…] Ákvarðanir um landnýtingu á „landbúnaðarlandi“ og „öðru landi“ eru oftast á höndum landbúnaðarnefnda sem eru einkum skipaðar aðilum sem hafa hagsmuni að óbreyttu fyrirkomulagi. Þetta er um margt úrelt stjórnsýsla – umsýsla þessa lands sem hér um ræðir (land í slæmu ástandi) ætti ekki að flokkast sem „landbúnaðarland“ í skipulagi eða stjórnsýslu. Möguleikar til annarra nota geta verið mjög margvíslegir og því ætti breiður hópur hagaðila að koma að skipulagi á því landi sem hér um ræðir

Hér er verið að benda á kerfisgalla sem auðvelt ætti að vera að laga ef ályktunarhæfni og þokkaleg rökhugsun væri látin stjórna för í stað þess að afgreiða hlutina á þann veg: að svona hefur það verið gert og við gerum því eins áfram.

Í kafla 3.2. Hagrænir þættir og landbúnaðarstyrkir er farið nokkrum orðum um hvernig þeim málum er háttað í veröldinni og þar segir m.a.: ,,Stuðningsgreiðslur við landbúnað í heiminum nema 700 til1000 milljörðum dollara á ári en aðeins um 1% af því fé er talið tengt umhverfismálum og náttúruvernd með einhverjum hætti (The Food and Land Use Coalition 2019). Aðeins hluti framleiðslunnar er styrktur – stuðningurinn er ekki miðaður við almannaheill og takmarkað fjármagn rennur til umhverfistengdra verkefna (Smith o.fl. 2017). Innan Evrópusambandsins námu styrkirnir um 60 milljörðum evra árið 2019 (EU data portal). Þar hefur verið mikil áhersla á umhverfistengingu styrkja og að setja skilyrði um að nýting spilli ekki landkostum (e. cross compliance), en deilt er um hversu vel gengur að ná slíkum markmiðum. Árangur landbúnaðarstyrkja við að tryggja fæðuöryggi og búsetu í dreifbýli er ákaflega misjafn á milli landa og tegundar styrkja. Landbúnaðarstyrkir hafa oft þau áhrif að festa ákveðnar framleiðslugreinar í sessi, sem getur komið í veg fyrir sveigjanleika, til dæmis gagnvart breyttu fæðuvali neytenda eða vegna umhverfiskostnaðar framleiðslunnar (t.d. sótspor; sjá Ólaf Arnalds og Jón Guðmundsson 2020).“

1% er tengt náttúruvernd og umhverfismálum segir þar og verður manni þá hugsað á heimaslóðir og hvernig almannafé er varið til að styrkja framleiðslu sauðfjárafurða á landi sem er löngu orðið illa farið, graslítið og jafnvel örfoka.

Í kafla 3.2.1. er fjallað um landbúnaðarstyrki: ,, Á Íslandi unnust mál fyrir Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, árið 2018 (nr. 747/2018) og 2020 (nr. 876/2020), eftir nokkrar beiðnir um upplýsingar og í kjölfarið voru gögn um landbúnaðarstyrki gerð aðgengileg (Ólafur Arnalds 2020 a,b). Upplýsingar um landbúnaðarstyrki á heimsvísu draga fram dökka mynd af kerfunum. Í Bretlandi er það að meginhluta auðugir landeigendur, þeirra á meðal drottningin og krónprinsinn, sem fá stóran hluta styrkjanna. Sama á við í Mexíkó þar sem kom í ljós að styrkirnir runnu í miklum mæli til velstæðra landeigenda, en einnig til starfsmanna stjórnvalda – en ekki til fátækra smábænda eins og ætlunin var (The Food and Land Use Coalition 2019). Fullvíst má telja að styrkirnir nýtast víða ekki með þeim hætti sem ætlað er (Smith o.fl. 2017). Að bakistendur oftast gríðarlega sterkur hagsmunahópursem viðheldur úreltum kerfum, svo sem landeigendur í landbúnaðarnefndum þjóðþinganna, t.d. í Bandaríkjunum (Congress). Bændur eru þá beggja megin borðsins, sem á sér skýra hliðstæðu í stjórnmálum á Íslandi.“

Í kafla 3.2.2. er fjallað um hvernig landbúnaðarstyrkjakerfið varandi sauðfjárrækt sé á Íslandi: ,,Landbúnaðarstyrkir hafa margháttuð áhrif á íslenskt umhverfi – hugsanlega er þessi þáttur sá afdrifaríkasti fyrir vistkerfi landsins nú um stundir (mynd 8). Upplýsingar um landbúnaðarstyrki á Íslandi sem voru gerðar opinberar árið 2020 leiddu í ljós að hér sem annars staðar hefur margt farið úrskeiðis við framkvæmdina. Þannig fengu hundruð tómstundabænda og aðila utan lögbýla styrki til að framleiða dilkakjöt (gögn frá 2016), stundum til heimabrúks og oft í hróplegri andstöðu við nauðsynlegar breytingar á landnýtingu við þéttbýli, eða þar sem ástand lands er slæmt. Þá hafa vaxið upp gríðarlega stór bú sem hljóta háa styrki (allt að 20 milljónir króna á ári í heildargreiðslur á sauðfjárbú), sem er bæði andstætt byggðasjónarmiði styrkjanna (fá stór bú) og umhverfissjónarmiðum, því það getur leitt til ofbeitar að safna miklum fjárfjölda á eitt bú, sem hefur raunar gerst án tillits hvaða svæði eru heppileg til framleiðslunnar. Enda eru litlar kvaðir eða eftirfylgni með upplýsingum um hvort nægt beitiland sé til staðar (Ólafur Arnalds – óbirt gögn um umsóknir að aðild að gæðastýringu í sauðfjárrækt). Aðgerðir til að tengja styrkina við ástand landsins (e. cross compliance) hafa misheppnast hérlendis – rangsnúnir hvatar í sauðfjárframleiðslu viðhalda ósjálfbærri landnýtingu víða um landið (Ólafur Arnalds 2019a). Landbúnaðarstyrkir voru einnig drifkraftur framræslu votlendis seinni hluta síðustu aldar sem leiddi til þess að stór hluti votlenda landsins hefur verið ræstur fram með afar neikvæðum áhrifum á vistkerfi, samfara stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum (Sólveig Ólafsdóttir 2013). En það má ekki gleyma því að framræslan gjörbreytti aðstæðum til fóðurframleiðslu í landbúnaði, sem þarf að vega á móti neikvæðum umhverfisáhrifum.

Þegar ég var að ljúka við þessa lítilfjörlegu samantekt barst mér á öldum rafeindanna, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja sauðfjárræktini aukið framlag úr ríkissjóði upp á um einn milljarð króna. 

Á sama tíma liggur fyrir Alþingi frumvarp um að stofnun svokallaðs ,,Miðhálendisþjóðgarðs" og í því er gert ráð fyrir friðun fyrir m.a. virkjunum o.fl., en ekki er gert ráð fyrir friðun fyrir sauðfjárbeit!

Ekki verður farið lengra í þessari umfjöllun, eins og fram kom í upphafi þessarar takmörkuðu samantektar, er hún engan veginn tæmandi.

Hugsunin með þessum línum er fyrst og fremst sú að vekja athygli á ritinu ,,Ástand og hrun íslenskra vistkerfa“. Ritið sýnist vandað og vel þess virði að þeir sem áhuga hafa á þessum málum kynni sér það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband