Grein Ernu Bjarnadóttur o.fl.

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið 27. nóvember sl.

Í upphafi greinar sinnar minnir Erna á að ,,með gildistöku EES samningsins þann 1. janúar 1994 öðluðust EFTA ríkin þrjú, Noregur, Ísland og Liechtenstein aðgang að innri markaði ESB. Til að njóta þessa aðgangs þurfa bæði aðildarríki ESB og EFTA ríkin að innleiða regluverk ESB, acquis communautaire, sem tengist svokölluðu fjórfrelsi." 

Getur þess síðan að undartekningar á þessu séu nokkrar og að ein þeirra sé ,,sameiginleg landbúnaðarstefna ESB" og að ,,viðskiptasamninga Íslands og ESB um landbúnaðarvörur" byggja á ákvæðum EES samningsins.

Minnir síðan á að ,,landbúnaðarstefna ESB [sé] ekki hluti EES samningsins" og að ,,þar sem EES samningurinn tekur ekki til sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar verður EFTA ríkjunum ekki gert að innleiða regluverk ESB á því sviði. Um viðskipti með landbúnaðarafurðir sem og unnar afurðir er því samið sérstaklega í tvíhliða samningum milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar."

Og heldur áfram að skýra málið:

,,Með EES-samningnum voru lögð drög að auknum viðskiptum með landbúnaðarafurðir og unnin matvæli með tvennum hætti – annars vegar með 19. gr. EES samningsins og hins vegar með bókun 3 við samninginn. Í framkvæmd hefur 19. gr. EES samningsins verið talin taka til allra óunninna landbúnaðarvara, s.s. mjólkur, osta, en undir bókun 3 falla vörur almennt teljast unnar landbúnaðarvörur, sbr. b-lið 3. mgr. 8. gr. EES samningsins."

Og síðan:

,,Á grundvelli þessara ákvæða hafa Ísland og ESB gert samninga um viðskipti með landbúnaðarvörur, fyrst 2007 og síðan aftur 2015 með gildistöku 2018. [...] Mikilvægt er að halda því til haga að á grundvelli ofangreindra ákvæða í EES samningnum gerir ESB sérsamninga við Ísland og Noreg hvort í sínu lagi. Það er því áhugavert að skoða hvernig Noregur hefur samið við ESB um þessi atriði í samanburði við Ísland."

,,Þann 14. nóvember 2019 áttu fulltrúar ESB og Noregs fund um unnar landbúnaðarvörur sem falla m.a. undir bókun 3. Þar kynnti ESB þá ítrekuðu ósk sína að taka upp viðræður um tolla á vörur sem falla undir hana, með það markmið að auka viðskipti sem væri í anda þess að sameina markaði EES svæðisins. Norska sendinefndin hafnaði þessari beiðni og rökstuddi synjun sína með vísan til þess að¦tilgangur endurskoðunar á bókun 3 sé ekki aukið frelsi í viðskiptum heldur frekar að jafna stöðu aðila...“. Norska sendinefndin lýsti því þeirri afstöðu sinni að halda bókun 3 óbreyttri og vildi ekki taka á sig neinar skuldbindingar í átt til aukins frjálsræðis í viðskiptum með unnar landbúnaðarvörur (lesist tollalækkanir)."

 

Í framhaldinu varpar hún fram þeirri spurningu hvers vegna íslensk stjórnvöld gangi lengra en þau norsku og nú skulum við lesa orðrétt talsverðan kafla úr greininni:

,,Á fundinum var einnig rætt um þá málaleitan ESB að Noregur myndu gera samning um gagnkvæma verndun afurðaheita, svipað og Ísland gerði árið 2015, og hefur m.a. leitt til sérstaka tollkvóta fyrir osta. Fram kom að fulltrúar ESB hvöttu norsku sendinefndina til að íhuga að taka aftur upp viðræður um viðurkenningu svo kallaðra landfræðilegra merkinga. Norska sendinefndin útskýrði að hún myndi ráðfæra sig við viðeigandi yfirvöld um möguleikann á að hefja þessar viðræður að nýju.“

Af þessu er ljóst að löndin tvö, Ísland og Noregur, hafa túlkað og unnið með misjöfnum hætti með 19. gr. EES samningsins og bókun 3 við samninginn. Er ljóst að norsk stjórnvöld hafa ekki gengið jafnlangt og íslensk stjórnvöld í samningum við ESB."

Og síðan:

,,Forsvarsmenn samtaka bænda hafa ítrekað bent á hve gríðarleg breyting felst í samningnum við ESB frá árinu 2015. Ofan á tollalækkanir á kjöti og tollkvóta fyrir kjöt og osta, bættust stórauknir kvótar í báðum þessum afurðum. Þannig nema tollkvótar fyrir nautakjöt yfir 20% af heildarmarkaði. Á sama tíma hefur Noregur ekki samið um neinn slíkan kvóta á grundvelli 19. gr. Fyrir svínakjöt er tollkvóti ESB til Íslands t.d. 700 tonn en 600 tonn í Noregi sem þó er með 14,6 faldan íbúafjölda Íslands, 5,3 milljónir."

Síðar í grein sinni minnir Erna á að utanríkisráðherra hafi bent á að augljóst sé að samninginn milli Íslands og ESB þurfi að endurskoða af tveimur ástæðum: Bretland sé gegnið úr sambandinu og að ferðamannastraumurinn hafi stöðvast. Það síðarnefnda heldur líklegast ekki vatni nema að menn reikni með varanlegu COVIT-19 ástandi, en hið fyrra er augljós staðreynd.

Grein sinni lýkur Erna á því að benda á að Íslendingar geta framleitt sínar dýraafurðir sjálfir, nema að flytja þurfi inn síður af svínum ef ferðamannastraumurinn verði sem áður, til að fullnægja þörfinni fyrir beikon á morgunverðarborðin. Þá bendir hún á að rétt sé að nýta gæði landsins til að framleiða þau matvæli sem þjóðin þurfi. 

Síðustu orð greinarinnar eru:

,,Það sem sjaldnar er haldið á lofti í þessu sambandi er að framleiðsla hér á landi fer fram með margfalt minni lyfja- og varnarefnanotkun en víðast í þeim löndum sem innfluttar búvörur koma frá. Með því að framleiða þessar afurðir sjálf, sem við getum vel, minnkum við bæði hættu á mengun af þessum völdum og drögum úr álagi á lífríki þessara landa sem notkun þessara efna veldur þar."

Undirritaður vill minna á þessu til viðbótar, að í samningunum sem þáverandi landbúnaðarráðherra talaði fyrir árið 2015, var verið að semja um, auk þess sem að ofan greinir, að skipta á heimildum fyrir íslenskt lambakjöt til ESB gegn því að frá ESB fengi að flytja inn afurðir svína, alifugla og nautgripa til Íslands.

Það var sem sagt verið að fórna hagsmunum heildarinnar fyrir hagsmuni ríkisreknu búgreinarinnar og fyrir því var talað og þrumað yfir mönnum að þeir yrðu bara að ,standa sig'! 

Niðurstaðan varð að þeir sem átti að fórna fyrir ríkisreksturinn í landbúnaðinum hafa reynt sem þeir geta að ,standa sig' í samkeppninni við ríkisreksturinn, en hin ríkisrekna kindakjötsframleiðsla er í hvínandi vandræðum.

Vandræðum sem eru svo mikil of margþætt að um mætti skrifa aðra og mikið lengri grein!


Kjötsala og útflutningur hrossa.

Hér er greint frá því að um fjórðungs samdráttur hafi orðið í sölu á kindakjöti frá afurðastöðvum milli sama mánaðar fyrra árs.

Samdráttur í öðrum kjöttegundum er mun minni og umtalsverð aukning er í sölu á svínakjöti og hrossakjöti. Salan á hrossakjöti hefur verið lítil að magni til, þannig að söluaukningin í kílóum talið er ef til vill ekki mjög mikil.

Líklegt er að tölurnar séu marktækar, nema að verið gæti að heimaslátrun og sala framhjá opinberu dreifingarkerfi spili inn í hvað varðar kindakjötið.

Talsverðum áróðri hefur verið haldið á lofti um ágæti þess að slátra ,,heima" og ,,selja beint frá býli" og vel getur verið að það hafi virkað hvetjandi til slíkra vinnubragða.

Vitað er að það hefur verið gert í einhverjum mæli undanfarin ár; að fjárhúsum, skemmum og o.s.frv. hafi verið breytt í ,,sauðfjársláturhús".

Freistingin er til staðar þegar hart er í ári, verð eru lág og útflutningsmöguleikar í raun engir án ríkisstuðnings.

Síðan má ekki gleyma því að bændum er heimilt að slátra ,,heima“ til eigin nota og við vitum sem þekkjum til, að ,,eigin not“ er teygjanlegt hugtak líkt og strax- (ið) fræga.

Góðu fréttirnar eru þær að bullandi uppgangur er í sölu á hrossum til annarra landa, sem skila góðum tekjum til þeirra sem selja og útflutningstekjum til þjóðfélagsins.


Framsýnin lifi!

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er áhugamaður um samgöngur og þ.á.m. veggjöld sem hann telur að geti orðið til mikilla framfara, en þær hugmyndir eru ekki til umræðu í frétt Morgunblaðsins í dag (26.11.2020).

Þar er hins vegar sagt frá því að Jón þingmaður sé búinn að leggja fram tillögu á Alþingi um orkuskipti í flugi, tillögu sem gengur út á að Íslendingar taki forystu í rafvæðingu flugvéla, í innanlandsflugi, vel að merkja, því svo stórhuga eru íslenskir þingmenn ekki, að þeir ætli sér að breyta flygildum allra annarra landa með einni handarsveiflu.

Það er innanlandsflugið sem er undir og í tillögunni felst að ,,að samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, setji á fót starfshóp til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orku­skipti í flugi á Íslandi."

Ekki er kunnugt um að farþegaflugvélar séu hannaðar og smíðaðar hérlendis, en hver veit? Það er svo ótal margt sem getur farið framhjá okkur sem ekki sitjum á Alþingi. En í fréttinni segir að ,,Starfshópurinn á að móta tillögur um hvernig Ísland geti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi og hvernig styðja megi við nýsköpun á því sviði, en jafnframt kanni hann fýsileika landsins til slíkra orkuskipta með tilliti til veðurfars, innviða og þátttöku í alþjóðlegri þróun á þessu sviði með það að markmiði að hafið verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030.“

Við höfum níu ár til að hrinda málinu í framkvæmd!

Fyrir nokkrum árum ræddi núverandi samgönguráðherra í útvarpsviðtali um sama mál og var á svipuðum nótum.

Þeir virðast ná vel saman Jón og Sigurður; báðir vilja rafrellur í flugið og báðir vilja auknar skattheimtur af samgöngum sem fram fara á vegum landsins.

Svo eru þeir samherjar í ríkisstjórn og ekki spillir það fyrir.

Við erum vafalaust mörg sem munum eftir því að flugvélasmíði er afar skammt komin hérlendis og hönnun flugvéla trúlega enn skemmra, en það er alla vega gott til þess að vita að á Alþingi þjóðarinnar sitja a.m.k. tveir menn sem sjá vítt yfir sviðið, eru stórhuga og ætla þjóð sinni forystu á ólíklegustu sviðum vísinda og tækni.


Um tollvernd landbúnaðarvara

Bændasamtök Íslands, Landssambands kúabænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag kjúklingabænda Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Landssamtök sláturleyfishafa gera alvarlegar athugasemdir við skýrslu Atvinnuvegaráðuneytisins ,,Þróun tollverndar landbúnaðarvörur“ sem birt var í október síðastliðnum.

Athygli vekur að Bændasamtökin áttu sinn fulltrúa í starfshópnum sem skýrsluna tók saman, en í honum voru eftirfarandi: Daði Már Kristófersson, skipaður formaður, Tryggvi Másson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Sigurður Eyþórsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Bryndís Eiríksdóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Arnar Freyr Einarsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Athugasemdirnar sem aðildarfélög Bændasamtakanna og samtökin sjálf gera við skýrsluna eru margvíslegar og satt að segja of margar til að tíundaðar verði í stuttum greinarstúfi, þó skal reynt að drepa á það helsta.

Ekki er annað að sjá en félögunum takist að sína framá að framleiðsla á nauta, svína og alifuglakjöti hefur gefið eftir fyrir innflutningi. Þá færa þau fyrir því sannfærandi rök að mjólkurframleiðslan sé í raun umfram innanlandsþarfir og segir þar: ,, Rétt er að vekja athygli á því að mjólk og mjólkurafurðir hafa þá sérstöðu samanborið t.d. við kjöt að hægt er að „breyta einni afurð í aðra“ ef svo má að orði komast. Þannig má nota undanrennuduft til að framleiða aðrar vörur t.d. osta, skyr o.s.frv. Duftið er fyrst og fremst form til að geyma mjólkurprótein.“

Litlu síðar segir: ,,Það sætir furðu að ekki sé hægt að birta í skýrslu eins og þessari, samantekt um hve mikið magn var flutt inn á hverju ári sem slíkar opnanir (opnir tollkvótar) voru gerðar fyrir nauta- og svínakjöt. Öll skilyrði til slíks eiga að vera til staðar, þ.e. hvaða tímabil er um að ræða, hvaða tollskrárnúmer og í hvaða magni og verðmætum tollafgreitt var samkvæmt þessum skilmálum. Ekki er hægt að daga ályktanir um þessa þróun ef ekki er hægt að greina á milli þess á hvaða kjörum og í hvaða magni vörur eru fluttar inn á tilteknu tímabili. Þarna getur verið um að ræða innflutning á WTO-kvóta, ESB-kvóta eða opnum tollkvótum svo nokkuð sé nefnt.“

Þar sem farið er yfir áhrif tollasamningsins sem gerður var við ESB segir: ,, Forsvarsmenn bænda hafa á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt stórfellda aukningu tollfrjálsra kvóta fyrir landbúnaðarvörur frá ESB með samningnum sem gerður var 2015 og tók gildi 2018. Í þessu sambandi er rétt að víkja að upplýsingum sem komu fram á fundi ANR og UTN með Bændasamtökum Íslands o.fl. þann 30. okt. 2020. Samkvæmt fundarpunktum, samanteknum af starfsmönnum UTN, sem sendir voru fundarmönnum þann 11.11. síðastliðinn segir m.a.: „Eftirfarandi spurningum var beint til fulltrúa stjórnvalda á fundinum: Var framkvæmt heildstætt mat á áhrifum samningsins á atvinnulífið við gerð hans? Svar: Það virðist ekki hafa verið gert á sínum tíma.“

Með öðrum orðum, sú aukning sem samið var um á tollfrjálsum kvótum var gerð án þess að nein greining stæði þar að baki.

Greining stæði þar að baki!

Rétt er að leggja áherslu á þau orð, því þegar samningurinn var gerður var svo sannarlega ekki haft fyrir því að leggja mat á hver áhrif hans á íslenskan landbúnað yrðu.

Það var vaðið út í ána án þess að hafa fyrir því að kanna straumhraðann og dýpið.

Réttast væri kannski að segja að öslað hafi verið útí hugsunarlaust og með bundið fyrir augun. Treyst var á og því trúað, að tjónið sem yrði, myndi bætast upp með hinum gjöfulu kindakjötsmörkuðum Evrópusambandsins.

Mörkuðum sem eru einskis virði fyrir þá vöru, þó ekki væri nema vegna þess hve íslenskt kindakjöt er dýrt í framleiðslu og það áður en kemur að því að gera afurðina að seljanlegri vöru.


Kínverjar kaupa íslenskt lambakjöt.

Viðskiptatækifærin leynast víða og samkvæmt Frétt í Morgunblaðinu 16.11.2020 eru möguleikar á að íslenskir sauðfjárbændur geti farið að framleiða og selja kjöt til Kína.

Í fréttinni segir að Fjallalamb á Kópaskeri hafi byrjað útflutning á lambakjöti þangað og að verðið sem fáist sé tvöfalt það sem Kínverjar greiða fyrir nýsjálenskt lambakjöt.

Vegna riðupestar í íslensku sauðfé er Fjallalamb eitt um það af íslenskum sláturhúsum, að geta selt lambakjöt til Kína.

Það er fríverslunarsamningurinn milli Íslands og Kína sem gerir þessi viðskipti möguleg.

Gámur með um 20 tonn fór í mars síðastlinum, en var lengi á leiðinni og festist í veirufárinu þar úti. Kjötið er nú komið í hendur kaupanda og varan mun líka vel að sögn framkvæmdastjóra Fjallalambs.

Tíðar og góðar skipasamgöngur eru til Kína frá Evrópu, en leiðin er löng. Líklega skiptir litlu máli hvort kjötið liggur í frystigámum sem eru á leið á markað eða í frystigeymslum á Íslandi; allavega er betra að eiga vonina um að það seljist.

Björn Víkingur Björnsson framkvæmdastjóri er bjartsýnn á framhaldið og telur jafnvel að bændur á svæðinu geti aukið framleiðslu sína og sé það rétt, mun það koma sér vel fyrir þá. Væri sjálfsagt ekki verra ef þeir gætu fengið aukinn kvóta, svo íslenskir skattgreiðendur geti notið þess að greiða niður auknu framleiðsluna líkt og hina sem fyrir er og sem fer á ,,bestu veitingastaði" austur þar.

Ekki kemur fram hvert verð nýsjálenska lambakjötsins er og því vitum við ekki hvaða upphæð við eigum að margfalda með tveimur til að komast að verði íslenska kjötsins.

Ekki kemur heldur fram hver flutningskostnaður og umsýslu er við þessa sölu til Kína, aðeins að hið íslenska kjöt sé ,,tvöfalt" dýrara en það nýsjálenska.

 


Höggva fyrst og spyrja svo.

Þingmaður kvað uppúr með það á Facebook fyrir nokkrum dögum að hann vildi láta lóga öllum minkum á minkabúum á Íslandi.

Jafnaði hann því við það að skera niður kindur vegna riðuveiki, en á þeim tíma sem þingmaðurinn fylltist niðurskurðaráhuganum var ekki vitað til að minkarnir væru smitaðir af veirupestinni sem herjar á samfélagið, og svo er enn þegar þetta er ritað.

Kindur eru ekki skornar niður vegna riðuveiki nema fyrir því liggi sönnun, að greinst hafi í stofninum riða. Þingmaðurinn lagði málið fyrir sem um endanlegan niðurskurð yrði að ræða og að minkaeldi til skinnaframleiðslu yrði þar með hætt. Fékk hann góðar undirtektir frá fólki (sumum) í athugasemdum við færslu sína. Fólki sem virtist vera þeirrar skoðunar að það væri siðlaust að ala minka til að nýta af þeim skinnið og það er sjónarmið, en kemur ekki við því sem var tilefni til þess sem sagði í færslu þingmannsins: að hugsanlegt væri (en ósannað) að minkarnir bæru með sér veirusmit.

Þegar kindur eru skornar niður vegna riðu eru bæturnar sem greiddar eru úr ríkissjóði, ætlaðar til að bæta og brúa bilið þar til búskapur hefst að nýju. Aðrar búgreinar en sauðfjárrækt, njóta ekki þeirra trygginga samfélagsins að tjón sé bætt úr ríkissjóði.

Þegar svokallað ,,búvörugjald" var dæmt ólöglegt hættu greiðslur að berast í ,,Bjargráðasjóð" og af því leiddi að ekki er lengur á að treysta að bændur, sem verða fyrir alvarlegum áföllum, geti sótt þangað bætur vegna tjóna sem þeir verða fyrir.

Það er miður og engan vegin gott, að staðan sé þannig, að bændur eigi það undir afstöðu sitjandi landbúnaðarráðherra hvort áföll sem þeir verða fyrir fáist bætt. Eðlilegra væri að bætur væri hægt að sækja í tryggingasjóð sem væri þannig fjármagnaður, að greitt væri til hans tillegg af framleiðslu, líkt og  gert var áður fyrr, þ.e. þegar fyrrnefnt gjald var innheimt í Bjargráðasjóð.

Rannsóknir höfðu ekki farið fram á íslenskum minkabúum þegar þingmaðurinn sem fyrr var nefndur, fékk hugmyndina sem hann varpaði fram á Facebook og jafnaði hann fyrrnefndum niðurskurði minka við það þegar kindur eru skornar niður vegna riðu og taldi riðubætur geta verið nægar til að bæta slíkan gjörning, en talaði fyrir verknaðinum, sem um endanlega stöðvun framleiðslunnar yrði að ræða.

Bætur sem greiddar eru vegna riðuniðurskurðar eru ekki hugsaðar þannig, þó viðkomandi bóndi geti vissulega valið að hætta búrekstri.

Matvælastofnun er að hefja könnun á hvort íslenskir minkar séu smitaðir af kórónuveirunni sem skekur samfélagið okkar.

Í meðfylgjandi frétt Morgunblaðsins sagði frá því að til stæði að skima fyrir kórónuveirusmiti á minkabúum landsins. Matvælastofnun ætlar að vinna faglega í málinu, rannsaka það og greina síðan frá niðurstöðunni.

Þingmaðurinn þurfti ekki á slíkri rannsókn að halda. Hann vissi bara hvað honum fannst.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband