Næsta ríkisstjórn?

Formaður Framsóknarflokksins útilokar ekki að taka þátt í myndun ríkisstjórnar með Miðflokknum.

Það er ágætt að hugrenningar af þessu tagi komi skýrt fram fyrir kosningar.

Vitað er að Framsóknarflokkurinn hefur fáar grundvallarreglur í pólitík, aðrar en þær að komast í ríkisstjórn og skiptir þá litlu máli hverjir stíga í ístaðið og bregða sér á bak með þeim.

Markmiðið er það eitt að komast að, komast í stóla, geta úthlutað gögnum og gæðum o.s.frv. Stefnan er óskýr og við vitum að flokknum líður einna best í helmingaskiptum með Sjálfstæðisflokknum.

Miðflokkurinn er klofningur úr Framsóknarflokknum eins og flestir vita og eins líklegt er að vel geti farið á með hinum gömlu félögum, því í raun var ágreiningurinn, sem klofningnum olli einungis um keisarans skegg.

Ef kjósendur kjósa sem formaðurinn óskar getum við átt von á ríkisstjórn Framsóknarflokks, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks. Við getum átt von á þrískiptingu í stað helmingaskipta, auknum höftum á ýmsum sviðum og fleiru af því tagi.

Miðflokkurinn mun annað hvort sporðrenna orkupökkum framtíðarinnar og fortíðarinnar, sem hverjum öðrum orkustöngum, eða öfugt.

Framsóknarflokkurinn mun kyngja með ánægju og góðri lyst hverju því sem að höndum ber frá samstarfsflokkunum, lítill efi þar á.

Hvernig Sjálfstæðisflokkurinn mun höndla þennan veruleika afturhalds og fortíðarþrár er ekki eins ljóst. En hann er æfður og sleipur og mun eflaust takast að stjórna hinum leikbrúðunum eftir eigin höfði; verður í miðju vefsins og kippir í strengina eftir því sem hentar og lætur brúðurnar dansa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband