Falleinkunn á firru

2021-03-28 (7)

Það er líklegast ekki ofsagt að verkefni sem ýtt var úr vör að tilstuðlan sauðfjárbænda hafi skilað slæmri útkomu, samkvæmt því sem lesa má í Bændablaðinu.

Greinin er skrifuð af tveimur dýralæknum, þeim Halldóri Runólfssyni og Katrínu Andrésdóttur.

Læknarnir tveir byrja grein sína á að segja frá því að í Bændablaðinu sem kom út þann 11. mars sl. hafi verið fjallað um skýrslu Hólmfríðar Sveinsdóttur um ,,tilraunaverkefni um heimaslátrun haustið 2020.“

,,Markmið verkefnisins var að leita leiða til þess að auðvelda bændum að slátra sauðfé heima til markaðssetningar [og að gera það] þannig að uppfyllt væru skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt væri að dýravelferð og dýraheilbrigði. Lagt var upp með að afurðir af gripum sem slátrað væri í tilraunaverkefninu færu ekki á markað.“

Dýralæknarnir telja nauðsynlegt að kafa betur ofan í ,,verkefnið“ sem alls 25 bæir munu hafa tekið þátt í, eða eins og þar segir: ,,Undirrituð telja nauðsynlegt að rýna nánar í skýrsluna og skoða hvernig tekist hefði að uppfylla sett skilyrði.“

Til að gera langa sögu stutta, er niðurstaða dýralæknanna, að þekkingu bænda, aðbúnaður og vinnubrögðum hafi verið áfátt og því til viðbótar höfðu bændurnir ekki haft fyrir því að kynna sér reglugerð (nr. 856/2016) af óskýrðum ástæðum.

Þá kemur fram að skortur var á ,,lágmarks hreinlætisaðstöðu í nokkrum tilfellum“ og að hætta hafi verið á jarðvegsmengun (listeríu).

Síðan segir: ,, Aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eins og E. coli (STEC), Salmonella og Clostridium geta borist með kjötafurðum í fólk. Því miður bendir allt til að E. coli (STEC) bakterían sé hluti af örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár og því full ástæða til að vanda vinnubrögð í slátrun og kjötvinnslu.“

Til stóð að eftirlit dýralækna færi m.a. fram með rafrænum hætti(!) og það tókst ekki svo fullnægjandi væri. Þá var ekki hægt að meta hreinlæti við meðferð afurðanna ,,þar sem myndskeið og myndir hafi ekki verið af þeim gæðum að hægt væri að meta t.d. hár á skrokkum“.

Réttast er að áhugasamir lesi grein dýralæknanna sem er í Bændablaðinu sem út kom þann 25. mars 2021 og er á blaðsíðu 43.

Sauðfjárbændur, sumir hverjir, hafa reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að það geti orðið bót að því fyrir afkomu greinarinnar að lömbunum yrði slátrað heima á bæjunum og vinnsla og sala fari fram þaðan.

Eins og fram kemur í grein dýralæknanna þarf ýmislegt til að það geti gengið upp.

Það er ekkert sem bannar að bændur komi sér upp sláturhúsum og vinnslu og dæmi eru um að það hafi verið gert og greinarhöfundar nefna tvö þekkt dæmi þar um.

Heimaslátrun sú sem tíðkast hefur um langt skeið og fram hefur farið við vafasamar aðstæður - svo ekki sér djúpt tekið í árinni - er hins vegar ekki það sem getur leyst sláturhúsin af sem notast hefur verið við fram til þessa.

Fúsk og svartamarkaðsbrask leysir engan vanda né býr til lausnir á offramleiðslu þeirri sem nú er. Finnst ekki með lógum kinda að hausti heima á bæjum, í vélaskemmum, úti á hlaði, í fjárhúsum, né á hlöðum úti og síðan sölu kjötsins fram hjá heilbrigðiseftirliti og skattyfirvöldum.

Lausnin er til og það þarf að nota hana. Laga framleiðsluna að raunverulegum markaði fyrir afurðina og breyta kerfi sem er þannig að sauðfjárbændur eru sem verktakar á vegum ríkisins í framleiðslu á kjöti sem ekki er markaður fyrir.

Horfast í augu við að draumar um að íslenskt kindakjöt verði eftirsótt af erlendum þjóðum, standast ekki skoðun, eru á skjön við veruleikann og má rekja til ástands í heimsmálum sem við vonum að aldrei komi aftur.

Grein dýralæknanna er falleinkunn á firru sem aldrei gat gengið upp. Hvað hún kostaði skattborgarana vitum við ekki, en það hefur vafalaust verið sem lítill dropi í það peningafen sem búið hefur verið til utan um þessa búgrein.


Þingsályktunartillagan og það sem ekki má

2021-03-04 (2)Kjarninn birti á dögunum frétt um ríkisstyrki til landbúnaðarins.

Þar kemur fram að þingflokkur stjórnmálaflokksins Viðreisnar hefur flutt þingsályktunartillögu þess efnis ,,að upplýsingar um opinbera styrki og greiðslur til landbúnaðar verði gerðar opinberar."

Styrkveitingar

Við munum að prófessor við Lbhí hafði það í gegn með harðfylgi, að styrkveitingar til sauðfjárbænda voru gerðar opinberar og nú er það þannig að hægt er að fletta því upp hverjir fá styrki og hverskonar styrki er um að ræða. Þetta varð til þess að upplýst varð um styrkveitingar til fólks sem er með kindur sér til gamans og til framleiðslu á kjöti til einkaneyslu og einnig upplýstist að svokölluð ,,gæðastýring“ og styrkir veittir í nafni hennar voru orðin tóm og ekkert meira en það. Bændasamtökin hafa brugðist við þingsályktunartillögu Viðreisnar og í Kjarnanum má lesa eftirfarandi: ,,Í umsögn frá Bændasamtökunum segir að ekki hafi verið sýnt fram á raunverulega þörf á því." (þ.e. að upplýsa um styrki til landbúnaðarins.)

Nánar segir Í umsögn Bændasamtakanna um þingsályktunartillöguna: ,,„óljóst hver þörf eða eftirspurn eftir upplýsingunum er raunverulega og í hvaða tilfellum slíkar upplýsingar eiga ekki erindi við almenning skv. upplýsingalögum.“"

Þar á bæ er sem sagt talið, að óljóst sé hvort þörf eða eftirspurn sé eftir þessum upplýsingum. Um þá niðurstöðu BÍ er það að segja, að það er ekki hlutverk Bændasamtakanna að meta þörf eða eftirspurn af þessu tagi. Í umsögn samtakanna er vísað til þess að upplýsingar sem þessar, geti komið sér illa fyrir alifugla og svínabændur (svo!).

Eða eins og segir í umsögninni: ,,Hins vegar tekur úrskurðurinn ekki á álitamálum sem geta komið upp í ólíkum málum og geta varðað fámennari búgreinar, t.a.m. svínabændur og kjúklingabændur þar sem um viðkvæmar upplýsingar er um að ræða út frá samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni." Hvaða leyndarmál það eru, sem ekki má upplýsa varðandi þessar tvær búgreinar, kemur ekki fram og er það eins og við mátti búast.

Ánægjulegu tíðindin eru hins vegar, að Bændasamtökin skuli vera farin að bera hag þessara búgreina fyrir brjósti. Það er nýlunda sem kemur á óvart og þó ekki, því í formannstíð Sindra Sigurgeirssonar gerðist það að alifugla og svínarækt voru taldar með landbúnaðinum af hálfu samtakanna. Á árum áður var það ekki svo, nema að því leiti til, að borinn væri fyrir brjósti hagur vissra valinna aðila sem stunduðu þessar búgreinar. Aðila sem voru ,,hreinu" börnin hennar Evu að mati þeirra sem stjórnuðu samtökunum. Og þá var að sama skapi gert sem unnt var til að grafa undan þeim sem Bændasamtökin töldu til ,,óhreinu" barnanna!

Saga fyrri tíðar

Saga samtakanna er sem sé ekki óflekkuð af slæmum málum frá fortíðinni. Málum þar sem stundum var gengið svo langt að ekki var hætt fyrr en búið var að koma hinum ónáðugu í þrot. Það var samt ekki gert þannig að farið væri af stað fyrr en tækifæri gafst, þ.e.a.s. að viðkomandi væri kominn í erfiðleika og þyrfti t.d. á keyptum tryggingum að halda. Tryggingum sem viðkomandi hafði keypt sér svo sem skylt var. En þegar sótt hafði verið um, notaði fulltrúi samtakanna (sem þá hétu ekki Bændasamtök Íslands) í sjóðnum tengingu sína inn í sjóðinn, til að sjá til þess að viðkomandi fengi synjun.

Svo sérkennilega vildi til að stuttu eftir að fyrrgreindri umsókn hafði verið synjað og sem hér er vísað til, þá þurfti aðili nákominn viðkomandi fulltrúa á aðstoð að halda. Í kröggum sínum leitaði hann til sjóðsins vegna sinna mála og þá rann sú afgreiðsla viðstöðulaust í gegn. Það gerðist þrátt fyrir að ekki hefðu verið greidd lögboðin iðgjöld af framleiðslunni um nokkurra ára skeið. Málið var leyst þannig, að iðgjöldin voru einfaldlega dregin af bótunum og mun það heita á mannamáli að tryggja eftirá!

Rétt er að taka fram að það sem hér hefur verið lýst gerðist fyrir síðustu aldamót og núverandi stjórnendur Bændasamtaka Íslands eiga enga aðkomu þar að.

Nútíminn

Ritari átti í sinni formannstíð í Félagi kjúklingabænda mjög gott samband og samstarf við formenn Félags svínabænda og hafi hrotið til þeirrar búgreinar fé úr ríkissjóði hefur það ekki farið hátt. Ein undantekning getur þó verið þar á, því við gerð búvörusamninga náðist fram lítilsháttar möguleiki á styrk vegna úreldingar búa eða búseininga, sem til komu vegna hertra aðbúnaðarreglugerða.

Hafi eitthvað fleira verið um að ræða, er ritara ekki kunnugt um það, nema að verið getur þó, að svínabændur eigi sama rétt til ræktunarstyrkja vegna kornræktar og bændur í nautgripa og sauðfjárrækt eiga rétt til vegna ræktunarlands.

Hæpið er að draga af því þá ályktun að einhverjir fari á hliðina vegna umræðu um það lítilræði, ef eitthvað er. Varðandi þessar styrkveitingar til úreldingar á húsnæði - sem ritara ekki er kunnugt um hvort svínabændur notfærðu sér - er það að segja, að kröfurnar voru settar af íslenskum stjórnvöldum. Svipaðar kröfur voru innleiddar í Evrópusambandinu, en þó þannig að ekki var gengið eins langt til takmörkunar framleiðslu í ESB, t.d. vegna þéttleika fugla í eldishúsum á kjúklingabúum og hérlendis var gert.

Hjá Evrópusambandinu var litið svo á að breyting krafna af þessu tagi væri bótaskyld af hálfu þeirra sem reglunum breyttu, þ.e. ríkisvaldinu; að hinir opinberu aðilar, stjórnvöld, yrðu að bæta mönnum upp það tjón sem hinar nýju kröfur gerðu til atvinnuveganna. Þar var litið svo á að ef reglum væri breytt til skerðingar á framleiðslugetu búa, þá væri siðlegt og skylt að bæta mönnum það upp. Það var sem sé ekki talið sæmandi að kippa fyrirvaralaust rekstrargrundvelli undan rekstri án þess að bætur kæmu til af hálfu þeirra sem með valdið til slíkra breytinga færu.

Hér þarf ekki að sýna og virða slíka siðfræði, það er utan sviðsins ef svo má segja hjá íslenskum stjórnvöldum og leitt að Bændasamtökin hafi ekki séð sér sóma í að taka á því máli. Hvort það sé vegna þess að málið snertir einungis alifugla, nauta og svínarækt, en ekki sauðfjárræktina skal ósagt látið. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var ekki tekið tillit til þessa, og lýsir það vel viðhorfum þeirra til þessara búgreina. Svína og kjúklingabændur og kúabændur vísast líka, sátu því uppi með tjónið sem nýju kröfurnar gerðu til rekstrarins.

Við sem vorum í forsvari fyrir alifuglabændur (F.k.) ákváðum að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti, vitandi af fenginni reynslu að það yrði torvelt að krefja ríkið bóta fyrir búgrein þar sem skepnurnar væru ófáanlegar til að jarma og gengju auk þess á tveimur fótum en ekki fjórum! Lítillega var komið til móts við svínabændur eins og áður sagði, enda tjón þeirra verulegt svo ekki sé meira sagt.

Þingsályktunartillaga Viðreisnar er þörf og gæti orðið til að upplýsa ýmislegt sem illa þolir dagsins ljós. Umsögn Bændasamtakanna getur bent til þess að í einhverjum tilfellum hafi alifugla og svínabændur fengið styrki af einhverju tagi og sé svo er engin ástæða til að farið sé með það sem feimnismál frekar en styrkveitingar til annarra búgreina.

Fortíðin

Vitað er að fyrir nokkrum áratugum var farið frjálslega með fé úr ríkissjóði og því veitt til tveggja valinna aðila. Upphæðirnar sem þar var um að ræða voru verulegar, eða sem nemur hátt í hundrað milljónum á núvirði á hvorn. Hvernig sá gjörningur kom til og í hvaða bakherbergjum hann var afgreiddur er ekki gott að segja til um, en báðir þessir aðilar hættu búrekstri sínum og breyttu býlum sinum í starfstöðvar fyrir ferðaþjónustu.

Varla er verið að vísa til þeirra gömlu mála í umsögninni?


Landbúnaðarkerfið að hrynja?

2021-03-18 (2)

Myndin er fengin af vefsíðu Vísis.

Það eru að verða þrjátíu ár síðan Kári Þorgrímsson sagði ,,bændamafíunni" þáverandi ,,stríð á hendur" og bauð kjöt sitt til sölu án ríkisstyrkja og sannaði þar með að hægt var að rísa gegn þeim hópi sem þá óð uppi hjá Stéttasambandi bænda og Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Kári sagði frá því í viðtali við Vísi hvernig ráðherra Framsóknarflokksins herti tökin: ,,„[og] bjó [...] til nýja kvóta sem voru öllu verri. Með þeim kvótum voru búin fryst í þeirri stöðu sem þau höfðu verið í. Þú gast hætt eða minnkað en það var ómögulegt að breyta úr kjöti í mjólk eða stækka við sig.“"

Sauðfjárbóndi sem ekki taldi sér fært að lifa af búi sínu mátti ekki auka við sig í mjólk né kindakjöti. Menn voru sem sagt settir í helsi líkt og fátækt fólk í fyrri tíð sem var sett í átthagafjötra.

Í Vísi segir frá því að Kári hafi fleytt sér áfram með því að leigja kvóta, en í landbúnaðarráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar var lokað fyrir þann möguleika.

Þegar það var gert, var síðan opnað á að menn mættu frameiða sem þeir vildu ef þeir tækju ekki við ,,beingreiðslum"!

Sem þýddi það að þeir hefðu þurft að leggja kjöt sitt inn til sláturleyfishafa með tuga prósenta afslætti frá því sem hinir, sem hlotið höfðu góða kvótaúthlutun, fengu greitt, því þeir fengu greitt frá sláturleyfishafanum, en að auki úr ríkissjóði út á kvótann títtnefnda.

Er svo var komið í stjórnlyndi ráðamanna tók Kári til þess ráðs að framleiða eins og honum sýndist, kaupa löglega slátrun á sínu sauðfé og selja það síðan í Kolaportinu í Reykjavík.

Síðan þetta var hefur mikið vatn til sjávar runnið en ekkert gerst svo talandi sé um í þessum málum. Kvótasettu landbúnaðargreinarnar eru enn í þeirri spennitreyju sem þær voru settar í af borðberum hinnar einu sönnu landbúnaðarstefnu.

Þegar þetta var að gerast dreymdi kvótaflokkana, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk um að koma alifugla- og svínarækt undir svipaðan klafa og þeir voru búnir að koma sauðfjár- og nautgriparæktinni. Gekk það svo langt að dag einn gaf landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins út reglugerð sem gekk út á, að lagt yrði á 200% kjarnfóðurgjald sem svo var kallað.

Í framhaldinu áttu síðan búgreinarnar sem fyrir þessu urðu að sækja um endurgreiðslu á hluta skattlagningarinnar í gegnum ,,bændamafíuna" sem Kári kallaði svo og hafði hreiður sitt hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Það mun hafa m.a. verið fyrir harða mótstöðu kúabænda sem gjaldið var lækkað eitthvað, en ,,bændamafía" þessa tíma virtist trúa því að ef grasi væri þjappað nógu mikið saman í þar til gerðum graskögglaverksmiðjum, væri gerlegt að fá úr kúnum mjólk sem þær væru fóðraðar á kjarnfóðri sem búið væri til að uppistöðu til úr korni.

Hvort þessi vísindi voru kennd í Bændaskólum er undirrituðum sem betur fer ekki kunnugt um!

Honum er heldur ekki kunnugt um hvernig fyrirkomulag endurgreiðslu á fyrrnefndum skatti á kúabændur var, hafi hún einhver verið, en alifugla- og svínabændur voru krafðir um framleiðsluskýrslur yfir framleiðslu sína og fengu síðan endurgreiðslu eftir einhverri reikniformúlu sem búin var til af spekingum annað hvort ráðuneytisins eða Framleiðsluráðsins fyrrnefnda.

Landbúnaðarráðherra nútímans ætlar sauðfjárbændum - og síðan öðrum kjötframleiðslubændum gerum við ráð fyrir - að leysa afsetningarvanda afurða sinna með öðrum hætti. Nú á nefnilega að hefja heimaslátrun og heimavinnslu sláturafurða.

Hugsanlega samt öðruvísi en þegar ritari keypti heimaslátrað kindakjöt af bónda nokkrum fyrir mörgum árum síðan og skrokkurinn hékk í fjárhúskrónni. Það var keypt í heilum skrokkum og engum varð meint af!

2020-05-28 (6)Myndin er fengin úr aðsendri grein í Bændablaðinu og mun sýna hvernig staðið mun að heimaslátrun sauðkinda í Bandaríkjunum.

Það verður líflegt í sveitunum á haustin og framleiðslukeðjan glæsileg þegar kindurnar, en þessi nútímalega aðferð slátrunar verður innleidd til að byrja með, varðandi sauðkindur, verða aflífaðar heima á sveitabæjunum samkvæmt því sem fréttir hafa af borist.

Verða sem sagt aldar upp í fjárhúsi, túnum, högum, hálendi landsins og að lokum fitaðar á fóðurkáli þegar haustar. Í framhaldi af fjárhúsinu mun koma sláturhús og þar á eftir vinnslusalur, kælar og frystar og síðast af öllu hugguleg verslun eða jafnvel veitingasalur í enda herlegheitanna.

Framtíð íslensks landbúnaðar er svo sannarlega björt og hugmyndaauðgin til lausnar á vanda afsetningarinnar á framleiðslunni ríður ekki við einteyming.

Á árum áður var áherslan lögð á að leysa landbúnaðarvandann með því að búa til annan vanda og meiri. Á því virðist engin breyting ætla að verða og snuðið er sykrað.

2020-05-28 (7)Þessi mynd er úr sömu grein í Bændablaðinu og hin myndin hér fyrir ofan og mun sýna glaðbeitta Bandaríkjamenn við heimaslátrun þar vestra.

Auðvitað má síðan útfæra þetta mun lengra með matsal og öllu tilheyrandi og jafnvel gistiaðstöðu svo segja megi, að ,,vinnslan" fari að öllu leyti fram ,,heima", samanber ,,holt er heima hvað" o.s.frv.

 


Búnaðarstofa - frjáls eða háð

Guðni Ágústsson ritar grein á vef Bændablaðsins og gerir að umfjöllunarefni ,,frelsi" Búnaðarstofu, stofnunar sem nýlega var flutt til Landbúnaðarráðuneytisins.

Guðni kemst að þeirri niðurstöðu að illa sé komið fyrir stofnuninni og það verr en þegar hún hvíldi í faðmi Bændasamtakanna.

Forveri þessarar stofnunar var Framleiðsluráð landbúnaðarins sem var í innilegu faðmlagi við forvera Bændasamtaka Íslands, þ.e. þess sem þá hét Stéttasambands bænda.

Það þótti ekki gott fyrirkomulag og var búin til ný stofnun sem fékk nafnið Búnaðarstofa og henni síðan komið fyrir í náinu og traustu sambandi við Bændasamtök Íslands, eftir að hafa verið um tíma í hornstofu hjá Matvælastofnun.

Ég skil það sem Guðni setur fram í grein sinni á þann veg að hann vilji fara aftur til fyrri stöðu og koma stofnuninni í faðm Bændasamtakanna. Guðni segir í grein sinni: ,,Í dag heyrir Búnaðarstofa, sem sjálfstæð starfseining, sögunni til því hún finnst hvergi innan ráðuneytis landbúnaðar."

Sé þetta rétt, er illa farið fyrir því sem lítið var!

Undirritaður man vel eftir því sem einu sinni var Framleiðsluráð landbúnaðarins og saknar þess ekki, hefur lítið spurt af þessu skrifstofufyrirbæri síðan og telur að það gott.

Samkvæmt því sem segir í grein Guðna voru: ,,Fyrirmæli Alþingis [voru] kýrskýr: ,,Atvinnuveganefnd Alþingis beinir því til ráðuneytisins í ljósi mikilvægi og umfangs þeirra verkefna sem Búnaðarstofa sinnir í dag við framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun og þróun tölvukerfa að ráðuneytið afmarki með skýrum hætti verkefni Búnaðarstofu innan ráðuneytisins.“"

Um er að ræða samkvæmt þessu hina merkustu stofnun og að það skuli hafaa farið framhjá ritara skrifast líkast til á það, að hann hefur ekki stundað búrekstur sem er innan ,,búvörusamninga" og satt að segja saknar hann þess ekki; efast hins vegar um að fullyrðingar Atvinnuveganefndar Alþingis um ,,mikilvægi og umfang stofunnar" sé mikið meira en þeirrar stofu sem hann situr í við að rita þessi orð.

Eftir því sem Guðni segir er hlutverk ,,stofunnar" ,,að halda utan um verkefni í tengslum við búvörusamninga ríkis og bænda".

Bændasamtökin gera búvörusamninga við ríkið fyrir valdar búgreinar, greinar sem samtökin bera sérstaklega fyrir brjósti og stafar sú umhyggja vafalaust af þeirri staðreynd að Bændasamtök Íslands hafa alla tíð verið samtök sauðfjárbænda að mestu leyti, þó þau hafi horft til kúabúskaparins líka með svona um það bil þriðja til fjórða hverju augnatilliti.

Aðrar búgreinar hafa samtökin ekki talið sér koma við, utan ef þeim hefur fundist að amast þyrfti við þeim.

Telji bændur nauðsynlegt að reka stofnun til að fylgjast með framkvæmd búvörusamninga er eðlilegast að þeir haldi slíkri starfsemi úti á eigin vegum og að starfið sé síðan kostað af þeim búgreinum sem eru undir samningunum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband