Þingsályktunartillagan og það sem ekki má

2021-03-04 (2)Kjarninn birti á dögunum frétt um ríkisstyrki til landbúnaðarins.

Þar kemur fram að þingflokkur stjórnmálaflokksins Viðreisnar hefur flutt þingsályktunartillögu þess efnis ,,að upplýsingar um opinbera styrki og greiðslur til landbúnaðar verði gerðar opinberar."

Styrkveitingar

Við munum að prófessor við Lbhí hafði það í gegn með harðfylgi, að styrkveitingar til sauðfjárbænda voru gerðar opinberar og nú er það þannig að hægt er að fletta því upp hverjir fá styrki og hverskonar styrki er um að ræða. Þetta varð til þess að upplýst varð um styrkveitingar til fólks sem er með kindur sér til gamans og til framleiðslu á kjöti til einkaneyslu og einnig upplýstist að svokölluð ,,gæðastýring“ og styrkir veittir í nafni hennar voru orðin tóm og ekkert meira en það. Bændasamtökin hafa brugðist við þingsályktunartillögu Viðreisnar og í Kjarnanum má lesa eftirfarandi: ,,Í umsögn frá Bændasamtökunum segir að ekki hafi verið sýnt fram á raunverulega þörf á því." (þ.e. að upplýsa um styrki til landbúnaðarins.)

Nánar segir Í umsögn Bændasamtakanna um þingsályktunartillöguna: ,,„óljóst hver þörf eða eftirspurn eftir upplýsingunum er raunverulega og í hvaða tilfellum slíkar upplýsingar eiga ekki erindi við almenning skv. upplýsingalögum.“"

Þar á bæ er sem sagt talið, að óljóst sé hvort þörf eða eftirspurn sé eftir þessum upplýsingum. Um þá niðurstöðu BÍ er það að segja, að það er ekki hlutverk Bændasamtakanna að meta þörf eða eftirspurn af þessu tagi. Í umsögn samtakanna er vísað til þess að upplýsingar sem þessar, geti komið sér illa fyrir alifugla og svínabændur (svo!).

Eða eins og segir í umsögninni: ,,Hins vegar tekur úrskurðurinn ekki á álitamálum sem geta komið upp í ólíkum málum og geta varðað fámennari búgreinar, t.a.m. svínabændur og kjúklingabændur þar sem um viðkvæmar upplýsingar er um að ræða út frá samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni." Hvaða leyndarmál það eru, sem ekki má upplýsa varðandi þessar tvær búgreinar, kemur ekki fram og er það eins og við mátti búast.

Ánægjulegu tíðindin eru hins vegar, að Bændasamtökin skuli vera farin að bera hag þessara búgreina fyrir brjósti. Það er nýlunda sem kemur á óvart og þó ekki, því í formannstíð Sindra Sigurgeirssonar gerðist það að alifugla og svínarækt voru taldar með landbúnaðinum af hálfu samtakanna. Á árum áður var það ekki svo, nema að því leiti til, að borinn væri fyrir brjósti hagur vissra valinna aðila sem stunduðu þessar búgreinar. Aðila sem voru ,,hreinu" börnin hennar Evu að mati þeirra sem stjórnuðu samtökunum. Og þá var að sama skapi gert sem unnt var til að grafa undan þeim sem Bændasamtökin töldu til ,,óhreinu" barnanna!

Saga fyrri tíðar

Saga samtakanna er sem sé ekki óflekkuð af slæmum málum frá fortíðinni. Málum þar sem stundum var gengið svo langt að ekki var hætt fyrr en búið var að koma hinum ónáðugu í þrot. Það var samt ekki gert þannig að farið væri af stað fyrr en tækifæri gafst, þ.e.a.s. að viðkomandi væri kominn í erfiðleika og þyrfti t.d. á keyptum tryggingum að halda. Tryggingum sem viðkomandi hafði keypt sér svo sem skylt var. En þegar sótt hafði verið um, notaði fulltrúi samtakanna (sem þá hétu ekki Bændasamtök Íslands) í sjóðnum tengingu sína inn í sjóðinn, til að sjá til þess að viðkomandi fengi synjun.

Svo sérkennilega vildi til að stuttu eftir að fyrrgreindri umsókn hafði verið synjað og sem hér er vísað til, þá þurfti aðili nákominn viðkomandi fulltrúa á aðstoð að halda. Í kröggum sínum leitaði hann til sjóðsins vegna sinna mála og þá rann sú afgreiðsla viðstöðulaust í gegn. Það gerðist þrátt fyrir að ekki hefðu verið greidd lögboðin iðgjöld af framleiðslunni um nokkurra ára skeið. Málið var leyst þannig, að iðgjöldin voru einfaldlega dregin af bótunum og mun það heita á mannamáli að tryggja eftirá!

Rétt er að taka fram að það sem hér hefur verið lýst gerðist fyrir síðustu aldamót og núverandi stjórnendur Bændasamtaka Íslands eiga enga aðkomu þar að.

Nútíminn

Ritari átti í sinni formannstíð í Félagi kjúklingabænda mjög gott samband og samstarf við formenn Félags svínabænda og hafi hrotið til þeirrar búgreinar fé úr ríkissjóði hefur það ekki farið hátt. Ein undantekning getur þó verið þar á, því við gerð búvörusamninga náðist fram lítilsháttar möguleiki á styrk vegna úreldingar búa eða búseininga, sem til komu vegna hertra aðbúnaðarreglugerða.

Hafi eitthvað fleira verið um að ræða, er ritara ekki kunnugt um það, nema að verið getur þó, að svínabændur eigi sama rétt til ræktunarstyrkja vegna kornræktar og bændur í nautgripa og sauðfjárrækt eiga rétt til vegna ræktunarlands.

Hæpið er að draga af því þá ályktun að einhverjir fari á hliðina vegna umræðu um það lítilræði, ef eitthvað er. Varðandi þessar styrkveitingar til úreldingar á húsnæði - sem ritara ekki er kunnugt um hvort svínabændur notfærðu sér - er það að segja, að kröfurnar voru settar af íslenskum stjórnvöldum. Svipaðar kröfur voru innleiddar í Evrópusambandinu, en þó þannig að ekki var gengið eins langt til takmörkunar framleiðslu í ESB, t.d. vegna þéttleika fugla í eldishúsum á kjúklingabúum og hérlendis var gert.

Hjá Evrópusambandinu var litið svo á að breyting krafna af þessu tagi væri bótaskyld af hálfu þeirra sem reglunum breyttu, þ.e. ríkisvaldinu; að hinir opinberu aðilar, stjórnvöld, yrðu að bæta mönnum upp það tjón sem hinar nýju kröfur gerðu til atvinnuveganna. Þar var litið svo á að ef reglum væri breytt til skerðingar á framleiðslugetu búa, þá væri siðlegt og skylt að bæta mönnum það upp. Það var sem sé ekki talið sæmandi að kippa fyrirvaralaust rekstrargrundvelli undan rekstri án þess að bætur kæmu til af hálfu þeirra sem með valdið til slíkra breytinga færu.

Hér þarf ekki að sýna og virða slíka siðfræði, það er utan sviðsins ef svo má segja hjá íslenskum stjórnvöldum og leitt að Bændasamtökin hafi ekki séð sér sóma í að taka á því máli. Hvort það sé vegna þess að málið snertir einungis alifugla, nauta og svínarækt, en ekki sauðfjárræktina skal ósagt látið. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var ekki tekið tillit til þessa, og lýsir það vel viðhorfum þeirra til þessara búgreina. Svína og kjúklingabændur og kúabændur vísast líka, sátu því uppi með tjónið sem nýju kröfurnar gerðu til rekstrarins.

Við sem vorum í forsvari fyrir alifuglabændur (F.k.) ákváðum að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti, vitandi af fenginni reynslu að það yrði torvelt að krefja ríkið bóta fyrir búgrein þar sem skepnurnar væru ófáanlegar til að jarma og gengju auk þess á tveimur fótum en ekki fjórum! Lítillega var komið til móts við svínabændur eins og áður sagði, enda tjón þeirra verulegt svo ekki sé meira sagt.

Þingsályktunartillaga Viðreisnar er þörf og gæti orðið til að upplýsa ýmislegt sem illa þolir dagsins ljós. Umsögn Bændasamtakanna getur bent til þess að í einhverjum tilfellum hafi alifugla og svínabændur fengið styrki af einhverju tagi og sé svo er engin ástæða til að farið sé með það sem feimnismál frekar en styrkveitingar til annarra búgreina.

Fortíðin

Vitað er að fyrir nokkrum áratugum var farið frjálslega með fé úr ríkissjóði og því veitt til tveggja valinna aðila. Upphæðirnar sem þar var um að ræða voru verulegar, eða sem nemur hátt í hundrað milljónum á núvirði á hvorn. Hvernig sá gjörningur kom til og í hvaða bakherbergjum hann var afgreiddur er ekki gott að segja til um, en báðir þessir aðilar hættu búrekstri sínum og breyttu býlum sinum í starfstöðvar fyrir ferðaþjónustu.

Varla er verið að vísa til þeirra gömlu mála í umsögninni?


Bloggfærslur 25. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband