Framkvæmdastjóri ASÍ veldur hugljómun

Það er ekki oft sem birtast greinar í fjölmiðlum sem eru þess eðlis að fyrir manni opnast nýr heimur með nýjum hugljómunum.

Og ekki nóg með það. Það sem áður var, er ekki og það sem ekki var, er orðið að staðreynd.

Ritari er alinn upp af fólki sem vissi hvað fátækt var og það vissi að ekkert verður til af engu.

Það vissi líka að eitthvað sem er, getur orðið engu.

Þannig var það og hafði alltaf verið og þegar það fólk kynntist kennisetningum sósíalismans (stjórnmálastefnu sem nýaldarsinnar í verkalýðshreifingunni og víðar hafa tekið sér í hendur og hnoðað í nútímaform eftir eigin höfði), þá rann upp fyrir því fólki að málin gætu snúist um að skipta gæðunum öðruvísi en gert hefði verið.

Skipta því sem er öðruvísi en verið hefði.

Nú þarf ekki lengur neitt að vera.

Veruleikinn er orðinn afstæður eða fljótandi og engri hönd á hann festandi.

Fram er komin ný og heppilegri kennisetning.

Kenning sem flýtur út um víðan völl og gengur út á, að verðmæti séu einhverskonar fljótandi hugrenningar sem komi viðurkenndu og úreltu staðreyndaþusi ekki neitt við.

Tíminn líður og margt breytist vissulega, en að fastarnir í tilverunni umbyltist gjörsamlega er ekki það sem úreltur karl sem rekur tilveru sína til miðrar tuttugustu aldar, reiknar með.

Í hinni merku grein sem ritari rakst á, í vefmiðlinum Kjarnanum og sem nálgast má með tenglinum sem er snemma í þessum hugleiðingum segir m.a.: ,,En stað­reyndin er sú – og ætti ekk­ert að þurfa að árétta það – að hag­fræði fjallar um mann­legt sam­fé­lag og telst til félags­vís­inda. Þær breytur sem eru að verki í hag­kerf­inu eru allar háðar mann­fólk­inu og verða ekki með nokkru móti færðar undir grunn­hug­tök eðl­is­fræð­inn­ar. Ef það eru til staðar lög­mál í hag­fræði þá eru þau, ólíkt lög­málum efn­is­heims­ins, sífelldum breyt­ingum und­ir­orp­in."

Eins og sjá má þá er hagfræði félagsvísindi og kemur ekki staðreyndum neitt við.

Hagfræði og trúarbrögð fara samkvæmt þessu saman og er það fróðlegt fyrir okkur sem höfum allt lífið baksað við að greiða reikninga með krónum og aurum (meðan auranna naut við) að fá upplýst að það hafi allt verið á misskilningi byggt.

Hefði svo dæmi sé tekið verið gott að vita þetta þegar reikningar voru komnir á gjalddaga.

Þá hefði maður bent þeim sem vildu fá sitt, á að krafan væri byggð á alrangri kenningu því bókhaldið væri byggt á kennisetningum sem ekki stæðust skoðun.

Plús væri ekki plús nema samkomulag væri um það.

Eins væri um mínusinn og öll hin stærðfræðitáknin, þau væru í raun öll á misskilningi byggð, nema misskilningurinn væri sameiginlegur skilningur aðila.

Veröldin er svo sannarlega skrýtin. Það sem mér finnst vera ljós, er myrkur í augum nýsósíalista og öfugt og framvegis er það samkomulagsatriði hvort dagur er dagur eða nótt.

Og er kannski tilveran ekki annað en ímyndaður fugl út í mýri?


Vel farið með fé?

2021-04-16 (11)Svo sem sjá má á myndinni hér til hliðar, er þar glaðbeittur landbúnaðarráðherra að úthluta framlögum úr ríkisjóði sem stofnað er til vegna COVIT-19.

Við sjáum líka að um er að ræða tæpan milljarð sem ætlaður er sauðfjárbændum og nautgripabændum sem fá smá afgang.

Hvers vegna þeir fyrrnefndu eru í svona mikilli þörf fyrir aukið framlag úr ríkissjóði vegna COVIT-19 er óútskýrt. Sem betur fer hefur pestin ekki herjað neitt meira á þá en aðra í þessu landi, jafnvel minna vegna búsetu þeirra.

Það sem vekur sérstaka athygli er að framlag vegna ,,gæðastýringar" í sauðfjárrækt er aukið sérstaklega og af því má ráða að ,,gæðastýring" hafi aukist til mikilla muna í pestarfárinu og er gott til þess að vita að þrátt fyrir allt komi eitthvað gott út úr pestinni, nú eða þrátt fyrir hana, því eins og flestum er kunnugt hefur gæðastýring þessi ekki fram til þessa verið annað en nafnið tómt.

Hvort nú er um annað og meira að ræða en tómleika vitum við ekki, en hugsanlega er búið að finna nýjan fimmhundruð og sextíu og tveggja milljóna reit til að haka í á nýju blaði og þar með sé ,,gæðastýringin" fullkomnuð.

2021-04-01 (3)Við höfum haft af því fréttir að ekkert páskalamb hafi verið á borðum Stjörnu-Sævars eftir að hann komst að því hvernig beit er hagað á hálendi landsins.

 

 

 

 

2021-04-16 (9)Hér til vinstri er greinarstúfur sem prófessor við Landbúnaðarháskólann skrifaði eftir að formaður Bændasamtakanna ritaði í leiðara eitthvað á þá leið að vísindamenn vildu láta skera niður allan búfénað í landinu.

Ólafur Arnalds kannast ekki við að hafa haldið neinu fram í þá veru, en kannast vel við að hafa lagt til að beit væri stjórnað svo að hún yrði ekki til skaða.

Ólafur hefur unnið þrekvirki í að fletta ofan af því styrkjakerfi óráðsíunar sem viðgengst varðandi búgreinina sem nýtir sér örfoka hálendi landsins og ef rétt er munað var það hin furðulega ,,gæðastýring" sem einna lengst var móast við að greina frá.

Nú liggur opið fyrir alþjóð að fletta því upp hver fær hvað og er það töluverð nýjung.

Svo dæmi sé tekið getur maður þar lesið, hvaða tómstundabændur það eru sem eru með nokkrar kindur sér til gamans og fá framlög af margvíslegasta tagi greidd með þeirri framleiðslu úr ríkissjóði.

Ekki er vitað til að skattfé sé notað til meðlagsgreiðslna með hundahaldi né katta. Ekki heldur til þeirra sem halda hross, kanínur, páfgauka, skrautfiska né önnur dýr sér til skemmtunar og eða nytja. Sé það gert hefur undirritaður ekki veitt því athygli.

En alla vega er gott til þess að vita, að til sé ráðherra sem veit hvernig best er að ráðstafa fjármunum þjóðarinnar. Og við getum glaðst yfir því, vitandi að mannskapurinn sem með honum stendur er sama sinnis og vill eingöngu verja fjármunum þjóðarinnar í vel valin verkefni svona rétt fyrir kosningar!


Trú og rök- Þorsteinn Pálsson svarar Guðna Ágústssyni

Guðni Ágústsson og Þorsteinn Pálsson skrifast orðið á í Morgunblaðinu.

Guðni byrjaði með grein það sem hann lýsti því að Þorsteinn væri haldinn ESB- trú, en slík trú er líklega eins og Framsóknar- trú, rökum ofar. Þorsteinn svarar Guðna í sama blaði þann 17. apríl með grein sem er þannig að manni verður hugsað til barnæskunnar, þegar amma tók pilt á hné sér og útskýrði málin. Og mikið má vera ef Guðni meðtekur ekki rök Þorsteins, en grein hans er hér fyrir neðan:

,,ESB-trú, trúarhiti og ofsatrú

Með sann­fær­ing­ar­krafti skrif­ar vin­ur minn Guðni Ágústs­son í Morg­un­blaðið 15. apríl í til­efni hug­leiðinga, sem ég setti fram á dög­un­um, um það sem líkt væri með miðjumoði Evr­ópu­sam­bands­ins og sam­vinnu­hug­sjón­inni.

Guðni tel­ur að sam­lík­ing þessi beri vott um ESB-trú, trú­ar­hita og ofsa­trú. Þess­um nafn­gift­um er ugg­laust ætlað að draga úr gildi hug­leiðinga minna. Ég læt það liggja milli hluta en gengst við því að skrifa ekki annað en það sem ég hef trú á að sé gagn­legt fyr­ir þjóðina.

Fyrsta rök­semd

Fyrsta rök­semd Guðna er byggð á því að sam­lík­ing­in stand­ist ekki skoðun vegna þess að SÍS og kaup­fé­lög­in hafi orðið að öf­ug­snún­um ris­um, sem hafi riðlast og fallið um sjálfa sig. Ég ætla ekki að and­mæla því og vel má vera að að því komi að Evr­ópu­sam­bandið leys­ist upp þó að það blasi ekki við í dag.

En spurn­ing­in, sem Guðni þarf að svara, er þessi: Féll sam­vinnu­hug­sjón­in með SÍS?

Ég var ekki að segja annað en að Evr­ópu­sam­bandið væri miðju­banda­lag, sem byggði á mála­miðlun­um milli markaðshyggju og fé­lags­hyggju.

Ég hef þá trú að það sé skyn­sam­leg hóf­söm póli­tík og að sam­vinna þjóða á þeim grund­velli hafi reynst far­sæl.

Önnur rök­semd

Önnur rök­semd Guðna gegn alþjóðlegu miðju­sam­starfi er sú ákvörðun Breta að ganga úr Evr­ópu­sam­band­inu. Það er kór­rétt hjá Guðna að meg­in­rök­semd­in fyr­ir út­göngu var sú að Bret­land ætti að nýta afl sitt sem fimmta stærsta efna­hags­veldi í heimi til að hafa bet­ur í tví­hliða samn­ing­um við minni þjóðir.

Við finn­um fyr­ir því. Bret­land er ekki jafn opið fyr­ir Íslend­inga og áður. Bresk­ir sjó­menn og bænd­ur eiga nú erfiðara um vik að selja vör­ur á Evr­ópu­markað vegna auk­ins skri­fræðis. Þó að Guðni líti á það sem aukið frelsi sér maður á um­mæl­um bænda og sjó­manna að þeir upp­lifa þessa breyt­ingu á ann­an veg.

Bret­ar eiga sam­eig­in­lega fiski­stofna í Norður­sjó með nokkr­um Evr­ópu­sam­bandsþjóðum. Sam­kvæmt Haf­rétt­ar­sátt­mál­an­um, sem Ísland á aðild að, verða þeir að semja eft­ir ákveðnum regl­um um skipt­ingu þeirra.

Regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins kveða á um að eng­in þjóð fær veiðirétt í lög­sögu annarr­ar nema á grund­velli veiðireynslu. Þar af leiðir að eng­in er­lend skip kæmu hingað til veiða við inn­göngu í sam­bandið.

Þriðja rök­semd

Þriðja rök­semd Guðna er sú full­yrðing að Evr­ópu­sam­bandið sé eitt og EES-samn­ing­ur­inn annað. Innri markaður Evr­ópu­sam­bands­ins er kjarn­inn í starf­semi þess. Sú lög­gjöf, sem ríki með fulla aðild að Evr­ópu­sam­band­inu setja, án þess að við eig­um sæti við borðið, spann­ar nær öll svið í þjóðarbú­skap okk­ar. Við erum þannig hluti af Evr­ópu­sam­band­inu þó að við séum ekki full­ir aðilar. Nær öll efna­hags­starf­semi okk­ar bygg­ist á þeirri lög­gjöf.

Frá fyrsta degi hafa verið deil­ur um það hvort þessi skip­an mála stæðist stjórn­ar­skrá. Guðni vill bregðast við því með því að virða þess­ar sam­eig­in­legu leik­regl­ur að vett­ugi. Ég vil breyta stjórn­ar­skránni svo að sam­starf af þessu tagi sé heim­ilt án nokk­urra tví­mæla.

Full­veldið á ekki bara að tryggja frelsi þing­manna. Þeir eiga að nota full­veldið til þess að tryggja ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um þeirra at­hafna­frelsi á jafn­rétt­is­grund­velli á einu stærsta markaðssvæði heims­ins. Þarna grein­ir okk­ur á.

Fjórða rök­semd

Fjórða rök­semd Guðna felst í þeirri full­yrðingu að þjóðin hafi kosið Ices­a­ve af sér, ekki einu sinni held­ur tvisvar. Þessi deila stóð ekki um skuld Lands­bank­ans held­ur ábyrgð rík­is­sjóðs.

Veru­leik­inn er sá að Bret­ar og Hol­lend­ing­ar héldu kröf­um sín­um um ábyrgð rík­is­sjóðs til streitu eins og eng­ar þjóðar­at­kvæðagreiðslur hefðu farið fram. Þær kröf­ur stóðu þar til EFTA-dóm­stóll­inn hafnaði þeim á grund­velli aðild­ar Íslands að regl­um Evr­ópu­sam­bands­ins.

Það voru regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins, sem réðu úr­slit­um í þessu máli. Ef Bret­ar hefðu ekki verið bundn­ir af þeim hefðu þeir getað neitt afls­mun­ar sem fimmta stærsta efna­hags­veldi í heimi. Hefði það verið betra?

Það er svo annað mál að á end­an­um var öll skuld­in greidd með full­um vöxt­um og áfölln­um kostnaði.

Ég hef stund­um velt því fyr­ir mér hvort Guðni vin­ur minn hafi aldrei fundið til þjóðlegs stolts yfir því að þrota­búið og nýi rík­is­bank­inn hafi staðið við þær skuld­bind­ing­ar sem stofnað var til. Einu sinni var það helsta tákn um full­veldi þjóða."


Gott og slæmt, þar er ekki efinn

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda ritar grein í Morgunblaðið 14.4.2021.

Framkvæmdastjóranum eru málefni landbúnaðarins hugleikin og hugsjón hans er að leyfður verði tollfrjáls innflutningur landbúnaðarvara, ef rétt er skilið.

Í skrifum sínum hefur hann margoft bent á hve slæmt það sé að tollur sé lagður á slíkan innflutning o.s.frv. Í millifyrirsögn spyr Ólafur tveggja svohljóðandi spurninga:

Inn­lent = gott, út­lent = slæmt?

Og við vitum að svarið er ekki einfalt, þó spurningarnar séu það, innlent getur verið bæði gott og vont og sama má segja um það útlenda. Málið snýst ekki um gæði.

Við höfum flest ferðast til annarra landa ólíkt því sem var um fyrri kynslóðir og neytt þess sem þær hafa að bjóða og við vitum að margt er þar gott og eftirsóknarvert.

Sumir eru reyndar orðnir svo háðir því að ferðast, að þó í heiminum geysi pest sem illa hefur farið með fjölda fólks og marga leitt til dauða, þá telja þeir sig tilneydda til að halda áfram að ferðast og tolla ekki í sóttkví, þó að þeim sé uppálagt að gera það. En það er annað mál og óskilt því sem hér er verið að fjalla um.

Framkvæmdastjórinn vill tollfrelsi fyrir matvæli sem eru flutt inn; telur þau bæði holl og góð og umfram allt ódýr.

Matvæli eru vissulega misdýr eftir því hvar þau eru framleidd og eftir því hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Kröfur til matvælaframleiðslu eru í strangara lagi hérlendis miðað við það sem gerist í ýmsum öðrum löndum, þeirra sem næst okkur eru, þannig að ekki er með sanngirni hægt að krefjast þess að innflytjendur matvæla fái að flytja inn vörur af umframframleiðslu annarra landa tollfrjálst, vegna þess að eitthvað skorti upp á gæði innlendu framleiðslunnar.

Það er visst sjónarmið að framleiðsla matvæla sé stunduð þar í heiminum sem ódýrast er að framleiða hana og víst er það trúlega rétt hjá greinarhöfundi að kolefnisspor vegna flutnings matvæla milli landa vegur ekki þungt í CO2 útreikningum.

Það er annað sem veldur því að þjóðir telja sjálfsagt og eðlilegt að framleiða svo mikið í eigin löndum sem hægt er af matvælum og það veit hann eins vel og sá sem þetta ritar og eins vel og þeir sem ef til vill lesa þessa færslu.

Það er talið gott að byggja að sínu og er við það stuðst þegar menn taka afstöðu til þess hvort nýta skuli innlent vinnuafl og aðstöðu til dæmis til að framleiða matvæli og þó það sé svo sannarlega til að matvælaframleiðsla sé stunduð til útflutnings í vissum tilfellum vítt um heim, þá er það engin allsherjar regla.

Framkvæmdastjórinn bendir á að Nýja Sjáland framleiðir og selur til annarra landa kindakjöt með góðum árangri. Aðstæður til slíkrar framleiðslu eru hentugar þar í landi og það veldur því að þar er hægt að framleiða þessa afurð með hagkvæmum hætti. Og það svo hagkvæmum, að trúlega er hagstæðara er að gera það þar suður frá og flytja til Íslands, svona nokkurn vegin yfir hálfan hnöttinn, heldur en að framleiða kindakjötið hérlendis. Og líklega gæti sú afurð auðveldlega keppt við íslenskt kindakjöt hingað komin og það þrátt fyrir að hið íslenska sé greitt niður af ríkinu um u.þ.b. þriðjung til helming.

Ástæða þess að svo er, er afar sérstök ákvörðun hérlendra stjórnvalda sem felur í sér að atvinnu skulið haldið uppi í dreifðum byggðum vítt um landið og það skuli gera með framleiðslu kindakjöts. Það segir okkur ekkert um hagkvæmni framleiðslunnar, en segir okkur heilmikið um hugmyndaflug þeirra stjórnmálamanna sem um málin hafa fjallað í marga áratugi.

Í greininni nefnir höfundur að í umræðunni sé landbúnaðarvörum stillt þannig upp, að hinar íslensku séu ,,holl­ar, ör­ugg­ar, um­hverf­i­s­væn­ar og ábyrg­ar" en hinar erlendu séu ekkert af þessu. Vel getur verið að það hafi einhverntíma verið gert en augljóst er að slíkar alhæfingar standast ekki skoðun. Erlendar landbúnaðarvörur eru margvíslegar og ætti ekki að þurfa að eyða mörgum orðum að svo sjálfsögðum hlut.

Það verður hins vegar ekki tekið af íslenskri matvælaframleiðslu að hún er að lang mestu til fyrirmyndar hvað gæði varðar og Ólafur bendir reyndar á það sjálfur, þar sem hann bendir á að innkallanir hafi verið gerðar í ákveðnum vöruflokki þegar grunur var um að viðkomandi vara stæðist ekki kröfur. Hann stillir frásögninni hins vegar þannig fram sem um veikleika í framleiðslu sé að ræða, sem er auðvelt að segja, en hefði hann jafnframt getið þeirra tilfella þar sem innköllun hefur farið fram á innfluttum landbúnaðarvörum væri framsetningin trúverðugri.

Það hefur enginn, svo undirritaður hafi tekið eftir, haldið því fram að íslensk landbúnaðarframleiðsla sé alltaf og ævinlega gallalaus. Skárra væri það nú. Það er hins vegar vel hægt að halda því fram að hún sé síst verri en annarra landa framleiðsla og í mörgu tilliti betri. Hér ræður, sem svo oft, að mestu ræður við hvað er miðað.

Þjóðir treysta ekki sína matvælaframleiðslu eingöngu vegna þess að trú sé á því að varan sé öllum öðrum betri, heldur vegna þess að menn telja að gott sé að hyggja að sínu og að ,,hollur sé heimafenginn baggi", og eins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins veit eflaust þá þýðir ,,hollur" í þessu samhengi ekki endilega hollusta eða eitthvað í þá veru, heldur að gott getur verið að byggja á sínu.

Það er ástæðan sem mestu ræður um, að flestar þjóðir vilja efla sinn landbúnað og styðja. Undirritaður hefur áður bent á, í grein sem birtist á vísir.is fyrir nokkrum árum, að möguleikar íslenskra heildsala til umsvifa eru ekki endilega bundnir við Ísland. Heimurinn er miklu stærri en það og engin ástæða er til að efast um, að flestar þjóðir myndu taka fagnandi hinum hugumstóru verslunarmönnum eins og dæmi þar um reyndar sanna.


Raungreinar og tungumál

2021-04-01 (2)Pétur Stefánsson verkfræðingur ritar grein um menntamálin sem birtist í Morgunblaðinu 1.4.2021.

Pétur telur að breytingin sem gerð var á skólanámi í tíð Illuga Gunnarssonar er hann fór með menntamálin sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki orðið til góðs.

Breytingin gekk út á það að stytta námið eins og kunnugt er, um eitt ár og átti það að vera til sparnaðar fyrir þjóðfélagið.

Í upphafi skyldi endinn skoða og það er einmitt það sem virðist hafa gleymst, því líkt og Pétur bendir á í grein sinni, þá var hann:

,,einn þeirra sem hafði efa­semd­ir um þessa ráðstöf­un bæði af fag­leg­um og fé­lags­leg­um ástæðum. Í fyrsta [...] vegna erfiðleika raun­greina­kennsl­unn­ar í grunn­skól­un­um [og] að æski­legt væri að koma nem­end­un­um sem fyrst upp í fram­halds­skól­ann und­ir hand­leiðslu sér­menntaðra raun­greina­kenn­ara. Í öðru lagi taldi ég óheppi­legt að þjappa kennslu í stærðfræði og nátt­úru­vís­ind­um sam­an í þrjú ár. Þessi fög byggj­ast einkum á skiln­ingi og henta ekki til hraðlest­urs. Í þriðja lagi óttaðist ég að þessi breyt­ing kæmi niður á tungu­mála­nám­inu sem okk­ur er mik­il­væg­ara en flest­um öðrum þjóðum. Í fjórða lagi taldi ég þessa breyt­ingu vera fé­lags­lega aft­ur­för. Ung­ling­ar milli tekt­ar og tví­tugs eru mikl­ar fé­lags­ver­ur, njóta þess að halda hóp­inn. Á þess­um árum mynd­ast gjarn­an fé­lag­stengsl sem vara jafn­vel alla ævi." (Leturbreyting undirritaðs)

Pétur bendir á þá staðreynd að ekki sé gott að þjappa saman kennslu í stærðfræði og náttúruvísindum, því slíkt nám henti illa til ,,hraðlesturs". Það er gott að ráðamenn vilji spara fyrir hönd þjóðar sinnar, en betra væri að hugsað væri betur út í hvað stendur til að spara.

Stærðfræði verður seint skilin með utanbókarlærdómi, því þar er þörf á skilningi og eins og greinarhöfundur bendir réttilega á, þarf að gefa sér tíma til að skilja.

Pétur bendir einnig réttilega á hve tungumálanámið er okkur nauðsynlegt og segir hafa óttast að styttingin myndi koma niður á því námi og bendir einnig á að félagstengsl ungmenna myndist á ,,milli tektar og tvítugs" og að þau séu mikilvæg fyrir ,,félagsverur".

Greinin er þess virði að lesa, en eins og er með greinar í Morgunblaðinu er ekki auðvelt að tengja þær með traustum hættiinn í svona umfjöllun en áskrifendur ættu alla vega að geta nálgast hana eftir þessum tengli.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband