Gott og slæmt, þar er ekki efinn

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda ritar grein í Morgunblaðið 14.4.2021.

Framkvæmdastjóranum eru málefni landbúnaðarins hugleikin og hugsjón hans er að leyfður verði tollfrjáls innflutningur landbúnaðarvara, ef rétt er skilið.

Í skrifum sínum hefur hann margoft bent á hve slæmt það sé að tollur sé lagður á slíkan innflutning o.s.frv. Í millifyrirsögn spyr Ólafur tveggja svohljóðandi spurninga:

Inn­lent = gott, út­lent = slæmt?

Og við vitum að svarið er ekki einfalt, þó spurningarnar séu það, innlent getur verið bæði gott og vont og sama má segja um það útlenda. Málið snýst ekki um gæði.

Við höfum flest ferðast til annarra landa ólíkt því sem var um fyrri kynslóðir og neytt þess sem þær hafa að bjóða og við vitum að margt er þar gott og eftirsóknarvert.

Sumir eru reyndar orðnir svo háðir því að ferðast, að þó í heiminum geysi pest sem illa hefur farið með fjölda fólks og marga leitt til dauða, þá telja þeir sig tilneydda til að halda áfram að ferðast og tolla ekki í sóttkví, þó að þeim sé uppálagt að gera það. En það er annað mál og óskilt því sem hér er verið að fjalla um.

Framkvæmdastjórinn vill tollfrelsi fyrir matvæli sem eru flutt inn; telur þau bæði holl og góð og umfram allt ódýr.

Matvæli eru vissulega misdýr eftir því hvar þau eru framleidd og eftir því hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Kröfur til matvælaframleiðslu eru í strangara lagi hérlendis miðað við það sem gerist í ýmsum öðrum löndum, þeirra sem næst okkur eru, þannig að ekki er með sanngirni hægt að krefjast þess að innflytjendur matvæla fái að flytja inn vörur af umframframleiðslu annarra landa tollfrjálst, vegna þess að eitthvað skorti upp á gæði innlendu framleiðslunnar.

Það er visst sjónarmið að framleiðsla matvæla sé stunduð þar í heiminum sem ódýrast er að framleiða hana og víst er það trúlega rétt hjá greinarhöfundi að kolefnisspor vegna flutnings matvæla milli landa vegur ekki þungt í CO2 útreikningum.

Það er annað sem veldur því að þjóðir telja sjálfsagt og eðlilegt að framleiða svo mikið í eigin löndum sem hægt er af matvælum og það veit hann eins vel og sá sem þetta ritar og eins vel og þeir sem ef til vill lesa þessa færslu.

Það er talið gott að byggja að sínu og er við það stuðst þegar menn taka afstöðu til þess hvort nýta skuli innlent vinnuafl og aðstöðu til dæmis til að framleiða matvæli og þó það sé svo sannarlega til að matvælaframleiðsla sé stunduð til útflutnings í vissum tilfellum vítt um heim, þá er það engin allsherjar regla.

Framkvæmdastjórinn bendir á að Nýja Sjáland framleiðir og selur til annarra landa kindakjöt með góðum árangri. Aðstæður til slíkrar framleiðslu eru hentugar þar í landi og það veldur því að þar er hægt að framleiða þessa afurð með hagkvæmum hætti. Og það svo hagkvæmum, að trúlega er hagstæðara er að gera það þar suður frá og flytja til Íslands, svona nokkurn vegin yfir hálfan hnöttinn, heldur en að framleiða kindakjötið hérlendis. Og líklega gæti sú afurð auðveldlega keppt við íslenskt kindakjöt hingað komin og það þrátt fyrir að hið íslenska sé greitt niður af ríkinu um u.þ.b. þriðjung til helming.

Ástæða þess að svo er, er afar sérstök ákvörðun hérlendra stjórnvalda sem felur í sér að atvinnu skulið haldið uppi í dreifðum byggðum vítt um landið og það skuli gera með framleiðslu kindakjöts. Það segir okkur ekkert um hagkvæmni framleiðslunnar, en segir okkur heilmikið um hugmyndaflug þeirra stjórnmálamanna sem um málin hafa fjallað í marga áratugi.

Í greininni nefnir höfundur að í umræðunni sé landbúnaðarvörum stillt þannig upp, að hinar íslensku séu ,,holl­ar, ör­ugg­ar, um­hverf­i­s­væn­ar og ábyrg­ar" en hinar erlendu séu ekkert af þessu. Vel getur verið að það hafi einhverntíma verið gert en augljóst er að slíkar alhæfingar standast ekki skoðun. Erlendar landbúnaðarvörur eru margvíslegar og ætti ekki að þurfa að eyða mörgum orðum að svo sjálfsögðum hlut.

Það verður hins vegar ekki tekið af íslenskri matvælaframleiðslu að hún er að lang mestu til fyrirmyndar hvað gæði varðar og Ólafur bendir reyndar á það sjálfur, þar sem hann bendir á að innkallanir hafi verið gerðar í ákveðnum vöruflokki þegar grunur var um að viðkomandi vara stæðist ekki kröfur. Hann stillir frásögninni hins vegar þannig fram sem um veikleika í framleiðslu sé að ræða, sem er auðvelt að segja, en hefði hann jafnframt getið þeirra tilfella þar sem innköllun hefur farið fram á innfluttum landbúnaðarvörum væri framsetningin trúverðugri.

Það hefur enginn, svo undirritaður hafi tekið eftir, haldið því fram að íslensk landbúnaðarframleiðsla sé alltaf og ævinlega gallalaus. Skárra væri það nú. Það er hins vegar vel hægt að halda því fram að hún sé síst verri en annarra landa framleiðsla og í mörgu tilliti betri. Hér ræður, sem svo oft, að mestu ræður við hvað er miðað.

Þjóðir treysta ekki sína matvælaframleiðslu eingöngu vegna þess að trú sé á því að varan sé öllum öðrum betri, heldur vegna þess að menn telja að gott sé að hyggja að sínu og að ,,hollur sé heimafenginn baggi", og eins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins veit eflaust þá þýðir ,,hollur" í þessu samhengi ekki endilega hollusta eða eitthvað í þá veru, heldur að gott getur verið að byggja á sínu.

Það er ástæðan sem mestu ræður um, að flestar þjóðir vilja efla sinn landbúnað og styðja. Undirritaður hefur áður bent á, í grein sem birtist á vísir.is fyrir nokkrum árum, að möguleikar íslenskra heildsala til umsvifa eru ekki endilega bundnir við Ísland. Heimurinn er miklu stærri en það og engin ástæða er til að efast um, að flestar þjóðir myndu taka fagnandi hinum hugumstóru verslunarmönnum eins og dæmi þar um reyndar sanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband