Landbúnaðarkerfið að hrynja?

2021-03-18 (2)

Myndin er fengin af vefsíðu Vísis.

Það eru að verða þrjátíu ár síðan Kári Þorgrímsson sagði ,,bændamafíunni" þáverandi ,,stríð á hendur" og bauð kjöt sitt til sölu án ríkisstyrkja og sannaði þar með að hægt var að rísa gegn þeim hópi sem þá óð uppi hjá Stéttasambandi bænda og Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Kári sagði frá því í viðtali við Vísi hvernig ráðherra Framsóknarflokksins herti tökin: ,,„[og] bjó [...] til nýja kvóta sem voru öllu verri. Með þeim kvótum voru búin fryst í þeirri stöðu sem þau höfðu verið í. Þú gast hætt eða minnkað en það var ómögulegt að breyta úr kjöti í mjólk eða stækka við sig.“"

Sauðfjárbóndi sem ekki taldi sér fært að lifa af búi sínu mátti ekki auka við sig í mjólk né kindakjöti. Menn voru sem sagt settir í helsi líkt og fátækt fólk í fyrri tíð sem var sett í átthagafjötra.

Í Vísi segir frá því að Kári hafi fleytt sér áfram með því að leigja kvóta, en í landbúnaðarráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar var lokað fyrir þann möguleika.

Þegar það var gert, var síðan opnað á að menn mættu frameiða sem þeir vildu ef þeir tækju ekki við ,,beingreiðslum"!

Sem þýddi það að þeir hefðu þurft að leggja kjöt sitt inn til sláturleyfishafa með tuga prósenta afslætti frá því sem hinir, sem hlotið höfðu góða kvótaúthlutun, fengu greitt, því þeir fengu greitt frá sláturleyfishafanum, en að auki úr ríkissjóði út á kvótann títtnefnda.

Er svo var komið í stjórnlyndi ráðamanna tók Kári til þess ráðs að framleiða eins og honum sýndist, kaupa löglega slátrun á sínu sauðfé og selja það síðan í Kolaportinu í Reykjavík.

Síðan þetta var hefur mikið vatn til sjávar runnið en ekkert gerst svo talandi sé um í þessum málum. Kvótasettu landbúnaðargreinarnar eru enn í þeirri spennitreyju sem þær voru settar í af borðberum hinnar einu sönnu landbúnaðarstefnu.

Þegar þetta var að gerast dreymdi kvótaflokkana, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk um að koma alifugla- og svínarækt undir svipaðan klafa og þeir voru búnir að koma sauðfjár- og nautgriparæktinni. Gekk það svo langt að dag einn gaf landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins út reglugerð sem gekk út á, að lagt yrði á 200% kjarnfóðurgjald sem svo var kallað.

Í framhaldinu áttu síðan búgreinarnar sem fyrir þessu urðu að sækja um endurgreiðslu á hluta skattlagningarinnar í gegnum ,,bændamafíuna" sem Kári kallaði svo og hafði hreiður sitt hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Það mun hafa m.a. verið fyrir harða mótstöðu kúabænda sem gjaldið var lækkað eitthvað, en ,,bændamafía" þessa tíma virtist trúa því að ef grasi væri þjappað nógu mikið saman í þar til gerðum graskögglaverksmiðjum, væri gerlegt að fá úr kúnum mjólk sem þær væru fóðraðar á kjarnfóðri sem búið væri til að uppistöðu til úr korni.

Hvort þessi vísindi voru kennd í Bændaskólum er undirrituðum sem betur fer ekki kunnugt um!

Honum er heldur ekki kunnugt um hvernig fyrirkomulag endurgreiðslu á fyrrnefndum skatti á kúabændur var, hafi hún einhver verið, en alifugla- og svínabændur voru krafðir um framleiðsluskýrslur yfir framleiðslu sína og fengu síðan endurgreiðslu eftir einhverri reikniformúlu sem búin var til af spekingum annað hvort ráðuneytisins eða Framleiðsluráðsins fyrrnefnda.

Landbúnaðarráðherra nútímans ætlar sauðfjárbændum - og síðan öðrum kjötframleiðslubændum gerum við ráð fyrir - að leysa afsetningarvanda afurða sinna með öðrum hætti. Nú á nefnilega að hefja heimaslátrun og heimavinnslu sláturafurða.

Hugsanlega samt öðruvísi en þegar ritari keypti heimaslátrað kindakjöt af bónda nokkrum fyrir mörgum árum síðan og skrokkurinn hékk í fjárhúskrónni. Það var keypt í heilum skrokkum og engum varð meint af!

2020-05-28 (6)Myndin er fengin úr aðsendri grein í Bændablaðinu og mun sýna hvernig staðið mun að heimaslátrun sauðkinda í Bandaríkjunum.

Það verður líflegt í sveitunum á haustin og framleiðslukeðjan glæsileg þegar kindurnar, en þessi nútímalega aðferð slátrunar verður innleidd til að byrja með, varðandi sauðkindur, verða aflífaðar heima á sveitabæjunum samkvæmt því sem fréttir hafa af borist.

Verða sem sagt aldar upp í fjárhúsi, túnum, högum, hálendi landsins og að lokum fitaðar á fóðurkáli þegar haustar. Í framhaldi af fjárhúsinu mun koma sláturhús og þar á eftir vinnslusalur, kælar og frystar og síðast af öllu hugguleg verslun eða jafnvel veitingasalur í enda herlegheitanna.

Framtíð íslensks landbúnaðar er svo sannarlega björt og hugmyndaauðgin til lausnar á vanda afsetningarinnar á framleiðslunni ríður ekki við einteyming.

Á árum áður var áherslan lögð á að leysa landbúnaðarvandann með því að búa til annan vanda og meiri. Á því virðist engin breyting ætla að verða og snuðið er sykrað.

2020-05-28 (7)Þessi mynd er úr sömu grein í Bændablaðinu og hin myndin hér fyrir ofan og mun sýna glaðbeitta Bandaríkjamenn við heimaslátrun þar vestra.

Auðvitað má síðan útfæra þetta mun lengra með matsal og öllu tilheyrandi og jafnvel gistiaðstöðu svo segja megi, að ,,vinnslan" fari að öllu leyti fram ,,heima", samanber ,,holt er heima hvað" o.s.frv.

 


Bloggfærslur 19. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband