,,Eftirþankar Jóhönnu"

Núverandi ríkisstjórn hefur reynt að mynda samband við stjórnarandstöðuna og ekki að ástæðulausu. Ástæðan blasir við öllum sem vilja sjá: annar stjórnarflokkurinn er tæpast stjórntækur vegna sundurlyndis. Formaðurinn er að því er virðist sá eini sem sýnir ábyrgð og hlutverk hans er ekki öfundsvert, en það er samt það sem hann kaus sér, ekki vildi hann vera með er Samfylkingin var stofnuð, til þess átti hann sér of mikla drauma um eitthvað sem margir aðrir skyldu ekki og kannski gerir hann það ekki sjálfur.

Líkast til snerist draumurinn um að komast til valda og hann rættist, en ekki eins og óskað var. Völdin eru að mestu í plati, hrunsmiðirnir sáu fyrir því og nú er svo komið að þeir sem hafa býsnast yfir hve duglegur Steingrímur var að vera á móti, geta nú býsnast yfir því hve duglegur hann sé; undirritaður líka. Hann er í stöðu mannsins sem ekki ræður sér sjálfur vegna þess að efnahagslegt sjálfstæðið er fokið út í veður og vind. Frjálshyggjuliðið sá til þess og nú er það komið í hlutverk púkans á fjósbitanum, púkans sem öllu vill spilla og sem flestu illu koma til leiðar, eða hugsa þau kannski dýpra? Ætli það ekki, vitanlega gera þau það, auðvitað er það viljinn til að hylja sem ræður för. Draumurinn er að komast aftur inn í stjórnarráðið og það sem fyrst; til þess að geta verið í aðstöðu til að sópa undir teppið. Koma þar fyrir helst öllum sönnunargögnum sem fyrir finnast um framferði þeirra síðastliðna áratugi.

Helmingaskipti hafa það verið kölluð og helmingaskipti voru það. Landsbankinn til okkar og Búnaðarbankinn til ykkar o.frv. o.frv. Áður fyrr: Þið hafið SÍS og Esso við Eimskip Shell og Olís og allt er gott þegar hermangið er búið að skila því sem við viljum í gegnum Reginn og ÍA. Mökkum rétt með Kananum, styðjum hann í öllum hans fólskuverkum: Víetnam, Dóminikanska lýðveldið, Kúba, Chile, já, allt sem þeim bara dettur í hug og endilega drepa sem flesta í Írak og taka almennilega þátt í því! Segja þessum Hússein stríð á hendur, senda einn hermann, það hefur okkur upp á æðra stig, ekki gleyma að Bush er einkavinur Davíðs, eða svo heldur Davíð og Halldór fær að vera með!

Þetta var það sem þjóðin kaus yfir sig hvað eftir annað og af því súpum við seyðið núna. Gjaldþrota, trausti rúin og talin til þjófa. Arfleifðin er glæsileg, sem þeir skilja eftir sig Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, ekki verður því neitað. Hafi ætlunin verð að koma þjóðinni niður í það neðsta þá tókst það bara vel, núna kemur það í hlut annarra að rétta af kúrsinn, en hvort þeim tekst það er ekki gott að segja.

En eitt er víst: Þau munu ekki njóta aðstoðar hrunsmiðanna í því verki og ættu kinnroðalaust að gera allt sem hægt er til að halda þeim sem lengst frá öllu sem máli skiptir, því meiri líkur eru til að þeim takist ekki að skemma og spilla því sem gera þarf.


mbl.is Trúnaðarbrestur stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir góða hugleiðingu Ingimundur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.9.2009 kl. 10:20

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ingimundur. Sammála þér. Megi bara allt forða þjóðinni frá enn meiri skaða af þeim sem komu Ísandi í gjaldþrot og þykjast svo vera bestir í lausnum. Vona að íslendingar geti fundið í sinni innstu sannfæringu og skoðun að við megum ekki við meiri afglöpum frá gamla genginu.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 19.9.2009 kl. 23:03

3 identicon

Heill og sæll; Ingimundur - sem og, þið önnur, hér á síðu !

Ingimundur - Ólína og Anna Sigríður !

Hafið þið ekki tekið eftir; þá eru núverandi valdhafar, beint framhald þeirrar rolusveitar, hver frá fór, 1. Febrúar síðast liðinn, svo, ......... verulega eruð þið skynseminni firrt, haldið þið, að þetta lið, sem nú situr, muni nokkru í lag koma.

Kostuleguur væri; kattarþvottur ykkar kratanna - að þið hafið enga ábyrgð borið á þjóðfélags hruninu, ef alvara mála væri ekki, sem raunin er.

Ólínu; verður að virða til vorkunnar, að digurt launaumslag hennar - hverra mánaðarmóta, slævir hennar dómgreind, fyrir þeim harmkvælum, sem þorri Íslendinga býr við, þessi misserin - sem; á annað borð eru ekki fluttir af landi brott. Dómgreind hennar (Ólínu); er nú ekki meiri en svo.

Lengi vel, hugði ég Ólínu, mannkostum góðum búna, en,....... hún er, því miður, enn einn gagnrýnislaus attaníossi Samfylkingar forystunnar. Þá er ei, á góðu von, svo sem.   

Ingimundur !

Ég hefi; nú þegar í huga mínum - sveit 6 manna, hverja ég vildi sjá í utan þingsstjórn, allir; úr ýmsum greinum atvinnulífsins - til sjávar, sem sveita, svo ég komi með úrbóta ábendingu, nokkra.

Með beztu kveðjum; úr Hveragerðis og Kotstrandar sóknum /

Óskar Helgi Helgason     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 16:02

4 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæl öll og þökk fyrir góð orð. Ólína og Anna Sigríður, við skulum svo sannarlega vona að þjóðin beri gæfu til að halda þessum öflum þar sem þau eiga að vera og jafnframt að þau sem núna halda um taumana beri gæfu til að standa sig í stykkinu. Við vitum að það er ekki auðvelt eins og málum er komið,  en: oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Ég óska þeim að minnsta kosti alls hins besta; vona bara að VG springi ekki á limminu!

Óskar, erum við þá bara öll kjánar nema þú og hinir sex vinir þínir? Af hverju finnurðu ekki átta, því þá myndi þetta hljóma svo vel: ..........einn og átta...!

Bestu kv. úr Flóanum! 

Ingimundur Bergmann, 20.9.2009 kl. 18:27

5 identicon

Komið þið sæl; að nýju !

Ingimundur !

Ég hefi ekki; fram til þessa, reynt þig að útúrsnúningi - né; orðhengilshætti í orðræðunni, en,......... trúarbrögðin geta verið ill viðureignar, ekki hvað sízt FLOKKS trúin þín, búhöldur góður.

Ég gat þess einungis; að þá 6, hafi ég fundið - hvergi; að það væri hinn endanlegi fjöldi manna. Ég tala þarna; af fyllstu einlægni - sem meiningu, hafir þú eitthvað misskilið, Ingimundur.

Það er óhugnanlegt; þegar mætasta fólk, sem þú Ingimundur, virðist haldið þeirri bábilju, að einungis ein skoðun; og bara EIN, skuli fylgja fólki, út lífið, eins og aumkunarverð hollusta þín, við hráskinnana í Samfylkingunni, gefur til kynna.

Mér er til efs; að Azteka prestarnir, suður í Guatemala og Mexíkó, á sinni tíð, hafi verið eins einþykkir, í garð mannfórna safnaða sinna - sem þessi óartarlega forysta  Samfylkingar; ykkar kratanna - hvað skilyrðislausa undirgefnina snertir - á hverju, sem gengur.

Með; beztu kveðjum þó, á ný /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 19:44

6 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Óskar Helgi, þú hugsar svo djúpt að ég næ bara ekki að fylgja þér eftir, en hafi ég snúið út úr fyrir þér er það miður. Bestu kv. í vestrið.

Ingimundur Bergmann, 20.9.2009 kl. 21:52

7 identicon

Komið þið sæl; enn á ný !

Já; Ingimundur. Hvar; ég hefi gruflað í austrænum - sem vestrænum heimspeki kerfum, ýmsum; á mínum yngri árum, get ég vart, ætlast til þess, að fólk geti fylgt mér eftir, að órannsökuðu - hvað þá; þegar hugmyndir stjórnmálamanna og Konunga og Keisara Fornaldar og Miðalda, eru mér ofarlega í ranni, suma dagana, svo sem.

Þakka þér; ágæta orðræðu - sem áður og fyrri, búhöldur góður.

Með beztu kveðjum; austur yfir fljót, sem áður  /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 00:54

8 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Ingimundur minn. Ekki lagast það ástandið vinur, enginskoðun uppi hjá blessuðum krötunum nema EB og Evra. Þetta er staða sem er vel kunnugleg. Eftir nauðganir og misþyrmingar hefur niðurstaðan oft orðið sú að afskrifa skrokkinn sem fyrir aðkastinu varð. Svo illa hefur krónunni okkar verið misþyrmt og nauðgað frá því hún var "getin" að kratarnir telja hana, ekki einu sinni vonarpening heldur handónýta. Hér fyrr á árum tóku þeir heilshugar þátt í að nauðga henni með helmingaskiptareglunni með Sjálfstæðisflokknum. Sá verknaður mun fylgja krötum á sama hátt og hann mun fylgja Framsóknarflokknum svo lengi sem hann ber það nafn. Það eina stjórnmálaafl sem er óflekkað af því að hafa nauðgað og misþyrmt krónunni okkar er einmitt VG og forveri hans Alþýðubandalagið. Það er alveg sama hvað kratar fella mörg krókódílatár, þeir eru jafn sekir Framsókn og íhaldi og geta ekki skýlt sér bak við fyrningareglur eða nafnabreytingar. Það grætilegasta við þetta allt saman er hvað margt vinstra fólk álpaðist til að elta kratana inn á miðju íslenskra stjórnmála þegar ljóst varð að Steingrímur átti ekki samleið með krötum. Við þetta verður þetta vesalings fólk að lifa á meðan þeir eru slegnir þessari blindu að sverja af sér gamlar syndir gagnvart krónuræflinum okkar sem þó augljóslega er að halda í okkur lífinu. Svo sérkennilegt sem það er nú, eruð þið kratar enn að afneita þessari einu lífæð okkar nú um stundir.

Þórbergur Torfason, 23.9.2009 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband