Innflutningur landbúnaðarvara.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins skrifar (23.09.2020) grein á vefmiðilinn Vísi, um misræmi talna varðandi innflutning á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu.

Svo virðist sem flutt sé mun meira út frá ESB til Íslands en flutt er inn til Íslands frá ESB, þ.e.a.s. af kjötvörum.

Sé þetta rétt, virðist sem um sé að ræða ,,rýrnun í hafi" eins og það mun einhvertíma hafa verið kallað, eða innflutning sem fer framhjá tollyfirvöldum. Með öðrum orðum smygl. Halla Signý hefur áhyggjur af þessum halla og rétt er að deila þeim áhyggjum með henni.

Í landinu er matvælaeftirlit og augljóst er að matvara, sem flutt er inn framhjá tollyfirvöldum, er líkleg til að komast framhjá heilbrigðisskoðun.

Halla segir í greininni: ,, Hér er um töluverðan mun að ræða sem telst jafnvel í hundruðum tonna í ákveðnum tollflokkum á þriggja ára tímabili. Til dæmis er misræmið á innflutningi á unnum kjötvörum 1.673 tonn."

Séu þessar tölur réttar er um talsvert magn að ræða eða sem svarar innihaldi um 45 fjörutíu feta gáma, eða með öðrum orðum, u.þ.b. einn slíkur í þriðju hverri viku.

Og höfum í huga að samkvæmt þingmanninum er þar eingöngu um að ræða ,,unnar kjötvörur".

Halla bendir á: ,,Það eru sameiginlegir hagsmunir bænda, neytenda og innflutningsaðila að það ríki heiðarleiki um viðskipti sem þegar hefur verið samið um."

Þingmaðurinn situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Flokkinn sem samdi á sínum tíma um innflutningsheimildir fyrir, m.a. nautakjöt, alifuglakjöt og svínakjöt og ráðherra flokksins var hreykinn af og sagði okkur að við ,ættum að vera hress' eða eitthvað í þá veru, í beinni sjónvarpsútsendingu.

Í greininni segir Halla: ,,Valinkunnir talsmenn frjálshyggjunnar bera sig aumlega undan tollvernd á íslenskum landbúnaðarafurðum og má skilja að hér sé um séríslenska tegund um að ræða líkt og íslenska sauðkindin. Það þurfi bara að spýta í lófana og fara í markaðsátak og nýsköpun og þá sé fullkomnum markaðsheimi borgið."

Og vegna þess að Halla nefnir til sögunnar íslensku sauðkindina, er rétt að skoða málið lítið eitt betur.

Þannig er, að þegar fyrrnefndur framsóknarráðherra flutti hvatningarorð til þjóðarinnar, þau sem áður voru nefnd, er hann var að dásama viðskiptasamning um matvörur, þá var það gert fyrir sauðkindina, hina séríslensku dýrategund svo vitnað sé í þingmanninn.

Það er reyndar ekki alveg rétt að gjörningurinn hafi verið gerður fyrir sauðkindina. Nær væri að segja: fyrir sauðfjárbændur, því gera má ráð fyrir að blessaðri sauðkindinni standi nokkuð á sama um, hvað um hana verður að slátrun lokinni. Hvaða skoðun hún hefur á málunum fram að því, treystum við okkur flest ekki til að segja mikið til um.

Höldum því til haga, að það er Framsóknarflokkurinn sem ber ábyrgð á samningnum sem gengið var frá haustið 2015. Það var Framsóknarflokkurinn sem var tilbúinn til að fórna hagsmunum þjóðarinnar og annarra búgreina fyrir ímyndaða hagsmuni sauðfjárbænda.

Í stað þess að taka með raunsæjum hætti á vanda greinar, sem er búin að vera í offramleiðsluvanda um fjölda ára, var farin sú leið, að reyna að velta vandanum yfir á aðrar búgreinar.

Það er hefur tekist bærilega og bitnar að líkindum langharðast á nautgriparæktinni sem er að framleiða dýrustu afurðina, afurð sem tekur tíma talinn í árum að framleiða.

Til samanburðar má taka, að það lítilræði af kjöti sem íslenska sauðkindin - sem Framsóknarflokknum þótti sjálfsagt og sjálfgefið að fórna hagsmunum annarra búgreina fyrir - verða til á einu ári, þó lömbin séu ekki nema nokkurra mánaða þegar þeim er slátrað.

Þingmenn Framsóknarflokksins ættu að hafa í huga, að það er Framsóknarflokkurinn sem ber fulla og óskoraða ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er varðandi innflutning kjötvara, þó ekki sé hægt að ætla þeim að bera ábyrgð á smygli á vörunni. Sé það á annað borð til staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband