Tvær greinar og báðar góðar.

Þeir skrifa báðir greinar í Morgunblað dagsins (11.9.2020) Benedikt Jóhannesson og Vilhjálmur Bjarnason.

Benedikt segir ríkisstjórnina vera örláta á almannafé og svo sannarlega er hægt að taka undir það.

Hann nefnir fjölmiðlastyrkveitingar sem fóru talsvert öðruvísi en margir höfðu ætlað að yrði, þar sem ,,flutu hundruð millj­óna til fjöl­miðla í einka­eigu" og bætir við:

,,Það er gam­an að vera ör­lát­ur á al­manna­fé. Flokk­arn­ir tóku strax í upp­hafi sam­starfs­ins þá snjöllu ákvörðun að spreða pen­ing­um úr vel stæðum sjóðum al­menn­ings í góðær­inu. Ég er bú­inn að gleyma því hvar í hag­fræðibók­un­um það stend­ur að rík­is­sjóður eigi að vera í mín­us þegar vel árar, en stjórn­inni tókst það í hag­vext­in­um í fyrra."

Bendir síðan á að bændur séu launalægsta stétt landsins og segist hafa rætt málin við fyrrverandi formann Bændasamtakanna og hafi lagt til að: ,,sauðfjár­bænd­ur fengju pen­inga beint og mættu ráða því hvaða bú­skap þeir stunduðu. Fengju jafn­vel greiðslur fyr­ir að hætta bú­skap enda of­fram­leiðsla í gangi."

Þetta mun formanninum ekki hafa þótt góð speki og sagðist þurfa að hugsa um hag sauðfjárræktarinnar. Af því má draga þá ályktun að sauðfjárræktin sjálf hafi verið meira virði í huga formannsins en hagur þeirra sem búgreinina stunduðu!

Síðar snýr hann sér að útgerðinni og segir eftirfarandi:

,,Sum­ir vin­ir mín­ir rétt­læta gjöf rík­is­ins til út­gerðarmanna með því að þeir séu svo dug­leg­ir og nefna þekkt hörku­tól. Mikið væri gam­an að sjá þessa fé­laga mína hand­velja þann hluta þjóðar­inn­ar sem á skilið að fá sér­staka umb­un frá rík­inu fyr­ir dugnað. Rík­is­stjórn­in myndi fagna þeim liðsauka."

Bætir síðan við:

,,Sagt er að eng­inn sinni því sem all­ir eiga. Það er ábyrgðar­hluti að vera vörslumaður al­manna­fjár. En auðvitað er miklu skemmti­legra að eyða allra fé."

Vilhjálmur Bjarnason vitnar í gaura sem undirrituðum eru óþekktir, enda ekki innvígður í viðskiptafræðina og fyrirsögn greinar hans er ,,Modigliani & Miller".

Eftir að hafa farið vítt yfir í skemmtilegri grein, þar sem reynt er að skýra í stuttu máli að stundum getur verið nauðsynlegt að styðja við kerfislega mikilvæg fyrirtæki eins og til að mynda Icelandair lýkur hann grein sinni með þessum orðum:

,,Rík­is­ábyrgð á lán­um er reikn­ings­dæmi. „Stærðfræði er aungri náms­grein lík. Að reikna, það er eins og að sjá sól­ina koma upp mörg­um sinn­um á dag.“"

Við tökum undir það og bætum í jöfnuna frétt sem lesa má í Morgunblaðinu í dag, þar sem greinir frá því að:

,,Krafa var lögð fram í gær í Héraðsdómi Reykja­ness þar sem farið var fram á gjaldþrota­skipti flug­fé­lags­ins Play."

Sumir hafa tjáð sig á þann veg í umræðunni að undanförnu að stofnun flugfélags sé ámóta verkefni eins og að snýta sér úr nös.

Vitanlega er svo ekki og mættu margir sem látið hafa vaða á súðum hvað það varðar hugsa sinn gang.

Á það jafnt við óbreytta, sem forystumenn verkalýðsfélaga og ýmsa aðra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband