Bot­anisk Have

2020-07-03 (2)Við sem komið höfum í Botanisk Have gleymum því ekki, og þessi frétt minnir mig á hve langt er liðið síðan við hjónin sáum þann fallega garð.

Það mun hafa verið verið árið 1986 sem þáverandi heildverslun Guðbjörns Guðjónssonar bauð viðskiptavinum sínum í ferð til Danmerkur. Rausnarlegt boð, þar sem vel var gert við alla sem í ferðina fóru og sem hefur verið þeim sem þátt tóku lengi í minni.

2020-07-02 (2)Fararstjórar voru þeir Agnar Guðnason sem stýrði bændaferðum til útlanda í áratugi og Sigurdór Sigurdórsson sem síðar varð blaðamaður á Bændablaðinu.

Hér til vinstri sést Sigurdór fagna sjötugsafmæli sínu

Guðbjörn Guðjónsson var stórhuga maður og seinna meir stóð hann að byggingu Hótel Holiday Inn í Reykjavík.

Margir höfðu góða sögu að segja af viðskiptum við heildverslun Guðbjarnar Guðjónssonar og ég minnist þeirra samskipta á þann veg að þar hafi farið maður, sem var á undan sinni samtíð. 

Flogið var frá Keflavík til Kaupmannahafnar og þaðan áfram til Billund og ekið með rútum til vesturstrandarinnar og gafst m.a. kostur að skoða hinar ,,alræmdu" dönsku heiðar. Höfðu menn á orði að ekki væru þær eins tilkomulitlar til búsetu og af var látið er til greina kom að flytja íslenska bændur á þær slóðir. Hugmynd sem er mun frekar dæmi um velvilja Dana í garð Íslendinga en hið gagnstæða.

Nú er engin íslensk heiði svo uppblásin og gróðursnauð að ekki þyki eftirsóknarvert að beita þar sauðfé, sem þarf síðan að snöggfita á grænkáli fyrir slátrun, þegar því hefur verið komið til byggða að hausti. Líklega hafa hinar dönsku heiðar verið of grösugar fyrir smekk landans á þeim tíma og ef til vill er svo enn.

Farið var á Agromek landbúnaðarsýninguna í Herning. Fóðurvöruframleiðandinn Korn og foderstof bauð ferðalöngunum til heilmikillar og ógleymanlegrar veislu, sem var eins og danskir gera best. Í ferðinni bauðst þeim sem áhuga höfðu á, að skoða svínabú og ekki má gleyma því að hópnum var boðið að skoða smíði í fóðurkerfi fyrir alifugla. Húsnæðið fyrir þá starfsemi var að sjá sem gömul útihús væru, en virtust hentug og hagkvæm fyrir þessa starfsemi.

2020-07-03 (7)Ferðinni lauk með gistingu á Admiral hótelinu í Kaupmannahöfn og gafst þá tækifæri til að skoða sig um í borginni við sundin og versla.

Við hjónin framlengdum ferðinni um nokkra daga til að geta notið þess að hitta ættingja sem bjuggu í borginni og það var þá, sem við sáum dýragarðinn og grasagarðinn og ýmislegt fleira.

_ _ _

2020-07-03 (8)Fyrr í þessari frásögn var minnst á smíði fóðurkerfis.

Þannig var að nokkuð margir þeirra sem ráku kjúklingabú á þessum tíma notuðust við fóðurkerfi þeirrar gerðar sem okkur bauðst að skoða smíðina á í ferðinni. Heildverslun Guðbjörns hafði milligöngu um kaup á slíkum kerfum. Við hjónin vorum að stækka bú okkar og þurftum á búnaðinum að halda. Þegar kom að því var umboðið komið til Mjólkurfélags Reykjavíkur og var því pantað þar.

Illa gekk að fá búnaðinn til landsins og var ýmsu borið við, þar til að innanbúðarmanneskja í MR upplýsti ritara um að kerfið hefði aldrei verið pantað og yrði ekki pantað, þar sem háttsettur maður innan fyrirtækisins vildi ekki að það væri gert. Sá vildi ekki aukna framleiðslu á kjúklingum; var sjálfur í þeirri framleiðslu og óttaðist samkeppni.

Það var sem sagt víðar en hjá Bændasamtökunum sem reynt var að leggja steina í götu hinna ,,óhefðbundnu" búgreina! 

Við fundum að lokum aðra leið til að kaupa umrætt fóðurkerfi framhjá MR og það kom til landsins með hraðsendingu, sem varð til að minnka tjónið sem annars hefði orðið. Við hugsum hlýlega til konunnar sem upplýsti framferði MR mannsins og einnig þeirrar sem gekk í að útvega kerfið þegar allt var komið í vandræði og nýbyggt eldishús stóð autt og engum til gagns.

 


mbl.is Mannabein á dönsku byggingarsvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband