Tryggingasjóður landbúnaðarins.

2020-05-20 (4)

Í gær gerðist það að mér voru send dónaleg skilaboð á Facebook og þó ekki sé að öllum jafnaði gaman að verða vitni að hugarfarsþrengslum og vanlíðan annarra, þá voru þau mér til góðs.

Viðkomandi ruglaði saman eplum og appelsínum, eða öllu heldur háfjöllum Jarðarinnar og hyldýpi sjávarins, sem vissulega tilheyrir Jörðinni líka, en er samt ekki það sama, að við teljum.

Svona ekki frekar en að -1 er sama og +1 að skilningi flestra, en um allt má þrasa.

Fyrrverandi formaður Bændasamtaka Ísland nefndi í viðtölum í fjölmiðlum svo við heyrðum, að ekki væri vansalaust að íslenskur landbúnaður hefði ekki bakstuðning af tryggingasjóði gegn áföllum líkt og væri með ESB- bændur.

Rétt er að taka fram að Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson hafði nokkuð oft orð á þessu, svo við sem hlustuðum heyrðum og hafði þá eflaust í huga að Bjargráðasjóður varð í raun óvirkur eftir að svokallað Búnaðargjald var dæmt ólöglegt.

Ekki reyndist Sindra unnt að ná því í gegn að bætt yrði úr hvað þetta varðaði og satt að segja var sem hann talaði fyrir frekar daufum eyrum og kannski er það svo að það er ekki fyrr en á reynir, að menn leiða hugann af alvöru til þessara hluta, en þá er það of seint.

Ekki þarf að hafa mörg orð um hvernig farið getur ef bændur verða fyrir alvarlegum skakkaföllum í búskap sínum, hvort heldur er vegna náttúruhamfara eða sýkinga af einhverju tagi í búfénaði. Afurðir búanna geta orðið verðlausar á einu augabragði, eða eins og sýnt var í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum kvöldum, að falleg og vel unnin tún verða sem auðn vegna kals.

Bóndinn sem rætt var við í fréttum sjónvarps hafði orðið fyrir því að tún hans höfðu kalið og ekki var svo að sjá sem þau myndu gefa af sér uppskeru sem nokkru næmi á komandi sumri. Fram kom í máli hans að líklega væri Bjargráðasjóður fjárvana og ekki mikils þaðan að vænta.

Fyrrverandi formaður Bændasamtakanna hafði rétt fyrir sér og það þarf að bregðast við og búa til kerfi sem tryggir bændur gegn áföllum.

Við vitum, eftir að hafa fylgst með fréttum undanfarna áratugi, að ein búgrein er betur í stakk búin til að taka áföllum en aðrar og kemur það til að hrakförum sem yfir hana hafa dunið á liðnum öldum og velvilja stjórnvalda. Sauðfjárræktin nýtur trygginga gegn a.m.k. helstu vánni sem yfir henni vofir og oftast heyrist um, þ.e. riðuveikinni.

Ýmislegt fleira getur samt herjað á þá búgrein sem aðrar, bæði vegna sjúkdóma í fénaðinum, sýkinga af völdum súna og náttúruaflanna, sem geta komið illa við þar sem annarstaðar. 

Því má fullyrða að bændur þurfa nauðsynlega á tryggingasjóði að halda.

Væri ekki gott verkefni fyrir nýkjörna stjórn Bændasamtakanna, að fara í þá vinnu að koma á koppinn tryggingasjóði í samstarfi við ríkisvaldið til að vera bændum landsins bakhjarl ef kemur til skilgreindra áfalla í búrekstrinum.

Sindri virtist vita talsvert um tilvist hins evrópska tryggingasjóðs og ótrúlegt annað en að hann væri til í að vísa mönnum áleiðis í verkefninu.

Og þar sem búið er í raun, að opna fyrir innflutning á landbúnaðarvörum Evrópusambandslandanna til Íslands (nema kindakjöti!), þá gæti verið skoðandi að stíga skrefið til fulls og leita eftir tengingu við hinn evrópska tryggingasjóð.

_ _ _

Myndin sem er hér fyrir ofan er fengin úr Bændablaðinu. Þar sést formaður Bændasamtakanna í góðum félagsskap, m.a. fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra. Þeir eru í frekar góðum gír þessar vikurnar og til í að gera margt fyrir marga og því ekki að gera eitthvað gott fyrir alla bændur, en ekki einungis sauðfjár og garðyrkju?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Eftir birtingu greinarinnar sá ég að á síðunni naut.is er verið að kynna mönnum að þeir geti sótt bætur til Bjargráðasjóðs, þannig að enn virðist vera eitthvað til þar.

Sjá: https://naut.is/frettirnar/baetur-vegna-girdinga-eda-kaltjons/

Ingimundur Bergmann, 20.5.2020 kl. 15:09

2 identicon

Sæll Ingimundur. Vildi bara benda þér á að þeir bændur sem verða fyrir því óláni að fá riðuveiki verða alltaf fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni, svo ekki sé minnst á tilfinningalegt. Vinsamlegast ekki halda öðru fram, þótt þeir fái vissulega einhverjar förgunar- og afurðatjónsbætur. Duga til dæmis engan veginn fyrir kaupum á nýjum stofni. Annars góður..

Jón Gíslason (IP-tala skráð) 20.5.2020 kl. 22:43

3 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæll Jón Gíslason.

Ég get ekki séð að ég hafi verið að halda einhverju sérstöku fram um þau mál. Annað en að geta þess augljósa að þeir fá bætur frá ríkinu ef þeir fá riðu.

Ég ætla rétt að vona að þú sért ekkki að halda því fram að bændur annarra búgreina verði ekki ,,fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni, svo ekki sé minnst á tilfinningalegt", þegar óhöppin lenda á þeim?

Við sem höfum lent í tjónum þekkjum ágætlega þessi mál. 

Ingimundur Bergmann, 21.5.2020 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband