,,Borg óttans" og landbúnaðarpólitík.

Eftirfarandi texta mátti lesa í auglýsingu Bændablaðsins á auglýsingasvæði þess á Facebook 13.05.2020:

,,Við á Bændablaðinu hvetjum rekstraraðila í ferðaþjónustu til þess að auglýsa í málgagninu. Fólk mun ferðast innanlands og lúslesa Bændablaðið fyrir brottför, hvort heldur sem er úr borg óttans eða hinum dreifðu byggðum"

2020-05-13 (2)Ekki um að ræða nema eitt sveitarfélag í landi okkar, sem ber ,,titilinn" borg.

Við vitum því öll, að átt er við Reykjavík og það má gera ráð fyrir, að af sveitarfélögunum séu Reykvíkingar stærstu kaupendur á framleiðsluvörum bænda. 

Og þeir, þ.e. Reykvíkingar, eru óttaslegnir að mati blaðsins, því borgin sem slík, magnar ekki með sér ótta við eitt né neitt.

Þetta eru skrýtnar kveðjur til góðra viðskiptavina. Rétt er að taka fram að upplýst er að kveðjan var sett fram í einhverskonar ,,galsa" og allir eiga jú rétt á leiðréttingu orða sinna, en er nú samt enn finnanleg á síðunni ,,Umræður um Landbúnaðarmál", eins og sú ágæta síða heitir! 

Eru fulltrúar bænda, sem vel að merkja halda til við Hagatorg í Reykjavík, ,,borg óttans", haldnir ótta sem er þeim svo þrúgandi að þeir þoli ekki við og ef svo er, hvað er það þá sem veldur?

Eru þeir kannski farnir að átta sig á, að tilvera þeirra sem fulltrúar bænda er afar fallvölt svo ekki sé meira sagt.

Landið getur nefnilega skriðið nokkuð hratt undan þeim sem byggja á sandi. Það er að minnsta kosti betra að vel sé frá öllu gengið!

Og þar stendur hnífurinn í vorri kú, eða öllu heldur kind, því á nýlega afstöðnu Búnaðarþingi láðist mönnum að leggja vinnu í að ganga frá undirstöðunni undir Bændasamtökum Íslands.

_ _ _

Það kraumar óánægja í grasrótinni, þ.e.a.s. meðal bænda. Og þá er átt við fólkið sem er að reyna að skapa sér vinnu og framfærslu af landbúnaði og margir spyrja sem svo:

Hvað er landbúnaður?

2020-04-29 (3)Er það t.d. frístundabúskapur fólks sem er með með kindur sér til skemmtunar? Styrkjakerfi sauðfjárræktarinnar segir já, og styður þar með tómstundabúskap sem er í beinni samkeppni við þau, sem eru að reyna að lifa af búgreininni.

Allt annað á síðan við þegar kemur að öðrum búgreinum, þær eru einfaldlega ekki ríkisreknar til útflutningsframleiðslu.

Hrossabúskapur er til að mynda ekki á spena ríkisins, þó þar sé um að ræða útflutningsgrein sem gefur af sér tekjur inn í þjóðarbúskapinn.

Hross, hundar og kettir, svo dæmi séu tekin, eru ekki flokkuð sem búskapur né landbúnaður sem þurfi að styrkja af almannafé, en svo er um frístundaeldi sauðfjár!

Að halda gælukindur sér til dundurs er landbúnaður að mati löggjafans og skal meðhöndlast sem slíkur og er styrktur með ýmsu móti. Styrktur með fjármunum almennings.

Ljóst er að varla er raunhæft að stunda landbúnaðarframleiðslu á Íslandi, frekar en í öðrum löndum og engan veginn með sauðfé, án stuðnings í einhverju formi frá hinu opinbera og æði margar þjóðir gera sér grein fyrir þeirri staðreynd og styrkja sinn landbúnað.

Og hafa verður í huga, að landið er opið fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum annarra landa.

Nema kindakjöti!

2020-04-29 (2)Því þess er gætt að tolla það þannig að ekki sé grundvöllur fyrir að flytja það inn. Sem er skiljanlegt þegar það er haft í huga, að íslenska ríkið er stórframleiðandi á kindakjöti og þar á meðal til útflutnings. Útflutnings sem er stundaður með stórfelldu tapi.

Gerðir eru búvörusamningar um garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt. Auk þess má nefna að svínaræktinni var rétt lítil og visin hjálparhönd til að úrelda hús sem ekki voru lengur talin nothæf vegna nýrrar aðbúnaðarreglugerðar.

Aðrar greinar urðu líka fyrir búsifjum vegna þeirra reglugerðabreytinga. Svo sem alifuglarækt- og kúa. Ekki þótti samt ástæða til að bregðast við því og það þrátt fyrir að reglugerðirnar hefðu teknar upp að fyrirmynd ESB- landanna!

Hjá Evrópusambandinu þótti hinsvegar eðlilegt að bæta mönnum tjón og kostnað sem hlytist af breytingum á rekstrarumhverfi. Breytingar sem menn hefðu ekki getað reiknað með þegar út í reksturinn var farið.

Þótti ekki eðlilegt og siðlegt, að samfélagið breytti grundvelli atvinnurekstrar með óvæntum breytingum án þess að þeim sem fyrir urðu væri bætt tjónið.

Siðferði af því tagi gildir ekki á Íslandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband