Fylgispekt

Stundum gerist það í náttúrunni að t.d. dýrin ruglast. Nýlegt dæmi um það er hænan og stokkandarungarnir sem sagt hefur verið frá í fréttum. Þar gerðist það að andarungar, sem misst höfðu móður sína, tóku upp á því að fylgja vinalegri hænu hvert spor og virðast líta svo á að hún sé kjörin móðir, þó hún hafi vissulega þann eðlislæga galla að kunna ekki að baða sig í vatni.

Finna má líkingu með þessu, þegar haft er í huga að núverandi Bessastaðabóndi hefur lagt lag sitt sérstaklega við hið framsækna Asíuríki Kína. Hann og ýmsir fleiri virðast líta svo á að þar sé mannúðin mest, hjartaþelið einlægast og ef til vill telur hann einnig, að hið margrómaða víkingaeðli smáþjóðarinnar fái  best notið sín í innilegu sambandi við hina asísku stórþjóð.

Nágrannaþjóð okkar Norðmenn hafa ekki reynst vera eins fylgispakir við hina framsæknu þjóð í austrinu og hafa uppskorið fálæti og sniðgöngu að launum. Norðmenn virðast ekki hafa í eðli sínu eiginleika andarunganna fyrrnefndu, að elta af fylgispekt hinn stóra og gera sem þeir geta til að uppfylla óskir hans og kröfur.

Hugsanlega ættu þeir að snúa sér til hins ómissandi íslenska forseta og fá hann til að halda í Noregi námskeið í flaðri og fylgispekt við hvern þann sem sýnist vilja breiða hina algóðu áru sína yfir viðkomandi. Aldrei að vita nema að eftir nokkurra tíma blaðurnámskeið  af hans hálfu, gæti Norðmönnunum tekist með einbeittum vilja að loka samvisku sinni svo, að þeir gætu fallið í kramið hjá stórþjóðinni.

Þar með væri samskiptavandi þjóðanna leystur, allt gæti fallið í ljúfa löð þeirra í milli, samviska Norðmanna  yrði ótrufluð af ótímabætum verðlaunaveitingum til ,,óæskilegra“  íbúa í Kína, að því ógleymdu að íslenski forsetinn gæti skreytt hnappagat sitt með þeirri rós að hann hefði lagt sitt að mörkum til að finna lausn á samskiptavanda þjóðanna fyrrnefndu. Væri búinn að kenna lexíuna um hvernig bæld og niðursoðin samviska reynist best þegar sýna á fylgispekt.

Annars er það þannig að þjóðirnar tvær, hin íslenska og sú kínverska, eiga ýmislegt sameiginlegt þó ólíkar séu. Saga beggja greinir frá því að þær hafi báðar verið misheppnar með leiðtoga, sú stærri í árþúsund en hin minni í nokkur hundruð ár. Báðar hafa glatað sjálfstæði sínu og síðar endurheimt það. Í nútíma eiga þær það báðar sameiginlegt að íbúar þeirra eru frjálsir innan gæsalappa, önnur býr við harðstjórn, en hin býr við afleiðingar óstjórnar, ofmetnaðar, minnimáttarkenndar (sem braust út í oflæti) og þjóðrembu.

Kínverjar geta, ef þeir eru á réttum stað í samfélagi sínu, farið þangað sem þeir vilja og tekið eigur sínar með ef þeim sýnist svo. Íslendingar gátu, ef þeir voru á réttum stað í sínu samfélagi, farið með misvel fengnar eigur sínar í hin ýmsu skattaskjól heimskringlunnar. Það er hins vegar liðin tíð að íslenskir þjóðfélagsþegnar eigi greiða leið með sínar eignir til annarra landa. Óstjórnaræðið sá fyrir því og eftir situr þjóð í höftum. Hugarfarshöftum og gjaldeyrishöftum.

Eins og kunnugt er, þá vex fylgi við Hrunflokkanna í réttu hlutfalli við árangur ríkisstjórnarinnar við að krafla þjóðina út úr Hruninu og fylgið við inngöngu í Evrópusambandið minnkar í réttu hlutfalli við aukin gjaldeyrishöft.   Af því hlýtur að mega draga þá ályktun að hinn alsæli Mörlandi vilji hafa ástandið svona.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband