Draumur prinsins

Flótti er brostinn í liðið sem notað hefur Morgunblaðið og bloggsvæði þess til skoðanaskipta; áskrifendum fækkar og bloggarar flytja sig yfir á önnur svæði. Dapurlegt er þegar annars ágætur fjölmiðill glatar svo tiltrú að jafnvel harðir og yfirlýstir sjálfstæðismenn sjá sér ekki annað fært en að færa sig annað og segja upp blaðinu. Sá sem þetta skrifar mun víst seint teljast til sjálfstæðismanna, en hefur átt samt sem áður hin bestu samskipti við þá um dagana, samskipti sem byggjast á því að heimilt sé að vera ósammála í umræðunni og að það geti skapað frjóasemi í skoðanaskiptum.

Nú er hins vegar svo komið að við miðlinum góða sem, þrátt fyrir hægri slagsíðu, var opinn og þokkalega víðsýnn í ritstjórn sinni, að þar er að kominn ritstjóri sem hefur ekki það umburðarlyndi sem áður var. Hér er kominn fram á völlinn maður með afar sterkar skoðanir og það eru skoðanir sem undirritaður deilir ekki með hinum nýja ritstjóra.

Hinn nýi ritstjóri virðist eiga sér þá ósk heitasta að til valda í íslensku samfélagi verði leitt það svartasta afturhald sem þjóð okkar hefur af sér alið, að undanskildum þeim sem ekki eru taldir viðræðuhæfir í umræðu dagsins.

Draumur íhaldsprinsins er sem sagt sá, að til þess að geta sundrað þeirri ríkisstjórn sem nú situr, þá muni öfgaöflin innan Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna taka höndum saman, þannig að eftir verði tekið og um getið í sögu þjóðarinnar um ókomna tíð. Hugmynd ritstjórans er sem sagt sú að mynduð verði minnihlutastjórn þar sem VG- ingar fari með ráðuneytin með stuðningi Sjálfstæðisflokksins þ.e. þess hluta hans sem hallastur er undir það að gæta hagsmuna kvótagreifa og þeirra sem áður tilheyrðu kolkrabbasamfélaginu.

Hvort þessar hugmyndir verða að raunveruleika veltur vitanlega á afstöðu og viðhorfi þeirra sem telja sig til vinstri í íslenskri pólitík og þá fyrst og fremst svokallaðrar órólegu deildar innan VG. Þau reyna svo sannarlega á þolrifin í samfylkingarfólkinu þessa dagana og fróðlegt verður að sjá hvort sundurlyndisfjandinn mun halda þeim við efnið hér eftir sem hingað til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband