Mútur og virkjanir

Telja verður líklegt að þeir verði ekki verkefnalausir fulltrúar umhverfisins á næstunni. Fréttirnar streyma og svo er að sjá sem mörg sé músarholan fyrir þá sem ala vilja á tortryggni.

 

Mörður Árnason var ekkert að skafa utan af því í pistli sínum Eyjunni og kallaði það mútur að Landsvirkjun skyldi hafa greitt Flóahreppi fyrir útlagðan kostnað vegna skipulagsvinnu sem af því hlaust að Urriðafossvirkjun yrði sett á aðalskipulag. Ástæða þess að Mörður kemst að þessu er að Samgönguráðuneytið komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að hreppnum hefði ekki verið heimilt að taka við slíkum greiðslum og samkvæmt því hefði hreppurinn átt að senda reikninginn til fyrirtækisins eftir að skipulaginu var lokið. Vaknar þá sú spurning, hvort sveitarfélög sem lítilla sem engra hagsmuna eiga að gæta, eigi að leggja í kostnað vegna skipulagsvinnu sem þau hafa nær enga hagsmuni af að fram fari.

 

Eins og kunnugt er þá er lagaumhverfi þannig háttað að virkjanir skila einungis tekjum til þess sveitarfélags sem stöðvarhús virkjunarinnar er og af því sést að það getur ekki verið hagsmunamál fyrir Flóahrepp að virkjunin sé byggð, því hreppurinn mun í framtíðinni hafa litlar sem engar tekjur af framkvæmdinni. Þetta er umhverfið sem búið er við, Mörður hefur setið á þingi og þar hefði honum verið í lófa lagið að berjast fyrir breytingum á þessu lagaumhverfi. Ekki er vitað til að þingið hafi sýnt mikinn áhuga á málinu, þar hefur fólk verið upptekið við annað og að Mörður hafi ekki gengið fram í málinu getur hugsanlega stafað af því að hann hafi ef til vill ekki áhuga á að virkjað sé, þó gera megi ráð fyrir að hann kunni vel að meta þau þægindi sem rafmagninu fylgja.

 

Árna þáttur Finnssonar er annars eðlis að ýmsu leiti. Hann hefur til langs tíma verið í krossferð gegn öllu sem hann telur verða til þess að laska umhverfið og náttúru landsins. Óþreytandi hafur hann staðið vaktina og barist gegn flestu því sem mönnum hefur dottið í hug að gera til að skapa sér lífsviðurværi af nýtingu hvers kyns auðlinda og víst er rétt að taka undir með honum, að brýnt er að ganga gætilega um gleðinnar dyr í þeim efnum. Hann hefur, a.m.k. í seinni tíð, gert sér far um að vera málefnalegur í málflutningi og það hefur örugglega orðið til þess að meira sé á hann hlustað. Hitt er, að ekki hefur verið bent á það velferðarsamfélag sem ekki lifir af landi sínu, en vitanlega er ekki sama hvernig það er gert, en í seinni tíð virðist sem menn séu almennt sammála um rétt sé að ganga hægt um gleðinnar dyr í þeim efnum.

 

Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár hljóta í flestu tilliti að teljast einhverjar þær álitslegustu sem völ er á, sé á annað borð æskilegt að virkja vatnsföll. Umhverfisspjöll verða hverfandi, ekki síst vegna þess að ofar í ánni er þegar búið að byggja þau miðlunarmannvirki sem notast munu við fyrirhugaðar virkjanir, því liggur í augum uppi að hér er um vænlega virkjunarkosti að ræða og ekki síst með tilliti til umhverfisáhrifa, þar sem þau verða með minnsta móti.

 

Nú er sem sagt upplýst að það eru fleiri sveitarfélög en Flóahreppur sem fengið hafa greiðslur frá orkufyrirtækjum, því samkvæmt fréttinni um Orkuveitu Reykjavíkur, þá er svo að sjá að hinir ógurlegu glæpir, sem þeir félagar telja vera, séu nær þeim en margur hugði.

 

Eftir stendur hið augljósa, að bráðnauðsynlegt er að breyta lögum varðandi aðstöðugjöld af orkuverum, þannig að ekki skipti máli hvar stöðvarhúsið er, nema það sé vilji löggjafans að slíkum mannvirkjum verði framvegis fundinn staður á mörkum sveitarfélaga og þá væntanlega í árfarveginum miðjum!


mbl.is OR greiðir Ölfusi 52,2 milljónir króna fyrir aukið álag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein og þörf. Þetta er kjarni málsins.

Kveðja.

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband