Veruleikaflóttinn

Sigmundur Davíð, Höskuldur, Vigdís, Birna.......  Hvað skyldi nú vera sammerkt með þessu fólki?

Jú, það er til dæmis það að það fylgir Framsóknarflokknum að málum, flokknum sem stjórnaði í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum málefnum þjóðarinnar samfellt í 12 ár. Það eru einmitt árin sem talin verða til þeirra svörtustu í sögu hennar er fram líða stundir, það er nefnilega líklegra en hitt, að er hlutirnir verða gerðir upp, þá verði flokkar metnir af árangri gjörða sinna og þá vega vitanlega þungt þau tímabil sem þeir hafa haldið um stjórnartaumana.

Ef svo færi að af þessum og fleiri þingmönnum molnaði hræsnishjúpurinn og þeir færu að horfast í augu við ábyrgð flokka sinna á hinu algjöra hruni sem orðið er í samfélaginu, þá er hætt við að stóryrðaforðinn dygði þeim ekki til að lýsa vanþóknuninni á niðurstöðunni. Ekki er nóg með að orðið hafi efnahagshrun af nýrri og áður óþekktri stærðargráðu, heldur hefur líka orðið nær algjört hrun á þeim gildum sem áður voru virt. Í dag er traustið nánast horfið; stjórnvöldum er ekki treyst, ekki alþingi, né ýmsum þeim stofnunum sem almenningur í landinu bar áður traust til. Þegar svona er komið þá er afar stutt í að innviðir samfélagsins láti undan; lög og regla séu ekki virt, orð og heit séu einskis virði og ekki þyki nein sérstök ástæða til að samningar milli manna séu virtir svo dæmi séu tekin.

Þetta er það sem blasir við öllum nema framsóknarmönnum, sumum og reyndar er ekki svo að sjá og heyra að sjálfstæðisfólkið á þingi hafi áttað sig. Svo merkilegt sem það er þá sýna þau ekki mörg að þau séu tilbúin að axla sína ábyrgð og er hún þó hreint ekki minni en framsóknarflokksins og það dugar ekki til að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þó þann dug í sér að skipa sér nefnd til að fara yfir og greina hvað flokkurinn hefði gert rangt í hinni óralöngu stjórnarsetu. Nefndin skilaði áliti sem fyrrverandi flokksformaður tætti í sig á landsfundi, sem frægt varð og hinir sauðtryggu landsfundarfulltrúar klöppuðu og risu úr sætum í algjörri firringu flokksræðisins. Samkuntan minnti á þessu augnabliki á keimlíkar samkuntur á öðrum þingum í öðrum löndum, löndum alræðisins.

(Eitt afl til viðbótar er í stjórnarandstöðu á alþingi, sem alls ekki er ástæða til að nefna í þessu samhengi, en af skyldurækni skal það þó gert, það kennir sig við borgara og virðist vera til sölu hæstbjóðanda og jafnvel þeim fyrsta ef ekki koma fleiri boð en eitt.)  

Íslensk þjóð getur ekki reiknað með að úr þessum áttum komi eitt eða neitt uppbyggilegt til lausnar á þeim vandamálum sem glímt er við og er það miður, því oft hefur kannski verið þörf, en nú er nauðsyn, að allir leggi sig fram.


mbl.is Samningurinn dæmir okkur til fátæktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta líkar mér!

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband