Vikulokin

Þátturinn „Í vikulokin” var í útvarpinu áðan, gestir þáttarins voru þau Gylfi Arnbjörnsson, Gísli Tryggvason og Jórunn Frímannsdóttir, ýmislegt athyglisvert kom fram í umræðum þeirra og umfjöllun um málefni líðandi stundar.

 

Talsvert var fjallað um tillögu Gísla Tryggvasonar sem hann setti fram nýlega varðandi uppkaup húsnæðislána og kynnti í Sjónvarpi og víðar nýlega. Tillagan er talsvert keimlík tillögu Framsóknarflokksins sem sett var fram í aðdraganda kosninganna og gekk út á að fella niður fimmtung af skuldum jafnt yfir og þótti æði mörgum, sem vonlegt var, að bæri keim af ýmsum öðrum tillögum þeirra sem settar hafa verið fram í kosningabaráttu og ekki þótt standast vitræna skoðun. Ein þeirra hlaut meira að segja brautargengi með fulltingi Sjálfstæðisflokksins, þ.e. tillagan um 90% lán til húsnæðiskaupa. Aðrar hugmyndir framsóknarmanna hafa sem betur fer ekki fengið undirtektir að neinu marki og er full ástæða til að fagna því, nógu slæmar voru afleiðingarnar af 90% ruglinu.

 

Gylfi Arnbjörnsson benti á í umræðunni að húsnæðislánin væru fjármögnuð að langmestu leiti með fjármunum lífeyrissjóðanna og því yrði það sjóðunum dýrt ef hugmyndir Gísla næðu fram að ganga. Jafnframt virtist hann hafa eðlilegar efasemdir um að rétt væri að slá striki yfir skuldir þeirra sem hefðu til þeirra stofnað til kaupa á hjólhýsum og annarri fjárfestingu af því tagi. Sjónarmið sem flestir geta líklega tekið undir: Því, af hverju að skerða kjör lífeyrisþega til þess að þurrka út skuldir sem stofnað var til vegna slíkra fjárfestinga og síðan hafa verið færðar yfir á húseignir sem veð. Sighvatur Björgvinsson skrifaði grein í Fréttablaðið um tillögur Gísla og niðurstaða hans var að þær væru ekki mikils virði.

 

Í máli Jórunnar komu fram viðhorf sem vert er að benda á og var það fyrst og fremst tvennt sem ég hnaut um. Hin unga kona greindi frá því, að hún ætti nærri 12 ára dóttur og stúlkunni þætti ekki gott að þurfa að hlusta á fréttir af Ameríkuflensunni sem nú gengur yfir heiminn og var svo að skilja, að hún væri þeirrar skoðunar að börn hefðu ekki gott af að heyra allar þær neikvæðu fréttir sem nú berast inn á heimili landsmanna. Er víst að þetta sé rétt, að best sé að halda börnunum utan við það sem á gengur, vernda þau frá öllu því óþægilega sem á dynur? Ég er ekki viss um það, held að það geti verið gott fyrir börnin að fylgjast með, en vel að merkja, hinir fullorðnu verða vitanlega að vera til staðar til ábendingar og upplýsingar um fréttirnar, tilbúnir að leiðbeina og hjálpa börnunum til að skilja hvað er um að ræða. Fram kom í máli Jórunnar, að hún sér margt jákvætt í tilveru okkar íslendinga og lagði hún áherslu á að við gleymdum ekki því jákvæða og að teknu tilliti til þeirra orða, held ég að henni sé ekki neinn sérstakur vandi á höndum, hún er örugglega fullfær um að upplýsa dóttur sína og leiðbeina, er fréttir berast.

 

Annað það sem Jórunn vakti máls á var, að hún ætti erfitt að skilja hvers vegna stjórnarsáttmáli hefði ekki verið tilbúinn milli Samfylkingar og Vinstri grænna fyrirkosningar og lýsir það afar litlum skilningi á málinu. Fyrirfram er ekki hægt að vita hvað kemur upp úr kjörkössum, könnunum er engan vegin að treysta og sannaðist það einmitt mjög vel í nýafstöðnum kosningum, þar sem að í stað þess að Sf. og VG. yrðu nánast jöfn, kom í ljós að mun fleiri treystu Samfylkingunni en einangrunarsinnunum í Vinstri grænum. Staða flokkanna eftir kosningar er allt önnur en skoðanakannanir höfðu bent til og hvernig í ósköpunum hefði átt að vera hægt að búa tilsáttmála sem gerði ráð fyrir öllum hugsanlegum niðurstöðum. Ljóst er að himin og haf skilur á milli flokkanna í ESB málum og reyndar fleiri, en vonandi ná menn niðurstöðu og hafa þroska til að taka rökum, þjóð sinni til hags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Varðandi húsnæðislánin og lífeyrissjóðina, þá er verið að tala um þann gríðarlega kúf sem myndaðist í formi vaxta og verðtryggingar á þeim tíma þegar verðbólgan hækkaði upp úr öllu valdi. Lífeyrissjóðirnir og aðrir sem lána fé hafa á þeim tíma notið gríðarlegrar ávöxtunar sem ekki er til staðar í venjulegu árferði. Ef ég skil tillögur Gísla Tryggvasonar rétt er verið að tala um að skipta þessum kúf milli lántakenda og þess sem lánar. Ef ég lána þér 100 krónur og er vön að fá 5 til 7 krónur í ársávöxtun. Svo fæ ég eitt árið 20 krónur á ávöxtun og þér finnst mjög erfitt og ósanngjarnt að borga 20. Við semjum um að þú borgir 8 krónur í ávöxtun og þú ert sáttur við það.Ég tapa ekki neinu þar sem ég fæ samt meira en vanalega. Ég get ekki séð að sú lækkun þurfi að skerða mínar langtímaskuldbindingar sem væntanlega eru gerðar með reglulega 5 til 7 krónur af hverjum 100 á ári.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.5.2009 kl. 14:38

2 identicon

Heill og sæll; Ingimundur - sem þið önnur, hér á síðu hans !

Gylfi Arnbjörnsson; ASÍ eigandi, er samnenfnari alls hins ógeðfelldasta, í stjórnsýslu félaga og samtaka, hér á Fróni.

Jafnframt því, að vera hlaupa strákur, innanbúðar í Samfylkingunni, er þessi ódámur einnig; einn æðstu húskarla Lífeyrissjóða sukkaranna - hinna raunverulegu lénsherra þeirra sjóða - hvar ofurlaun og uppihald, rándýrt, er tekið, af síharðnandi möguleika iðgjaldagreiðenda - til þess; að halda Milljón króna (á mánuði) Gylfa, sem vinum hans öðrum uppi, gott fólk.

Burt; með það hyski allt saman - og við berum sjálf ábyrgð, á þeim krónum, á okkar eigin forsendum,  sem greiddar hafa verið, í þessar hítir - árum og áratugum saman, að óverðskulduðu.

Minni ykkur á; síðu spjallvinar míns; Ragnars Þórs Ingólfssonar (ragnar73), hver tekur á þessum málum, af mikilli einurð - sem kostgæfni.

Með beztu kveðjum; sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 15:26

3 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæl bæði

Gylfi segir í endursögn minni, ég vona að ég fari rétt með: að húsnæðislánin væru fjármögnuð að langmestu leiti með fjármunum lífeyrissjóðanna og því yrði það sjóðunum dýrt ef hugmyndir Gísla næðu fram að ganga. Jafnframt virtist hann hafa eðlilegar efasemdir um að rétt væri að slá striki yfir skuldir þeirra sem hefðu til þeirra stofnað til kaupa á hjólhýsum og annarri fjárfestingu af því tagi. Hvað segið þið um þetta?

Ingimundur Bergmann, 2.5.2009 kl. 19:52

4 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Vatnsenda bóndi góður !

Jú; jú. Gísli þyrfti jafnframt að athuga; að lenging lána, til allt að 90 - 150 ára, væri ekkert óraunhæf - miðað við óbreytt kerfi, þó svo afskrifa mætti, ein 20 - 50%, að skaðlausu. Annað eins; hirða nú, ''nýju'' bankarnir, í mismun sem kunnugt er - en ei; á lofti haldið.

Nefndu ekki; dragbýtinn og land- og þjóðlerann Gylfa Arnbjörnsson, sjálftöku pjakk, komist þú hjá því, Ingimundur minn.

Drullusokkur; þessi ódráttur, af hæstu gráðu, gott fólk !!!

Með; hinum beztu kveðjum - sem þeim fyrri /

Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband