„Göngum hreint til verks”

  Inn úr dyrunum var að berast boðskort með fyrirsögn, þeirri sömu og er fyrirsögn þessa pistils. Um er að ræða boðsbréf á fund frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, framboðsfund sem þeir ætla að halda til kynningar á málsstað sínum. Og þau, sem þarna eru í framboði, telja sig þurfa að leggja áherslu á að ætlun þeirra sé að ganga hreint til verks. Þeim finnst sem sagt ekki nóg að gert undanfarin tæp 20 ár, finnst að þau geti gert meira, geti látið meira gott(?!!) af sér leiða. Þau eiga erindi við þjóð sína og vilji þeirra stendur til að gera meira.

  Þjóðin hefur í furðu fylgst með því að undanförnu hvernig þingmenn Flokksins hafa barist gegn því að umbætur yrðu gerðar á stjórnkerfi hennar, hvernig þeir hafa gengið erinda forréttindastétta og barist gegn nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá. Þar áður var hægt að fylgjast með því hvernig sjálfstæðismenn þæfðust gegn því að nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á stjórn Seðlabankans og virtust telja það beina árás á einhverskonar sál Flokksins. Flokksins, sem birtist þeim sem ekki eru innvígðir og innmúraðir, sem sálarlaust skrímsli, sem er til alls víst og er knúið áfram af risaframlögum valinna fyrirtækja, fyrirtækja sem meðal annars hafa lifað á því að sækja sér eldsneyti í vasa þegna þessa lands. Næringu sem þau hafa síðan notað til að fæða Flokkinn, Flokkinn sem stendur nú jafn berskjaldaður og keisarinn forðum, uppvís að fleiri skömmum og vömmum en tölu verður á komið.

  En nú vilja þau fá umboð til að ganga hreint til verks, að þeirra áliti er einhverju ólokið, eitthvað fleira sem hægt er að gera til bölvunar, það er ekki nógu illa komið og hægt að gera meira. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins taldi árangurinn ekki betri en svo, að hann bað guð að koma nú íslenskri þjóð til hjálpar, nú væri þörf fyrir aðstoð frá þeim sem öllu ræður og allt getur, hann var sem sagt ekki ánægðari með útkomuna en þetta, nú væri þörf fyrir aðstoð frá æðri máttarvöldum. Engin ástæða er til að ætla annað en að hann hafi metið niðurstöðu 18 ára stjórnar Flokksins á efnahagsmálum þjóðarinnar rétt, hann gerði það vissulega og fannst greinilega á þessari stundu að nóg væri komið og á vissan hátt kom hann þarna hreint fram.

  Ekki er ástæða til að reikna með að hann hafi séð fyrir það sem á eftir kom: hrunið, ekki síst hrun þeirra gilda sem sjálfstæðismenn hafa leynt og ljóst – ef til vill meira leynt -  barist fyrir alla tíð, að leyndin og skúmaskotapólitíkin yrði tekin á beinið og að líkin í lestinni dúkkuðu í framhaldinu upp hvert af öðru, eins og ofurstyrkir Landsbankans og FL eru dæmi um. Engum dettur samt í hug að allt sé upplýst, öðru nær, það vita þau sem ekki eru innmúruð og það vita ekki síður þau sem innmúruð eru, að vafalaust er aðeins kominn í ljós toppurinn af svínaríinu.

  Þau ætla að eigin sögn að ganga hreint til verks og ef þeim gefst færi á, er örugglega komið að því að orð Geirs verði á vörum margra og óskandi að guð sjái sér fært að hjálpa íslenskri þjóð, ef svo illa tekst til að þeim verði að ósk sinni.

  Það er nefnilega nóg komið af einkavinavæðingu sjálfstæðis- og framsóknarmanna, nóg komið af kvótasukki til sjávar og sveita, nóg komið af hrikalegu fjármálasukki sem þjóðin sýpur seiðið af, nóg komið af þvermóðsku og heimóttarskap í stjórn efnahagsmála, já, komið nóg af svo mörgu sem þessir tveir flokkar hafa, að ófyrirsynju leitt yfir þjóð sína. Líklega bitu þeir þó höfuðið af skömminni er þeir leiddu hana í árásarstríð gegn þjóð sem ekkert hafði til unnið, stríð sem leiddi til meiri og viðbjóðslegri manndrápa en mannvitsbrekkur flokkanna tveggja hafa vafalaust gert sér í hugarlund er ákvörðunin var tekin. Ákvörðun sem lýsti svo mikilli grunnhyggni, þjónkunaráráttu og undirlægjuhætti við erlent herveldi að vekur bæði óhug og viðbjóð.

  „Göngum hreint til verks”, segja þau og vilja fá að halda áfram.

  Guð forði okkur frá að ósk þeirra rætist, það er löngu komið nóg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Þakka ítarlegan pistil, Ingimundur.

Hef engu við að bæta!

Hlédís, 19.4.2009 kl. 09:16

2 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Hvað eigum við að bíða lengi eftir úrsögn úr NATO?  Það var fyrst og fremst undlægjuháttur við það bandalag sem olli þáttöku Íslands í stríðinu í Írak.

Úr NATO hið fyrsta, verum hlutlaus í alvöru!

Guðmundur Guðmundsson, 19.4.2009 kl. 13:07

3 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Það er með ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn bregst við mótlætinu. Lýðskrum, hræðsluáróður... örvænting. Þeir gengu hreint til verks við einkavinavæðinguna, og afleiðingar efnahagsstjórnar flokksins eru nánast öllum ljósar. Góður pistill hjá þér, Ingimundur.

Ólafur Ingólfsson, 20.4.2009 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband