Hugleiðingar út frá grein í Bændablaðinu

Bændablaðið birti grein þann 14 janúar eftir Ernu Bjarnadóttur hagfræðing. Greinin ber yfirskriftina ,,Hafa skal það sem sannara reynist" og er yfirferð yfir þær aðstæður sem íslenskur landbúnaður býr við samanborið við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum.

Ólafs þáttur

Erna telur skrif Ólafs Stephensen að undanförnu, ekki byggja á sanngjörnum kröfum varðandi viðskipti milli Íslands og ESB landa, en í þeim leggur Ólafur áherslu á að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur ættu að vera sem minnstir eða jafnvel engir. 

Ernu tekst að sýna fram á með trúverðugum hætti að Ólafur og fleiri fari villur vegar í umræðunni er þeir láta í veðri vaka að tollvernd sé séríslenskt fyrirbrigði.

Erna vitnar í heimildir máli sínu til sönnunar þar sem fram kemur: 

[...],,að mun víðtækari undanþágur frá samkeppnisreglum gilda í Noregi (öðru EFTA-ríki, aðila að EESsamningum) og innan ESB (aðila að EES samningnum) fyrir framleiðendur landbúnnaðarafurða.[...] Auk þessarar skýrslu hefur verið bent á að vegna COVID-19 heimsfaraldursins hefur framkvæmdastjórn ESB samþykkt styrki til bænda að fjárhæð allt að 15,6 milljónir króna og lánafyrirgreiðslur að fjárhæð allt að 31 milljón króna ) auk frekari undantekninga frá samkeppnisreglum." 

Og Erna bendir á að:

,,Á undanförnum misserum hafa hagsmunasamtök bænda bent á þann aðstöðumun sem er á milli norskra og evrópskra bænda annars vegar og íslenskra bænda hins vegar hvað þessi atriði varðar."

Millilandaviðskipti með landbúnaðarvörur

Upplýst er að staðhæfingar um tollfrjáls viðskipti varðandi landbúnaðarvörur eru síður en svo einhver algild regla og að fjölmargar, ef ekki flestar þjóðir, leggja áherslu á að vernda sína landbúnaðarframleiðslu.

Nærtækt dæmi um brengluð viðskipti með landbúnaðarvörur og ef til vill það sem skemmst er að minnast, er þegar hömlur (bann) voru settar í viðskipti með þær milli Rússlands og ESB landa. Bann sem gekk út á, að bannað var að selja landbúnaðarvörur til Rússlands! 

Ísland tekur þátt í því fráleita viðskiptabanni, en landbúnaður blómstrar í Rússlandi sem aldrei fyrr og það svo, að Rússar eru orðnir stórtækir í útflutningi á þeim vöruflokki.

Af þessu má vera ljóst, að þjóðir bregðast við með ýmsum hætti til að styðja matvælaframleiðslu í löndum sínu þegar erfiðleikar steðja að og þætti íslenskum bændum, eða afurðastöðvum þeirra, vafalaust fengur í fyrirgreiðslum af því tagi sem fyrr var lýst að gert er í ESB löndum.

Þrasið

En þrasið snýst um það, hvort verja skuli íslenskan landbúnað með tollum t.d. á innflutt kjöt. Fljótt á litið og án tengingar við veruleikann, má segja sem svo að best væri að sleppa öllum tollum og láta íslenska bændur einfaldlega sjá um sig sjálfa í samkeppninni; treysta á að til framtíðar megi gera ráð fyrir að nægt framboð verði frá öðrum löndum og því sé betra, að íslenskir bændur snúi sér að einhverju öðru, sér og sínum til framfæris.

Þetta er hins vegar mikil einföldun á veruleikanum og það er ekki að ástæðulausu að flestar þjóðir reyna að tryggja með ýmsum hætti, að matvælaframleiðsla sé stunduð í löndum sínum. Sú var reyndar tíð að gott þótti að stunda útflutning á kindum og hrossum frá Íslandi, en það breyttist fljótt eftir að þjóðirnar sem hlut að áttu, höfðu jafnað sig, eftir þær manngerðu hörmungar sem yfir þær höfðu gengið.

Núverandi staða

Núna er staðan sú að flutt eru úr landi hross með góðum efnahagslegum ávinningi. Sá ávinningur dugar samt skammt til að jafna upp tapið af því sem verið er að reyna, að baslast við að selja af kindakjöti til annarra landa. Og þar sem enginn markaður fyrirfinnst í víðri veröld sem nokkur von er til að fáist til að greiða kostnaðarverð þeirrar framleiðslu, liggur í augum uppi að draga þarf saman seglin, þar til hún hæfir íslenskum markaði. 

Ríkisrekstur af því tagi sem þar er stundaður er dæmdur til að renna sitt skeið. Hvenær það verður, fer væntanlega eftir því hvenær almenningur gefst upp á dæminu og kýs til valda flokka og fólk sem kærir sig ekki um að kosta gæludýrahald af þessu tagi.

Niðurstaðan

Allt þetta breytir ekki því að gott er að fjölbreyttur landbúnaður sé stundaður í landinu okkar, eftir því sem aðstæður bjóða uppá að raunsætt sé að gera. Vel getur verið að framtíðarmöguleikar felist í útflutningi og þá er að sjálfsögðu rétt að nota sér það þegar þar að kemur, en varast að gera það á þeim grundvelli sem stundaður er eins og fyrr var nefnt.

Starfsemi af því tagi getur ekki verið á marga vetur setjandi og fjármunum sem í það er varið, mætti örugglega ráðstafa betur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband