Mýrbleytingar, byggðar á ágiskun.

2020-05-23 (2)Í Bændablaðinu (20.05.2020) á blaðsiðum 20 og 21 er ítarleg umfjöllun um eina af þeim lausnum sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir og telur sér trú um að gagni geti komið til að minnka koltvísýring í andrúmsloftinu, þ.e. mokstur ofan í gamla skurði.

Stundum hef ég verið gagnrýninn á efnistök blaðsins, en skylt er að geta þess sem vel er gert og hér er vel að verki staðið.

Spurningar blaðsins voru sendar til Umhverfisráðuneytisins 22. nóvember 2019 og fram kemur að svörin þurfti að draga fram með töngum. Svör fengust ekki fyrr en umboðsmaður Alþingis hafði krafið ráðuneytið um skýringar á drættinum, að ósk blaðsins.

Sé farið yfir svörin blasir við að hugmyndir um að stöðva kolefnislosun með þessum aðferðum eru byggðar á sandi. Ráðamenn í ráðuneytinu með ráðherra umhverfismála í broddi fylkingar vita það trúlega. Því auk þess dráttar sem varð á svörunum, þá eru svörin nánast að segja út í hött.

Hitt er hugsanlegur möguleiki, að ráðherrann trúi sjálfur á það sem hann er að láta gera og trúi því svo staðfastlega að honum finnist ekki þörf á að kanna málið og ef svo er þá er það vitanlega enn verra.

Um er að ræða 17 spurningar sem blaðið leggur fyrir ráðuneyti umhverfismála og í blaðinu er farið vel yfir svörin, ef svör skyldi kalla. Óhætt er alla vega að segja að þau hljóti að valda vonbrigðum, a.m.k. þeim sem bjuggust við því að um væri að ræða vel unnið og undirbyggt verk.

Við hin sem aldrei höfðum trú á lausninni, eða finnst a.m.k. að betur hefði mátt undirbyggja hana með þekkingu og vísindarannsóknum, fáum staðfestingu á því sem okkur grunaði.

Að ætt hafi verið af stað með verkefnið og byggt á fyrirfram gefnum forsendum sem orðnar eru til með hugarfluginu einu, er hreint ótrúlegt og verður fróðlegt að sjá hvort stígið verður niður á jörðina, staldrað við og málið hugsað upp á nýtt

Ráðuneyti umhverfismála hlýtur að geta fundið sér eitthvað þarfara að gera en þetta, því af nógu er að taka.

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Bændablaðsins, þar sem lesa má umfjöllun blaðsins um málið, en einnig er hægt að lesa hana, eins og áður er getið, í prentútgáfu blaðsins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Ingimundur,mig grunaði alltaf að þetta með að fylla upp í skurði væri grín,en nú er ég sannfærður,spurningin er hvar endar þessi langloka hjá glóbalistum sem trúa statt og stöðugt á manngert veðurfar?

Björn. (IP-tala skráð) 23.5.2020 kl. 22:34

2 identicon

 En eigi er með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þekki dæmi þess að drenlögnum hafi verið komið ofaní skurðina áður en mokað var yfir. Kosturinn er að hægara er að vinna túnin þar sem skurðirnir eru ekki lengur að þvælast fyir. Ekki skemmir það fyrir að hægt er að fá styrki hjá umhverfisráðherranum til þessara framkvæmda.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 24.5.2020 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband