Styrjöldin og það sem ekki má segja

Það bar við í gær, að mér var bent á með #, að á ferðinni væru greinar eftir bloggara á Morgunblaðsblogginu sem ekki þættu boðlegar og sem að ég þyrfti endilega að kynna mér! Ég gerði það og hef lesið þær yfir aftur og niðurstaðan er að þær séu vel þess virði að fólk kynni sér skrifin.

Þær féllu sem sagt ekki inn í línuna sem viðkomandi voru búin að marka sér varðandi átökin sem nú geisa í Úkraínu og er ég deildi slóð þeirra, kom í ljós að fleiri voru sama sinnis og ekki nóg með það, sendu mér ákúrur fyrir að vera að deila svona óhæfuboðskap.

Ástæðan var hver höfundurinn var, en ekki hvað hann skrifaði.

Þangað erum við komin, að í umræðunni skiptir meira máli hver segir hvað og hvenær, en hvað viðkomandi segir.

Ég framsendi sem sagt greinarnar á Facebook og það fór eins og ég hafði gert ráð fyrir að fram stigu þeir sem allt vissu betur og allt vissu best!

Samt er það ekki mín tillaga að að því fólki verði falið að finna lausn á deilunum sem uppi eru um héraðið Donbass í Úkraínu.

Ástæðan er sú, að fram kom í skrifum þess, að það var fyrirfram visst um hver hefði gert hvað og að viðkomandi hefði gert það að óþörfu og því þyrfti að koma í veg fyrir að hann gerði fleira.

Ég hef staðið í þeirri meiningu að í samskiptum þjóða gilti, að sýna virðingu fyrir sjónarmiðum annarra, hverjir sem þeir eru og hversu illa okkur kann að líka við sjónarmið viðkomandi.

Tilgangurinn væri að komast að ásættanlegri niðurstöðu um deilumál sem upp koma og að leita skyldi allra mögulegra leiða til að forðast ófrið milli þjóða og þjóðabandalaga.

_ _ _

Fyrrverandi forseti Íslands var í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum vikum og honum varð það á aðspurðum, að telja rússneska ráðamenn einhverja, sem ég man ekki lengur nákvæmlega hverjir voru, vera venjulega menn og muni ég rétt, bar hann þeim þokkalega sögu.

Fyrir þetta fékk hann harða dóma á samfélagsmiðlum!

Fyrir nokkrum dögum steig fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna fram og hvatti til þess að fundin yrði lausn á deilum ríkjanna með milligöngu og samningaviðræðum og færði fyrir máli sínu sterk rök.

Ekki fékk gamli maðurinn þakkir fyrir og svo er að sjá sem ekki komist annað að, en að lúskra svo á Rússum að þeir gefist upp á að ,,frelsa“ Donbass og sunnanverða Úkraínu. Hvenær því á að verða lokið og hvað þurfa muni til fylgir ekki sögunni.

Gallinn er sá, að það á að koma í hlut Úkraína að sjá um framkvæmdina og að það verður að öllum líkindum verkefni sem þeir ráða fremur illa við, þrátt fyrir stuðning af ýmsu tagi og þó aðallega úr vopnabúrum NATO- ríkja.

Er það sem sagt þannig, sem menn vilja sjá framtíðina fyrir sér, að Úkraína og Rússland verði í langvinnu stríði hvort við annað og að það verði að lokum Úkraína sem vinni það stríð?

Finnst mönnum líklegt og vænlegt, að horfa fram á framtíð Evrópu þannig að í austanverðum hluta hennar geisi styrjöld þar sem öllum tiltækum vopnum er beitt?

Gæti verið að þessum tiltæku vopnum yrði beitt víðar? Vilja menn að svo verði og vilja menn að ríkin tvö og heimsbyggðin öll verði rjúkandi rúst?

Er það framtíðarsýnin?

Hverjir munu hagnast á slíku langtímaástandi, eða þar til yfir lýkur? Er það almenningur í löndunum tveimur? Eru það almennir íbúar NATO- landanna? Er það heimsbyggðin öll?

Svarið við þessum spurningum öllum er nei.

Þeir einu sem munu hagnast eru vopnaframleiðendur, væntanlega beggja stríðsaðila, en þó ekki alveg, því vopn til Úkraínu munu koma frá vestrænum framleiðendum og trúlega að mestu frá hergagnaframleiðendum í Bandaríkjunum. Þeir munu hagnast, um tíma, en ekki til lengdar

Það mun hinsvegar verða almenningur í nánast heiminum öllum sem mun líða fyrir vopnaskakið. Líða vöruskort af ýmsu tagi og njóta verri kjara vegna afleiðinganna á hagkerfi heimsins og ef allt fer á versta veg, líða fyrir tortímingu þeirra samfélaga sem við þekkjum í dag.

Og ekki skulum við halda að við séum friðlýst, verandi í NATO og með aðstöðu bandaríska hersins í Keflavík.

Því má öllu sæmilega vel gerðu fólki vera það ljóst, að betra er og vænlegra í öllu tilliti, að stillt verði til friðar og að það er betra en að stuðla að ófriði.


Eitt sagt og annað hugsað

Í grein í The Guardian sem birtist þann 14 maí sl. undir yfirskriftinni ,,Russia’s Black Sea blockade pushing millions towards famine, G7 says" er drepið á ýmislegt sem er ofarlega í huga vestrænna ráðamanna þessa dagana, auk þess sem vitnað er í úkraínskan svæðisstjóra (Oleg Sinegubov og eiginkonu (Natalia Zarytska) eins þeirra ,,hermanna" sem hýrast við lakan kost í alkunnu stáliðjuveri í Mariopol.

Í greininni er því haldið fram að milljónir manna muni svelta til dauða ef Rússar heimili ekki útflutning á korni frá hinum lokuðu höfnum Úkraínu og fyrir þessu er borinn ónefndur utanríkisráðherra úr G7 hópnum.

Við munum að eitt sinn hét sá hópur G8 hópurinn, en það var áður en menn fundu það út að best væri að vísa Rússum út úr klúbbnum.

Nú heitir hópurinn sem sagt G7 en ekki G8 og innan hans er enginn Rússi til að tala við um málið og þá er brugðið á það ráð að að spjalla við blaðamann í þeirri von að forseti Rússlands muni lesa hið breska blað.

Hundar fara þessa leið stundum ef þeim liggur eitthvað á sínu hundslega hjarta og venjulega ber það þann árangur að þeim er sveiað til að þegja!

Þýskalandskanslari Olaf Scholz varar menn við því að Putin hafi verið óbilgjarn í samtali nokkurra ráðherra við hann síðastliðinn föstudag. Hópurinn sem spjallaði við Putin var frá Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum og hann fordæmdi hinn rússneska forseta fyrir að loka flutningaleiðum frá Úkraínu um hafnirnar um Svartahaf.

Hinn virðulegi klúbbur hafði í hita leiksins gleymt því að Rússar eru í stríði við Úkraínu, stríði sem gengur út á að endurheimta tvö héruð landsins sem það var búið að sölsa undir sig, en hinum vestrænu leiðtogum, sem búnir eru að fá óvæntan áhuga á sveltandi fátæku fólki finnst ekki gott ef kornverð hækkar á markaðnum; höfðu gleymt því í hita leiksins og ákafa sínum að þeir eru búnir að beita sér fyrir allskonar viðskiptaþvingunum gagnvart rússnesku þjóðinni, þvingunum sem snúa að olíu, gasi og fjölmörgu fleiru, auk þess sem eigur rússneskra auðmanna hafa verið kyrrsettar.

Það síðasttalda hafa þeir eflaust mátt gera án þess að komið hafi beint við pyngju almennings í löndunum sem fígúrur hins fína G7 klúbbs bera svo mjög fyrir brjósti.

Í grein The Guardian er sagt frá því að hvorki meira né minna en 43 milljónir manna muni líða hungur verði ekki hafnir (Úkraínu) opnaðar og við gleðjumst innilega yfir þeirri samúð með smælingjum heimsins sem skyndilega hefur brotist fram í hugum þessa göfuga hóps.

Það mun samkvæmt greiningu þessara heiðursmanna skella hungursneyð á heiminn verði Rússar ekki góðu strákarnir við fínu strákana.

Þau hefðu ef til vill mátt hugsa fyrst og gera svo; tefla skákina betur í stað þess að standa skyndilega og óvænt(!) frammi fyrir því að þurfa að knékrjúpa fyrir Putin og höfða til góðmennsku hans.

Hún er trúlega einhvers staðar en hann er að tefla skák og er ekki spenntur fyrir því að verða heimaskítsmát.

Þetta ákall til Rússlandsforseta kemur fram þegar úkraínskir eru bornir fyrir því, að vel gangi í stríðinu að þeirra mati og rússneski herinn sé að draga sig til baka og sé núna ekki nema 50 km frá landamærum Rússlands.

Fyrst svo er, er þá ekki eðlilegast að biðja Úkraína, sem standa sig svona vel í staðgengils stríðinu, um að opna umræddar hafnir. Biðja ,,hermennina" í stálverinu um að fara að afgreiða skip og fara að skipa út!

Seinna í frásögn hins breska blaðs er rætt við eiginkonuna sem bíður eftir manni sínum úr gildrunni í stálverinu. Sú er búin að ræða málið Xi Jinping hinn kínverska um björgun mannsins síns og félaga hans. Önnur kona segir frá því að allir séu mennirnir sem fastir eru í gildrunni bardagafúsir, þ.e.a.s. nema þeir sem misst hafa hendur og fætur og maður getur varla ímyndað sér hvernig það muni vera að vera lokaður þarna inni í því ástandi, en þeir kjósa að gefast ekki upp.

Hvort mennirnir lúta stjórn yfirvalda í Úkraínu er óljóst, en ef svo er, þá er virðing þeirra yfirvalda fyrir lífi og limum sinna manna eitthvað af skornum skammti. Því nánast er útilokað að mennirnir komist heilir á líkama og sál út úr þessari klípu.

Ólíklegt er að hinn kínverski spjallfélagi konunnar skipti sér af málinu, enda vandséð hvað hann ætti að segja rússneska hernum, úkraínska hernum og og yfirvöldum þjóðanna tveggja að gera.

Zelensky forseti Úkraínu telur málið afar flókið og erfitt viðureignar og af því má ráða að úkraínsk yfirvöld hafi ekki beint boðvald yfir mannskapnum; geti ekki gefið þeim skipun um að leggja niður vopn og gefa sig á vald rússneska hersins. Sé svo, þá er komin fram sönnun þess að um sé að ræða harðskeitt bardagalið, trúlega af sama meiði sprottið og þau sem herjað hafa á Donesk og Lughansk héruð undanfarin ár.

Þá sem bera óskoraða ábyrgð á þeim ófriði sem verið hefur á svæðinu og sem leitt hefur til ,,hinnar sérstöku hernaðaraðgerðar" Rússlands.

Þessu til viðbótar má benda á það að í sama blaði og sem hér hefur verið vitnað í, er er sagt frá því í dag, að ekki standi til að aflétta viðskiptaþvingunum af Venesúela eins og einhverjum mun hafa komið til hugar, til að fá þaðan olíu til að dempa niður verðhækkanir á henni.

Það verður sem sé ekki gert og ástæðan er eflaust mikill áhugi manna á að græða á verðhækkunum sem orðnar eru á olíu og matvælum og hráefnum til framleiðslu þeirra, svo sem hér hefur verið drepið á. Ekkert af þessu mun lagast í bráð. Ekki meðan stríðið geisar milli grannanna í austri og ekki meðan enginn vilji er til að bera klæði á vopnin af hálfu mannanna í fína klúbbnum sem hér var nefndur í upphafi og ekki meðan blásið er glæðum í þann eld sem svo líflega logar.

Það er svo að sjá sem skiptingin milli austurs og vesturs sé að aukast og styrkjast og að öfgarnar ráði för.


Lína í Kattholti og íslensk matvælaframleiðsla

2022-05-12 (2)Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna ritar grein sem birt er í Morgunblaðinu 12.5.2022; grein sem vert væri að sem flestir læsu.

Niðurlagið er smellið, en í greininni líkir Vigdís ,,[...] til­veru bænda við líf Línu, vinnu­kon­unn­ar í Katt­holti sem oft og iðulega var send út í fjós að mjólka kýrn­ar ef heim­il­is­fólk­inu þótti nóg um henn­ar skoðanir og at­huga­semd­ir."

En þegar aumingja Lína var búin að sinna fjósastörfunum þótti hún vart í húsum hæf vegna fjósalyktarinnar!

Eða eins og segir í greininni:

,,En á meðan aum­ingja Lína skrúbb­ar af sér fjósaþef­inn kann það að vera álita­mál, á meðan sveit­ar­fé­lög­in eru ekki að sinna skipu­lags­skyld­um sín­um í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda, hvort flokk­un land­búnaðar­lands til framtíðar litið m.t.t. rækt­un­ar­mögu­leika sé best fyr­ir komið hjá sveit­ar­fé­lög­un­um sé það mark­mið stjórn­valda að tryggja fæðuör­yggi þjóðar til framtíðar. En Lína er auðvitað ekki í fram­boði."

Á tímum þegar æ erfiðara er fá heimildir til að byggja upp í landbúnaði svo sem nýleg dæmi eru um bæði á Kjalarnesi og á Suðurlandi, verður manni hugsað til Línu eftir lestur greinar Vigdísar!

En kannski ,,er bara best" að flytja inn allar þær landbúnaðarvörur sem þjóðin þarfnast og sleppa því að leiða hugann að því:

Að einhverstaðar hefur einhverju verið fórnað, til að hægt væri að framleiða matvælin sem við neytum.


9. maí 2022

2022-05-09 (6)Rússar minnast sigursins yfir Þýskalandi nazistans í dag og halda uppi minningu þeirra um 27 milljóna sovétborgara sem létu lífið í þeim hildarleik.

Nú eru þeir í öðru stríði til að bjarga héruðunum Donesk og Lughansk undan ófriði ný-nazista.

Mörgum finnst það ganga brösuglega enda streyma hergögn af ýmsu tagi til Úkraínu frá fyrrverandi bandalagsþjóðum Rússlands í heimstyrjöldinni og þar með væntanlega í hendur hinna meintu nazista.

Hvort Hitler og hans hyski hefði skrifað upp á nazistavottorð fyrir þá stjórnlitlu uppivöðsluflokka sem vísað er til, er frekar ólíklegt. Karlinn sá vildi svo sannarlega hafa aga á sínu liði og tók ómjúkum höndum á þeim sem ekki lutu höfði, þegar það átti við og sperrtu fram hönd í blindri tilbeiðslu þegar til þess var ætlast.

Við vonum að sú hugmyndafræði vakni aldrei til lífsins aftur, en munum samt að stundum hefur það gerst eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk að svipaðir hugmyndafræðilegir óskapnaðir hafa skotið rótum: Í Asíu og í Afríku og í Suður Ameríku og Evrópu (Grikkland) og kannski víðar, þó það sé ekki munað á þessu augnabliki.

Við vonum vafalaust flest að stríðinu í Úkraínu ljúki sem allra fyrst og að einhverjar leiðir finnist til að svo verði.

Rússar segjast hafa ráðist inn í landið vegna sífelldra átaka undanfarin tæp átta ár, sem kostað hafi ótal mannslíf og kenna það fyrrnefndum óaldarflokkum sem starfi með þegjandi samþykki og jafnvel stuðningi stjórnvalda í Úkraínu.

Sá sem þetta ritar telur sig hafa fyrir því traustar heimildir að eitthvað sé til í þessum fullyrðingum, en hvort ekki hefði mátt leysa málið með öðrum hætti er annað mál.

Það er stundum sem rússneski björninn er nefndur til sögunnar og við vitum að ekki er heillavænlegt að erta björn í vetrarhýði sínu þar til hann vaknar og ryðst út til að bregst við áreitinu.

Líklega erum við að horfa upp á afleiðingar þeirrar ertingar í því stríði sem nú geysar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband