Um landbúnaðarmál og til upprifjunar

2020-04-27 (9)Guðmundur Garðar Arthursson, ritaði eftirfarandi texta í umræðum um landbúnaðarmál á Facebook. Ég tók mér það bessaleyfi að afrita hann til að nota ,,síðar", eins og ég orðaði það, er ég lét hann vita af hnuplinu. Leturbreytingar og undirstrikanir eru mínar.

,,Ef sauðfjárbændur bara vissu hverjir óskuðu eftir þessum auknu tollkvótum. Að undanförnu hefur verið fjallað um tollamál landbúnaðarins, hér á þessum vettvangi [,,Umræðum um landbúnaðarmál" á Facebook], og í því samhengi er fróðlegt að skoða örlítið þann samning sem gerður var við ESB um landbúnaðarafurðir og tók gildi árið 2016 ásamt sauðfjársamningnum sem tók gildi árið 2017 en sami landbúnaðar ráðherrann (SIJ) [núverandi ,,innviðaráðherra"] undirritar þá báða. Samkvæmt þessum samningum starfar sauðfjárgreinin í dag.

Heimild Íslenskra framleiðenda til að flytja út kindakjöt til ESB landa skv. hinum nýja samningi jókst um 1.500 tonn frá 1.850 tonnum í 3.350 tonn. Það var greinilega stefnt að því að hefja stóraukið átak í útflutningi kindakjöts til ESB landa á kostnað innlendrar kjötframleiðslu, hrossa, nauta, kjúklinga og svína- kjötsframleiðenda sbr. tilvitnun í samninginn, „Í staðinn fyrir“.

Það voru ekki allir sáttir við þessa samninga og [sumir] óttuðust afleiðingar þeirra.

Í athugasemd sem Matfugl ehf., og Síld og fiskur ehf., Völuteigi 2, Mosfellssveit, ritaði Alþingi vegna þessa máls segir:

„Í samningi við ESB, sem gerður var árið 2015, var samið um mikla aukningu á tollkvótum. Fyrst og fremst var um að ræða mikla aukningu nauta-, svína- og alifuglakjöts ásamt unnum kjötvörum og pylsum sem að mestu eru framleiddar úr svína- og alifuglakjöti en heildarmagn tollkvóta á þessum vörum fór úr 650 tonnum í 3.206 tonn. Langstærsti hluti innflutnings kemur beinlaus til landsins en miðað við að 1/3 hluti skrokks fari í afskurð í formi beina, sina og fitu má áætla að innflutt magn í heilum skrokkum sé um 4.800 tonn eða um fjórðungur af innlendri framleiðslu þessara þriggja kjöttegunda. Það magn sem tollkvótar ná yfir mun ætíð verða flutt inn í öllum helstu vöruflokkunum“.

Það er ljóst að hugmyndir samningarmanna sauðfjárbænda um að stórauka útflutning á lambakjöti til „betur borgandi markaða“ hefur snúist upp í andhverfu sína. Sauðfjárbændur, ásamt örðum kjötframleiðendum, hafa orðið fyrir gríðarlegum skaða af þessum samningum. Það skal ósagt látið hvort sauðfjárbændur séu „þolendur“ eða „gerendur“."

Hér lýkur texta Guðmundar.

Að mati þess sem heldur úti þessu bloggi, er nauðsynlegt að halda þessum staðreyndum til haga og því er þetta birt.

Samningurinn sem gerður var við Evrópusambandið 2015 er ein af grófari aðförum sem gerðar hafa verið að íslenskum landbúnaði, þ.e.a.s. öðrum kjötframleiðendum en kindakjöts.

2020-04-17 (3)Hvort tilgangurinn var að valda skaða, eða að ekki var hugsað út í hvað verið var að gera, verður ekki kveðið upp úr um hér, en tjóni var valdið og ekki er svo að sjá sem sauðfjárbændur séu sérlega sælir með sitt.

Ekki má heldur gleyma því að varað var við því sem verið var gera. Það var samt haldið áfram, vaðið út í fenið, væntanlega í þeirri sannfæringu að verið væri að gera rétt.

Niðurstaðan varð sem vænta mátti. Markaðirnir fyrir kindakjötið voru ekki til staðar. Þrátt fyrir ,,Icelandic Lamb" og annan fjáraustur.

Það hlýtur því að mega spyrja sig þeirrar spurningar: Til hvers var farið í þennan leiðangur, þrátt fyrir fjölmargar viðvaranir?


Landbúnaðarkrísa og björt framtíð

2022-06-15 (5)Í Morgunblaðinu er sagt frá því að Sláturfélag Suðurlands boði verðhækkun á afurðum bænda, sem feli muni það í sér að: ,,Sauðfjár­bænd­ur munu fá 23 pró­sent­um hærra verð fyr­ir afurðir sín­ar".

Í fréttum síðustu daga höfum við lesið að málið hafi verið leyst með tveimur og hálfum milljarðs króna tékka úr ríkissjóði, sem hafi skipst þannig að sauðfjárbændur hafi fengið góðan slatta, nautgripabændur vænan slurk og alifugla og svínabændur afganginn sem mun vera rúmar fjögur hundruð milljónir.

Allt var þetta að sjálfsögðu djúpt hugsað frá upphafi og vel undirbúið.

2022-06-15 (8)Upphæðin fengin með vitrun og skiptingin milli búgreina eftir því. Og afgreiðsla málsins gerð á harðaspretti, spretthóps, sem myndaður var um aðgerðina.

Það er orðið umhugsunarefni hvernig ákvarðanir eru teknar af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Nýlega var greint frá því að til stæði, að senda til baka flóttamenn sem komið hefðu til landsins úr flóttamannabúðum sem eru í Grikklandi, landi sem er að kikna undan straumi fólks sem þangað berst og aðallega frá miðausturlöndum.

Í landinu okkar er látið sem styrjaldir og annar ófriður sé hvergi nema í Úkraínu, og án þess að gera lítið úr vanda þess fólks sem forðar sér þaðan, þá má ekki gleyma því að fleiri eru í svipuðum sporum.

Hefur ríkisstjórn og alþingi kannski ekki veitt því athygli?

Er hugurinn svo bundinn við sölur á sameiginlegum eigum þjóðarinnar til útvaldra, að annað komist ekki að?

2022-06-15 (3)En eins og sjá má hér að ofan er bjart framundan og fyrir því er borinn ekki ómerkari maður en fjármálaráðherra íslensku þjóðarinnar. Síðan er líka sagt frá því, að tollalækkanir, sem til stendur að gera varðandi innflutning frá Úkraínu, gangi lengra en gert er hjá ESB.

Reyndar mun til standa að þær lækkanir verði þannig að tollarnir verði alveg felldir niður!

Getum við átt von á því að frá öllum löndum í svipaðri stöðu verði tollar á innflutningi felldir niður?

Að frá öllum í sömu stöðu, verði komið upp móttökustöðvum fyrir gæludýr?

Við hljótum að geta reiknað með því að sama verði látið gilda um Jón og séra Jón í þessu.

Eða hvað?

Eftir hverju er hugmyndin að fara?

Verður ef til vill komið upp Flokkunarráðuneyti fyrir málaflokkinn? Ráðuneyti sem vegur og metur hverjir skuli vera inni í hlýjunni og hverjir verði úti í kuldanum?

Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun þessara mála og hvert hugarflugsstraumar ríkisstjórnar Íslands koma til með að stefna, til framtíðar litið.


Hvað er hægt og hvað ekki?

2022-06-14 (4),,Svona er þetta", er gott nafn á þætti sem fjallar um staðreyndir og þáttur með því nafni er í boði Ríkisútvarpsins á netinu.

Fyrir Alþingi liggur tillaga um að breyta til og færa virkjanakosti úr ,,verndarflokki" í ,,biðflokk" og síðan í ,,nýtingarflokk" og um allt það spjall og skrif, er fjallað í grein í Kjarnanum.

Tekist hefur ágætlega að koma upp kerfi til að hindra byggingu virkjana, drepa virkjunarmálunum á dreif og svæfa svo sem unnt er, hugmyndir um nýjar og nauðsynlegar virkjanir.

2022-06-14 (2)Í þættinum sem er frá Ríkisútvarpinu og sem hér er með í tengli, er rætt um orkumálin á raunhæfan og yfirvegaðan hátt, allt frá kjarnasamruna til kjarnaklofnings og til þeirrar orkuöflunar sem við könnumst betur við hér á landi, þ.e.a.s. nýtingu fallorku vatns og jarðhita.

Farið er yfir og rætt um svokölluð orkuskipti, sem stjórnmálamenn hafa verið duglegir að ræða um, en kannski minna rætt um hvað sé hægt að gera í því efni, enda ekki mikið um að til þingmennsku veljist fólk af raunvísindasviði.

2022-06-14 (5)Sum okkar rekur eflaust minni til að hafa heyrt menn úr stjórnmálastétt ræða fjálglega um að Ísland geti haft forystu varðandi orkuskiptin og má þar t.d. minnast viðtals við innviðaráðherra þann sem nú er, þar sem hann ræddi um að landið sem vænlegan kost, til að hafa forgöngu um að taka upp flug með rafmagnsflugvélum.

Hvort þar var átt við innanlandsflug eða millilanda, munum við ekki, enda tekur því ekki að leggja slíkt á minnið.

Þeir sem áhuga hafa á að fræðast um þessi mál ættu að hlusta á viðtalið í þessum þætti, því það skilur eftir umtalsverðan fróðleik um orkumálin og fleira þeim tengt.

Myndir eru af Alnetinu og af vef Rúv.


Framsókn leysir vandann.

Það er hugur í þingmönnum Framsóknarflokksins og þeir eru spretti, til að ná Spretthópnum þeirra Svandísar Svavarsdóttur og Steingríms Sigfússonar.

Það sjáum við í grein eftir þrjá þingmenn Framsóknarflokksins, þau Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Þórarninn Inga Pétursson.

Þau hafa komist að því að búgreinar á Íslandi eru:

Sauðfjárrækt, Nautgriparækt og Svínarækt, og sú síðastnefnda kemur til sögunnar sem einskonar síðbúin viðbót undir lok skrifanna, sem gera má ráð fyrir að komi þannig til, að þingmennirnir hafi allt í einu minnst þess, að hafa fengið sér svínahamborgara á jólunum, eða beikon og egg..., nei frekar beikon án eggja, því egg eru að öllum líkindum, ekki á borðum á heimilum þessara þingmanna.

Grænmeti snæða þau líklega ekki heldur, því það er ekki landbúnaður!

Alifuglakjöt er að sjálfsögðu ekki talinn vera matur hjá Framsókn og þaðan af síður landbúnaður!

Svínakjöt, jú það má kannski fá sér smá ögn af því! Svona aðeins BARA.

Það góða við skrifin er að þingmennirnir eru búnir að finna gott ráð til að leysa rekstrarvanda landbúnaðarins í þeirri viðskiptaþvinganakreppu sem búið er að koma á laggirnar, eða a.m.k. eins og þau skilgreina íslenskan landbúnað.

Lausnin felst í því ,,að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda" eins og þar segir.

Nánari skýring er svohljóðandi á framsóknsku:

,,Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll."

Já svona ,,eins og gengur".

Og eins og hver maður sér, þá er vandamálið leyst fyrir uppáhaldsbúgreinar Framsóknarflokksins og skattakerfið, og engin ástæða er til að efast um snilldina sem í þessu felst, fyrir framsóknarlandbúnaðinn!


Hani, krummi, hundur, svín og allt hitt.

2022-06-04 (7)Landbúnaðurinn er ofarlega á blaði í Morgunblaði dagsins fjórða júní árið 2022.

Steingrímur Sigfússon er dreginn upp á svið til að leysa vandann sem skapast hefur vegna hækkandi verðs á aðföngum til framleiðslu landbúnaðarvara.

Stofnaður hefur verið ,,Spretthópur" sem hann á að stýra í mark og sé textinn lesinn, þá er landbúnaður: sauðfjárrækt og kúabúskapur.

Hækkanir á áburði, kornvöru, olíu og öðrum rekstrarvörum koma samkvæmt þessu ekki við pyngju annarra en þeirra bænda sem þessar búgreinar stunda, að mati ráðherrans sem skipaði spretthópinn.

2022-06-04 (5)Það væru mikil og góð tíðindi ef sönn væru. En það eru þau vitanlega ekki. Allar landbúnaðargreinarnar eru undir í þessu máli og vonandi átta spretthlaupararnir sig á því.

Þó ekki sé rétt að búast við að svo sé, sé tekið mið af viðhorfum flokkanna þriggja sem ríkisstjórnina mynda til málaflokksins.

Ekki reiknum við með því, að þau sem í ríkisstjórninni sprettast séu svo fjarri raunveruleikanum að þau telji, að þegar áburður, olía, varahlutir og allt hvað heiti hefur hækkar í verði, að þá hækki ekki framleiðslukostnaður annarra landbúnaðarafurða en sauðfjár og kúa.

Er fólkið í ríkisstjórninni svo aftarlega á merinni að það sé nær alveg öruggt: að nefndarfólkið í Spretthópnum renni aftur af gripnum þegar slegið verður í og spretturinn tekinn?

Sé svo, er þá ekki réttast að athuga málið betur áður en slegið verður í klárinn? Snúa við og fara frá rásmarkinu og byrja að nýju?

Við gerum ráð fyrir að ráðherrann hafi örlitla tengingu við landbúnað, en samt ekki næga og þurfi því leiðbeiningar.

Mðað við grein sem birtist í Morgunblaðinu eftir framkvæmdastjóra 2022-06-04 (6)Bændasamtakanna ætti ráðherrann að geta fengið slíka leiðsögn. Greinin er eftir Vig­dísi Häsler og í yfirskrift segir: „Ísland verður að tryggja sig með því að auka birgðahald af fóður­hrá­efn­um í land­inu með því að eiga stærri varala­ger líkt og Norðmenn og Finn­ar.“

Á þetta hefur áður verið bent og er ritara þessara lína minnistætt þegar mætur maður ræddi málið við hann eftir fund í Bændahöllinni og benti á þessa staðreynd, varðandi Finnland.

Við sjáum að Vigdís nefnir Noreg líka til sögunnar og segir í grein sinni: ,,Hinn 18. mars sl. skipaði for­sæt­is­ráðherra starfs­hóp um nauðsyn­leg­ar birgðir til þess að tryggja lífsaf­komu þjóðar á hættu­tím­um. Starfs­hóp­ur­inn sem er enn að störf­um, m.a. vegna þess að beðið var niður­stöðunn­ar frá LBHÍ, vinn­ur að gerð áætl­un­ar um söfn­un upp­lýs­inga um birgðastöðu á hverj­um tíma, leiðir til að bregðast við óá­sætt­an­legri birgðastöðu, skömmt­un og stýr­ingu á út­hlut­un mik­il­vægra birgða og tryggja þar með nauðsyn­lega birgðastöðu með hliðsjón m.a. af sam­starfi inn­flytj­enda og fram­leiðenda á vör­um sem telj­ast nauðsyn­leg­ar. Starfs­hópn­um er því ætlað að áhættu­greina fæðuör­yggi þjóðar­inn­ar út frá lang­tíma­áhrif­um en ekki bregðast við stöðunni eins og hún er núna.“

Og síðan: ,,[…] erfitt að fá upp­lýs­ing­ar um magn áburðar eða fóðurs fyr­ir búfé hér á landi." Og spyr síðan: ,,Og eigum við næg­ar birgðir af olíu til lengri tíma en 90 daga?“

Hún nefnir líka að við höfum ekki upplýsingar um hvað til er í landinu af áburði, korni og kjarnfóðri og eins og við mörg vitum eru þessar vörur notaðar til landbúnaðarframleiðslu auk margs annars og gleymum ekki olíunni.

...

Og svo stolið sé svolitlu meiru úr hinni ágætu grein Vigdísar Häsler, þá er það margt fleira en föstudagspitsan sem gæti verið gott að huga að.

Hér í lokin skal minnt á það, að betra er að klárinn sé vel girtur þegar sprettur ,,Spretthóps“ ráðherranns verður tekinn og ekki verra að skepnan sé a.m.k. bandvön og sæmilega járnuð.

Höfum í huga að þó hrossið geti verið fengið úr íslenskri hjörð, þá þarf æði margt innflutt til að skepnan sé reiðfær, s.s. skeifur, fjaðrir, leður, ístöð, beisli og mél og eflaust gleymist eitthvað í þessari upptalningu!

Landbúnaður er fjölbreyttur og svo sannarlega margt fleira en kindur og kýr! (Myndir eru fengnar úr Morgunblaðinu)


Frelsið, stríðið og dauðinn

2022-03-10 (15)Í Evrópu komu saman til fundar menn og konur og báru sig saman um hvernig hægt væri að valda íbúum álfunnar sem mestum skaða á sem allra skemmstum tíma.

Fundurinn endaði vel að sögn og eftir þrætur hik og tafs, var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að valda Rússum sem mestu tjóni og að það yrði best gert, með því að skaða aðra íbúa álfunnar, en þó Rússa sem allra mest.

Þeir eru reyndar eftir því sem best er vitað í Evrópu, en það gleymdist í hita leiksins.

Er þessi niðurstaða lá fyrir, fór hver til síns heima og undu þar sæmilega glaðir við sitt, en ekki þó alveg. Því eftir var að sannfæra fólkið - sem átti að taka á sig refsinguna sem ætluð var hinum voðalegu Rússum, en eru alls engir Rússar-, um þörfina og ánægjuna, sem það myndi finna fyrir í hjarta sínu, þegar það fengi um þriðjungi minna af eldsneyti á bílinn sinn fyrir hverja evru, en áður hefði verið.

Það var líka fremur óljóst hvernig hinir vondslegu Rússar myndu taka niðurstöðunni, en í hjarta sínu vonuðu hinir fínu herrar og frúr, að rússneskir ráðamenn og hermenn, tækju þessu sem hvatningu um að ljúka ætlunarverki sínu í Úkraínu sem fyrst: þ.e. að ,,afnasistavæða" landið.

Og þar sem fundarfulltrúar töldu sig hafa traustar úkraínskar heimildir fyrir því að nær engir nasistar væru í landinu, þá yrði þessu lokið bæði fljótt og vel.

Þrír mánuðir í heilli styrjöld er náttúrulega ekki mikið, að minnsta kosti ekki borið saman við Vietnam stríðið bandaríska á árunum. En það var náttúrulega svo langt í burtu frá frelsurunum sem verða mátti og er því á engan hátt sambærilegt!

Úkraína er eins og við vitum orðið, af fréttum, nánast hérað í eða út úr Rússlandi og því ætti ekki að vera mikið mál að hreinsa það af fyrrnefndri nýnasista óværu.

Hvernig verkið gengur vitum við satt að segja fremur lítið um, því helsta heimildin eru kvöldmessur forseta landsins sem sagt er hýsa hina nýju nasista.

Í fyrsta lagi skiljum við ekki það sem sagt er í ræðunni og í öðru lagi treystum við ekki þýðingunni; vitum ekki hvaðan hún er fengin og hver það var sem snaraði henni yfir á hið ástkæra og ylhýra.

Fréttir af málinu hefjast gjarnan á orðunum ,,talið er“ og ,,haft er eftir“ og að því fengnu vitum við það, að í fréttum er það helst, að talið er og haft er eftir einhverjum, að eitthvað hafi gerst svona eða hinsegin.

Þessu til viðbótar var sá siður innleiddur í frelsinu vestræna, að ritskoða svo sem hægt væri allar fréttir sem bærust frá þeim sem vinna að frelsun Donbas svæðisins í Úkraínu.

Þær fréttir hafa reyndar tekið á sig allskyns útúrdúra og króka, sérstaklega í upphafi leiðangursins.

Þannig að stundum hafa menn ekki vitað eitt né neitt um, hvað fyrir mönnunum vekti. Ráðist var á höfuðborgina, Chernobyl kjarnorkuverið fornfræga og ýmislegt fleira, sem við sem ekki skiljum hernaðartækni botnum ekkert í af hverju var gert.

Að vísu höfðu borist af því fréttir að úkrainar væru farnir að fikta við kjarnorkuvopn, en að höfuðborgin og aflagt kjarnorkuver séu góðir staðir fyrir svoleiðis fikt, er ekki gott fyrir okkur sem ekki höfum þekkingu á kjarnorkufræðum að átta okkur á og skilja.

Vitum þó að við vildum ekki að verið væri að fikta við svoleiðis í stofunni í næsta húsi!

Fyrst leit svo út, að til stæði að ,,frelsa“ allt landið undan nasistunum og þar með sjálfu sér, en seinna kom í ljós að svo var ekki og því var líkast, sem menn hefðu ekki verið búnir að ákveða hvað gera skyldi.

Eftir japl, jaml og fuður, var sem sagt ákveðið af stefna í suður, þangað sem óværan væri, en láta uppsprettuna eiga sig –, í bili að minnsta kosti.

Þar eru við í dag, olíu og bensínlítil og auralítil, en brosandi út að eyrum af ánægju yfir að geta lagt okkar lóð á vogarskál réttlætisins, með því að kafa dýpra ofan í peningaveskin í hvert sinn sem fylla þarf tankinn á heimilisbílnum, kaupa í matinn og ferðast sér til ánægju.

Allt er það þó hjóm eitt í samanburði við það sem þjóðirnar tvær sem stríða þurfa að fást við, þar sem sonurinn kemur ekki heim úr leiðangrinum, eða ef hann kemur heim, þá er hannn skaðaður á sál og líkama, ef hann þá skilar sér yfirleitt.

Svo ekki sé nú minnst á öll þau sem um sárt eiga að binda í þessu stríði sem öðrum, vegna þess að þau voru ekki á réttum stað á réttum tíma, og ráfa nú um lemstruð á sál og líkama, ef þau eru ekki endanlega hætt að hreifast.

Því þannig er komið fyrir mörgum að þau eru ekki lengur á meðal okkar og jafnvel ekki einu sinni vitað hvar líkamar þeirra eru.

Þannig eru stríð, að mannlegar hörmungar liggja í stríðsslóðinni hvert sem litið er og við hugsum til allra þeirra barna sem aldrei verða fullorðin, eru horfin, eða eru fötluð á líkama eða sál.

Hvers eiga þau að gjalda?

Ekki höfðu þau neitt til sakar unnið sem getur réttlætt það, að þau láti lífið eða lemstrist í ógeðslegu blóðbaði styrjaldar.

Aftur og aftur og aftur, munum við samt horfa á atburði sem þessa endurtaka sig!

Þrátt fyrir tvær heimstyrjaldir og sífellt endurteknar staðbundnar styrjaldir. Alltaf skal það gerast aftur að menn geti ekki komist að sanngjörnum niðurstöðum í ágreiningi sínum.

Hvenær verður komið nóg?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband