Harakiri

Í dag fór fram atkvæðagreiðsla á þingi um hvort sækja ætti um inngöngu í Evrópusambandið. Kosningunni var sjónvarpað og átti undirritaður þess kost að fylgjast með útsendingunni. Hér á Suðurlandsundirlendinu, þar sem undirritaður býr, skein sól í heiði, varla bærðist hár á höfði og hitinn var rétt innan við 20 stigin. Við hér í Flóanum höfum stundum á orði þegar hitamælirinn er farinn að sýna stigin þetta mörg, að nú sé tæpast vinnuveður; enda er það svo að flestum verður erfitt að vinna líkamlega vinnu í miklum hita og sól.

 

En í sjónvarpi allra landsmanna var myndavélinni beint inn í þingsalinn við Austurvöll og hafi verið heitt í Flóanum, þá var það ekkert annað en hrímkuldi  miðað við það sem virtist vera í fundarsalnum. Þar var hiti í mönnum og það svo mikill að mér var hugsað til þess að vonandi færi nú ekki svo að einhver dytti niður úr hitaslagi, þarna í beinni útsendingu. Atkvæðagreiðslan fór þannig fram að haft var svokallað nafnakall, sem felst í því að nöfn manna eru kölluð upp og viðkomandi spurður hvort hann eða hún segi já eða nei og oftar en ekki kemur viðkomandi upp í púlt og gerir grein fyrir atkvæði sínu, svona eins og til afsökunar á því að hann greiði atkvæði á þennan eða hinn veginn.

 

Allt gekk þetta nokkuð vandræðalaust fyrir sig, utan hvað einstaka var svo heitt í hamsi að orðin þvældust fyrir þeim, komu ekki í þeirri röð sem viðkomandi hefði kosið og í einu tilfelli upplýsti þingmaður í algjöru hugsunarleysi hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á hans heimili, það er að segja flokknum og nefndi í því sambandi bæði svipuhögg og handjárn. Orð þessi hittu vitanlega hann sjálfan fyrir, ekki síst vegna þess að margir félagar hans höfðu algjörlega snúið við blaðinu í mörgum efnum. Í dag vildu þeir hafa þjóðaratkvæðagreiðslur, svo margar að varla varð tölu á komið um viðkomandi mál, en eins og flestir muna hafa þær verið mikið eitur í beinum Sjálfstæðisflokksins fram að þessu. Skemmst er að minnast er forseti lýðveldisins hafnaði því að staðfesta svokölluð fjölmiðlalög, að þá máttu þeir ekki til þess hugsa að þjóðin greiddi atkvæði um lögin. Þá verður því heldur ekki neitað að marga rámar í hve mótfallnir þeir voru öllum breytingum á stjórnarskránni sem til umræðu voru fyrir síðustu kosningar, en þær voru einmitt hugsaðar til að auðvelda slíkar atkvæðagreiðslur. Héldu þeir á þeim tíma margar ræður til að hindra slíka ósvinnu, einar 600 að sögn og drógu hvergi af sér. Nú eru þeir sem sagt annarrar skoðunar í þeim efnum sem öðrum og vilja hafa slíkar kosningar sem flestar og þeir í Flokknum sem áður vildu ólmir ganga inn í ESB- ið eru nú skyndilega búnir að missa allan áhuga á því.

 

Borgarar eru þeir kallaðir á þingi sem illu heilli komust fjögur á þing í síðustu kosningum. Þáttur þeirra í sýningunni var all sögulegur svo ekki sé meira sagt. Þau voru á sínum tíma kosin á þing m.a. vegna afstöðu sinnar til ESB; höfðu lýst sig fylgisfólk þess að Ísland gengi inn í samband Evrópuþjóðanna, en höfðu algjörlega óvart gleymt að gera kjósendum sínum grein fyrir því að þau meintu ekkert með því, né væntanlega neinu öðru sem þau höfðu boðað í kosningabaráttunni. Nú var atkvæði þeirra til sölu hæstbjóðanda á vettvangi stjórnmálanna, með þeirri undantekningu þó að Þráinn Bertelsson var trúr sinni sannfæringu og greiddi atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu eins og flestir höfðu líklega búist við af honum. Flokkssystir hans skaut sig hins vegar í fótinn er hún hafði á orði að þetta allt saman væri ógeðslegt; orð sem nær einmitt ágætlega yfir framkomu Borgaranna í þessu máli. Nú eru þau búin að fremja einhverja þá svakalegustu pólitíska kviðristu sem sést hefur á pólitískum vettvangi, rúin öllu trausti og orð þeirra að engu hafandi.     


mbl.is Ungir jafnaðarmenn fagna aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Viðar: Ég þekki ekki mikið þeirra VG- inga og hef ekki áhuga á nánum kynnum af þeirra hugsunarhætti.

Ingimundur Bergmann, 18.7.2009 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband