Þau sem aldrei gefast upp

Það þarf víst ekki að segja það nokkrum að orkumálin eru í hnút vegna þess að ýmist fást ekki leyfi til að virkja, en einnig er tregða á að heimildir fáist til að styrkja dreifikerfin.

Skjámynd 2024-01-19 081616Landsvirkjun gefst samt ekki upp og nú stendur til að reisa vindmyllur í þeirri von að þær bjargi einhverju.

Ekki er samt víst að málið sé í höfn, sé tekið mið af því hvernig Hvammsvirkjun var slegin út af borðinu þegar flestir töldu það mál vera á góðri leið.

Skoðun margra málsmetandi manna er að vel sé hægt að lifa í landinu líkt og gert var til forna. Þá var ekkert rafmagn, engar hitaveitur og ekkert vesen, gæti maður ætlað.

Samt er það svo að sé skyggnst inn í fortíðina, þá blasir ekki við sú veröld sem við viljum flest búa við. Um þetta er búið að skrifa langar greinar, bækur og skýrslur en það breytir engu, því þeir sem trúa, þeir trúa bara og hana nú!

Þjóðinni fjölgar hratt vegna fólks sem kýs að búa hér, þrátt fyrir kulda og trekk og vosbúð; vill fá að vinna og lifa í landi sem býður upp á eitthvað annað en það sem það er að flýja frá.

Vegna þessa þarf annað hvort að auka matvælaframleiðslu, eða treysta á að hægt sé að flytja inn það sem þarf.

Flestar þjóðir reyna að framleiða þau matvæli sem þær þarfnast; vilja ekki þurfa að treysta á aðra í veröld sem getur fyrirvaralaust breyst úr því sem er, í eitthvað annað svo sem fjölmörg dæmi sanna.

Áhöld eru um hvort íslenskir stjórnmálamenn skilji þessar staðreyndir, því þeir hafa æði oft verið staðnir að því að grafa undan innlendri framleiðslu með gjörðum sínum.

Við fyrirsjáanlegum skorti á matvælum vilja margir hins vegar bregðast svo sem Bændasamtökin.

Það þykir pólitíkusum þjóðarinnar ekki góður boðskapur og vilja frekar stóla á innflutta framleiðslu svo sem sannaðist, þegar heimilaður var innflutningur á kjúklingum frá Úkraínu, sem reyndist vera framleiddur af hollensku stórfyrirtæki með vafasaman orðstír.

Hinir góðhjörtuðu alþingismenn töldu heimildina til innflutningsins vera góða ráðstöfun á þeirri forsendu að Úkraína væri svo langt í burtu að ekki myndi reyna á heimildina góðu.

Innflytjendur lögðust yfir landakort og fundu út að Úkraína væri þar sem hún hefði verið um langan tíma og hófu innflutning af miklu kappi eins og þeim er tamt.

Nú eru komnir fram á sjónarsviðið aðrir menn sem gefa öllum þessum hindrunum langt nef og ætla að framleiða fisk til sölu innanlands, en ekki síst til útflutnings.

Hvort stjórnmálamenn þjóðarinnar finna einhverja leið til að stöðva þessar hugmyndir í fæðingu mun tíminn leiða í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband