Að loknum kosningum



Er ekki rétt að þakka öllu því fólki sem lagði á sig ómælt
erfiði og fórnaði tíma sínum í að berjast gegn því að spillingaröflin sigruðu
kosningarnar?

Barátta þess skilaði árangri, því ef þau hefðu ekki fórnað
sér í baráttuna þá hefðu hagsmunagæsluflokkarnir eflaust riðið enn feitari
hesti úr hlaði en raun varð á.

Í framhaldi af niðurstöðunni byrja vafalaust helmingaskiptin
og dúsupólitíkin.

Kvótaaðallinn, til sjávar og sveita, getur strokið svitann
af enninu og glaðst yfir niðurstöðunni, fulltrúum þeirra fjölgar í þinghúsinu
við Austurvöll.

,,Silfurskeiðabandalagið" sem við blasir, mun væntanlega
taka til við að skara eld að sinni köku með gamalkunnum aðferðum. Þeim sem
flokkarnir tveir eru gamalreyndir í og hafa gefist þeim vel.

Íslenska samfélagið mun þegar á líður komast á vonarvöl eins
og svo oft áður og ekki er því að treysta að framsóknaríhaldið geti til lengdar
haldið samfélaginu gangandi með spillingar og sukkaðferðum.

Þegar allt verður komið í kaldakol mun þjóðin kjósa yfir sig
stjórnmálaöfl sem standa fyrir raunveruleg gildi.

Það mun koma í þeirra hlut að rétta samfélagið við og að því
loknu mun íslenska þjóðin kjósa yfir sig að nýju hin gömlu fjósbitaöfl, sem
þykjast munu kunna ráð við hverjum vanda undir kjörorðinu: ,,Nú get ég".

Svo er komið fyrir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum að
mjólkurkýrin er geld, herinn fór til heimalandsins þrátt fyrir fræga ,,vináttu"
Davíðs og Bush og því verða þeir að halda mjólkandi þeirri sem þeir nærast á,
þeirri sem þeir bjuggu til sjálfir, kúnni sem mjólkar auðlindir þjóðarinnar.

Nú er komin betri tíð með blóm í haga fyrir
hagsmunagæsluöflin og ekki síður þá sem þau eru fulltrúar fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband