Þingmaðurinn og ljósið

Í Morgunblaðinu 8. september er grein eftir þingmann Vinstri hreyfingarinnar – grænt framboð Álfheiði Ingadóttur, þar sem vikið er að úrskurði Samgönguráðuneytisins varðandi það hvort Landsvirkjun hafi verið heimilt að greiða Flóahreppi kostnað vegna fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar. Þingmaðurinn fer mikinn í skrifum sínum og dregur hvergi af sér í fullyrðingum og upphrópunum og sannast þar, það sem lengi hefur verið vitað að ekki er gott þegar trúin tekur rökhugsunina yfir.

 

Þingmaðurinn býsnast mjög yfir því að Landsvirkjun hafi greitt Flóahreppi kostnaðinn sem til féll vegna skipulagsins og af því má ráða að skoðun hennar sé sú, að þegar af stað fer undirbúningur að virkjunum, þá sé rétt og eðlilegt að fámenn sveitarfélög sem nær enga hagsmuni hafa af að virkjað sé, taki á sig kostnað vegna skipulags og fl. sem til fellur vegna framkvæmdanna. Framkvæmda sem ekki er víst að neitt verði síðan úr. Reyndar má gera ráð fyrir að í framhaldi af hinum furðulega úrskurði Samgönguráðuneytisins hefjist einhver vitlausasta hringekja með fé sem boðið hefur verið upp á og eru menn þó orðnir ýmsu vanir eftir það sem borið hefur verið á borð þjóðarinnar, af slíkum uppákomum að undanförnu. Gera má ráð fyrir að Flóahreppur skili fénu til þess eins að fá það greitt frá Landsvirkjum til baka. Ætla má að þingmanninum muni líða mun betur að þessum gjörningi loknum og til að gera umgjörð hans sem glæsilegasta, þá er rétt að leggja til að hann fari fram á leiksviði.

 

Það hlýtur að vera hægt að ætlast til þess þingmaðurinn leiði hugann að því, að er sveitarstjórnir fjalla um mál af þessu tagi, þá eru þær ekki einungis að fjalla um hagsmuni viðkomandi sveitarfélags, því það eru á engan hátt eingöngu hagsmunir Flóahrepps, svo dæmi sé tekið, hvort virkjað verður í Þjórsá eða ekki.  Færa má rök að því að framtíðarhagsmunir hreppsins felist ekkert sérstaklega í því að virkjað verði. Þannig er nefnilega um hnútana búið af hálfu löggjafans að gjöld af virkjunum renna til þess sveitarfélags þar sem stöðvarhúsið er og ekki er gert ráð fyrir að það verði í hreppnum. Af texta þingmannsins verður ekki annað ráðið en að hann hafi ekki hina minnstu hugmynd um hvernig innheimtu fasteignagjalda af virkjunum er háttað og kann það að einhverju leiti að skýra málflutning hans.

 

Hagsmunir allrar þjóðarinnar - líka VG - felast í því að auðlindir hennar séu nýttar henni til hagsbóta og því hagkvæmari sem virkjanir eru því betra, en eins og margoft hefur komið fram þá eru virkjanir í Þjórsá einhverjar þær hagstæðustu sem völ er á, bæði út frá hagkvæmnisjónarmiði og ekki síður vegna þess hve lítil umhverfisáhrif þeirra eru.

 

Það er líklega borin von að þingmaður VG, geri sér grein fyrir þessum staðreyndum. Þetta stjórnmálaafl virðist vera með öllu rökhelt, þegar málefni af þessu tagi koma til umræðu. Svo er helst að sjá sem þeirra hugsun sé, að peningarnir verði til í ríkissjóði, framleiðsla og ekki síst iðnaður, sé á einhvern hátt óhrein starfsemi sem með öllu sé óalandi og óferjandi.

 

Því er það að óskandi er, að stjórnarsetu þeirra ljúki sem fyrst og að þau geti þá tekið til við sína fyrri iðju, að ergja sig í stjórnarandstöðu, þar virðast þau eiga heima og líklega líður þeim best þar sem þau geta verið áhyggjulaus, í því að fordæma helst allt og alla. Þau virðast vera þeirrar gerðar að sjá ekki skóginn fyrir trjám og því er augljóst að best hlýtur að vera fyrir þau að vera í stjórnarandstöðu en ekki í ríkisstjórn.

  

Af þessu er ljóst að þingmaðurinn er með öllu vanhæfur til að fjalla um málefni Flóahrepps og Landsvirkjunar, ekki síst ef haft er í huga að hann situr í Iðnaðarnefnd Alþingis, hvernig sem það hefur nú getað gerst. Þau sem fylgst hafa með stjórnmálabaráttu VG- inga gera tæplega ráð fyrir að þau sjái ljósið, en rétt og sjálfsagt er að halda í vonina, því svartnætti er ekki það sem íslenska þjóðin þarfnast nú um stundir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24.09.2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband