Byggjum á reynslunni

Jarðhræringarnar á Reykjanesi og brottför  íbúanna í Grindavík hafa hrært upp í samfélaginu okkar sem von er.

Skjámynd 2023-11-17 060017Að horfa upp á, að heilt bæjarfélag, glæsilegt útgerðarpláss, lendi í því að íbúarnir þurfi að yfirgefa það í skyndingu, er ekki neitt sem gerist á hverjum degi, viku, mánuði eða ári.

Sem betur fer er það ekki svo, en við höfum samt orðið vitni að því áður og gleymum því seint, þegar allt var gert til að forða íbúunum frá Heimaey; forða þeim frá eldgosinu sem þar varð fyrir 50 árum.

Þjóðin reyndist vera samtaka þá, um að gera allt sem unnt væri til að bjarga fólkinu og koma upp húsnæði fyrir það í öðrum bæjarfélögum svo fljótt sem unnt væri.

Og það tókst furðanlega vel og ekki má gleyma því að hús bárust víða að, hús sem fljótlegt var að reisa og gera íbúðarhæf. Þau voru kölluð Viðlagasjóðshús, ekki í niðrandi merkingu, heldur vegna þess að brugðist var við af þáverandi stjórnvöldum af myndarskap og stofnaður ,,Viðlagasjóður“, til að kljúfa fjármálaskaflinn sem hlóðst upp vegna þess sem var að gerast.

Undirritaður kom að vinnu við frágang kyndibúnaðar í tveimur slíkum húsum sem gefin voru af Austur- Þýskalandi, sem þá var ekki ríkt, en vildi þó ekki láta sitt eftir liggja.

Margt er öðruvísi í nútímanum og samfélagið okkar hefur breyst mikið og m.a. er til nóg af húsnæði sem ekki er í almennri notkun, heldur í útleigu til ferðamanna, auk þess sem frístundahúsum hefur fjölgað mikið á síðustu áratugum.

Þó hægt sé að notast við þau um tíma, þarf samt annað til að koma, sé horft til framtíðar.

Það eru talsverðar líkur á, að langur tími geti liðið áður en hægt verður að búa aftur í Grindavík og því þarf að leita nýrra lausna og svo virðist sem þær sé víða að finna.

Við vonum að ekki gjósi í fallega bænum sem yfirgefinn var svo snögglega og við vonum líka að tækifæri finnist og verði vel notuð til að fólk geti bjargað sínu.

Það hefur verið að gerast að undanförnu og við höfum séð íbúana koma ferð eftir ferð, til að nálgast eigur sínar og ekki vantar það að fréttamenn fylgjast með því sem er að gerast og þó einn fréttaljósmyndari hafi farið yfir strikið þá reynum við að gleyma því.

Það er þungt að hugsa til þess að Grindavík hverfi af kortinu vegna eldgoss, en við munum að það hefur gerst áður og þá án björgunar mannslífa.

Sem betur fer, tókst vel til með viðbrögð núna, enda tímarnir breyttir og tekist hefur að þróa tækni sem getur a.m.k. að einhverju leiti brugðist við og látið vita að alvarlegir atburðir séu yfirvofandi.

Tökum vel á móti fólkinu sem núna er að flýja öfl sem mannskepnan ræður ekki við og mun líklega aldrei ráða við.

Við sjáum að vilji er til staðar og við vitum að vilji er allt sem þarf og því horfum við björtum augum fram á veginn og vonum að allt fari vel hjá öllum þeim sem núna búa í óvissu; að stjórnvöld taki þannig á málum að sómi verði að, - og að þegar næst gerist eitthvað sambærilegt, að þá verði horft til fyrri atburða og sagt sem svo:

Svona var gert 2023 og við skulum gera eitthvað sambærilegt og alls ekki síðra né minna, læra af reynslu liðins tíma og bæta um frekar en hitt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband