Búskapur og tollamál.

Bændablaðið svíkur ekki trygga lesendur sína og nú er staðan erfið, vond og snúin.

2020-07-16 (7)Bændasamtökin eru búin að átta sig á því til fulls, að tollasamningurinn sem gerður var árið 2015 er vondur fyrir bændur. Alla nema sauðfjárbændur enda var samningurinn að mestu gerður fyrir þá. Svo sanngirni sé gætt, er rétta að taka fram að innan Bændasamtakanna hafa allan tímann verið til menn, sem sáu hve galinn samningurinn var m.t.t. bændastéttarinnar í heild. Þó hann hafi átt að færa sauðfjárbændum aðgang að traustum markaði fyrir afurðir þeirra, þá reyndist ekki verða.

Hugmyndin var að gera markaði Evrópusambandsins opna og aðgengilega fyrir íslenskt kindakjöt. Menn trúðu því og núverandi formaður Framsóknarflokksins var þar fremstur í broddi fylkingar, að hægt yrði að selja kindakjöt til ESB- landanna, gegn því að Evrópusambandsþjóðirnar hefðu aðgang fyrir landbúnaðarvörur á íslenska markaði.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast, var ekki skipt á jöfnu við gerð samninganna og ekki var tekið tillit til stærðarmunar markaðanna: annarsvegar samfélag 500 milljóna manna og hins vegar 350 þúsunda smáþjóð, sem stundar sína matvælaframleiðslu í landbúnaði norðan hinnar frægu breiddargráðu sem ESB hefur skilgreint sem mörk þess sem vænlegt sé til landbúnaðarframleiðslu.

Í samningunum var skipt á öðrum íslenskum landbúnaðarvörum fyrir kindakjötið og þær voru allar aðrar kjöttegundir en kindakjöt og ostar sem Evrópusambandslöndunum bauðst að flytja inn til Íslands. Ekki var skipt á kindakjöti og helgaðist það af því, að gríðarlega offramleiðsla er á þeirri kjöttegund í landinu og þó að með framleiðslunni sé greitt úr ríkissjóði á framleiðslustigi og sölustigi, þá finnast ekki markaðir fyrir afurðina.

Þeim fer fækkandi löndunum sem ekki hefur verið reynt að selja íslenskt kindakjöt inn á og svo fjarlæg lönd sem Kína og Indland hafa ekki verið sloppið. Allt er reynt en lítið gengur og það sem þótti góður markaður um nokkurra ára skeið, gufaði upp á einni nóttu þegar verslunarkeðjan bandaríska, sendi sendinefnd til að kynna sér aðbúnað að hinni íslensku sauðkind!

2020-07-16 (4)Í blaðinu segir frá bónda nokkrum sem býr með kindur. Búið ber sig ekki eftir því sem þar segir og því verður bóndinn að vinna byggingavinnu og kona hans vinnur utan búsins líka. 

Það eru margir reiðir og fólk er orðið þreytt segir bóndi og er þungt í honum, enda atvinnureksturinn stundaður orðið í hjáverkum og tekna heimilisins aflað með launavinnu. Hjónin eru með 670 fjár og við sem höfum verið með kindur, vitum að það er talsvert mikil vinna að vera með þann fjölda, sem viðbót við fulla vinnu. Bóndinn vill fá 700 krónur fyrir kílóið í næstu sláturtíð og lái honum hver sem vill.

Hér erum við að tala um ríkisrekstur að stórum hluta og eins og allir vita þá fer slíkur rekstur ekki eftir venjulegum markaðslögmálum. Þess vegna geta menn set fram kröfur og sagt hvað þeir vilji en ekki: reksturinn þyrfti að skila þessu verði til að geta gengið.

Þetta þarf til að sögn bóndans sem er frammámaður í félagsskap sauðfjárbænda í sínu heimahéraði til að hægt verði að tryggja nægjanlegt framboð á lambakjöti sem bóndinn telur vera tæpt. Framleiðslan er nefnilega a.m.k. um þriðjungi umfram markaðsþörf. Afgangurinn fer til annarra landa fyrir lítið. Það gerir hins vegar ekkert til, því allt er það bætt upp af hinum örláta og ótæmandi íslenska ríkissjóði, eins og áður var getið.

Á öðrum stað í Bændablaðinu er viðtal við hjónin á Reykjum í Mosfellsbæ.

2020-07-21 (2)Þau reka alifuglabú, annars vegar kalkúnaeldi, slátrun og sölu og hins vegar kjúklingabúskap á sama grundvelli. Búið byggir á gömlum grunni og faðir bóndans var frumkvöðull í alifuglarækt til kjötframleiðslu.

Viðtalið er gott, upplýsandi og áhugavert aflestrar fyrir þá sem áhuga hafa á landbúnaðarmálum. Jón Magnús og Kristín Sverrisdóttir lýsa því í stórum dráttum hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í þessum búskap og fram kemur að þau eru einlægir stuðningsmenn íslensks landbúnaðar. 

Hjá fyrirtæki þeirra Ísfugli, hefur verið mörkuð sú stefna að selja eingöngu íslenskt kalkúna- og kjúklingakjöt. Jón nefnir tollaumhverfið og segir það erfitt, enda eru þau hjónin að berjast á ,,frjálsum" markaði við að selja afurðir búsins. Þau eru að keppa við innflutta vöru sömu gerðar og þau eru að framleiða og það er markaðurinn sem ræður verðinu.

Ríkið greiðir þeim ekki beingreiðslur, gæðastýringargreiðslur, geymslugjöld og svo framvegis. Þau eru sem sagt að keppa við framleiðendur ríkisframleiðslunnar en líka innflutninginn sem er til orðinn vegna þess sem þegar hefur verið lýst í þessum skrifum.

Þau geta ekki krafist. Og þau geta ekki sagt að þau ,,vilji fá" einhverja tiltekna upphæð fyrir vöru sína og kafað síðan eftir stórum hluta kröfunnar í ríkissjóð!

Þeirra heimur er annar og harðari og við vitum að þau hafa marga fjöruna sopið, en staðið af sér útsogið.

Við óskum þeim góðs gengis og vonum að þeim búnist vel, hér eftir sem hingað til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég man ekki betur en að sauðfjárbændur, rétt eins og aðrir bændur hér á landi, hafi varað við þessum samningi. Auðvitað voru einstaka menn honum samþykkir og skiptir þar litlu í hvaða búgrein þeir voru, mun fremur hversu hollir þeir voru þáverandi landbúnaðarráðherra. Sú hollusta hefur mjög dvínað.

Það er annars merkileg barátta þín gegn sauðfjárbændum, bæði á þessum velli hér sem og öðrum netmiðlum. Að etja búgreinum saman er vís aðferð til að veikja allar búgreinar, líka þær sem eru í mestu samkeppninni erlendis frá.

Gunnar Heiðarsson, 22.7.2020 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband