26.5.2020 | 11:41
Friðlýsing gegn hagsmunum þjóðarinnar.
Jón Gunnarson alþingismaður skrifar grein í Morgunblað dagsins (26.05.2020) og fer ofan í vinnubrögð umhverfisráðherrans.
Vinstri grænum virðist finnast sem að góð vinnubrögð séu það sama og að gera mikið, eða öllu heldur, að taka mikið fyrir. Og við vitum af fyrri reynslu úr þeim ranni, að þegar kemur að því að spilla fyrir virkjunarframkvæmdum, þá er skilgreiningin á þeim bæ: að verið sé í pólitík(!).
Við hin teljum, að hvað sem segja má um pólitík, þá þurfi nú líka að búa svo um, að hægt sé með sæmilegu móti að búa þjóðinni lífvænleg búsetuskilyrði í landinu. Jón fer m.a. yfir hvernig ráðherrann túlkar hlutina eftir eigin höfði:
,,Í kynningu ráðuneytis umhverfis- og auðlindamála er vísað til þess að í greinargerð með frumvarpi til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem varð að lögum 48/​2011, komi fram leiðsögn um þetta. Er þar vísað til VI. kafla í greinargerðinni sem ber heitið Um virkjunarkosti og afmörkun þeirra. Í kynningunni er farin sú leið að grípa upp eina setningu af mörgum og hún notuð sem grundvöllur ákvörðunar um mörk friðlýsingar. Setningin er svona: Virkjunarsvæði í vatnsafli miðast almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallvatnsins neðan virkjunar."
Jón fer síðan yfir umræddan 6. kafla í heild og eins og sjá má, er af ráðuneytisins hálfu látið nægja að notast við fyrstu setninguna, en því sem á eftir kemur sleppt:
,,Virkjunarsvæði í vatnsafli miðast almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallvatnsins neðan virkjunar. Sjónræn áhrif mannvirkja geta þó náð yfir stærra svæði, t.d. frá háspennulínum. Svæði með nýtanlegu falli í fallvatni nefnast virkjunarstaðir. Ef fallið er ekki allt á einum stað geta verið fleiri en einn virkjunarstaður í fallvatninu. Þessir staðir eru vel þekktir. Framkvæmd virkjunar á hverjum virkjunarstað er nefnd virkjunarkostur. Þar geta ýmsir kostir komið til greina. Við virkjun á sama falli á einhverjum virkjunarstað getur stærð virkjunar verið mismunandi eftir því hvernig miðlun rennslisins er háttað. Til miðlunar þarf miðlunarlón og í mörgum tilvikum er rennsli fallvatnsins aukið með veitum úr nálægum ám. Áhrif virkjunar á umhverfi eru því komin undir því hvernig virkjunarkosturinn er skilgreindur. Þau mannvirki sem mestu máli skipta eru einkum stíflur og veitur, miðlunarlón, aðrennslisgöng og stöðvarhús, frárennsli og lega háspennulína og vega. Stærð virkjunar í MW segir lítið um áhrif hennar á umhverfi. Í verndar- og nýtingaráætluninni yrði fjallað um skilgreindan virkjunarkost á tilteknum virkjunarstað og áhrif þeirrar virkjunar innan virkjunarsvæðisins. Þar sem áhrifin eru komin undir útfærslu virkjunarinnar verður skilgreindum virkjunarkostum raðað í flokka en ekki virkjunarsvæðum enda þótt fram komi hvernig virkjunarsvæðin eru afmörkuð. Á sama virkjunarstað geta mismunandi virkjunarkostir lent í mismunandi flokkum eftir áhrifum þeirra. Hins vegar kemur til álita að vernda heil vatnasvið. Þau yrðu þá sett í verndarflokk og þar með allir hugsanlegir virkjunarkostir innan þeirra. Eins kemur til álita að friðlýsa hluta vatnasviðs eða hluta fallvatns."
Það er sem sagt ,,verið í pólitík"
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.