Hagfræðimessan

Hagfræði er ein þeirra fræðigreina sem við teljum okkur mörg skilja og kunna, en þó einkum þegar okkur hentar! Í gær (þann 6/3/2024) var rætt við Stiglitz sem við könnumst við af nafninu og úr fréttum, en hann hefur hlotið Nóbelsverðlaun fyrir framlag sitt til hagfræðinnar.

Skjámynd 2024-03-07 065051Við sem erum svo heppnir að eiga konur, þekkjum hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður og vitum að sú hagfræði bregst seint!

Sjálfsagt eru þó undantekningar á þeirri reglu sem fleirum, en við veltum okkur ekki upp úr því og hugum að því sem verðlaunahafinn hefur til málanna að leggja og það er sannarlega áhugavert.

Í ljós kemur nefnilega, að seðlabankastjórar almennt, hafa veðjað á rangan hest og fá falleinkunn í fræðum sínum.

Þeir hafa víst nokkuð margir farið þá leið að hækka svokallaða stýrivexti í þeim yfirlýsta tilgangi að kveða niður verðbólgudrauginn, með því að stinga á þensluna sem við, sem ekkert kunnum í fræðunum, köllum framtakssemi og dugnað eða eitthvað þaðan af verra.

Joseph Stiglitz segir þessa framtakssemi seðlabankastjóra virka sem olíu á eld og fór þá sem okkur hina kunnáttulausu grunaði, að draugar verða ekki kveðnir niður með því að blása þá út.

,,Stiglitz er heimsþekktur hagfræðingur og var meðal annars yfirhagfræðingur Alþjóðabankans og var efnahagsráðgjafi í ríkisstjórn Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna", segir orðrétt í frásögn Rúvsins og að þessu tiltöldu ásamt Nóbelnum, þá vega orðin þungt.

Stiglitz er jákvæður á hagkerfi heimsins og telur að þau muni jafna sig á öllu og öllu og þar á meðal á innrásinni í Úkraínu og eftir að Rúvarar hafa fært talið að ,,þeirri verðbólgu" sem þá myndaðist, kveður Stiglitz upp úr með, að allt muni þetta nú jafna sig fljótlega.

Fljótlega er eitt af þessum teygjanlegu hugtökum og það jafnvel í hagfræðinni líka, svo við lifum í voninni, en horfum með furðu til hins vinstrigræna seðlabankamusteris sem íslenska þjóðin hefur komið sér upp í höfuðborginni.

Þar virðist stefnan vera að drepa allt framtak í dróma og koma sem flestum rekstri í hendur opinberra aðila, ef ekki á hausinn; vextir sleikja 10 prósentin og ljóst má vera, að það er sjaldgæfur atvinnurekstur sem stendur undir slíku okri.

Messan var flutt, en að á hana hafi verið eða verði hlustað er ólíklegt.

Uppröðun myndarinnar er í stíl við skilning ritara á fræðigreininni.


Fésbókin sem hvarf, ásamt símagreiðslukerfinu!

Myndin af branduglunni og textinn eru að þessu sinni fengin úr Morgunblaðinu...

Skjámynd 2024-03-07 095906... það sama má segja um teikninguna sem er til hægri og eflaust finnst mörgum það vera rétt uppröðun.

Sú til vinstri er eftir Halldór en hin eftir Ívar og líklega passar að hafa röðunina eins og hún er!

Þau undur og stórmerki gerðust um daginn, að einn af föstu punktunum í tilveru nútímamannsins Fésbókin, hvarf eins og slökkt væri á ljósi og fleira fylgdi með, því a.m.k. undirritaður gat ekki greitt reikninga með síma sínum seinni part dagsins.

Fyrst í stað var hægt að bjarga því með greiðslukorti, en svo virkaði það ekki heldur og eins og svo oft, var það kona sem kom til bjargar og reikninginn reyndist hægt að greiða með gamaldags millifærslu og þar með komst ritari upp í nýviðgerða og þvegna rennireið sína og gat lagt af stað heim á leið, eftir daglanga veru í Reykjavík.

Sannaðist þar að gott er, fyrir gamla karla að eiga góða að þegar á þarf að halda og nær örugglega var það furðusvipur sem kom á karlahópinn sem fylgdist með greiðsluaðferðinni!

Seðlar eru úr sögunni, enda getur enginn rogast með það magn íslenskra peninga í vösum sínum, sem nota þarf núorðið í viðskiptum og augljóst er, að styttast fer í að taka þurfi nokkur núll aftan af krónutetrinu.

Heim á leið var farið og með hálfum huga og stöðvað við bensíndælu á Selfossi til að taka olíu og þar virkaði allt, enda notað sérhannað kort frá söluaðila og stofnað til skuldar!

Allt er gott sem endar vel og hafi Bílabúð og bílaþjónusta Benna þökk fyrir verkið, sem eflaust var vel unnið sé tekið mið af fyrri reynslu.

Í dag verður farið á Selfoss og látið reyna á, hvort tilveran sé svört eða björt hvað fyrrnefnd tæknimál varðar og ef ekki, þá verður bara að hafa það!


Bloggfærslur 7. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband