Að fórna hagsmunum þjóðar

Afleiðingar þess að vilja ekki breytingar geta verið alvarlegar og um það fjallar Þorsteinn Pálsson í pistli sínum í Fréttablaðinu.

Afleiðingarnar þöngulhugsunar geta svo sannarlega verið þungbærar svo sem dæmin sanna og að sjálfsögðu ræðst sjálfstæði þjóða ekki af myntinni einni!

Grein Þorsteins er hnitmiðuð og svo er sem hann sé að semja punkta fyrir nemendur sem eiga að fara að ganga til próftöku.

Gera má ráð fyrir að það sé ekki að ástæðulausu. Það hefur reynst erfitt að koma því inn hjá þjóðinni að íslenska krónan sé ekki góður kostur og við munum mörg, að Þorsteinn var í viðræðunefndinni sem komið var á legg til að semja um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Því miður bar ríkisstjórnin sem við tók, ekki gæfu til að halda þeim viðræðum áfram og þaðan af síður ljúka þeim og því eru þær í ,,bið" sem stendur og sú bið er þjóðinni dýr.

Þjóðremba af því tagi sem réði úrslitum um að viðræðunum var slitið á ekkert skylt við ættjarðarást né neitt af því tagi, það er miklu frekar djúp og inngróin minnimáttarkennd sem ræður för.

Við þurfum að velja fólk til forystu fyrir þjóðina sem lætur stjórnast af raunsæi og rökfestu, það hefur stundum tekist en ekki nógu oft, en þegar það gerist hefur reynslan orðið góð.

Lokaorð Þorsteins eru eftirfarandi:

,,Nú fær ríkissjóður ekki lán í krónum í nægjanlegum mæli af því að krónan virkar ekki eins og sjálfstæður gjaldmiðill ætti að gera við þessar aðstæður. Þá eru tekin lán í evrum með lágum vöxtum en mikilli gengisáhættu. Meðan lánin streyma inn styrkist gengið. Þegar afborganir hefjast veikist það. Allir sjá að þessi pólitík er ekki byggð á traustum grunni. Verðbólgan og gengisáhættulánin sýna að frá sjónarhóli almannahagsmuna er það ekki ókeypis að standa alltaf í vegi fyrir kerfisbreytingum. Það hefur afleiðingar. En þeir eru vissulega til, sem græða."


Bloggfærslur 4. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband