Að tryggja matvælaframleiðslu þjóða

Í grein Ernu Bjarnadóttur sem er á bls. 42 í Bændablaðinu (2. tbl. 2021) fer hún yfir og ber saman ,,hvernig ESB og Noregur standa vaktina í hagsmunagæslu fyrir framleiðendur landbúnaðarvara til að tryggja framleiðslu þeirra".

2021-01-31 (2)Erna bendir á að: ,,ESB greiðir stóran hluta stuðnings síns til bænda í formi styrkja sem ekki eru skilyrtir framleiðslu tiltekinna afurða.“

Og spyr síðan: ,,Af hverju framleiða þá bændur innan ESB landbúnaðarafurðir? Og svarið er: ,,[...]af því að verð á þeim er nógu hátt [...] til að það borgi sig að framleiða." Hún bendir síðan á að ESB ,,tollverndin" sé stillt þannig af að vilji bændanna til að framleiða haldist.

Hún veltir því fyrir sér hvers vegna framkvæmdastjóri FA hafi kosið að vitna aðeins í hluta af 19. grein EES samningsins þ.e.a.s. þann hluta, þar sem því er lýst yfir að menn vilji stefna að auknu frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir, en framkvæmdastjórinn kjósi ekki að nefna til skilyrðin sem tekin eru fram í sömu grein.

Undir lok greinar sinnar bendir Erna á, að landbúnaðarstefna ESB samanstandi af tollvernd, styrkjum og öðru sem sé til ætlað að framleiðsla haldist uppi og falli ekki niður fyrir tiltekið lágmark.

Orðrétt segir Erna síðan: ,,það er ótrúlegt ef einhver telur að landbúnaðarstefna ESB miði ekki að því að tryggja viðgang landbúnaðar og að fjölbreytt framleiðsla landbúnaðarafurða eigi sér stað sem víðast í ríkjaheildinni." og bætir því síðan við að það sé skrifað inn í Lissabon sáttmálann sjálfan.

Niðurlagið er eftirfarandi: ,,Tollvernd er ein stoð í [...] kerfi bandalagsins. Þá lágmarkskröfu verður að gera til þeirra sem gera tillögur um gjörbreytingu á rekstrarumgjörð íslensks landbúnaðar að þeir segi þá sögu til enda en freisti þess ekki með hálfkveðnum vísum og fagurgala að afla fylgis við hugmyndir sem verulegar líkur eru á að leiði til samfélagslegrar niðurstöðu sem fæstir landsmenn vilja sjá."

 

Lönd tryggja matvælaframleiðslu sína af góðum og gildum ástæðum og það er ekkert sérstaklega bundið við Ísland, ef einhverjum skyldi hafa dottið það í hug. Þjóðir sem ekki búa við fæðuöryggi eru ekki í góðum málum og gott væri að hinir dugmiklu kaupmenn okkar hefðu það í huga.

Ef svo er að íslenskur markaður dugi ekki til að þeir geti fengið útrás fyrir þá athafnaþörf sem þeir búa yfir, þá er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að fá þörfinni fullnægt á stærri mörkuðum, því þó þjóðinni hafi fjölgað talsvert undanfarin ár, er hún enn sem komið er ekki stærri en sem svarar einu bæjarfélagi í Evrópulöndunum.

Þjóðin okkar er vel upplýst og dugleg og með sterka atvinnuvegi og landbúnaðurinn er einn af þeim. Við ættum að haga þjóðarbúskap okkar þannig að hann geti starfað eðlilega og það gildir um verslunina sem aðra atvinnuvegi.                                               

 

Ýmis fyrirtæki hafa haslað sér völl á erlendri grundu og ástæðulaust er að ætla að hinir kraftmiklu og hugmyndaríku kaupmenn okkar geti ekki gert það líka. Þarna úti er fullt af fólki sem bíður eftir því að geta notið ávaxtanna af dugnaði og útsjónarsemi þeirra og þó dæmi finnist um að þeir hafi reynt fyrir sér, þá má alltaf gera betur og gera meira.


Bloggfærslur 31. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband