Kindarlegar kindur?

Í Morgunblaðinu þann 20.1.2024 birtist grein eftir Kristínu Magnúsdóttur lögfræðing þar sem hún veltir upp þeirri spurningu, hvort eignarrétturinn sé til óþurftar í landbúnaði?

Skjámynd 2024-01-20 072907Það er von að spurt sé, því eins og fram kemur í grein hennar, þá hefur verið í seinni tíma löggjöf beitt ýmsum ráðum, til að gera ólöglega beit (sauðfjár) löglega, s.s. sést í kafla greinarinnar þar sem fjallað er um ,,laumuna".

Þar fóru alþingismenn þá leið að gera beit sauðkinda ,,löglega", ef landeigendur girtu ekki lönd sín með svokallaðri ,,vottaðri" girðingu.

Eins og greinarhöfundur bendir á, þýddi þetta í raun að sauðfjárbeit væri heimil á annarra lönd, nema þau væru sérstaklega varin fyrir fénaðinum með fyrrnefndri ,,vottaðri" girðingu.

Bændasamtök þess tíma (fyrir 22 árum) voru ánægð með þessa lausn, en rétt er að geta þess að töluvert vatn hefur runnið til sjávar á þessum tveimur áratugum og viðhorf hafa víða breyst, einnig í Bændasamtökunum.

Því hefur verið haldið fram að rétturinn til lausagöngu sauðfjár sé forn, en svo mun ekki vera þegar betur er að gáð og samkvæmt því sem fram kemur í greininni sem hér er vitnað til, mun það fyrst hafa komið fram í lögum árið 1991.

Það er lítil von til þess að menn geti fallist á, að það sem gerðist fyrir þremur áratugum sé aftur í fornöld!

Mikil breyting hefur orðið í nærumhverfi þess sem þetta ritar hvað varðar lausagöngu sauðkinda og er þar skemmst að segja frá, að engin vandræði sem hægt er að kalla því nafni stafar af henni.

Það er ólíkt því sem áður var, en skýringin mun vera breyttir búskaparhættir og þ.á.m. minni sauðfjárrækt.

Ritari hefur samt haft af því spurnir að ekki þurfi að fara langt til að finna búskaparhætti sem eru samkvæmt fyrra lagi: að kindum sé einfaldlega sleppt úr húsi og geti síðan farið hvert sem þær vilja og komast.

Grein Kristínar er að mati þess sem þetta ritar góð áminning og rétt er að taka fram að sauðheld girðing er ekki allsstaðar sauðheld og að sauður er ekki sama og sauður, eins og þar stendur.

Flestar kindur virða netgirðingar með gaddavírsstrengjum fyrir ofan og neðan, en ekki allar.

Það eru ekki mörg ár síðan ritari varð vitni að því að kind stökk yfir slíka girðingu og að önnur af sama uppruna gerði tilraun til að grafa sig undir nýlega og vandaða veggirðingu, líkt og hundur væri.

Kindurnar reyndust eiga uppruna sinn í nærliggjandi sveitarfélagi, svo ekki þurfti langt að fara til að finna sauðfénað sem ræktaður hafði verið án tillits til hátternis af þessu tagi.

Kindur eru sem sagt ekki sama og kindur, þó kindarlegar séu!


Þau sem aldrei gefast upp

Það þarf víst ekki að segja það nokkrum að orkumálin eru í hnút vegna þess að ýmist fást ekki leyfi til að virkja, en einnig er tregða á að heimildir fáist til að styrkja dreifikerfin.

Skjámynd 2024-01-19 081616Landsvirkjun gefst samt ekki upp og nú stendur til að reisa vindmyllur í þeirri von að þær bjargi einhverju.

Ekki er samt víst að málið sé í höfn, sé tekið mið af því hvernig Hvammsvirkjun var slegin út af borðinu þegar flestir töldu það mál vera á góðri leið.

Skoðun margra málsmetandi manna er að vel sé hægt að lifa í landinu líkt og gert var til forna. Þá var ekkert rafmagn, engar hitaveitur og ekkert vesen, gæti maður ætlað.

Samt er það svo að sé skyggnst inn í fortíðina, þá blasir ekki við sú veröld sem við viljum flest búa við. Um þetta er búið að skrifa langar greinar, bækur og skýrslur en það breytir engu, því þeir sem trúa, þeir trúa bara og hana nú!

Þjóðinni fjölgar hratt vegna fólks sem kýs að búa hér, þrátt fyrir kulda og trekk og vosbúð; vill fá að vinna og lifa í landi sem býður upp á eitthvað annað en það sem það er að flýja frá.

Vegna þessa þarf annað hvort að auka matvælaframleiðslu, eða treysta á að hægt sé að flytja inn það sem þarf.

Flestar þjóðir reyna að framleiða þau matvæli sem þær þarfnast; vilja ekki þurfa að treysta á aðra í veröld sem getur fyrirvaralaust breyst úr því sem er, í eitthvað annað svo sem fjölmörg dæmi sanna.

Áhöld eru um hvort íslenskir stjórnmálamenn skilji þessar staðreyndir, því þeir hafa æði oft verið staðnir að því að grafa undan innlendri framleiðslu með gjörðum sínum.

Við fyrirsjáanlegum skorti á matvælum vilja margir hins vegar bregðast svo sem Bændasamtökin.

Það þykir pólitíkusum þjóðarinnar ekki góður boðskapur og vilja frekar stóla á innflutta framleiðslu svo sem sannaðist, þegar heimilaður var innflutningur á kjúklingum frá Úkraínu, sem reyndist vera framleiddur af hollensku stórfyrirtæki með vafasaman orðstír.

Hinir góðhjörtuðu alþingismenn töldu heimildina til innflutningsins vera góða ráðstöfun á þeirri forsendu að Úkraína væri svo langt í burtu að ekki myndi reyna á heimildina góðu.

Innflytjendur lögðust yfir landakort og fundu út að Úkraína væri þar sem hún hefði verið um langan tíma og hófu innflutning af miklu kappi eins og þeim er tamt.

Nú eru komnir fram á sjónarsviðið aðrir menn sem gefa öllum þessum hindrunum langt nef og ætla að framleiða fisk til sölu innanlands, en ekki síst til útflutnings.

Hvort stjórnmálamenn þjóðarinnar finna einhverja leið til að stöðva þessar hugmyndir í fæðingu mun tíminn leiða í ljós.


Aldrei að gefast upp

Skjámynd 2024-01-10 071555Sumir gefst aldrei upp og svo er um þá sem hyggja á vetnisframleiðslu við hlið Reykjanesvirkjunar og kvikuhlaup og jarðhræringar breyta þar engu.

Sama er um Landsvirkjun sem gefst ekki upp á að leita leiða til að uppfylla orkuþörf þjóðarinnar, þrátt fyrir að stemningin sé sú, að hún, eða að minnsta kosti fjalltraustir og sjálfskipaðir alvitringar hennar, leggist gegn flestum hugmyndum sem fram koma varðandi virkjanakosti.

Raforkan skal verða til úr engu og ekkert skal verða að miklu, mun vera kjörorð þeirra sem hvergi vilja virkja, en vilja samt eiga óheftan aðgang að raforku, hvað sem raular eða tautar.

Möguleikarnir eru sannarlega til staðar og þeir eru með ýmsu móti: það er hægt að virkja fallvötnin, jarðhitann, vindinn o.s.frv. en það er ekki hægt samt.

Kertaljós og klæðin rauð var sungið á jólunum og er líklegast gert enn og þó virkjanaandstæðingar nefni ekki þann möguleika til lýsingar, þá má gera ráð fyrir að þá dreymi blauta drauma um fyrri tíma þjóðar, sem kúldraðist í vistvænum torfkofum og sló gras með orfi og ljá og sópaði heyinu síðan saman veð hrífu.

Sótti sér björg í bú með því að róa út á sjó þegar færi gafst og lifa í voninni um að allir sem til sjós fóru kæmu til baka, en ef svo fór að þeir skiluðu sér ekki, þá var bara að taka því.

Súrt slátur og súrsaðir hrútspungar, finnst sumum vera gott fóður inn í daginn og við étum það á þorrablótum og sumir skola því niður með brennivíni, íslenska viskíinu, sem enginn vill drekka nema sumir í harðindum, eða þegar löngunin í vímuna verður óbærileg.

Stemningin er afturhvarf til fortíðar og því meira sem menn læra, því sannfærðari verða þeir um að allt geti orðið til af engu og orðið að miklu, ef ekki öllu eða bara hverju sem er.

Eigum við að reyna að trúa hinni nýju lífsspeki?


Innflutningur, náttúruvá, ófriður og hörmulegt slys

Skjámynd 2024-01-13 073826Það er margt sem við fáum frá Kína, svo sem við sjáum við að lesa þó ekki sé nema fyrirsögnina og því er gott að halda góðum tengslum við það ógnarstóra og fjölmenna þjóðfélag.

Sumir telja að núverandi forsætisráðherra geti verið vænlegur kostur fyrir þjóðina í komandi forsetakosningum.

Og svo eru það orkumálin sem þarf að koma í lag eftir að hafa verið látin reka á reiðanum um ára, ef ekki áratuga bil.

Kínverja getum við afgreitt þannig að þeir sjá um sig sjálfir og við getum engin áhrif haft á það sem þar gerist; getum einungis fylgst með og reynt að halda góðu sambandi, en þaðan kaupum við allt mögulegt, eða allt frá flutningaskipum til leikfanga og allt þar á milli.

Því er það að okkur stendur ekki á sama, þegar siglingar truflast um Súesskurð og Rauðahaf og skipin þurfa að fara að sigla suður fyrir Afríku til að koma varningnum til okkar.

Það er ófriður í Miðausturlöndum, ófriður sem ekki sér fyrir endann á nema síður sé, því svo virðist sem sífellt fleiri blandi sér í þann ljóta leik.

Blaðran sprakk þegar Hamaz gerði árás á fólk, á tónleikum í Ísrael og drápu af handahófi talsvert á annað þúsundir manna.

Á þá árás má lita sem örvæntingarviðbrögð þjóðar sem búið er að þjarma að um langan tíma, eða allt frá lokum síðari heimstyrjaldar. Flestir þekkja þá sögu og hún verður ekki rifjuð upp hér, en afleiðingarnar eru skelfilegar og yfirgangurinn gagnvart palestínsku þjóðinni mikill.

Nú keyrir um þverbak og svo er að sjá sem markmiðið sé að útrýma þjóðinni sem er og hefur verið um aldir og þeir sem að verkinu standa njóta ómælds stuðnings vina sinna vestan Atlantshafsins.

Við á litla Íslandi getum fátt gert í málinu; getum í raun ekki gert annað en vonað að menn nái áttum og hætti manndrápum og eyðingu byggðar - ef þá eitthvað er eftir til að eyða - setjist að samningaborði og ræði sig niður að ásættanlegri niðurstöðu sem yrði farsæl fyrir alla.

Svona getum við hugsað og vonað, en líkurnar til að raunhæfur friður komist á eru afar litlar a.m.k. sem stendur; leikurinn er ójafn og því geta þeir sem yfirgangi beita farið sínu fram.

Vandamálin okkar eru smámunir í samanburði við það sem er að gerast í Miðausturlöndum.

Við þurfum samt að koma okkur saman um hver verður forseti þjóðarinnar, hvernig við ætlum að koma raforku á milli landshluta o.s.frv.

Það getur stundum verið ágætt að vera lítil þjóð á eyju í Atlantshafinu, þrátt fyrir eldvirkni og jarðskjálfta og leitar þá hugurinn út á Reykjanes, til fólksins sem flýja þurfti úr bænum sínum vegna jarðskjálfta og eldgosahættu.

Til mannsins sem fórst við vinnu við að fylla upp í sprungu sem myndast hafði í Grindavík, aðstandenda hans og björgunarsveitarfólksins sem gerði það sem það gat og varð að lokum að gefast upp við að finna félaga sinn.

Hugurinn er hjá þessu fólki núna, með ósk um að allar góðar vættir muni styrkja þau í þeim raunum sem þau eru að takast á við.

Aðstandendur mannsins sem fórst, þarfnast stuðnings og hlýju og þeim óskar ritari alls hins besta og að þau fái styrk til að standast þessa raun.


Orkumálin enn og aftur

Enn er það orkubúskapurinn sem er ofarlega í huga og nú er það orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða sem sendir grein í Morgunblaðið og segir frá því að orkuskorturinn kosti um hálfan milljarð og bætir því við að olíunotkun muni aukast um 3,4 milljónir lítra!

2024-01-02 (1)Elías Jónatansson segir í grein sinni:

,,Eng­um dylst að raf­orku­skort­ur er yf­ir­vof­andi á Íslandi. Ekki eru þó öll sund lokuð því við get­um áfram treyst á jarðefna­eldsneyti til að þreyja þorr­ann og gó­una og flytj­um inn eina milj­ón tonna ár hvert. Því miður stefn­ir í það að á ár­inu 2024 fimmtán­fald­ist ol­íu­notk­un Orku­bús Vest­fjarða (OV) frá ár­inu í ár, fari úr 220 þús. lítr­um í 3,4 millj­ón­ir lítra. Aukn­ing í los­un gróður­húsaloft­teg­unda verður þá 9.200 tonn. Hægt er að vinna bug á þessu vanda­máli og sóun fjár­muna með virkj­un inn­lendr­ar orku."

Eins og sést á síðustu orðum þessarar tilvitnunar, þá þarf þetta ekki að vera svona.

Við erum svo lánsöm að landið okkar er ríkt af orku af ýmsu tagi sem ekki fæst nýtt þjóðinni til hagsbóta. Því er það, að ekki verður séð annað en inn verði fluttir orkuberar frá öðrum löndum um ófyrirsjáanlega framtíð og það sem fram kemur í grein Elíasar er enn eitt dæmið um það.

Það næst ekki fram, að virkjuð séu fallvötnin okkar til orkuöflunar, vindorkan mætir andstöðu, m.a. vegna þess að sumum þykir ekki prýði að myllunum nema þær séu í útlöndum o.s.frv.

En alltaf má finna lausnir og sem betur fer er hægt að flytja inn jarðefnaeldsneyti og nýta orkuna sem í því býr!

 Í annarri aðsendri grein í Morgunblaðið er farið yfir það hvernig lagafyrirkomulegið er varðandi skatta og skyldur af mannvirkjum vegna orkuöflunar.

2024-01-03 (11)Greinina ritar oddviti og sveitarstjóri í Skeiða og Gnúpverjahreppi og í henni kemur fram:

,,[...]að eng­inn ávinn­ing­ur er fyr­ir sveit­ar­fé­lög að skipu­leggja og heim­ila upp­bygg­ingu á orku­mann­virkj­um þar sem þau skila litl­um sem eng­um tekj­um í nærum­hverfið. Í sum­um til­fell­um skila orku­mann­virk­in fjár­hags­legu tjóni fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in og íbú­ana í nærum­hverf­inu. Sú staðreynd varð til þess að í júní skipaði fjár­mála- og efna­hags­ráðherra starfs­hóp til að end­ur­skoða skattaum­hverfi orku­vinnslu. Starfs­hóp­ur­inn átti að skila af sér 31. októ­ber. Síðan var því frestað til 6. des­em­ber og þegar þetta er skrifað hef­ur ekk­ert komið frá fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um boðaðar skatta­breyt­ing­ar."

Það eru sem sé hnútar í ,,kerfinu" sem þarf að leysa og til þess eru skipaðar nefndir.

Menn hittast og spjalla, fá greitt fyrir nefndarsetu, skila af sér áliti o.s.frv., málum er frestað og að lokum gerist ekki neitt!

Þetta er ,,möppudýra"- veröldin sem við erum búin að koma okkur upp í ,,kerfinu" góða.

Menn hittast, spjalla, draga ályktanir, skrifa niður minnispunkta og skila af sér skýrslu sem stungið er í möppu og síðan komið fyrir í hillu og/eða varðveitt í viðeigandi skjalasafni.

Hér gildir ,,að eftir japl jaml og fuður" eru hlutirnir ,,grafnir út og suður", líkt og komist var að orði af öðru tilefni.

Það sér það hver maður að svona getur þetta ekki gengið til áfram, en hvenær það blessaða ,,áfram" kemur er vandi um að spá og satt að segja fátt sem bendir til þess að ,,kerfið" okkar verðið skilvirkara í náinni framtíð.

Hugsanlega þarf, til þess að við vöknum upp af þyrnirósarsvefninum, að til komi hrun af nýrri gerð; ekki hrun líkt því sem ævintýramenn kölluðu yfir þjóð sína fyrir 16 árum, heldur hrun sem veldur efnahagslegri kreppu af öðru tagi og sem sprottin er af öðrum rótum; rótum sofandaháttar, ákvarðanatökufælni og almenns sinnuleysis.

Það vantar samt ekki að varnaðarorðin eru komin fram, það sem vantar er að það sé hlustað og brugðist við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband