Hatrið og eftirmálarnir

Á CNN.COM er sagt frá því að ísraelskir hermenn geti staðið frammi fyrir lögsókn vegna hernaðar Ísraels á Gaza og hugsanlega víðar.

Í greininni sem hér er vísað til og sem nálgast má á tenglinum, er sagt frá því að almennur hermaður sem einungis gerði það sem honum var sagt að gera, hafi orðið að forða sér frá Brasilíu undan mögulegri málsókn, vegna þátttöku sinnar í hernaði Ísraels gegn íbúum landsins.

Ástandið í Ísrael og Palestínu rekur sig allt aftur til uppgjörs alþjóðasamfélagsins við seinni heimsstyrjöldina.

Heimsbyggðin var í áfalli eftir að framferði nasista var opinberað og viðhorfið var, að tryggja þyrfti Gyðingum land til að búa á og niðurstaðan varð, að þeir ættu rétt á landi þar sem þeir hefðu verið til forna og af því leiddi að stofnað var Ísrael.

Það þótti ekki taka því að taka inn í jöfnuna að á svæðinu bjó fólk, sem hafði búið þar um aldir.

Afleiðingarnar höfum við síðan verið að sjá allar götur síðan í stjórnlausum yfirgangi, og ofbeldi sem beitt hefur verið á báða bóga, en vert er að hafa í huga að aflsmunurinn er afar mikill s.s. sjá má af stuðningi bandarískra yfirvalda við stjórn Netanjahu.

Það hlýtur að vera erfitt að sætta sig við og skilja, að fólk birtist í nútímanum, sem segist eiga rétt á landinu sem forfeður þeirra bjuggu á í fornöld birtist og krefjist þess ,,réttar“ og að nú skuli menn koma sér á brott með sig og sína en megi (ó)vinsamlegast skilja eftir allt ,,sitt“ og ef þessu boði verði ekki hlítt, þá muni menn hafa verra af.

Frammi fyrir þessu er staðið og móðurríkið vestan Atlantshafsins sér um að tryggja, að ríkið sem þannig varð til, geti lifað og dafnað.

Og það hefur gengið nokkuð vel.

Að sama skapi hefur þjóðinni sem fyrir er á svæðinu gengið illa; hefur verið hrakin af landi sínu og skemmdarverk unnin á ræktun þeirra s.s. ólífutrjám, sem langan tíma tekur að rækta áður en þau skila afurðum.

Sagan segir að hin vel menntaða þjóð í Ísrael sé búin að koma sér upp kjarnavopnum, eða að minnsta kosti sé í fullum færum um að gera það og því er full ásæða til að óttast.

Reyndar hafa borist af því fregnir að fleiri hafi fiktað við slík vopn á þessu svæði og því er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála á svæðinu.


Orkuöflun sem ekki hefur náðst óg pólitíkin


Í Heimildinni er grein um orkumálin, sem er hvatning til nýrrar ríkisstjórnar um að standa sig varðandi orkuöflun en eins og kunnugt er, þá er vikið að þeim þætti í samstarfssamningi hinna nýju ríkisstjórnarflokka.

Greinina skrifar Ketill Sigurjónsson og yfirskriftin er Orkutækifæri Íslands á góðu skriði eða í öngstræti.

Í inngangi að grein sinni segir Ketill, að margt [sé] óljóst varð­andi út­færslu þeirra at­riða sem fjalla um orku­mál í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. „Þarna hræða spor­in,“ skrif­ar hann og seg­ir að mik­il­vægt [sé] að gerð­ar verði breyt­ing­ar á laga- og stjórn­sýslu­um­hverf­inu til að flýta þró­un nýrra orku­verk­efna.

Ritari þessarar síðu hefur oft drepið á, að ekki fari saman að vilja skipta orkunotkun þjóðarinnar sem mest yfir í raforku en vilja á sama tíma ekki afla þeirrar orku og það hvorki með nýtingu vinds nér vatnsfalla, að ógleymdu því að óþarflega hægt gengur sumstaðar að afla hitaorku úr iðrum jarðar. Auk þess hve illa sú orka er nýtt og látin renna til sjávar án þess að ,,vinda“ úr henni afgangsorkuna svo sem unnt er, t.d. með varmadælum.

Varmadælur þurfa rafmagn og þess þarf að afla!

Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni sem fleirum, og því er rétt að hvetja áhugafólk um þessi mál til að lesa grein Ketils sem er bæði lipurlega skrifuð og skýr í framsetningu.

Við erum eftir síðustu kosningar laus úr helsi Vinstri grænna, sem þjóðin hafnaði svo skýrt sem verða mátti, því flokkurinn féll út af þingi, sjálfum sér til vansæmdar en þjóðinni vonandi til blessunar og því ætti að vera mögulegt að þoka málum áfram, þ.e.a.s., ef Sjálfstæðisflokkurinn og ekki síst Miðflokkurinn fást til að stunda málefnalega stjórnarandstöðu.

Ef við viljum verða betur sjálfbær varðandi orku þá þurfum við að afla hennar, svo einfalt er það!

Helsti hemillinn á stjórnmálasviðinu fékk verðuga lausn frá pólitíkinni eins og fyrr sagði og það fengu reyndar ýmsir fleiri af svipuðu tagi sem vermt hafa stóla á Alþingi undanfarin allt of mörg ár.

Eftir situr reyndar fyrrnefndur Miðflokkur, sem fáir vita hvaðan er að koma, eða hvert hann er að fara og trúlega allra síst flokksfélagarnir sjálfir.

Því er það, að nú blasa við tækifærin til að þoka málum áfram í stað þess að um þau sé japlað og jamlað og tuðað, þar til að þau lognast út af.

Við horfum því með björtum augum fram á veginn og vonumst eftir, að stjórnarandstaðan á þingi verði málefnaleg í gagnrýni sinni í stað þess sem stundum hefur verið að standa svo sem unnt er gegn því sem frá ríkisstjórninni kemur og það hvort sem það er þjóðinni til heilla eður ei.

Við vonum það besta en erum búin undir það versta, að fenginni reynslu undanfarinna áratuga!


Flugslys?

Flugvél fer óvænt af leið og verður fyrir áfalli, sem veldur því að hún hrapar til jarðar.

Ýmist er því haldið fram að vélin hafi lent í fuglahópi og síðan hrapað, eða fullyrt er, að vélin hafi verið skotin niður fyrir mistök.

Hvort heldur sem er, þá er málið sorglegt en svo ótrúlegt sem það er, þá björguðust tveir áhafnarmeðlimir lifandi frá slysinu.

Úkraínumenn halda því fram að Rússar hafi skotið vélina niður, aðrir giska á að lítið þjálfaðir menn hafi orðið fyrir því óláni að skjóta hana niður vegna þess að þeir hafi talið hana vera úkraínskan árásardróna,

Á CNN.COM rekumst við á vandaða umfjöllun um málið og niðurstaðan er að best sé að hrapa ekki að ályktunum.

Eftir situr, burtséð frá því sem varð til þess að vélin hrapaði til jarðar, að hörmulegt slys hefur átt sér stað, hvort sem það er vegna ófriðarins sem geisar eða einhvers annars.

Það er sama hvað gerist í þessu ömurlega stríði, að það er sem engum til þess bærum detti í hug, að gott gæti verið að ræða málin; ræða sig til niðurstöðu, hætta manndrápum og eyðileggingu verðmæta.

Vilji menn leika sér að hergögnum, þá hlýtur að vera hægt að finna til þess einhverja mannlausa eyðimörk í stað þéttbýlis þar sem fjöldi fólks býr.

Þegar þetta er ritað, hefur komið fram í fréttum, að flugvélin hafi af einhverjum óutskýrðum ástæðum villtist af leið og það svo, að hún flaug þvert yfir Kaspíahafið, þangað sem menn voru að reyna að tortíma úkraínskum árásardrónum, sem gera má ráð fyrir að hafi verið fengnir hjá einkavinum Úkraínu.

Putin er búinn að biðjast afsökunar fyrir hönd sinna manna og þjóðar sinnar.

Hér er sem sé enn eitt dæmið um það, að það er alls ekki gefið, að þeir sem ófriði valda sem séu þeir einu sem verða fyrir áföllum þegar reynt er að leysa ágreining með stríðsrekstri.

Ef einhver getur rifjað upp afsökunarbeiðni af svipuðu tilefni frá einkavinum vorum og verndurum í vestri, þá væri það vel þegið.


Gas... og ekkert gas!

Það var stór áfangi í dreifingu orku, þegar teknar voru í notkun gaslagnirnar frá Rússlandi um Úkraínu og yfir til vestur- Evrópu.

Mynd úr The Guardian

Fljótlega fór samt að bera á því að ekki yrði um vandræðalausa miðlun að ræða, því gasið sem lagði af stað í lögnunum skilaði sér ekki allt þangað sem til stóð að það færi, þ. e. til vestur- Evrópulandanna sem greiddu fyrir það sem þau fengu…, en ekki fyrir það sem sent var af stað.

Það eru eðlilegir viðskiptahættir að greitt sé fyrir það sem afgreitt er.

Finnst flestum en ekki öllum.

Fljótlega fór að bera á því að það bar ekki saman mælingum á því sem sent var af stað og því sem tekið var út og þegar málið var kannað kom í ljós að boruð höfðu verið göt á lagnirnar og útbúinn aftöppunarbúnaður til að hægt væri að ná sér í gas án þess að borga þyrfti fyrir það.

Götin voru í Úkraínu og þar fór fram hin úkraínska miðlun á ódýrri orku.

Nú bregður nýrra við, því hinir orkuþurfandi Úkraínar hafa tekið upp á því að loka fyrir streymi á gasi til þjóðanna í vestri.

Og þeir gera það um hávetur þegar þörfin fyrir orku til hitunar er mest en þeim sást yfir að hægt er að loka fyrir á fleiri stöðum og nú fæst ekki lengur ókeypis gas úr lögnunum góðu í Úkraínu!

Frá þessu er sagt í ýmsum miðlum, s.s. The Guardian og CNN.COM, og þótt það hafi verið stór áfangi á sínum tíma að geta fengið streymandi gas til upphitunar o.fl. með þessum auðvelda hætti, þá er það ekki svo lengur.

Eftir að ófriðurinn milli landanna færðist í það horf sem verið hefur í seinni tíð, hafa gasflutningarnir með þessari leið verið ótryggir en við því hefur verið brugðist með ýmsum hætti.

Það hljóp svo dæmi sé tekið á snærið hjá bandarískum aðilum, sem sáu sér færi til að flytja út gas til Evrópu með gasflutningaskipum en eins og flestir munu átta sig á, þá er það ekki eins hagkvæmur kostur eins og að gasið streymi einfaldlega um leiðslur.

Og ekki má heldur gleyma því að vistvænskan fýkur út um strompinn á flutningaskipunum!

Úkraínar loka fyrir gasstreymið eftir lögnunum og þakka þannig fyrir hinn vestræna stuðning, sem verið hefur við þá í átökunum milli þjóðanna og sem hefur svo dæmi sé tekið, kostað íslenska þjóð milljarða ef ekki milljarðatugi ef allt er talið.

Fyrir Rússa er þetta trúlega ekki mjög mikið mál því þeir selja gas í margar áttir en fyrir íbúa Evrópu, a.m.k. suma, er þetta vont mál, því orkuverð hefur farið hækkandi og tekið æ meira í pyngjur allra sem gasið nota.

Og svo má ekki gleyma því að nú gera má ráð fyrir því að Rússar loki fyrir streymi á gasi til Úkraínu!


Rusl til vandræða í geimnum

Á CNN.COM er sagt frá því sem er á sveimi umhverfis okkur og ruslinu sem hefur orðið til vegna athafna okkar.

Það verður samt að segja það eins og er, að geimurinn er ógnarstór og því sleppur þetta furðanlega enn, en í greininni er t.d. sagt frá því að eitt sinn hafi þurft að ræsa hreyfil rússneskrar geimflaugar sem tengd var stöðinni til að hnika henni til og forða henni frá árekstri.

Screenshot_28-12-2024_10523_edition.cnn.comÞað er flestum kunnugt að umgengni okkar um Jörðina okkar er ekki til fyrirmyndar og má í því sambandi nefna sem dæmi fljótandi rusleyjar á úthöfunum, en að athafnasemi okkar utan Jarðarinnar sé slík að varasöm sé, er nýtt umhugsunarefni.

Tæknin með m.a. gervihnöttum hefur fært okkur margvísleg lífsgæði s.s. í fjarskiptum og til staðsetningar svo fátt eitt sé nefnt.

Allt getur þetta verið í uppnámi ef ekki er farið gætilega. ,,Lengi tekur sjórinn við“, var eitt sinn viðkvæðið og þó hann sé stór og geti tekið við miklu af rusli, þá er geimurinn í segulsviði Jarðarinnar enn stærri og það er þar sem stefnir í vandræði.

Við höfum engin tæki né tól til að hreinsa geiminn en við getum vonað að með tíð og tíma fari eitthvað ef þessu rusli það nærri gufuhvolfinu að það brenni þar upp og ef það fer að gerast, má reikna með að hjartsláttur aukist meðal bandarískra áhrifamanna, sé tekið mið af því hve skelkaðir þeir eru þegar leikfangadrónar og loftbelgir bera þeim fyrir augu.

Við þurfum að gæta okkar og ganga sæmilega um, hvort heldur sem er á Jörðinni eða í nágrenni hennar.

Það er það sem við lærum af þessu og hefðum betur lært fyrr.

Ýmsar skemmtilegar og lifandi myndir fylgja greininni á CNN og þær má sjá með því að nýta sér tengilinn sem er í upphafi þessa pistils.


Aðfangadagur og fréttir

Við lauslegt yfirlit á fréttum getum við lesið um ferðalög af mismunandi gerð.

Á CNN halda menn sig við Jörðina og farið er um ,,sundið" milli Suður Ameríku og Suðurskautslandsins, þar sem straumar mætast með tilheyrandi ólgu.

Skjámynd 2024-12-24 070704Þegar litið er aðeins til hægri á skjánum birtast kunnuglegar myndir þar sem verið er að auglýsa ferðalög til Íslands.

Á BBC er farið aðeins lengra, því þar er sagt frá geimfari sem er á leið til Sólarinnar.

Þegar við höfum lokið skoðun á þessum frásögnum, af ferðalögum af mismunandi tagi, getum við leitt hugann að því sem á gengur í samskiptum manna og þjóða, þar sem ekki hefur tekist að leysa ágreining með eðlilegum mannlegum samskiptum.

Það er barist um austurhéruð Úkraínu og það er barist í Ísrael og Palestínu og reyndar miklu víðar í heiminum.

Það er sem sagt ekki sérlega friðsamlegt í veröldinni, þó hátíð friðar sé að ganga í garð meðal kristinna þjóða og enn og aftur horfum við upp á það, að menn ná því ekki að greiða úr ágreiningi sínum með friðsamlegum hætti.

Maðurinn sem kosinn var til forseta í Bandaríkjunum sér þann kost vænstan að ,,kaupa" Grænland af Dönum og honum kemur það væntanlega ekkert við, að á Grænlandi býr þjóð og hefur búið um tíma sem mældur er í hundruðum og jafnvel þúsundum ára.

Hrokinn er ekki mældur í fingurbjörgum í ,,guðs eigin landi" og reyndar reiknum við með að guð hafi lítið komið nærri hugmyndasköpun af þessu tagi.

Það er nefnilega svo, að hrokinn verður ekki mældur í rúmmáli né með vigt, hvorki í því landi né öðrum.

Þá langar til að ,,kaupa" Grænland og þeir ætluðu að ráða því t.d. hvernig Vietnamar hegðuðu lífi sínu; fórnuðu þar sínum eigin mönnum og enn fleiri íbúum Vietnam, í tilraun til að komast yfir land sem þeim kom ekkert við.

Hunskuðust síðan burt við frekar lítinn orðstír, þreyttir og þjakaðir, auk þeirra sem komu heim og höfðu áður komið heim í pokum, þ.e.a.s. ef þeir þá fundust.

Og þeir eru ekki einir um hátterni af þessu tagi, því sagan greinir frá ámóta framferði svo langt aftur sem hægt er að kanna og þar koma margar þjóðir við sögu.

Við höldum samt í vonina um frið í heimi og reynum að láta þá von endast allt árið og árin en ekki aðeins yfir jólahátíðina.

Gleðilega hátíð!


Flygildi, drónaflug og geimganga

Kínverjar skjótast frammúr Bandaríkjamönnum og Rússum í geimsprikli allskonar og eitt það nýjasta sem sagt er frá á CNN.COM, er að þeir hafi sent tvo geimfara í geimgöngu sem stóð yfir í níu klukkutíma.

Hvernig geimfararnir nærðust og sinntu öðrum líkamlegum þörfum sínum kemur ekki fram í umfjölluninni en við gerum ráð fyrir að þeir hafi tekið með sér nesti.

Það er líka rifjað upp í fréttinni að Kínverjar hafi skotið öðrum geimkönnuðum ref fyrir rass, þegar þeir sendu menn til bakhliðar Tunglsins og þaðan síðan heim aftur.

Á Íslandi var verið að ræða það í Ríkisútvarpinu að rannsóknarstöð Kínverja væri ef til vill og huganlega og kannski, ekki öll þar sem hún er séð og vitanlega voru það Bandaríkjamenn sem fyrir því voru bornir.

Við munum að fyrir einu ári eða svo, var ári gaman að fylgjast með fréttum frá Bandaríkjunum, þegar þeir voru að eltast við veðurloftbelgi sem borist höfðu yfir til þeirra.

Belgirnir voru náttúrulega kínverskir og þar sem svo var, tóku þeir bandarísku það til bragðs að skjóta einhverja þeirra niður.

Við gerum ráð fyrir að þeir séu enn að rannsaka hræin, ef þeir þora þá að koma nærri þeim!

Fleira er í þessari kú, því nú eru kanar vaknaðir til lífsins og búnir að búa sér til áhyggjuefni vegna kínverskrar rannsóknarstöðvar sem er hér á ísa köldu landi.

Stöðin mun vera til þess, að rannsaka norðurljósin og líklega óttast Bandaríkjamenn að ljósin slokkni eða breytist ef kínversk augu virði þau fyrir sér.

Annað mjög dularfullt mál er að plaga þá bandarísku þessa dagana og það er, að fljúgandi furðuhlutir sveima nú yfir landi þeirra og borgum þess meira en nokkru sinni fyrr, en eins og svo oft áður fundu menn það út eftir ítarlegt japl jaml og fuður, rannsóknir og tuður, að um væri að ræða flygildi sem fá má í nálægum leikfangaverslunum.

Málið verður sett í nefnd, gerum við ráð fyrir og þaðan yfir í yfirnefnd og að því loknu verður farið að skoða hvort norðurljósin logi, hafi breytt um lit eða stækkað eða minnkað.

Því eitthvað verða menn að hafa að iðja, í vestri sem og annarstaðar.


Fljúgandi furðuhlutir og barnsrán...

Ríkisútvarpið segir frá því að sést hafi til fljúgandi furðuhluta enn einu sinni í Bandaríkjunum og hefur það trúlega eftir frétt sem var á AP fréttastofunni.

Við Íslendingar látum okkur nægja einn slíkan en hann er í formi ,,utanríkisráðherra“, sem nú er að nýta sér möguleika til heimshornaflakks á kostnað þjóðar sinnar og fer sú til til Eistlands á einhverskonar ráðstefnu eða fund um eitthvað.

Í Danmörku er sá siður við hafður, að taka nýfædd börn með valdi frá mæðrum sínum séu þær grænlenskar.

Skjámynd 2024-12-16 053717Frá því er einnig sagt á Ríkisútvarpinu en þar má sjá þegar verið er að taka með valdi barn af móður sem er nýbúin að fæða það í heiminn.

Rúv hefur fréttina frá AP fréttastofunni, eftir því sem ritari kemst næst og það verður að segjast, að það er sárt að horfa upp á það, þegar verið er að fjarlæga barnið frá móður sinni.

Móður sem ekki er í neinni aðstöðu til að gera neitt til að koma í veg fyrir ránið.

Danir eru ekki með sem hreinastan skjöld hvað varðar framkomu við frumbyggja Grænlands og er lykkjumálið alræmda þekkt dæmi þar um.

En að öðru, því nú eru það enn eitt sinnið sem fljúgandi furðuhlutir eru að ergja Bandaríkjamenn.

Þeir sveima yfir og allt um kring, bandarískum til hrellingar og þó nú sé um að ræða dróna, eftir því sem sagt er og þá væntanlega dróna sem einhverjir eru að leika sér með í bandarísku andrúmslofti, þá er vissara að líta á flygildi af þessu tagi sem sendingu frá Kína, Rússlandi eða utan úr geimnum sé maður bandarískur.

Við munum eftir veður- njósna- loftbelgjunum sem svifu um í bandarískri lofthelgi fyrir skömmu, sem skotnir voru niður af bandarískum, kínverskum til skemmtunar.

Svona er það í mannheimum, að það gerist allt mögulegt og ómögulegt og sumt er af því tagi, að það læðist að grunur um að leikurinn sé gerður til að framkalla hlátur, eða a.m.k. glott eða bros. 

Sumt er þess eðlis að maður vill helst ekki trúa því og dæmi þar um, er það sem fram fór á hinu danska sjúkrahúsi.


Stjórnarmyndun og stjórnarómynd

Það er frekar þungt hljóð í töpurum vetrarkosninganna til alþingis, sem fram fóru fyrir fáum dögum.

Skjámynd 2024-12-14 061752Fjármálaráðherrann fráfarandi vill ekki kannast við að ríkissjóður sé illa staddur og telur að „[…]þetta fólk sé bara ekki læst á neinar tölur, því þetta lá fyrir við afgreiðslu fjárlaga,“, eftir því sem haft er eftir honum í Vísi.

Hann bregst þar við orðum Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar, sem mun hafa sagt sem svo, að fráfarandi ríkisstjórn skilji eftir sig verra bú en haldið hafi verið fram.

Kristrún mun hafa sagt það, þegar hún útskýrði hvers vegna það tæki tíma að fara yfir málin og mynda nýja ríkisstjórn, að það sem m.a. tefði væri:

„Fyrst og fremst er það vegna þess efnahagsstaðan er lakari,“ […]. „Það eru hægari umsvif í hagkerfinu, meðal annars vegna þess að vextir hafa verið svo gríðarlega háir að þeir hafa haldið niðri fjárfestingu og umsvifum. Þetta þýðir að við þurfum að passa okkur betur hvernig við högum stöðu ríkisfjármála og vali aðgerða“

Eins og við vitum, þá eru Framsóknarmenn öðrum betri í því að fara með almannafé og því er von að þeim sárni þegar þeim er bent á hvernig staðan í raunheimum er, efir að þeir hafa mótað og hnoðað ríkissjóð eftir sínu höfði um árabil.

Fráfarandi forsætisráðherra er jafnvel enn sárari, þar sem hann segir skv. fyrirsögn í mbl.is ,,að valkyrjustjórnin sé búin að pakka í vörn“.

Það er álitamál hver pakkar hverju og fyrir hvern en ljóst er, að ríkissjóður stendur ekki eins vel og fráfarendur vilja vera láta.

Það þekkja það margir, að það getur verið erfitt að horfast í augu við að illa hafi til tekist, auk þess sem ,,höfnun“ er ekki sérstaklega örfandi, en að stjórnmálamenn vilji ekki viðurkenna óþægilegar staðreyndir, ætti engum að koma á óvart.


Myndun ríkisstjórnar

Þær funda þétt konurnar þrjár sem eru að vinna í því að koma saman ríkisstjórn. Komið er í ljós að staða ríkissjóðs er ekki sérlega traust, svo ef til vill er kominn tími á, að hinar ,,hagsýnu húsmæður“ taki við taumunum.

Það er fjallað um stjórnarmyndunina á vef Ríkisútvarpsins og mbl.is þaðan höfum við þessar upplýsingar; þær hafa haldið þétt að sér spilunum og því vitum við ekki allt um það sem er að gerast.

Eftir Kristrúnu Frostadóttur er haft eftirfarandi á ruv.is:

„Ég held að það liggi í hlutarins eðli að við erum í þremur flokkum af ástæðu. En við erum allar mjög lausnamiðaðar og meðvitaðar um stóru myndina, að finna sameiginlega fleti og við erum að ná lendingu mjög víða og höfum getað talað okkur í gegnum allflest.“

Það hefur oft tekið talsverðan tíma að koma saman ríkisstjórnum og telja má að ekkert óeðlilegt sé að það taki nokkrar vikur.

Það má skynja það í þjóðfélaginu að vindurinn blæs með þessari tilraun til myndunar ríkisstjórnar og það eykur tiltrú að fólk skynji, að verið sé að vanda til verka.

Þau eru nógu mörg dæmin um að illa hafi verið staðið að ríkisstjórnarmyndunum og er sú sem nú er að fara frá gott dæmið um það.

Þar var soðin saman stjórn með einum flokki innanborðs sem ekki var stjórntækur og það má bæði virða það hinum flokkunum það til kosts og lasts að þeir skyldu hanga svo lengi saman í stjórnarsamstarfi með þeim flokki.

Sá fékk verðuga útreið í kosningunum og féll út af þingi og varð lítið um söknuð.

Við skulum vona að betur takist til núna og að stjórnin sem mynduð verður, verði betur samhangandi en fyrirbærið sem á undan var.

Á mbl.is er rætt við Kristrúnu og þar segir m.a. eftirfarandi:

,,„Rík­is­stjórn­in fyrr­ver­andi er að skilja eft­ir sig verra bú, meðal ann­ars vegna þess að efna­hags­um­svif eru minni en áður var við bú­ist. Tekj­ur til rík­is­ins eru minni og þetta er auðvitað mjög erfitt mál því þarna þarf að for­gangsraða. Þarna þarf að ræða bæði tekju­hlið og út­gjalda­hlið,“ seg­ir Kristrún.

Heild­araf­koma A1-hluta rík­is­sjóðs árið 2025 er nú áætluð nei­kvæð um 1,2% af vergri lands­fram­leiðslu. Er það lak­ari af­koma en áætlað var við fram­lagn­ingu fjár­laga­frum­varps­ins í sept­em­ber og fjár­mála­áætl­un­ar 2025-2029 í apríl.“
Kristrún segir að þetta séu afleiðingar af ákveðnu stjórnarfari og bætir eftirfarandi við í samtalinu við blaðamann:

,,„Þetta hef­ur auðvitað áhrif á það hvernig við hugs­um ákveðnar aðgerðir en þetta er bara staðan eins og hún er og við þurf­um bara að vinna með hana. Ég segi að það sé bara gott að það stefni mögu­lega í að nýtt fólk taki við vegna þess að þetta bú er af­leiðing af ákveðnu stjórn­ar­fari sem hér hef­ur verið til staðar,“

Viðtalinu lýkur með eftirfarandi tilvitnun í orð hennar:

,,„Við erum að minnsta kosti að skanna hag­kerfið, ef svo má segja, varðandi þenslu og passa upp á það að við sjá­um áfram­hald­andi lækk­un vaxta og verðbólgu. Ef við för­um af stað í út­gjöld sem tefla því ferli í tví­sýnu þá fáum við það aft­ur í fangið, við erum fullmeðvitaðar um það. Það eru hins veg­ar ákveðnar breyt­ing­ar sem er hægt að gera strax. Sum­ar kosta ekki neitt, aðrar kosta minna. Sum­ar er hægt að sækja tekj­ur fyr­ir strax, eða hagræða fyr­ir strax,“ seg­ir Kristrún.“

Viðskilnaðurinn er sem sagt ekki sérlega góður og kemur það ekki á óvart, þegar milljörðum hefur verið slett í ýmsar áttir án mikillar yfirvegunar um árbil og það án þess að byggt hafi verið undir og innviðir styrktir, s.s. sést á raforkukerfinu o.fl. og fl.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband