Langdrægar flaugar eða ekki.

Til umræðu hefur verið að senda langdrægar eldflaugar til Úkraínu sem dregið gætu langt inn í Rússland og sitt sýnist hverjum um hvort það sé viturlegt.

Sem betur fer hefur verið horfið frá hugmyndum um að senda flaugar af þessu tagi til landsins a.m.k. í bili og ætli ekki megi segja að heimsbyggðin andi léttar fyrir bragðið.

Vopn af þessu tagi eru vandmeðfarin og ekki gott að þau séu í höndum þeirra sem ekki kunna með þau að fara.

Skjámynd 2024-09-16 062458Myndin, sem fengin er af vef BBC, segir meira en langur texti.

Erlendir miðlar segja fá því að fallið hafi verið frá hugmyndum um að færa Úkraínum eldflaugar af þessu tagi og má finna frásagnir á þeim, þar sem sagt er frá þeirri niðurstöðu málsins.

Ríkisútvarpið sagði nokkrum sinnum frá því í fréttum gærdagsins, að óskum Zelensky og félaga, hafi verið hafnað af t.d. af Biden og við lauslega yfirferð má sjá sagt frá þessu víðar.

Á vef Welt er fjallað um þetta, svo dæmi sé tekið og þar vitnað í Scholz.

Þar berst talið m.a. að eyðileggingunni á Nord Stream gasleiðslunum þar sem hann lýsir því afdráttarlaust yfir, að draga eigi þá fyrir dóm þá sem að þeim verknaði stóðu. Erfitt hefur verið að átta sig á hverjir séu hinir raunverulegu gerendur en böndin hafa borist æ oftar til Úkraínu upp á síðkastið.

Sem vonlegt er, þá er fjallað um eldflaugamálið á RT og augljóst er að þar er mönnum létt, þó ekki sé nema vegna þess, að tól af þessu tagi eiga ekki að komast í hendur þeirra sem ekki kunna með þau að fara.

Rússar munu nú um stundir leggja áherslu á að frelsa Kursk úr höndum Úkraína og ætti það að geta gengið vel, sé ástandið og liðsandinn hjá úkraínska hernum líkur því sem sagt hefur verið frá á vestrænum miðlum s.s. CNN o.fl.

Donbas gefa Rússar væntanlega ekki eftir fyrr en í fulla hnefana og kannski rætist ósk þeirra sem þar búa og hafa óskað eftir rússneskri vernd í von um frið fyrir áreiti, sem stundum varð að manndrápum á því svæði.

Nú hefur það orðið að styrjöld milli landanna, sem engum er til gagns en öllum sem hlut eiga að máli og mörgum öðrum, til ómældrar bölvunar.


Slæmt ástand í úkraínska hernum

CNN.COM segir frá því að hugur margra hermannna sé ekki góður og að viljinn til að fórna sér fyrir þjóð sína, fari verulega þverrandi.

Það er sem margir ungir menn sjái takmarkaðan tilgang í því að fórna lífi sínu og heilsu í verkefni sem þeir skilja ekki hvert er.

Við getum séð í frásögninni myndband með Zelensky, ef við viljum, þ.e.a.s. ef við höfum ekki fengið nóg af slíku á Rúvinu okkar, eða einhversstaðar annarstaðar.

Fyrirsögn frásagnarinnar er í lauslegri þýðingu: ,,Vopnlaus og fjölmennur, her Úkraínu glímir við slæman liðsanda og liðhlaup".

Skjámynd 2024-09-13 065526Myndin fylgir grein CNN

Sagt er frá manni sem kallaður er Dima, sem keðjureykir og hættir ekki fyrr en sígarettan er brunnin alveg upp í filter.

Hann er búinn að vera í langan tíma við víglínuna og virðist vera búinn að fá nóg.

En þar sem flestir bardagabræður hans eru nú látnir eða alvarlega særðir, hefur Dima tekið þá ákvörðun, að hvað hann varðar sé nú nóg komið.

Hér verður ekki farið dýpra í að segja frá því sem fram kemur í grein CNN en hana má nálgast á tenglinum sem er hér í upphafi þessara skrifa.

Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem berjast upp á líf og dauða fyrir málstað sem þeir hafa litla trú á og þegar svo er komið er hætt við að eitthvað bresti.

Ritari hefur ekki rekist á að vitnað sé í þessa frétt í ísenskum miðlum, sem þó getur vel verið að hafi verið gert einhverstaðar og að það hafi flogið framhjá í bunulæknum sem í sífellu streymir hjá þjóð sem er upptekin við eldhúsdag og sitthvað fleira.

Það virðist vera dálítið á huldu hvenær styrjöldin milli Rússlands og Úkraínu braust út en við erum þó nokkur á fótum sem vitum af því, að erjurnar milli landanna hafa staðið nokkuð lengi og það svo árum og áratugum skiptir.

En að öðru, því RT.COM segir frá því að þrátt fyrir að allt sé það vont og verra en verst, í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands, þá gangi samstarfið um áhafnarskipti í geimstöðinni fyrir sig á eðlilegan hátt.

Við vitum að það er búið að vera bras hjá Bandaríkjamönnum að framkvæma áhafnarskipti og því var um það samið milli ríkjanna tveggja, að rússneska geimferðastofnunin myndi annast þau, þar til lausn yrði fundin á vandanum.

Það er ánægjulegt að sjá að ríkin geta unnið saman þegar þarf og gott væri, ef að þau færu sömu leið varðandi úkraínumálið, myndu vinna að lausnum í stað þess að kynda undir hernaðarátökum,  sem virðast vera að leiða til niðurbrots a.m.k. Úkraínu, auk þess sem þau kosta vissulega líka sitt fyrir Rússa.

Í mannslífum og efnislegum verðmætum líka .

Ef það er eitthvað sem sagan hefur kennt okkur þá er það það, að stríðsátökum lýkur á endanum, en eftir situr tjón sem ekki verður bætt og þarf víst ekki að telja upp hvert það er.

Því væri æskilegra að t.d. íslenskir pólitíkusar, legðu sitt á vogarskálar í þágu friðar, í stað þess að kynda undir ófriði.


Hundrað milljarða halli

Fætt er fjárlagafrumvarp og kominn er nýr fjármálaráðherra og í Heimildinni er lítillega sagt frá því.

100 milljarða halli á tveimur árum er víst eitthvað til að stæra sig af, í ríkisstjórn tíðra ráðherraskipta og stýrivextir á tíunda prósent líka, ef menn vilja sækjast eftir frægð.

Hvort því fylgir sá frami sem vonast er eftir er ekki eins víst.

Greinin sem myndin er af er úr Heimildinni en fréttina heyrði bloggari fyrst í Ríkisútvarpinu en sem sást þar ekki á rituðu formi, þegar til stóð að athuga hvort um misheyrn hefði verið að ræða.

Skjámynd 2024-09-10 142251Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa skipt um ráðuneyti af miklu kappi, einn þeirra langaði t.d. til að verða forseti á Bessastöðum og lagði 54 milljónir í baráttuna fyrir að ná embættinu.

Vinstri- græningi sem genginn var í íhaldsbjörg, virtist þjóðinni ekki traustvekjandi kostur í embættið og þar með var úti það ævintýri.

Ráðherra sem ætlar að vera búinn að byggja brú, sem ekki er enn búið að hanna, yfir Þjórsá fyrir árslok 2024 er tæplega álitlegur fjármálaráðherra en getur þó skákað í því skjólinu, að sá sem þar var fyrir, hafði ekki reynst sérstaklega vel í ráðstöfun fjármuna úr hinum sameiginlega sjóði landsmanna.

Rétt er að taka fram, að komið er fram nýtt ártal hvað varðar byggingu brúarinnar sem fyrr var nefnd, en hvort það stenst betur en hið fyrra verður tíminn að leiða í ljós.

Yfirskrift fjárlagaplaggsins mun vera ,,þetta er allt að koma" og eru það orð sem gera má ráð fyrir að fæðingarlæknir myndi nota til uppörfunar og hughreystingar.

Það er eitt og annað sem er rétt að koma, því til stendur að byggja nýtt fangelsi fyrir gistivini réttlætisins, auk brúarinnar fyrrnefndu.

Það á nefnilega að efla og styðja „hóflegan raunvöxt útgjalda“!

Eins og það hefur gengið undanfarin ár hjá þeim sem í ríkisstjórnarbrúnni standa, er vart hægt að álykta annað en að um glamur sé að ræða.

Verði það hins vegar að veruleika, þá verður líkast til lokað fyrir leikaraskap af ýmsu tagi eins og t.d. ríkisstjórnarflandur út á land til fundarhalda og flug með flugvélarfarm af alls konar vildarvinum yfir hálfan hnöttinn í boði alþjóðar.

Þar sem saman var komið í þeim tilgangi að stuðla að bættri umgengni við náttúruna!

Rétt er að taka það fram, að ,,útálandi- fundarhöld" eru ekki uppfinning ríkisstjórnarinnar lánlitlu og síbreytilegu, því ef rétt er munað var sá siður tekinn upp fyrir nokkrum kjörtímabilum síðan.

Hver tilgangurinn er annar en að bregða sér í skreppitúr í boði alþjóðar er ekki vitað.

Stjórnarráðið mun vera í Reykjavík og þurfi fólk að fara út á land til að sletta úr klaufunum, þá er eðlilegast að hver geri það í boði sjálfs sín.

Að ríkisstjórnin hressist líkt og Eyjólfur forðum er óvíst, en við vonum það besta og að liðsmenn hennar fari að finna fjöruna sína í pólitíkinni og átta sig á til hvers þau voru kosin.

Það styttist í kosningar og í þeim mun þjóðin segja sína skoðun með lýðræðislegum hætti svo sem vanalegt er og vonandi tekst vel til með talningu atkvæða!

Þegar þar að kemur, mun koma í ljós hvort einhver frambjóðandi hefur í ógáti boðið sig fram í vitlausum eða vitlausari flokki en hann hafði ætlaði sér og guð hafði mælt með.

Við bíðum spennt eftir framhaldinu!


Fimm sinnum 2,6 og Ísland í stríði

RUV.IS segir frá því að Ísland sé í stríði og sé gengið í eina sæng með Úkraínu í styrjöldinni við Rússland.

Í styrjöldina hafi verið varið 2,6 milljörðum til kaupa á hergögnum og að þar með sé ekki allt upp talið því það sé ekki nema 21,6% af því sem íslenska ríkið hefur varið til hernaðarmála.

Síðan er hægt að rifja upp barnaskólalærdóminn og reikna út frá þessu hver heildarútgjöldin séu.

2024-09-07Fréttinni fylgir mynd sem sýnir tvo af málaliðum íslensku þjóðarinnar, þar sem þeir eru að störfum við að verja land sitt og þjóð.

,,Íslenska ríkið hefur greitt 2,6 milljarða í kaup á hergögnum síðustu tvö ár. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata."

Í fréttinni segir einnig: ,,Í útskýringum ráðuneytisins segir að varnartengdur stuðningur við Úkraínu á árabilinu 2022 til 2024 sé 21,6 prósent af heildarfjárheimildum til varnarmála."

Kaupin eru ekki fyrir varnir Íslands heldur eru öll útgjöldin tengd Úkraínu.

Erjur milli Rússlands og Úkraínu eru ekki nýjar í sögulegu samhengi og sagan greinir frá mörgum og andstyggilegum atburðum sem orðið hafa á fyrri tímum í samskiptum þar á milli en það er ekki efni þessa pistils að fara ofan í það allt.

Við lifum í núinu - sum að minnsta kosti - en höfum söguna til hliðsjónar a.m.k. stundum, þegar við erum að reyna að taka afstöðu til mála sem þeirra sem þarna er um að ræða.

Sumt er gott sem þar greinir frá en annað vont.

Í þeim átökum sem nú eiga sér stað hefur íslenska þjóðin tekið þá afstöðu að eðlilegt sé að hjálpa fólki á flótta og jafnvel húsdýrum þess, svo sem við munum úr fréttum í upphafi núverandi hernaðarátaka og sumum okkar þykir það nokkur framför frá því sem áður var.

Fyrir ekki löngu síðan gerðist það í átökum milli Úkraínu og íbúa Donbas að þeir síðarnefndu frömdu það voðaverk að skjóta niður hollenska farþegaþotu sem flaug yfir svæðið á leið sinni í áætlunarflugi og notuðu til þess loftvarnarbúnað sem Rússar höfðu lagt þeim til í þeim tilgangi að geta varist loftárásum frá Úkraínu.

S 200 mun hertólið heita, eða eitthvað í þá áttina og okkur rekur minni til að Tyrkir hafa m.a. fest kaup á slíkum búnaði, þegar þeir voru af einhverjum ástæðum ekki í náð vestrænna framleiðenda á slíku dóti.

Með þotunni fórst fjöldi fólks sem ekki hafði átt nokkra aðkomu að átökunum á svæðinu og er atburðurinn dæmi um, að betra er að vanda til þegar sköffuð eru hertól til manna sem með eiga að fara.

Að minnsta kosti betra að þeir kunni að greina á milli þess sem ógnar þeim og því sem gerir það ekki.

Ekki er ritara þessa pistils kunnugt um hvort rannsakað hafi verið, hvers vegna vélinni var valin flugleið yfir þekkt átakasvæði og vel getur verið á því skýring, þó það virðist hæpið.

Þegar málum var svo komið að Rússar fóru þá leið að taka sjálfir þátt í átökunum með beinum hætti, greip um sig mikið fár hér í vestrinu, því eins og við munum er Rússagrýlan bráðlifandi fyrirbrigði sem ekki má vanmeta.

Íslenskir ráðamenn, svo dæmi sé tekið, sáu fyrir sér stórt og voldugt ríki ráðast á smáþjóð og fundu það út að þar sem Ísland væri smáþjóð líka, þá væri rétt að standa með hinni úkraínsku smáþjóð í slagnum sem þarna væri orðinn.

Flumbrugangurinn var slíkur að fátt virtist hugsað en meira gert og eitt það fyrsta var að reka sendiherra Rússlands til síns heima og loka jafnframt sendiráði Íslands í Moskvu, sem sumum þykir ekki hafa verið djúpt hugsuð né yfirveguð ákvörðun.

Samskipti Íslands og Rússlands höfðu fram til þessa verið frekar góð og Sovétríkin gömlu höfðu reynst Íslandi betri en ekkert þegar svokallaðar vinaþjóðir tóku upp á því að reyna að kúga Ísland til hlýðni þegar það hafði fært fiskveiðilandhelgi sína út í 12 mílur og síðar meira.

Þegar það var, þótti gott að geta átt viðskiptasamband við stóra þjóð þegar kúgarar þeirrar litlu reyndust ekki vera þeir ,,vinir" sem þeir höfðu þóttust vera.

Nú er það allt gleymt og flumbrugangur einkenndi ákvarðanatöku hins íslenska utanríkisráðherra.

Svona er staðan og í ljós kemur að meira blóð er í kúnni, því útgjöld íslensku þjóðarinnar nema upphæðum, sem við getum reiknað út með þríliðunni sem við lærðum í gagnfræðaskóla, ef við kærum okkur um. 

Stemningin í samfélaginu okkar er hins vegar þannig að til lítils er að vera að velta hlutum af þessu tagi fyrir sér, rökhugsunin er farin lönd og leið og tilfinningarnar ráða för og eins og við vitum þá er ýmislegt fallvalt þegar svo er komið.

Ísland er sem sagt í stríði í raun, þó það sé ekki í verki, í þeim skilningi að íslenskir hermenn séu á vettvangi átakanna, heldur á þann veg að það er ásamt mörgum öðrum þjóðum, að skaffa hertól til annars stríðsaðilans og er þar með óbeint í stríði gegn þeim sem hann er að berjast við.

Fáum dettur í hug að fá menn til að setjast við samningaborð og hætta manndrápum og eyðileggingu.

Það er einhvernvegin utan sviðsins ef svo má segja og þess í stað, er sífellt boðið meira af dráps- og eyðileggingartólum til vonlítillar baráttu við björninn sem illt er að vekja upp af svefni sínum, þar sem hann lúrir með hátækni- drápstól.

Tól af þeirri gerð sem bestu vinir aðal, notuðu á sínum tíma til að berja niður Japani í heimstyrjöldinni síðari, sem við skulum vona að verði áfram síðari en ekki önnur af fleirum slíkum.


Kátt í höllinni?

Það er frekar dimmt yfir fundinum þar sem sagt er frá því á ruv.is að Skjámynd 2024-09-02 175220Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert það sama og íþróttafélögin gera í mótbyr

Ólíkt léttara er að sjá yfir fólkinu sem stendur undir merkjum Samfylkingarinnar.

Rautt til vinstri og dimmblátt til hægri er það sem við sjáum og það er von að þungt sé yfir þeim sem í blámanum eru.

Þar á bæ hefur allt farið niður á við, meðan allt gengur mun betur hjá hinum.

Landsmenn eru búnir að fá nóg af ríkisstjórninni, sem veit ekki hvort hún er að koma eða fara, né hvort hún á að standa fyrir framförum eða bara halda áfram að leika sér.

Það er nær sama hvar drepið er niður, allt frá því að þjóðin er látin vera í stríði við gamla vinaþjóð, í þeim tilgangi að bjarga heiminum og niður í að að þykjast vera einhverskonar viðhengi Netayahu.

Forsætisráðherrann, sem við höldum að sé, þvælist heimshorna milli en kíkir við af og til, til að stjórna landinu sínu, þegar hann má vera að því og heimsbyggðin þarfnast hans ekki.

Fjármálaráðherrann telur aurana og finnur, því alltaf má fá eitthvað hér og annað þar og brúin hans verður tilbúin fyrir árslok 2024, eins og um var talað og þó gleymst hafi að hanna hana, þá verður bara að hafa það!

Auk þess sem þau ætla að byggja 30 hektara framhaldsskóla í Hafnarfirði svo hægt sé að losna við kennslu sjómanastéttarinnar úr Reykjavík, svo hægt sé þess í stað að dæma brotamenn í Sjómannaskólahúsnæðinu þar.

Skjámynd 2024-09-04 074425Það er sem sagt margt sem horfir til framfara og nú er svo komið að pósturinn kemur með brennivínið heim til þeirra sem svo kjósa og því er engin þörf á að láta renna af sér til að sækja sér meira.

Svona horfir flest til betri vegar hjá ríkisstjórn allra landsmanna(?) og senn kemur eflaust að því, að meðlætinu með brennivíninu verði líka ekið til neytenda og gerist þá kátt í bæjum öllum.


Allt í besta lagi?

Teiknarar blaðanna sjá eitt og annað og við höfum Heimildina fyrir því, að Skjámynd 2024-08-31 095558foringjar ríkisstjórnarflokkanna sé úti að aka en björninn lætur sem ekkert sé og lætur lítið á sér bera.

Sækir ekki í félagsskapinn.

Það er áhugavert að rýna dálítið í myndina sem er í miðjunni og er af félögunum sem ,,stjórna" landinu okkar, án þess að gera það.

Fylgið er hrunið og Morgunblaðið segir frá því að staðan sé sú sem sést hér að neðan:

Skjámynd 2024-08-29 081233Það er augljóslega komið að því að menn taki sig til, fari í naflaskoðun og velti því fyrir sér hvað það var sem gert var rangt og sem kannski var margt.

Hvað er það sem varð til þess að traustið hvarf, kjósendur fengu nóg og vilja ekki meira af svo góðu?

Er það af því að ríkisstjórnin hafi haldið vel á fjármunum og öðrum verðmætum þjóðarinnar?

Varla og ekki er það vegna þess að forgangsröðunin hafi alltaf verið rétt.

Dæmi:

Var það þess virði að senda flugvélarfarm af fólki á kostnað þjóðarinnar til Abu Dabi, til að sýna sig og sjá aðra, spóka sig í sólinni og spjalla saman um daginn og veginn?

Varla.

Er það vegna þess að ríkisstjórnin hafi góða stjórn á fjármálakerfinu?

Með stýrivexti í hæstu hæðum?

Eru framkvæmdir í réttri röð m.v. nauðsyn og álag á innviði?

Hvar er t.d. brúin yfir Ölfusá?

Hún sést ekki en það er farið að rofa til, því til stendur að ljúka henni 2024 og það þó og þrátt fyr­ir, að eftir sé að hanna brúna og skrifa undir verksamninga!

Er líklegt að þetta gangi eftir?

Því miður væri hæg að halda áfram á þessum nótum lengi en við höfum tekið eftir því að allt mögulegt á að gera NÚNA og ekki seinna en í gær.

En það gerist ekki.

Þjóð veit þá tveir vita og því er það, að blaður um að allt sé í besta lagi og svo gott sem það best geti verið, virkar ekki.

Því er það að ríkisstjórnin fær falleinkunn hjá þjóðinni og er þó hér ekki allt upp talið.


Stríð og friður

Á vef CNN.COM má lesa um stöðuna í stríðinu milli Úkraínu og Rússlands.

Fyrirsögnin er á þá leið að ætlunin sé að upplýsa Biden og reyndar líka Trump og Kamelu um hvað aðgerðin gangi út á.

Á öðrum stað er fréttastofan með sögulega umfjöllun vegna innrásar Úkraína í Kursk.

Skjámynd 2024-08-30 141249Þar er rifjað upp að fátt sé nýtt undir sólinni og birt mynd sem sýnir hvernig ástandið var 1943.

Þá rekumst við á frásögn af því að svokallaðar F16 þotur reynist ekki sem skildi, a.m.k. í höndum úkraínskra flugmanna en einn þeirra fórst með þotu sinni, eftir því sem þar er sagt frá.

Mynd fylgir með af úkraínuforseta og þar er sagt, að hann hafi lengi krafist þess að fá þessa fljúgandi dýrgripi afhenta.

Skjámynd 2024-08-30 141917Það hefur til þessa eitthvað staðið í mönnum, því vélarnar eru dýrar og vandmeðfarnar, auk þess sem hægt er að skjóta þær niður líkt og sannast hefur.

Það er fátt sem bendir til að þessu hörmulega stríði sé að ljúka, jafnvel frekar að það sé á hinn veginn, að það sé að færast í aukana.

Eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum hafa heimsótt kjarnorkuver í Kúrsk og í sambandi við þá heimsókn, var sagt frá því að þak versins væri aðeins venjulegt þak, með engri brynvörn.

Við munum að sömu aðilar skoðuðu verið í Zapronitsya og í ljós kom að það er með öflugri brynvörn sem staðist hefur árásir Úkraína fram að þessu.

Nú er verið að ,,keyra" það ver niður í þeim tilgangi að geta slökkt á því en Úkraínar gátu ekki gert sér að góðu rússneskt rafmagn þó ókeypis væri og skemmdu í sífellu raflínurnar frá verinu, þannig að ekki ekki var hægt að losa orku þess eftir þeirri leið og enginn vinnufriður var til að hægt væri að losa hana eitthvað annað.

Slysið í kjarnorkuverinu í Chernobyl, sem varð vegna mannlegra mistaka, gleymist ekki þeim sem með því fylgdust og ótrúlegt er, að þjóðin sem í því lenti, skuli hætta á annað slys af því tagi.

Við þessu getum við harla lítið gert annað, en að vona hið besta og að fram komi einhver sem geti haft áhrif á þá sem undir ófriðnum kynda.

Fái þá að samningaborði til að ræða deilumálin sem uppi eru og leiti þar leiða til að finna friðinn í stað þess að efla ófrið.


Ætli vindinum finnist ekki vont að láta fara svona með sig?

Eins og svo oft að morgni, er skautað yfir fjölmiðla til að kanna hvað þeir hafa að segja okkur og þá er rekist á mynd af ríkisstjórn íslenskrar þjóðar og við gerum ráð fyrir að myndin sé tekin fyrir Menningarhátíð Reykjavíkur.

2024-08-25 (1)Þau taka sig bara vel út og við vitum að þarna er margt ágætisfólk, jakkarnir eru lítið eitt farnir að þrengjast á þeim sem fremstir standa, innviðaráðherra speglast í ráðherranum sem er fyrir aftan hann, Bjarni horfir í austur, Sigurður í suðverstur og það gerir kjarnorkukafbátamálaráðherrann líka.

Einn er greinilega hugsi og horfir á eitthvað fyrir neðan hann.

Út úr svip fjögurra kvenna má ef til vill lesa að þær séu að hugsa sem svo: því er ég hér?!

Við förum ekki lengra með þetta en tökum eftir því að maður, sem stendur innan dyra, stefnir að því að loka hópinn úti!

Skjámynd 2024-08-24 134032Er ekki allt í lagi vinur minn, spyr hvutti litli.

Kisu langar að kúra og sú þriðja er með góða gesti í heimsókn, sem hún ætlar ekki að nota sér til matar, enda vel fóðruð.

Það skiptir máli hvernig að er búið og það vita þau sem kisu og ungana eiga og því gengur allt vel í þeim heimi.

Skjámynd 2024-08-24 133706 Umboðsmaður barna hefur áhyggjur, ráðuneyti svaraði spurningum hans en veitti ekki ,,fullnægjandi upplýsingar".

Umboðsmaður telur ekki gott ,,að ekkert samræmt námsmat hafi tekið við af samræmdum könnunarprófum sem síðast voru haldin árið 2021..."

,,Lífið er vesen..." segir stundum maður nokkur sem ritari þekkir og það er sem hér sannist það!

Við endum þennan pistil á jákvæðum fréttum sem bárust úr Rangárþingi um að menn hafi ,,jákvæð viðhorf í Rangárþingi ytra til vindorkuvers...".

Skjámynd 2024-08-24 133554Nóg er af vindi í landinu og svo er komið að eftirsókn eftir vindi er orðin umtalsverð og í nútímanum skapandi!

Öðruvísi áður brá, en allt breytist og svo er komið að þetta náttúruafl er virkjað aftur til góðra hluta, eftir margra ára hlé.

Svo er vinstrigræningjum fyrir að þakka!

Þeir eru í skotgröfunum þegar orkuöflun er annarsvegar, halda að vatnið breytist í raforku við að það sé látið renna í gegnum hverfla o.s.frv.

Batnandi mönnum er best að lifa og vonandi skaðast vindurinn ekki, við að snúa spöðum myllanna.

Svo getur svo sem líka verið, að spöðunum þyki ekki gott að láta vindinn blása svona um sig, en við förum ekki út í þá umræðu!


Ætlun við aldrei að þroskast?

Í Washington Post er sagt frá því að vopnadótið sem gefið hefur verið til Úkraínu, sé ekki að standa sig svo sem vonir hafi staðið til af hálfu hinna Skjámynd 2024-08-22 134450gjafmildu þjóða.

Tímasetning fréttarinnar er ,,24 maí, 2024 kl. 10:57".

Við fáum misvísandi fréttir af því sem er að gerast á vígstöðvunum og erum á stundum í talsverðum vanda við að átta okkur á hvað er satt og hvað er ósatt; hvað er óskhyggja og hvað eru staðreyndir.

Eitt er þó víst og það er, að ástæðan fyrir því að vopnin sem um er rætt í WP, duga ekki til þeirra illu verka sem þeim er ætlað að vinna er að Rússar kunna ráð við þeim!

Stríðið byrjaði þegar rússnesk stjórnvöld sprungu á limminu og réðust inn í sjálfsstjórnarsvæðin sem samið hafði verið um að svo yrðu kölluð.

Lítið er fjallað í vestrænum miðlum, um hvað varð til þess að þeir brugðust við og beittu her sínum, svo sem við höfum getað fylgst með að undanförnu.

Okkur rámar í sumt, eða allt frá stuldi á gasi sem átti að fara til vestur- Evrópulanda, sem sumum finnst, sem hafi náð hápunkti þegar Nord Stream lagnirnar voru sprengdar í sundur og yfir í hörmulegan verknað eins og þann, að hollensk farþegaflugvél var skotin niður.

Ýmislegt fleira hafði gengið á eins og t.d. fjöldagrafirnar sem fundust, sýndu fram á.

Allt er þetta liðin tíð með ljótri sögu en er þá undanfari þess sem síðar gerðist og er enn að gerast.

Það sem ritari þessa pistils vill benda á, er að skoða þarf þessa atburði líkt og marga fleiri í ljósi þess sem á undan er gengið, þó það breyti ekki því, að gæta þarf hófs í viðbrögðum.

Í frásögn þeirri sem hér fylgir með er sagt frá sókn Rússa en síðustu daga höfum við verið frædd um sókn Úkraína.

Þetta kann að hljóma kynlega en þarf þó ekki að vera, því eitt getur verið að gerast á einum vígstöðvum og á sama tíma, annað á öðrum.

Athyglisvert er að sjá að töfravopnin bandarísku, reynast rússneska hernum ekki eins skeinuhætt og við var búist og því er það, að Rússar sækja fram á einum stað en eru í basli á öðrum.

Hvers vegna svo er vitum við ekki en getum giskað á að varnarviðbúnaður hafi ekki verið nægur á svæðinu (Kúrsk), sem síðan kallar á skýringu á, hvers vegna svo var.

Það er gömul saga og ný, að mönnum og þjóðum gengur stundum illa að koma sér saman og mannkynssagan greinir frá endalausum átökum svo langt aftur sem við getum komist og því hlýtur að vera heimilt að spyrja:

Ætlum við aldrei að þroskast upp úr þessu?


Skjálftar, vindorka, kjarnorka o.fl

Ívar teiknar fyrir Morgunblaðið og það er fátt sem hann gerir ekki að yrkisefni í myndum sínum.

Skjámynd 2024-08-21 074220Við sjáum hér tvö dæmi, þar sem annarsvegar er um að ræða jarðvísindamann sem gerir sem hann getur til að kasta tölu á jarðskjálfta sem eru undanfari viðburða, sem vandséð er hvernig hægt verði að takast á við.

Við teljum okkur þekkja persónur og leikendur á myndunum og hugmynd dómsmálaráðherrans er hreint ekki fráleit en dýrir eru hjálmarnir og væntanlega vandaðir eftir því!

Ritari fékk sér hjálm fyrir nokkrum vikum, sem var með rauðu ljósi að aftan, sem var þeirrar náttúru að geta annað hvort logað stöðugt, eða blikkað, auk þess sem hægt var að slökkva á því og hann kostaði aðeins nokkra þúsundkalla!

Miðað við yfirskrift myndarinnar ætti ég að vera sokkinn í djúpa skuld vegna kaupanna en svo er ekki, enda ekki ríkisstjórnarfígúra af neinu tagi!

Skjámynd 2024-08-21 080001Værum við gíraffar gætum við séð hátt yfir og myndum þá gera margt öðruvísi en við gerum nú og eflaust yrði lífið auðveldara á margan hátt!

Við myndum t.d. nær örugglega ekki fá ,,á heilann" orlofsgreiðslur pólitísks andstæðings og hlaupa í endalausri í leit að skýringu á því hvernig greiðslan væri tilkomin.

Skjámynd 2024-08-21 073807Eftirsókn eftir vindi, er yrkisefni Ívars á myndinni hér til vinstri, eða öllu heldur eftirsókn eftir vindorku, því nú er svo komið - þökk sé Vinstrigræningjum - að ekki má virkja orkuna sem í fallvötnum okkar býr, heldur verður að virkja þess í stað vindinn sem blæs oftast en ekki alltaf.

Þóroddur Bjarnason, sendir okkur skeyti á teikningunni sem er til hægri en hér verður ekki farið út í túlkun á því sem þar kemur fram. Það er lesendum eftirlátið að finna út!

Endum þetta síðan af mikilli alvöru, þar sem verið er að segja frá því að Skjámynd 2024-08-21 073540til standi að senda gervimenni til sýnatöku í kjarnorkuveri sem eyðilagðist í náttúruhamförum í Japan.

Við munum mörg eftir þeim atburðum, svo skelfilegir sem þeir voru og nú vilja menn komast að því hvernig staðan sé í rústunum sem áður voru starfandi orkuver.

Við vitum af öðrum kjarnorkuverum sem geta verið í mikilli hættu vegna hernaðarátakanna sem eru í Rússlandi og Úkraínu og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því sem þar er að gerast.

Það er löngu komið nóg af leik að þeim eldi og allt of margir sem hafa átt um sárt að binda af völdum kjarnorkunnar.

Ekki heldur gott að vita af kjarnorkuknúnum kafbátum hlöðnum kjarnorkuvopnum, svamlandi í kringum landið okkar, í boði núverandi ríkisstjórnar.

Verði slys af þeim völdum, er hætt við að tekjur af helstu útflutningsafurð íslensku þjóðarinnar yrðu litlar.

Tekjur sem þá væri búið að fórna á pólitísku altari þeirra sem ekki sjást fyrir í pólitísku ofstæki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband