28.5.2023 | 05:26
Fjölónæmar bakteríur í ágætisvöru?
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda - þar með talið kjötheildsala -, hefur hug á að hjálpa landinu sem er á hvers manns vörum nú um stundir, þ.e. Úkraínu.
Hjálpin og bjargræðið á að felast í því að heimilaður verði tollfrjáls innflutningur á kjúklingakjöti frá landinu, sem nú stríðir við nágranna í austri meira en nokkru síðustu árin og að kjötið verði flutt til Íslands.
Í staðinn fyrir tollfrjálsa kjúklinga frá Úkraínu, munu Úkraínar fella niður alla tolla af vörum sem seldar verða frá Íslandi til þeirra. Hverjar þær vörur eru veit höfundur þessa pistils ekki, þar sem fáum sögum fer af því hverjar þær eru, hafi verið, eða komi til með að verða.
Framkvæmdastjórinn skrifar líka um ,,beinið í nefi fjármálaráðherra og virðist hafa af því einhverjar áhyggjur.
Verður að teljast dálítið sérstakt, að áhyggjur af þeim líkamsparti íslensks ráðherra bætist við áhyggjurnar fyrrnefndu af vöruinnflutningi, sem augljóslega hljóta að vera mun meira og stærra áhyggjuefni.
Seint verður það sagt um ráðherrann að hann sé ekki brattur á velli og að hann komi ekki ágætlega fyrir, á hinum pólitíska vettvangi, sem öðrum.
Til að auka sér lífsgleði og kæti og þar með íslensku þjóðinni, vill framkvæmdastjórinn fella niður tolla, af því sem hann kallar úkraínskt kjúklingakjöt.
Það er reyndar ekki framleitt af Úkraínum nema óbeint, sé tekið mið af því sem komið hefur af þeirri vöru til landsins til þessa. Því samkvæmt því sem upplýst hefur verið, er um að ræða kjöt, sem framleitt er af stórfyrirtæki sem ekki er í Úkraínu, en notar sér aðstæður þar til framleiðslurnar.
Fram hefur komið að sýklalyfjaónæmi er útbreitt í landinu og því er ekki hægt að reikna með að um sé að ræða trausta gæðavöru. Auk þess sem meira en líklegt er, að það eftirlitskerfi sem til var(?) í landinu sé nú meira og minna í molum.
Af einhverjum ástæðum skipta slíkir smámunir framkvæmdastjórann engu máli og þar sem líklegt er að heimild fyrir innflutningnum fáist nokkuð auðveldlega, vegna samúðar með úkraínsku þjóðinni, er við því að búast að málið fái fljóta og lipurlega afgreiðslu.
Lítil ástæða er til að ætla, að fólkið sem í landinu býr, njóti þess greiða í einu né neinu. Mun líklegra er, að það verði hinir erlendu framleiðendur sem muni hagnast á að selja vöruna og síðan íslenskir kjötsalar á heildsölustigi.
Þegar þessi ágæta vara verður komin til Íslands, verður ef að líkum lætur, reynt að selja hana í matvöruverslunum með mismunandi góðum merkingum.
Ekki er ólíklegt að laumað verði í texta, eða á umbúðirnar íslenskri fánamynd, eða einhverju öðru sem blekkt geti viðskiptavini til að kaupa sér ódýr matvæli.
Kaupi þau í trausti þess, að þau uppfylli íslenskar kröfur til gæða og heilbrigðis og eða, að hinar fjölónæmu bakteríur hafi skriðið á brott þegar þær áttuðu sig á því hvert þær voru að fara og hve ódýrt átti að selja þær!
Það er að segja, ef varan verður þá ódýr, þegar hún er búin að fara um hinar íslensku kjötsalahendur, því eitthvað verða menn jú að fá fyrir snúð sinn, ef að líkum lætur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2023 | 07:15
Innflutningur á matvörum frá Úkraínu
Ekki er allt sem sýnist og á vísir.is er sagt frá áhuga á að til landsins sé flutt inn matvara frá Úkraínu.
Verslun með vafasama matvöru er ekki það sem best er að velja sér, finnist mönnum ástæða til að ,,styðja" þjóð, en það er það gefið er sem ástæða fyrir þörfinni á innflutningnum.
Fram hefur komið að kjúklingarnir sem ræktaðir eru í Úkraínu, eru í raun framleiddir af hollensku fyrirtæki og að arðurinn af starfseminni verður þá væntanlega eftir þar.
Bent hefur verið á, að sýklalyfjaónæmi er á viðsjárverðu stigi í landinu og það er augljóslega ekki það sem íslenskt heilbrigðiskerfi þarf helst á að halda: Að til landsins sé flutt vara sem vafi leikur á um, hvort svo sé í lagi varðandi heilbrigðisástand.
Hér verður mönnum ekki ætlað, að þeir vilji stuðla að innflutningi fjölónæmra baktería inn á íslenskan matvörumarkað.
Þá má líka velta því fyrir sér hvernig eftirliti sé háttað í landi sem er í stríði, býr við sífelldar loftárásir og það að innviðir eru meira og minna brostnir.
Er ef til vill slíkur skortur á matvælum á íslenskum matvörumarkaði, að sækja þurfi matvörur þangað, sem helst má efast um að innviðir og eftirlitskerfi séu í lagi?
Vilji Ólafur og félagar létta íslenskri þjóð lífið, ættu þeir að leita á önnur mið og ekki þangað þar sem allt er meira og minna í kaldakoli.
Stuðningur við úkraínsku þjóðina getur t.d. falist í því að halda áfram að kaupa þaðan kornvöru, sé það hægt og teljist það enn standast þær kröfur sem gerðar eru.
Korn sem yrði síðan notað til eldis í íslenskum landbúnaði líkt og verið hefur, en þó því aðeins, að það uppfylli þær gæðakröfur sem krafist er af íslenskum yfirvöldum.
Standi mönnum hugur til að styðja úkraínsku þjóðina, þá ættu þeir að leggjast í friðarleiðangur og berjast fyrir friði milli þjóðanna sem stríða, svo hægt sé að eiga við þær traust og góð viðskipti á eðlilegum viðskiptagrunni.
Að flytja inn matvöru frá landi þar sem innviðir og eftirlitskerfi eru meira og minna lömuð er ekki góður kostur fyrir íslenska þjóð og ekki heldur kjötheildsala.
Auk þess sem ýmislegt bendir til að innviðirnir hafi ekki verið í sem bestu horfi fyrir ófriðinn sem nú er, en það er annað mál sem vonandi verður tekið á þegar núverandi stríði lýkur.
Að láta síðan að því liggja, að hugmyndin sé sett fram af góðmennsku jaðrar við hræsni svo ekki sé meira sagt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2023 | 10:35
Íslensk orkumál og að lyfta þaki
Að orkuöryggi til almennings og heimila sé ekki tryggt til frambúðar hlýtur að teljast allnokkur frétt.
Við höfum talið okkur trú um (mörg) að við byggjum í landi þar sem aðgangur að orku til heimila og minni atvinnurekstrar væri nánast gulltryggt.
Sé tekið mið af því sem sagt er hér í fyrirsögn á myndinni sem er klippa úr Morgunblaðinu, er það sem við mörg höfum trúað og treyst byggt á ótraustum grunni.
Í umfjöllun blaðsins er sagt frá því að Orkustofnun telji að ekkert sé í lögum sem tryggi almennum orkunotendum aðgang að orku og að frumvarp sem til standi að leggja fram um orkumálin taki ekki á þessu atriði.
Um er að ræða stjórnarfrumvarp sem lagt er fram af umhverfisráðherra. Lagt var upp með að aðgengi almennings að orku yrði tryggt, en svo mun ekki vera.
Hér hljóta að hafa verið gerð mistök sem gengið verður í að leiðrétta!
Að öðru og alls óskyldu.
Það er hart í ári hjá karlinum og félögum hans í Bandaríkjunum, en við því kunna menn ráð vestur þar, gamalkunnugt ráð sem við kunnum mörg líka og höfum sum reynt með misjöfnum árangri.
Yfirdráttur er það stundum kallað þegar nauðsynlegt er að taka skyndilán til skamms tíma, sem oftar en ekki er svo breytt í lán til lengri tíma, en það er önnur saga.
Biden karlinn, stendur nú frammi fyrir slíkum kosti og gott ef það heitir ekki að lyfta skuldaþaki, sem er vitanlega mun huggulegra að segja en það sem fyrr var nefnt, þó ekki sé nema vegna tvíræðni íslenskunnar.
Ríkissjóður Bandaríkjanna er sem sagt peningalaus og það er ekki gott svona almennt talað, en hreint afleitt þegar staðið er í styrjöld af nýrri gerð.
Bandaríkin eru svo sem þaulvön að stríða á aðrar þjóðir, en það er nýtt að vera með verktaka að stríðinu; verktaka sem ekki er gott að hafa stjórn á og lítt kann ef til vill með peninga að fara og kann sér jafnvel ekki læti, að vera kominn í sjóðinn mikla og geta ausið aurum í allar áttir.
Samkvæmt klippunum sem hér fylgja með og eru úr Morgunblaðinu, er skiljanlegt að lyfta þurfi ,,rjáfrinu", en verra er að ,,viðræður" þar um eru komnar í strand!
Svo bregðast krosstré sem önnur tré, minnir okkur að sé stundum sagt og ekki er gott ef þaklyftingin hefur strandað á umbúnaðinum, tréverkinu sem allt ber uppi, en gerir það ef til vill ekki lengur vegna fúa.
Klippurnar í þessum pistli eru allar úr Morgunblaðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2023 | 08:44
Sýningin sem engu skilaði...nema eyðslu
Þó greinin sem hér er vísað til, sé skrifuð inn í bandarískan veruleika, þá getur hún átt við víðar.
Spilling, firra, rökleysi og fleira er víðar en þar.
Við erum t.d. nýbúin að fylgjast með ruglumbullfundinum í Hörpu, sem var lítið meira en auglýsing fyrir pólitíkusa. Auglýsing sem virðist ekki hafa virkað nema fyrir innlenda pólitíkusa, ef hún var þá ekki bara neikvæð.
Kostaði talsvert á þriðja milljarð íslenskra króna fyrir íslenska þjóð. Auk þess sem flandrið til Íslands hefur kostað þær þjóðir sem þátt tóku í sýningunni talsverða peninga.
Það lendir á skattgreiðendum landanna sem hingað sendu fulltrúa, en það sem sem eftir liggur, er ekki til að troða upp í nös á ketti eins og ágætir menn hafa bent á, en með öðru og penna orðalagi.
Ekki er þó svo að allt sé slæmt við að samkoman var haldin, því við vorum vakin til umhugsunar um nokkur atriði, eins og: hvers virði eru fjármunir þjóðarinnar í augum núverandi stjórnvalda?
Hvað segir Alþingi? Er góð samstaða þar um hátternið?
Vel getur verið að múgsefjunin sé svo mikil að þar þori málsmetandi menn ekki að æmta af ótta við að verða úthrópaðir og taldir óalandi og óferjandi.
Við bíðum bara hinsvegar eftir næsta skandal, vitandi sem er, að hann kemur fyrr en seinna.
það væri trúlega algjört óraunsæi að ætlast til þess að lært verði af mistökunum.
Myndin sem hér fylgir með er úr ritinu sem vísað er til í tenglinum.
17.5.2023 | 07:36
Áfall
Áfall ef rétt reynist segir í leiðara Morgunblaðsins, þar sem skrifað er um fréttir sem hafa borist af ógnvænlegri sprengingu í Úkraínu.
Greint hefur verið frá sprengingunni í erlendum miðlum ýmsum, en svo er að sjá, eða réttara sagt, að sjá ekki, að margir miðlar annað hvort telji ekki vert að fjalla um málið, eða hreinlega viti ekki af því, sem verður að teljast ótrúlegt.
Líklegasta skýringin er, að menn vilji ekki greina frá því sem ekki hentar málflutningnum, sem haldið er á lofti.
Sprengingin á að hafa orðið í vopnageymslu og hafa mælst á jarðskjálftamælum upp á 3,5.
Það sem vekur athygli er, að um er að ræða rándýrar sprengjur sem Bretar(?) munu hafa gefið Úkraínum til að tortíma einhverju í Rússlandi og nú verður það varla gert með þeim tortímingartólum sem þarna fóru forgörðum.
Í forystugrein Morgunblaðsins segir, að hver flaug þeirrar gerðar sem þarna eyðilögðust, kosti um 500 milljónir íslenskar, eða sem svarar til 1/3 að því sem hið færanlega sjúkrahús kostar, sem íslenskir skattborgarar eru að gefa úkraínsku þjóðinni.
Eitthvað er málum blandað hvort rússnesku skotflaugarnar sem eyðilögðu vopnabirgðir Úkraína, hittu í mark sitt, eða voru skotnar niður og féllu fyrir hreina tilviljun á geymslustað hinna bresku tortímingarvopna.
Hitt mun vera tilfellið, að um var að ræða ,,óhreinar" sprengjur sem valdið geta langvarandi skaða þar sem þær lenda, eða réttara sagt springa.
Hernaður er viðbjóður hvernig sem á er litið, en viðbjóðurinn er misjafn og þá helst kannski misjafnt hvernig afleiðingarnar af voðaverkunum koma fram.
Hafi sprengjurnar verið þeirrar gerðar sem sagt er, þá er stríðið komið á fornar slóðir; slóðir þar sem tilgangurinn helgar meðalið og engu er hlíft og þar með ekki konum og börnum.
Það er reyndar ekkert nýtt, hvorki í þessu stríði né öðrum. Ekki því stríði sem var á Donbass svæðinu áður og ekki því stríði sem eitt sinn var í Serbíu og fleiri mætti til telja því miður.
Geislavirkur úrgangur er alltaf hættulegur öllum þeim sem fyrir verða.
Allt er þetta andstyggilegt og erfitt viðfangs svo sem sjá má af látbragði mannsins sem er á fundinum í Hörpu og virðist vera að bugast; látbragð kvennanna er verra að ráða í, en vera kannað þær séu að horfa á hinn glæsilega Sunak sem er að hraða sér heim.
Hvort það er vegna þess að honum hafi ekki líkað skyrið og rjóminn saman við rauðvínið, veit sá sem hér pikkar á lyklaborð ekki um, en hafi slík matvælablanda verið í vambir hinna tignu gesta látin, er ekki von á góðu.
Áhersla var lögð á það, að búa til tjónaskrá og verðmeta tjón það sem hernaður Rússa hefur valdið Úkraínsku þjóðinni, eins og það er látið heita.
Ekki hefur verið rætt, svo eftir hafi verið tekið, að til standi að taka saman tjónaskrá yfir það tjón sem úkraínskur óþjóðalýður, með fulltingi úkraínskra yfirvalda hefur ollið íbúunum á Donbas svæðinu undanfarin ár.
Slíkar spekuleringar henta frekar illa góða fólkinu sem var á hittingnum í Hörpu og misþyrmingar sem ganga út á að misþyrma stríðsföngum með því að skjóta þá fyrst í hné og kynfæri og alls ekki í höfuðið fyrr en að því loknu, er vitanlega best að tala ekki um.
,,Réttarhöld" yfir rúmlega tvítugum hermanni, sem ekki gerði annað en að hlýða skipunum yfirboðara sinna, er ekkert sem góðu fólki þykir viðeigandi að um sé fjallað. Hugsanlega finnst því ágæta fólki bara gott að hann fái að dúsa í úkraínsku fangelsi, sem eins og flestir vita eru hinir bestu gististaðir!
Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að hinir skotglöðu Úkraínar sem tóku rússneska hermenn af lífi með þeim hætti sem hér var fyrr lýst, þurfi að svara fyrir þann verknað, enda tóku þeir hann upp á myndskeið og dreifðu um veröld víða til að sýna afrekið.
15.5.2023 | 12:04
Þverstæður og andstæður
Jakkaföt og væntanlega menn til að vera í þeim, öryggismyndavélar, lúxuskerrur, öryggisverðir og Harpa og er þá eflaust ekki allt upptalið. Og fyrst það ágæta hús er nefnt, þá er vandséð hvernig þjóðin hefur getað komist af, áður en það var byggt.
Ekki má gleyma þjálfun þeirra sem jakkafötin eiga að prýða. Hún er partur af galskapnum og rétt er að taka fram, að í krafti jafnréttis en ekki bræðralags, koma til með að fylla upp í fötin bæði karlar og konur, því enginn efi er á að haldið verður vel á jafnréttisspilunum.
Þjálfun mannskapsins verður í takti við umfangið sjáum við - og af því má ráða að þjálfunin sé bæði góð, mikil og vel útfærð.
Við sjáum hér að ofan nokkur skjáskot af fréttum Morgunblaðsins, af því sem um er að vera í Reykjavíkinni, höfuðborg allra Íslendinga og gott ef ekki heimsbyggðarinnar líka, a.m.k. þann tíma sem húllumhæið stendur yfir.
Ekki þó heimsbyggðarinnar allrar, því vesenið snýst ,,aðeins um eitthvert Evrópuráð og alls ekki heimsbyggðina. Evrópuráð sem er ekki er nema nafnið eitt, nema að búið sé að breyta álfunni.
Upplýst er, að víðlendasta landið í álfunni er ekki með í galskapnum vegna alþekktrar óþolinmæði sinnar við nágrannaríki og því er það, að sendiherra Rússlands skrifar grein í Morgunblaðið og sá er mátulega kátur svo sem við er að búast.
Við sjáum líka, að þeir eru til sem láta sér fátt um finnast og ,,þjónusta sölu rússneskra afurða hvað sem allri múgæsingu líður og banni íslenska stórveldisins á skyrsölu til hins forna Garðaríkis.
Hvort bannað er líka að selja þangað rjóma vitum við ekki, en verið getur, að Rússar framleiði núorðið sitt skyr og að rjómann fá þeir úr sinni rússnesku mjólk.
Netárásir eru í miklum blóma vegna fundarins og aldrei að vita nema einhverjir 21. árs gamlir guttar taki til við að streyma gáfnastraumnum vítt um veröld alla líkt og þegar hefur gerst í guðseigin- landi.
Helsta fréttin er algjörlega utan við þetta allt saman, en samt allrar athygli verð. Þar er sagt frá því, að til standi að byggja fjöldann allan af kjarnorkuverum í löndum Evrópuráðsmanna og eins og við má búast, stendur til að verin framleiði raforku íbúunum til heilla.
En þar stendur hnífur í hinni rússneskri kú, því eldsneytið þarf að sækja þangað þ.e. til Rússlands, til að hugmyndin gangi upp, virðist s.s. þurfa að róa Zelensky og félaga, að ógleymdum rússneskum stjórnvöldum.
Hvernig snillingunum á Evrópuráðsfundinum gengur að koma öllu þessu heim og saman verður fróðlegt að fylgjast með.
Þverstæður og andstæður, fýluköst og almenn uppköst eru þeirra sérgrein og því gerum við ráð fyrir að kastað verði upp á það, hvort vesturhluti Evrópu skuli verða rafmagnslítill heimshluti, eða knúinn áfram af rússneskri orku.
13.5.2023 | 18:10
Samningar, korn og forysta
Í Bændablaðinu er forystugrein eftir formann Bændasamtakanna undir yfirskriftinni ,,Landbúnaður í fjármálaáætlun, en þar er margvíslegt fleira efni sem vert er að kynna sér, svo sem grein um kornsamlög sem fyrirhuguð eru á Suðurlandi og í Borgarfirði og eins og við má búast eru líka til umfjöllunar svokallaðir ,,búvörusamningar, sem þegar að er gáð, eru um sumar búvörur og aðrar ekki.
Í grein sinni segir Gunnar Þorgeirsson m.a.:
,,Haldnir hafa verið fjórir fundir um þau atriði sem fulltrúar bænda á búgreinaþingi samþykktu. Þar koma fram ýmis [ ] atriði sem nauðsynlegt er að laga [ ]. [ ] staðan [er] erfið og við þessa endurskoðun hafa fulltrúar í samninganefnd ríkisins [ ] enga heimild til að semja um aukna fjármuni inn í samningana [ ].
Gunnar veltir því síðan fyrir sér hvernig hægt sé að tryggja hagsmuni bænda þegar vilji mótaðilans sé enginn og er þá bleik brugðið, þegar í ríkisstjórninni sitja hvorki meira né minna en fjórir ,,framsóknarflokkar hvað þessi málefni varðar.
Gunnar bendir þó á að 500 milljónir séu væntanlegar árlegar til eflingar kornframleiðslu, svo ekki eru bændur alveg vinalausir í ríkisstjórninni.
_ _ _
Í feitletraða textanum hér að neðan, sem er inngangur og síðan niðurlag fréttar í Bændablaðinu, kemur fram athyglisverð niðurstaða greiningar Önnu Kristínar Agnarsdóttur lögfræðings á búvörusamningunum:
,,Búvörusamningar geta ekki talist ígildi kjarasamnings og Bændasamtök Íslands geta ekki talist vera stéttarfélag búvöruframleiðenda, að mati Önnu Kristínar Agnarsdóttur lögfræðings, sem nýlega fjallaði um búvörusamninga í lokaritgerð sinni frá lagadeild Háskólans á Akureyri.
Og: ,,Niðurstaðan er þó sú að samtökin geta ekki talist vera stéttarfélag í skilningi laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
Oft hefur svo virst, sem sauðfjár og kúabændur litu á sig sem launþega hjá ríkinu. Samkvæmt þessu er svo ekki og eru það allnokkrar fréttir, a.m.k. fyrir þá sem framar voru í upptalningunni!
11.5.2023 | 07:14
Nálaraugað og stofnunin
Ríkissjónvarpið var svo vinsamlegt að sýna rússneskar ,,listakonur" pissa yfir mynd af þjóðarleiðtoga, Putin ef rétt er munað, fyrir nokkrum mánuðum síðan.
Eitthvað líður pissukonunum illa í landi sínu og því er brugðist við af höfðingskap og velvild af allsherjar-og menntamálanefnd hins íslenska Alþingis og lagt til að tvær þessara kvenna fái íslenskan ríkisborgararétt, enda ómissandi fyrir íslenskt samfélag að eiga pissustúlkur af þessu tagi.
Eins og við mátti búast var það íslenskur listamaður sem aðstoðaði konurnar við að komast úr landinu rússneska, skv. því sem segir í RÚV fréttinni.
Hvers vegna sá íslenski kom við sögu er ekki vitað og hvaða töfrum hann var búinn til að geta komið konunum frá Rússlandi er óljóst, en vel getur verið að Putin hafi sagt sínum mönnum að líta undan, þar sem tjónið væri ekki mikið fyrir rússneska þjóð og jafnvel bara léttir.
,,Formaður allsherjar-og menntamálanefndar, segir einhug hafa verið meðal nefndarmanna að veita liðskonum Pussy Riot íslenskan ríkisborgararétt.", segir í RÚV- fréttinni, enda eflaust mikill fengur í list- hlandmigum af þessu tagi fyrir íslenskt samfélag.
Það er annað en segja má um rússnesku hjónin sem leiðsagt höfðu ferðamönnum um Ísland og voru komin svo upp á kant við stjórnvöld í landi sínu, að því að þau töldu og sem þekktu til á Íslandi og óskuðu því eftir að fá að búa í landinu góða.
Það var illa séð og fólkið var flutt úr landi og til þess spurðist síðan í Ítalíu, en þar mun ekki hafa staðið til að vísa hjónunum á brott.
Eins og sjá má er ekki sama hvernig bakgrunnur fólks er og rétt að koma því á framfæri við hælisleitendur.
,,Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar-og menntamálanefndar, segir einhug hafa verið meðal nefndarmanna að veita liðskonum Pussy Riot íslenskan ríkisborgararétt."
Það var sem sagt samstaða í hinni virðulegu nefnd um að hlandmigur þessar, fengju vist í landinu bláa (ekki gula) og er rétt að koma þessu lykilatriði á framfæri við aðra umsækjendur í tíma, svo þeir geti lokið sér af svo fljótt sem verða má og þar með verið vissir um góðar viðtökur er til Íslands kemur.
Hvers vegna Útlendingastofnun hafnar íslenskumælandi Bandaríkjamanni, eiginmanni íslenskrar konu, veru í landinu okkar góða er ekki gott að segja.
Kannski hefur maðurinn ekki hagað sér nógu illa í heimalandi sínu, til að hann falli í kramið hjá stofnuninni?
Ekki viljum við missa af hæfileikafólki sem til okkar vill koma!
8.5.2023 | 08:39
Vatnið, hitinn og tíminn.
Í Morgunblaðinu er sagt frá því að skortur sé á heitu vatni í landinu, en í sama blaði er líka sagt frá því, að ekki sé skortur á heitu vatni í Reykjavík.
Niðurstaðan af þessu er, að meintur skortur er þá utan Reykjavíkur, en þar þakka menn skortleysið því, að nóg sé af heitu vatni enn, á því svæði sem nýtt er af Hellisheiðarvirkjun.
Hér er um að ræða góðar fréttir fyrir Reykvíkinga, en þeim mun verri fyrir þá íbúa landsins sem ekki búa í Reykjavík.
Vantar kannski vatn í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ?
Vonandi ekki, en það er vitað að víða vantar vatn til upphitunar, en mótsögnin er sú, að nóg er til af heitu vatni þegar að er gáð.
Gríðarleg sóun á sér stað á heitu vatni hjá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum og sú sóun skýrist af því að hitinn í vatninu er ekki nýttur nægjanlega vel vegna þess, að þegar heitu vatni er ,,hent og það látið renna til sjávar, er enn heilmikil orka eftir í vatninu.
Hægt væri að ná mun meiri orku úr vatninu áður en því er ,,hent.
Hér verður ekki fjallað um heita potta sem sprottið hafa upp í nútímanum sem einskonar ofvaxinn risasveppagróður vítt um héruð.
Varmi tapast úr vatninu með ýmsu móti frá því það fer af stað frá virkjun, hvar sem hún er og vitanlega er það þannig að því fjær sem virkjunin er notandanum því meiri varmi glatast á leiðinn. Því er best að uppsprettan sé sem næst þeim sem koma til með að nota orkuna.
Við þetta verður vitanlega ekki alltaf ráðið og það eru ekki nærri öll sveitarfélög sem búa svo vel að uppspretta heits vatns sé í ,,túngarðinum heima.
Að þessu sögðu er það þannig, að heitt vatn getur þurft að sækja um nokkuð langa leið, þar til það er komið á þann stað að dreifikerfi tekur við og að því gefnu, að vel sé þar frá öllu gengið, þá er komið að hönnun kyndikerfis neytandans og því hvernig hann nýtir vatnið til annarra hluta en kyndingar.
Hver er stærð ofna? Hvað er vatnið heitt þegar það fer í frárennslið?
Grunur er um að mikið sé bruðlað með heitt vatn á þann hátt, að hitinn sé ekki nýttur svo sem best má vera, en við skulum huga að því hvað sé hægt að gera til að nýta hitann sem er í vatninu þegar það fer í frárásina.
Hve heitt er það? Er það 30°, 40° eða 20°?
Hver sem þessi tala er, þá er hægt að ná mikilli orku úr vatninu til viðbótar með t.d. varmadælum, en þar stendur hugsanlega hnífur í vorri jarðhitakú, því varmadælur þurfa raforku og það er hreint ekki víst að svokallaðir ,,vinir umhverfisins geti hugsað sér að nýta orku fallvatnanna til aukinnar raforkuframleiðslu.
Og þar með erum við komin að lokapunkti þessara hugleiðinga, í bili að minnsta kosti, því ýmislegt getur verið í veginum þegar komið er að því að virkja blessuð fallvötnin okkar og hreint ekki víst að nokkur áhugi sé á því að gera það vegna nýungar sem kölluð er því fagra nafni ,,sjónræn áhrif, sem því aðeins eru áhrif að menn ætli sér að meta það svo.
Sjónræn áhrif af virkjunum eru svo dæmi sé tekið góð fyrir undirritaðan en afleit fyrir ýmsa aðra.
Því skulum við taka okkur saman í andlitinu og hætta öllum framkvæmdum, því þau hafa sjónræn áhrif á einhverja, einhverstaðar og einhvern tíma og ef ekki frá þessu sjónarhorninu, þá hinu.
Niðurstaða þessara hugleiðinga er sem sagt sú, að best sé að gera helst ekkert og aldrei.
Því skulum við halla okkur aftur og láta okkur líða vel og fljóta sofandi að einhverjum ósi þar sem allt er í besta lagi, bestra tíma eða í tímaleysi og utan þess rúms sem hægt er að ráða við. Láta þau sem á eftir okkur koma um að leysa málið, það er svo þægilegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2023 | 18:45
Minning um góðan dreng
Túnin koma græn undan snjónum
Þegar sest er niður að morgni fyrsta dags, eftir útför sonar okkar, sem fram fór frá Villingaholtskirkju í gær þann 2. maí, verður hugsað til baka.
Indriði var fæddur 23. júlí 1970 og var fyrsta barn okkar hjónanna og tímarnir voru dálítið aðrir en er í dag.
Farsímaöldin var ekki komin og faðirinn var að vinna við smíði ,,réttarinnar hjá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi þegar þau undur gerðust að hann var kallaður í síma sem var alllangt frá og í því stóra húsi sem enn má sjá, þegar ekið er þar framhjá og þar var hann á annarri hæð.
Algallaður rafsuðustrákur, nýlega orðinn tuttugu og eins árs, tók sér göngutúr til að komast í símann sem var á annarri hæð og spurði hvort rétt væri að einhver þyrfti að tala við hann. Það reyndist rétt vera og tíðindin sem bárust úr ,,tólinu voru þau að honum hefði fæðst sonur og að móðir og barn væru á spítalanum við Austurveg á Selfossi.
Fyrsta barn ungra hjóna var mætt í heiminn og gleðin var mikil hjá unga parinu og öðrum aðstandendum.
Yndislegt barn, sem allir sem að stóðu dáðu frá fyrsta degi og varð fljótt ,,hjartakóngurinn hennar langömmu sinnar.
Tímarnir voru dálítið aðrir og ýmsar aðstæður í þjóðfélaginu öðruvísi en í dag og skömmu seinna kom að því, að faðirinn réði sig til sjós á skip sem sigldi m.a. til Sikileyjar og það fór svo, að á endanum komust áhafnarmeðlimir í land og fyrsta hugsun hins unga föður var að kaupa eitthvað á unga piltinn sem beið hans heima og það tókst og keyptir voru forláta ítalskir barnaskór, sem fengu góðar móttökur frá móðurinni þegar heim var komið.
Barnið tjáði sig sem eðlilegt var, ekki mikið um ágæti fótabúnaðarins en átti eftir að ganga töluvert á skónum og í hugum okkar er mynd að piltinum litla að reyna nýju skóna sína.
Árin liðu, pilturinn stækkaði og eignaðist systkini sem hann elskaði og dáði og var efnilegur í alla staði, mikið stolt foreldra sinna og fleiri aðstandenda og þar kom að barnið breyttist í ungling.
Óveðurskýin hrönnuðust upp og þeim fjölgaði smátt og smátt og urðu dekkri, en ljósið í myrkrinu var að þrátt fyrir allt og fíknina sem að sótti, breyttist persónuleikinn ekki og væntumþykjan til þeirra sem að honum stóðu var ætíð sú sama og öll eigum við góðar minningar sem taka yfir sársaukann sem fylgir því að sjá á eftir sínum nánustu verða vímunni að bráð.
Indriði tók að lokum það til bragðs að setjast að á Kanaríeyjum og fann sér þar húsnæði með hjálp góðra vina og tímarnir urðu betri og betri.
Nú var orðin sú breyting á fjarskiptum frá því sem áður var lýst, að hægt var að hringja og ,,taka spjall hvenær sem hugur stóð til og þess var notið af foreldrum, systkinum og vinum og flest virtist horfa til betri vegar.
Allt tekur enda og þar kom að tíðindi bárust um að Indriði væri látinn og í fyrstu var óljóst hvernig andlátið hefði borið að, en þar kom að upplýsingar bárust og höggið var mikið.
Indriði hafði setið á bekk í almenningsgarði og eftir athugun kom í ljós að hjartað góða hafði gefið sig og hætti að gegna sínu hlutverki.
Söknuðurinn var og er mikill hjá okkur sem næst honum stóðu og í ljós hefur komið að það nær mun lengra.
Við blessum minningu Indriða og munum allt hið góða sem hann gaf okkur og hugsum til þess að nú er hann kominn á betri stað, þar sem vel verður tekið á móti honum af ástvinum sem farnir voru á undan.
Við sem eftir sitjum munum ekki kvíða því, að hitta hann að nýju þegar þar að kemur og vitum að hann mun sem ætíð, taka vel á móti þeim sem til hans koma.
Eftir nokkuð þungan vetur ber svo við að snjórinn er óðum að hjaðna og túnin sem áður voru hulin, koma nú græn undan snjónum.