19.1.2024 | 09:02
Þau sem aldrei gefast upp
Það þarf víst ekki að segja það nokkrum að orkumálin eru í hnút vegna þess að ýmist fást ekki leyfi til að virkja, en einnig er tregða á að heimildir fáist til að styrkja dreifikerfin.
Landsvirkjun gefst samt ekki upp og nú stendur til að reisa vindmyllur í þeirri von að þær bjargi einhverju.
Ekki er samt víst að málið sé í höfn, sé tekið mið af því hvernig Hvammsvirkjun var slegin út af borðinu þegar flestir töldu það mál vera á góðri leið.
Skoðun margra málsmetandi manna er að vel sé hægt að lifa í landinu líkt og gert var til forna. Þá var ekkert rafmagn, engar hitaveitur og ekkert vesen, gæti maður ætlað.
Samt er það svo að sé skyggnst inn í fortíðina, þá blasir ekki við sú veröld sem við viljum flest búa við. Um þetta er búið að skrifa langar greinar, bækur og skýrslur en það breytir engu, því þeir sem trúa, þeir trúa bara og hana nú!
Þjóðinni fjölgar hratt vegna fólks sem kýs að búa hér, þrátt fyrir kulda og trekk og vosbúð; vill fá að vinna og lifa í landi sem býður upp á eitthvað annað en það sem það er að flýja frá.
Vegna þessa þarf annað hvort að auka matvælaframleiðslu, eða treysta á að hægt sé að flytja inn það sem þarf.
Flestar þjóðir reyna að framleiða þau matvæli sem þær þarfnast; vilja ekki þurfa að treysta á aðra í veröld sem getur fyrirvaralaust breyst úr því sem er, í eitthvað annað svo sem fjölmörg dæmi sanna.
Áhöld eru um hvort íslenskir stjórnmálamenn skilji þessar staðreyndir, því þeir hafa æði oft verið staðnir að því að grafa undan innlendri framleiðslu með gjörðum sínum.
Við fyrirsjáanlegum skorti á matvælum vilja margir hins vegar bregðast svo sem Bændasamtökin.
Það þykir pólitíkusum þjóðarinnar ekki góður boðskapur og vilja frekar stóla á innflutta framleiðslu svo sem sannaðist, þegar heimilaður var innflutningur á kjúklingum frá Úkraínu, sem reyndist vera framleiddur af hollensku stórfyrirtæki með vafasaman orðstír.
Hinir góðhjörtuðu alþingismenn töldu heimildina til innflutningsins vera góða ráðstöfun á þeirri forsendu að Úkraína væri svo langt í burtu að ekki myndi reyna á heimildina góðu.
Innflytjendur lögðust yfir landakort og fundu út að Úkraína væri þar sem hún hefði verið um langan tíma og hófu innflutning af miklu kappi eins og þeim er tamt.
Nú eru komnir fram á sjónarsviðið aðrir menn sem gefa öllum þessum hindrunum langt nef og ætla að framleiða fisk til sölu innanlands, en ekki síst til útflutnings.
Hvort stjórnmálamenn þjóðarinnar finna einhverja leið til að stöðva þessar hugmyndir í fæðingu mun tíminn leiða í ljós.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2024 | 06:32
Aldrei að gefast upp
Sumir gefst aldrei upp og svo er um þá sem hyggja á vetnisframleiðslu við hlið Reykjanesvirkjunar og kvikuhlaup og jarðhræringar breyta þar engu.
Sama er um Landsvirkjun sem gefst ekki upp á að leita leiða til að uppfylla orkuþörf þjóðarinnar, þrátt fyrir að stemningin sé sú, að hún, eða að minnsta kosti fjalltraustir og sjálfskipaðir alvitringar hennar, leggist gegn flestum hugmyndum sem fram koma varðandi virkjanakosti.
Raforkan skal verða til úr engu og ekkert skal verða að miklu, mun vera kjörorð þeirra sem hvergi vilja virkja, en vilja samt eiga óheftan aðgang að raforku, hvað sem raular eða tautar.
Möguleikarnir eru sannarlega til staðar og þeir eru með ýmsu móti: það er hægt að virkja fallvötnin, jarðhitann, vindinn o.s.frv. en það er ekki hægt samt.
Kertaljós og klæðin rauð var sungið á jólunum og er líklegast gert enn og þó virkjanaandstæðingar nefni ekki þann möguleika til lýsingar, þá má gera ráð fyrir að þá dreymi blauta drauma um fyrri tíma þjóðar, sem kúldraðist í vistvænum torfkofum og sló gras með orfi og ljá og sópaði heyinu síðan saman veð hrífu.
Sótti sér björg í bú með því að róa út á sjó þegar færi gafst og lifa í voninni um að allir sem til sjós fóru kæmu til baka, en ef svo fór að þeir skiluðu sér ekki, þá var bara að taka því.
Súrt slátur og súrsaðir hrútspungar, finnst sumum vera gott fóður inn í daginn og við étum það á þorrablótum og sumir skola því niður með brennivíni, íslenska viskíinu, sem enginn vill drekka nema sumir í harðindum, eða þegar löngunin í vímuna verður óbærileg.
Stemningin er afturhvarf til fortíðar og því meira sem menn læra, því sannfærðari verða þeir um að allt geti orðið til af engu og orðið að miklu, ef ekki öllu eða bara hverju sem er.
Eigum við að reyna að trúa hinni nýju lífsspeki?
13.1.2024 | 07:44
Innflutningur, náttúruvá, ófriður og hörmulegt slys
Það er margt sem við fáum frá Kína, svo sem við sjáum við að lesa þó ekki sé nema fyrirsögnina og því er gott að halda góðum tengslum við það ógnarstóra og fjölmenna þjóðfélag.
Sumir telja að núverandi forsætisráðherra geti verið vænlegur kostur fyrir þjóðina í komandi forsetakosningum.
Og svo eru það orkumálin sem þarf að koma í lag eftir að hafa verið látin reka á reiðanum um ára, ef ekki áratuga bil.
Kínverja getum við afgreitt þannig að þeir sjá um sig sjálfir og við getum engin áhrif haft á það sem þar gerist; getum einungis fylgst með og reynt að halda góðu sambandi, en þaðan kaupum við allt mögulegt, eða allt frá flutningaskipum til leikfanga og allt þar á milli.
Því er það að okkur stendur ekki á sama, þegar siglingar truflast um Súesskurð og Rauðahaf og skipin þurfa að fara að sigla suður fyrir Afríku til að koma varningnum til okkar.
Það er ófriður í Miðausturlöndum, ófriður sem ekki sér fyrir endann á nema síður sé, því svo virðist sem sífellt fleiri blandi sér í þann ljóta leik.
Blaðran sprakk þegar Hamaz gerði árás á fólk, á tónleikum í Ísrael og drápu af handahófi talsvert á annað þúsundir manna.
Á þá árás má lita sem örvæntingarviðbrögð þjóðar sem búið er að þjarma að um langan tíma, eða allt frá lokum síðari heimstyrjaldar. Flestir þekkja þá sögu og hún verður ekki rifjuð upp hér, en afleiðingarnar eru skelfilegar og yfirgangurinn gagnvart palestínsku þjóðinni mikill.
Nú keyrir um þverbak og svo er að sjá sem markmiðið sé að útrýma þjóðinni sem er og hefur verið um aldir og þeir sem að verkinu standa njóta ómælds stuðnings vina sinna vestan Atlantshafsins.
Við á litla Íslandi getum fátt gert í málinu; getum í raun ekki gert annað en vonað að menn nái áttum og hætti manndrápum og eyðingu byggðar - ef þá eitthvað er eftir til að eyða - setjist að samningaborði og ræði sig niður að ásættanlegri niðurstöðu sem yrði farsæl fyrir alla.
Svona getum við hugsað og vonað, en líkurnar til að raunhæfur friður komist á eru afar litlar a.m.k. sem stendur; leikurinn er ójafn og því geta þeir sem yfirgangi beita farið sínu fram.
Vandamálin okkar eru smámunir í samanburði við það sem er að gerast í Miðausturlöndum.
Við þurfum samt að koma okkur saman um hver verður forseti þjóðarinnar, hvernig við ætlum að koma raforku á milli landshluta o.s.frv.
Það getur stundum verið ágætt að vera lítil þjóð á eyju í Atlantshafinu, þrátt fyrir eldvirkni og jarðskjálfta og leitar þá hugurinn út á Reykjanes, til fólksins sem flýja þurfti úr bænum sínum vegna jarðskjálfta og eldgosahættu.
Til mannsins sem fórst við vinnu við að fylla upp í sprungu sem myndast hafði í Grindavík, aðstandenda hans og björgunarsveitarfólksins sem gerði það sem það gat og varð að lokum að gefast upp við að finna félaga sinn.
Hugurinn er hjá þessu fólki núna, með ósk um að allar góðar vættir muni styrkja þau í þeim raunum sem þau eru að takast á við.
Aðstandendur mannsins sem fórst, þarfnast stuðnings og hlýju og þeim óskar ritari alls hins besta og að þau fái styrk til að standast þessa raun.
4.1.2024 | 05:35
Orkumálin enn og aftur
Enn er það orkubúskapurinn sem er ofarlega í huga og nú er það orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða sem sendir grein í Morgunblaðið og segir frá því að orkuskorturinn kosti um hálfan milljarð og bætir því við að olíunotkun muni aukast um 3,4 milljónir lítra!
Elías Jónatansson segir í grein sinni:
,,Engum dylst að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi. Ekki eru þó öll sund lokuð því við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina miljón tonna ár hvert. Því miður stefnir í það að á árinu 2024 fimmtánfaldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða (OV) frá árinu í ár, fari úr 220 þús. lítrum í 3,4 milljónir lítra. Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9.200 tonn. Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku."
Eins og sést á síðustu orðum þessarar tilvitnunar, þá þarf þetta ekki að vera svona.
Við erum svo lánsöm að landið okkar er ríkt af orku af ýmsu tagi sem ekki fæst nýtt þjóðinni til hagsbóta. Því er það, að ekki verður séð annað en inn verði fluttir orkuberar frá öðrum löndum um ófyrirsjáanlega framtíð og það sem fram kemur í grein Elíasar er enn eitt dæmið um það.
Það næst ekki fram, að virkjuð séu fallvötnin okkar til orkuöflunar, vindorkan mætir andstöðu, m.a. vegna þess að sumum þykir ekki prýði að myllunum nema þær séu í útlöndum o.s.frv.
En alltaf má finna lausnir og sem betur fer er hægt að flytja inn jarðefnaeldsneyti og nýta orkuna sem í því býr!
Í annarri aðsendri grein í Morgunblaðið er farið yfir það hvernig lagafyrirkomulegið er varðandi skatta og skyldur af mannvirkjum vegna orkuöflunar.
Greinina ritar oddviti og sveitarstjóri í Skeiða og Gnúpverjahreppi og í henni kemur fram:
,,[...]að enginn ávinningur er fyrir sveitarfélög að skipuleggja og heimila uppbyggingu á orkumannvirkjum þar sem þau skila litlum sem engum tekjum í nærumhverfið. Í sumum tilfellum skila orkumannvirkin fjárhagslegu tjóni fyrir sveitarfélögin og íbúana í nærumhverfinu. Sú staðreynd varð til þess að í júní skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp til að endurskoða skattaumhverfi orkuvinnslu. Starfshópurinn átti að skila af sér 31. október. Síðan var því frestað til 6. desember og þegar þetta er skrifað hefur ekkert komið frá fjármála- og efnahagsráðherra um boðaðar skattabreytingar."
Það eru sem sé hnútar í ,,kerfinu" sem þarf að leysa og til þess eru skipaðar nefndir.
Menn hittast og spjalla, fá greitt fyrir nefndarsetu, skila af sér áliti o.s.frv., málum er frestað og að lokum gerist ekki neitt!
Þetta er ,,möppudýra"- veröldin sem við erum búin að koma okkur upp í ,,kerfinu" góða.
Menn hittast, spjalla, draga ályktanir, skrifa niður minnispunkta og skila af sér skýrslu sem stungið er í möppu og síðan komið fyrir í hillu og/eða varðveitt í viðeigandi skjalasafni.
Hér gildir ,,að eftir japl jaml og fuður" eru hlutirnir ,,grafnir út og suður", líkt og komist var að orði af öðru tilefni.
Það sér það hver maður að svona getur þetta ekki gengið til áfram, en hvenær það blessaða ,,áfram" kemur er vandi um að spá og satt að segja fátt sem bendir til þess að ,,kerfið" okkar verðið skilvirkara í náinni framtíð.
Hugsanlega þarf, til þess að við vöknum upp af þyrnirósarsvefninum, að til komi hrun af nýrri gerð; ekki hrun líkt því sem ævintýramenn kölluðu yfir þjóð sína fyrir 16 árum, heldur hrun sem veldur efnahagslegri kreppu af öðru tagi og sem sprottin er af öðrum rótum; rótum sofandaháttar, ákvarðanatökufælni og almenns sinnuleysis.
Það vantar samt ekki að varnaðarorðin eru komin fram, það sem vantar er að það sé hlustað og brugðist við.
17.12.2023 | 16:09
Orkuöflun í óeiningu og orkukreppu
Við förum létt í þetta til að byrja með, en þyngjum það kannski þegar á líður.
Á myndunum, sem fengnar eru annars vegar af visir.is (Halldór) og hins vegar af mbl.is (Ívar) sjáum við tekið á orkumálunum á hraðsoðinn og gamansaman hátt.
Á þeirri til vinstri er túlkun á húllumhæinu sem fram fór í Abu Dabi á dögunum, þar sem saman var kominn fjöldi vel meinandi fólks, skulum við vona, sem telur sig vera að bjarga plánetunni okkar frá, a.m.k. hitasveiflum í komandi framtíð.
Sá hængur er samt á að hitasveiflur hafa komið og farið í sögu plánetunnar og það alveg án þess að farið hafi verið í ferðalög þvert um heiminn til að sporna við því. Sveiflurnar hafi farið upp og síðan gengið til baka en þær hafa líka farið niður og síðan hefur það líka gengið til baka.
Í Morgunblaðinu hefur talsvert verið fjallað um þessi mál, bæði frá pólitísku sjónarhorni en líka hinu raunsæa og við sjáum hér dæmi um það síðarnefnda. Það er sem sé skortur á raforku sem hefur hindrað að hægt hafi verið að selja orku og þar með skapa aukin atvinnutækifæri og nota vistvæna orku til innlendrar starfsemi og í staðinn hefur verið brennt olíu við framleiðsluna og það er líka verið að skerða afhendingu orku til íslenskra fyrirtækja þriðja árið í röð.
Það er dapurlegt til þess að hugsa, að kerfislægar og pólitískar hindranir valdi því að ekki sé hægt að undirrita samninga um sölu á orku til fyrirtækja og að það sé gert undir yfirskini umhverfisverndar.
Samfylkingin styður aukna orkuöflun segir í fyrirsögn og þar er vitnað í þingmann flokksins, og þó það nú væri að flokkur sem rekur ættir sínar til vinnandi alþýðu hafi skilning á málinu, en eins og við sjáum á teikningunni, þá getur verið að raddir finnist í flokknum sem telji úr og að þær hafi verið dálítið háværar á köflum.
Á myndinni til vinstri er verið að fjalla um ,,orkuleka, en á myndinni sem er til hægri er verið að fjalla um mál sem við eigum ef til vill betra með að skilja.
Skortur er á iðnmenntuðu fólki og ástæðan er, að ekki er varið nægu fé til menntunar iðnaðarmanna! Alls kyns dularfull merki hafa sést í samfélaginu um að ráðamenn telji iðnmenntun ekki þess virði að hún sé stunduð og er þar eitt skýrasta dæmið, að menn hafa fundið það út að óþarft sé að kenna vélstjórn og skipstjórn í Sjómannaskólanum.
Hafa sem sé fundið það út, að þess í stað eigi að nota húsnæðið til þess að dæma í dómsmálum.
Sé hugsað til þess hver stærð hússins er og sé allt eðlilegt við mat á því hve heppilegt það sé fyrir fyrrgreinda starfsemi, þá er illa komið í samfélaginu okkar, svo ekki sé meira sagt.
Hér í lokin skal minnt á að eins og við sáum, þá er glímt við kuldabola með raunsæjum aðferðum þar sem sagt er frá byggingu nýs miðlunartanks fyrir heitt vatn, en við sjáum líka að iðnaðarráðherra telur vera þörf fyrir aðgerðir sem geti orðið að raunveruleika bæði fljótt og vel.
Eins og við er að búast, kennir hann Orkuveitunni um hve hægt hafi miðað.
Hér verður tekin sú afstaða að líta á þau ummæli sem pólitískt skot, því allir vita að það fyrirtæki ber ekki umtalsverða ábyrgð á hve hægt hefur gengið. Það er landsmálapólitíkin sem hefur brugðist og er aðal sökudólgurinn, eða með öðrum orðum þeir sem stjórna landinu.
Ríkisstjórnin er skipuð þremur flokkum og með forystu í henni fer flokkurinn sem berst gegn uppbyggingu orkufyrirtækja, svo sem hann getur, en síðan er þar flokkur iðnaðar- og orkumálaráðherrans sem þarf að hugsa sinn gang.
Sjálfstæðisflokkurinn lætur bjóða sér að sitja í ríkisstjórn sem stendur í vegi fyrir virkjanaframkvæmdum, en svo auk þess að glíma mannskap sem notar sér alla tiltæka lagakróka til að kæra framkomnar tillögur um nýjar virkjanir, svo sem nýlegt dæmi er um varðandi Hvammsvirkjun í Þjórsá.
En auðvitað er reynt að ,,benda á eitthvað annað, þegar menn eru komnir í vandræði með að afsaka það sem ekki gengur sem skyldi.
Hvort ,,Eyjólfur hressist í því samstarfi sem varð til eftir kosningarnar til alþingis og sem eru stundum kenndar við Borgarnes, er varlegt að treysta, en það þarf örugglega mikið að ganga á áður en flokkurinn sem fer með forystu í stjórninni áttar sig á því, að það er að koma að ögurstundu í málaflokknum.
Ef til vill verður allt gott eftir næsta heimshornaflakk og samkundan svo góð og áhrifarík, að smámál eins og raforkuskortur til fyrirtækja og jafnvel heimila á Íslandi, hverfi eins og dögg fyrir sólu.
Menn þurfa bara að muna að taka með sér nóg af sólskini næst þegar farið verður í vistvænt flug yfir hálfan hnöttinn til að hitta mann og annan!
15.12.2023 | 12:40
Glott við gogg
Til stendur að ,,kolefnisjafna flakk yfir áttatíu fulltrúa til Abú Dabí á dögunum, en menn vita bara ekki hvernig.
Best hefði verið að sleppa flakkinu og gera eitthvað þarfara, en það verður ekki gert úr því sem komið er og því þarf að klóra yfir og það verður örugglega gert með tilþrifum, líkt og oftast gerist hjá því fólki sem í hlut á.
Morgunblaðið kannaði hve stóran skóg þyrfti að rækta til að ,,jafna uppátækið. Í ljós kom að um var að ræða talsverða skógrækt eða um 11 hektara, en eins og allir vita, nema kannski Vinstri græn, þá gerist það ekki eins og hendi sé veifað að skógur bindi allt það kolefni sem sleppt var lausu út í andrúmsloftið við flakk áttatíu- og eitthvað- menningana sem snöruðu sér suður til þess eins að þusa út og suður og sóla sig í leiðinni, ekki má gleyma því!.
Svona er staðan, að þegar þeim sem komist hafa í toppstöður í þjófélaginu okkar langar í flottan skreppitúr, er til nóg af peningum í ríkissjóðnum galtóma og það liggur við að segja megi að helsta spurningin sé:
Hvað viltu mikið væni?
Við sjáum í auglýsingu frá reiðhjólaversluninni Erninum, að til stendur að setja virðisaukaskatt á öll reiðhjól um áramótin og víst er að það verður gert til að tryggja sem unnt er að hinir snauðu í samfélaginu ferðist sem minnst á vistvænum farartækjum.
Það fara ekki saman orð og æði og ekki er heldur svo að sjá, sem ætlunin sé að hvetja fólk til að ferðast á reiðhjólum í stað bifreiða.
Líklega hefur virðisaukaskattleysið á reiðhjól veri útbúið í einhverju umhverfisafturhvarfi til fortíðar: Reiðhjól, reiðhestur?
Allt fer vel að lokum, því ruslið okkar verður sent til Svíþjóðar, þar sem það verður brennt og orkan úr því nýtt.
Svoleiðis óskunda gerum við nefnilega ekki gagnvart náttúrunni og því sendum við ruslið úr landi með flutningaskipum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, þar er því síðan skipað upp og flutt til brennslu og orkan sem úr því kemur nýtt til góða fyrir sænska þjóð.
Sumir sjá heildarmyndina, en aðrir ekki og það er borið upp á strútinn að hann stingi höfðinu í sandinn og sjái þar með ekki það sem gerist í kringum hann.
Sá myndi trúlega glotta við gogg ef hann mætti fylgjast með því sem gerist á Íslandi.
12.12.2023 | 07:12
Landtaka með ofbeldi
Það þykir ekki gott að ,,vera tekinn í bólinu eins og það er kallað og því má bæta við að ,,sannleikanum verður hver sárreiðastur.
Það eru talsverð sannindi sem felast í þessum tveimur orðtökum eða málsháttum úr íslensku tungutaki.
Á CNN og áður á NYT er sagt frá því að leyniþjónusta Ísraels hafi vitað fyrirfram og hafi vitað um nokkurn tíma, að Hamas samtökin hygðust gera árás.
Illur á sér ills von, svo haldið sé áfram að vitnað í gamla málshætti, en eitthvað varð til þess að stjórnvöld hundsuðu viðvaranirnar, sem að lokum varð til þess að 1200 mannslíf glötuðust Ísraelsmegin.
Vegna þess að sannleikanum verður hver sárreiðastur, var brugðist við með ómældum ofsa sem líklega mun ljúka með því að Gasa byggðin arabíska verði ekki til að hildarleiknum loknum.
Var það kannski það sem lagt var upp með, að fá tækifæri til að eyða byggðinni á Gasa til að rýma til fyrir byggð gyðinga á svæðinu?
Við vitum þetta ekki og erum að draga ályktanir byggðar á líkum, raunverulegum líkum þúsunda fólks sem drepið hefur verið kerfisbundið líkt og um útrýmingarherferð sé að ræða.
Engu er hlíft, ekki körlum, konum né börnum, allt er drepið sem hægt er að drepa og ofsinn er slíkur að það er í raun furðulegt hve mannfallið er lítið, í samanburði við sprengjuregnið og hve víðtækar afleiðingar það hefur.
Vel getur svo sem verið að uppgefnar tölur séu ekki réttar og að Hamas gefi ekki upp hið raunverulega mannfall í von um að kjarkur arabísku þjóðarinnar hverfi þá síður, en það breytir ekki því að manndrápin eru ógurleg og eyðilegging byggðarinnar ekki síður.
Gera má ráð fyrir að þegar þessu líkur, að þá muni gyðingaríkið byggja upp á ný á svæðinu og það er svo sem ekkert nýtt að land sé tekið með ofbeldi, þar sem fólk hefur verið hrakið af landi sínu og að síðan sé allt byggt upp að nýju.
Þannig hefur þetta gengið til árum saman og svo grátlegt sem það er, þá hefur ekkert verið gert til að hindra þessa aðferð til landtöku sem réttara væri að kalla landrán.
Stuðningurinn til þessa framferðis kemur ómældur frá forusturíkinu í vestri, fjármagn hergögn og vafalaust sitthvað fleira sem til þarf s.s. til uppbyggingar að landráni loknu.
Ætli það verði ekki það sem gerast muni í framhalda af því sem við horfum á núna, að allt byggist upp að nýju líkt og gerst hefur svo lengi menn menn muna.
Mannskepnan er dugleg við það og við höfum séð það gerast aftur og aftur í sögunni, að heilu þjóðfélögin eru lögð i rúst, en síðan byggt upp að nýju af ótrúlegri þrautseigju.
Á sínum tíma var tekin ákvörðun um að reisa upp nýtt ríki gyðinga á þeim stað sem það hafði verið áður og það var gert, en svo virðist sem gleymst hafi að taka það með í dæmið, að á svæðinu var fyrir byggð, sem verið hafði um aldir og í þúsundir ára ef út í það er farið.
Að bæta fyrir glæp með öðrum glæp hefur aldrei þótt sérstaklega góð aðferð til réttlætis né til að jafna sig á hneykslun og samviskubiti.
Nýir landnemar gætu og ættu að koma betur fram við fólkið sem þeir eru að taka landið af og vitanlega væri best að fara ekki þá leið að beita valdi og ofríki við landtökuna, eða réttara sagt landránið.
Það er samt leiðin sem valið var að fara og því er sem er, að hörmungunum líkur seint, ef þá nokkurn tíma.
10.12.2023 | 12:11
Að breyta lit
Það sem helst ber til tíðinda þessa dagana er að innviðurinn í ríkisstjórninni skrifar undir eitt og annað, en hann er ekki einn svo við snúum okkur að öðru.
Það hefur verið í fréttum í gær og kannski lengur, að reynt var að skipta um lit á utanríkisráherranum fyrrum fjármálaráðherra og það merkilega er, að það tókst að nokkru a.m.k. að utan.
Ráðherrann bar sig vel eftir atlöguna, en ekki er víst að hann hafi vitað af breytingunni á jakkanum og því talið að allt væri nú þetta því í allra besta lagi.
Nái hið dularfulla efni sem dreift var yfir ráðherrann að lita sálu hans þá er bleik brugðið!
Hvers vegna þessi tilraun var gerð á ráðherranum er ekki alveg ljóst, þó látið hafi verið í veðri vaka að til hafi staðið að vekja hann til umhugsunar um stöðuna í Palestínu.
Í Palestínu er ástandið ekki gott eins og flestir vita og sé eitthvað að marka myndir sem þaðan hafa borist, þá er sem verið sé að flytja þá sem náðst hafa lifandi úr hildarleiknum á flutningabílum og væntanlega þá til aflífunar og síðan huslunar.
_ __
Atlaga að íslenska utanríkisráðherranum fór vitanlega út um þúfur og verður vonandi ekki reynd aftur í bráð, því það eru aðrar aðferðir sem við viljum nota til að koma skoðunum okkar á framfæri.
Það hefur mest tíðkast, að minnsta kosti í seinni tíð, að berjast með orðsins brandi, eins og við köllum það og vonandi verður það svo áfram.
Ráðherrann slapp óskaðaður frá atlögunni og við vonum, að hann hafi ekki orðið fyrir neinum skaða þó gusan hafi farið yfir hann.
9.12.2023 | 06:05
Oft ratast...
Órólega deildin í Framsóknarflokknum klauf sig út úr flokknum eins og við munum, stikaði frá Háskólabíói yfir á Hótel Sögu, lagðist undir sæng og stofnaði í framhaldinu nýjan flokk sem fékk var nafnið Miðflokkur.
Miðflokkurinn er smáflokkur sem minnkaði enn, þegar í ljós kom eftir ,,Borgarneskosningarnar að einn þeirra sem boðið höfðu sig fram í nafni flokksins, hafði gert það undir fölsku flaggi, kastaði af sér miðflokkshempunni og gekk hið snarasta í Sjálfstæðisflokkinn.
Þar var honum vel tekið, því litlu verður vöggur feginn og allt er hey í harðindum, eins og þar stendur.
Því er það, að þegar þingmaður Miðflokksins segir eitthvað vera í hægagangi þá er rétt að leggja við hlustir og sperra eyrun, því eins og við vitum, þá er ekki farið með fleipur á þeim bæ!
Nú stígur fram einn þeirra sem eftir sitja í flokknum, ber sér á brjóst og lýsir alkunnum staðreyndum svo sem sjá má.
Tilefnið er orkuöflun fyrir sístækkandi þjóðfélag á landinu okkar bláa og það þarf svo sannarlega ekki mann frá miðju til að segja okkur frá því hvernig staðan er varðandi þau mál.
Við erum nokkur sem munum gerð virkjananna í Þjórsá, Blönduvirkjun og Kröflu sem byggð var á umbrotatíma í jarðsögulegu tilliti; tíma sem ekki var svo ólíkur því sem er núna á Reykjanesi.
Þá voru það tveir pólitískir andstæðingar, Jón Sólnes og Ragnar Arnalds, ef rétt er munað, sem tóku saman höndum og stóðu saman í því að reyna að koma virkjuninni áfram þannig að hún yrði að veruleika.
Fræg urðu og ógleymanleg svör Jóns, þegar hann var spurður þeirrar spurningar hvernig honum litist á stöðuna með gjósandi jarðsprungur í næsta nágrenni við virkjanasvæðið.
Svarið varð eitthvað á þessa leið: ,,Ætli við ,,kröflum okkur ekki fram úr þessu?
Það gerðu þeir síðan félagarnir og aðrir sem að verkinu unnu og virkjunin varð að veruleika.
Menn áttuðu sig á því að þjóðin þurfti orku til að komast af og að það þurfti að gera fleira en að veiða fisk, rækta kindur, kýr og hesta og við vorum reyndar komin dálítið lengra en það.
Komið var álver í Straumsvík sem starfrækt hefur verið um áratugaskeið, sömuleiðis sementsverksmiðju o.s.frv. en það þurfti fleira til að styrkja og bæta íslenskt samfélag.
Þetta sáu menn þá, en sjá sumir ekki nú og því er þras og bras, að koma nýjum virkjunum frá því að vera hugmyndir og yfir til þess að verða að veruleika.
Þó búið sé að vinna alla undirbúningsvinnu, þá dugar það ekki til, því nóg er til af fólki sem telur að hægt sé að lifa í landinu okkar gjöfula og góða, án þess að lifa af því!
Vel getur svo sem verið að það sé hægt, en svo hefur ekki verið frá því að það byggðist og ef fundin er leið til að lifa í landinu án þess að ,,lifa af því á nokkurn hátt þá þarf að útskýra það betur fyrir okkur hinum sem teljum að rétt sé að nýta auðlindir landsins, auðlindir sem annars ýmist rynnu ónýttar til sjávar, eða puðruðust upp í loftið engum til gagns og fáum til ánægju.
Vissulega eru til verðmæti sem við viljum ekki fórna fyrir nokkurn mun.
Engum dettur t.d. í hug að virkja hverasvæðið við Geysi sem vakið hefur hrifningu og aðdáun um aldir og mun vonandi gera það áfram. Við byggjum ekki heldur stóriðjuver á Þingvöllum!
Við gætum hins vegar virkjað neðri hluta Þjórsár og Héraðsvötn og fleira og fleira, því við búum í landi tækifæranna þegar glöggt er skoðað.
Hvort niðurstaðan verður sú að við sjáum það eitt framtíðarverkefni, að selja ferðamönnum aðgang að landinu okkar, kemur tíminn til með að leiða í ljós, en hætt er við að víða verði margt orðið niðurtroðið, útsparkað og breytt að lokum, verði farin sú leið og ekki síst ef haft er í huga, að ekki virðist mega bæta aðstöðu á ferðamannastöðum s.s. dæmi eru um t.d. við Landmannalaugar og víðar.
Það einkennilega er, að það hefur náðst fram að bæta aðstöðu á Þingvöllum og við Gullfoss og í Kerlingarfjöllum og ef til vill víðar án þess að einkavinir umhverfisins færu mikinn.
Einhvern veginn hefur þeim tekist að horfa fram hjá þeim lagfæringum, en hvað það var sem olli því að eftirtektin var bæði sljó og döpur gagnvart þeim athöfnum er óupplýst, en gefur okkur von um að hægt sé að lifa af og í landinu, án þess að allt fari í niðurníðslu.
Að stjórnmálaaflið sem nefnt í upphafi þessa pistils nái raunverulegum pólitískum áttum er hins vegar lítil von til, en um það gildir hið fornkveðna ,,að oft ratast... o.s.frv. og ætli við verðum ekki að sætta okkur við það!
8.12.2023 | 06:39
Bitið í Biden?
Maðurinn sem gerði það svo ljómandi gott í Úkraínu er til umfjöllunar hjá Fréttastofu Ríkisútvarpsins, þar sem vitnað er til erlendra miðla, s.s. BBC, CNN og N.Y.T.
Þar kemur fram að hann hafur komið við víðar og við bætist Kína.
Við sem týnum einu og öðru og jafnvel stundum sjálfum okkur, finnum dálítið til með manninum sem virðist vera ósköp venjulegur að sjá sé tekið mið af myndunum sem birtar eru með fréttinni.
Hunter þessi hefur viða komið við en einna mest hefur verið fjallað um bras hans í Úkraínu, þar sem hann er sagður hafa reynt fyrir sér í einhverskonar líftæknibrasi, sem venjulegur vélfræðingur og meðaljón kann ekkert að segja frá.
Hvort það var þar sem dularfull fartölva mannsins kom við sögu er ekki gott að segja, því lítið hefur verið sagt frá nær endalausum ,,rannsóknum" á því ágæta raftóli.
En eins og segir í tilvitnaðri frétt, þá er nú svo komið að til stendur að ákæra manninn fyrir skattalagabrot, þ.e.a.s. að hann hafi skotið einhverju undan skatti.
Að auki mun bíða hans ,,ákæra fyrir vopnalagabrot" eins og sjá má á myndskotinu sem tekið er af vef Rúvsins, svo sjá má að maðurinn kemur víða við.
Við Íslendingar látum okkur ekki bregða við tal um svoleiðis enda ókrýndir heimsmeistarar í greininni að eigin áliti.
Gera má ráð fyrir að þetta sé dregið fram vegna komandi forsetakosninga í heimsveldinu fyrir vestan og verður að segja, að það er frekar óheppilegt fyrir Biden gamla Jó sem þrátt fyrir háan aldur sækist eftir því að fá að vera forseti nokkur ár í viðbót.
Karlinn er orðinn töluvert við aldur, eins og áður sagði og þó einkanlega sé tekið mið af keppinautnum Trump hinum trompaða - en ekki slompaða -, sem er nokkrum árum yngri og betur á sig kominn líkamlega að sjá.
Fátt er hægt að segja um andlegu hliðina á þessum gömlu baráttujöxlum, en Biden berst við að standa í fæturna, koma hundinum í öruggt athvarf, gæta stráksins strákslega, hafa uppá tölvunni og klappa Zelensky á kollinn og vangann.
Þetta síðastnefnda þykir karli vera orðið frekar leiðigjarnt og tilbreytingarlítið í seinni tíð, því óskalistinn er alltaf sá sami: meira dót meiri peninga og bara meira af öllu!
Mikill vill meira, segir íslenskt orðtak og virðist það eiga nokkuð vel við hér, en Biden er líklega orðinn dálítið leiður á að vera sífellt minntur á það sama æ ofan í æ og síðan bætist þetta við með strákinn, sem reyndar er ekki strákur lengur, en hvað með það, sumir eru bara svo lengi að ná þroska.
Hvernig fer með komandi forsetakosningar er ekki gott að segja, en ekki er það vænlegt til ávinnings að vera kærður fyrir skattalagabrot í guðs eigin landi og ekki líklegt að meint brot stráksins, sem ekki er strákur lengur, verði föðurnum til framdráttar í framboðsbröltinu.
Og þar sem Trump hinn trompaði komst upp með ýmislegt, því þá ekki hinn glæsilegi og lífsreyndi vonarprins þjóðar sinnar, pabba síns og mömmu og hundsins hundslega sem fluttur var í útlegð?