12.9.2023 | 08:28
Fréttaflakk liðinna daga
Það kennir margra grasa sé kíkt á fréttir liðinna daga.
Ekið var á kúahóp og nokkrar kýr drápust, vísindamenn hlutu styrki. Óli Björn hættir óvænt, aðsend grein birtist um jafnrétti og lýðræði, ekki er vitað um áform Títans(?), það lítur vel út með kornrækt á Suðurlandi og Evrópumót iðngreina fór fram í Póllandi svo nokkur dæmi séu tekin.
Hver stóra fréttin er, er ekki gott að segja, en sú jákvæða er, að kornræktin skuli vera að blessast og þá er það líka jákvætt að iðngreinar séu virtar svo sem vert er og haldið um þær mót.
Að ekið sé bifreið á hóp dýra, hver sem þau eru, er sorglegt, bæði vegna gripanna sem fyrir slysinu verða, en einnig vegna ökumannsins sem fyrir því varð að valda slíku slysi.
Og að haldið sé mót iðngreina er ánægjulegt og vel við hæfi að það sé gert í Póllandi, þar sem iðnaður hefur um langan tíma verið í hávegum hafður.
Um Títan vitum við lítið sem ekki neitt og víst væri gott að vita meira um það sem fleira, en einhvertíma var því haldið fram að það sem maður vissi ekki, skaðaði mann ekki!
Hvort það er alls kostar rétt er vissulega hægt að deila um, en stóra fréttin er að Óli Björn skuli vera að hætta og það óvænt.
11.9.2023 | 07:48
Menntastofnanir á hrakhólum
Skólahrakningar.
Það er hart sótt að framhaldsskólastiginu þessa dagana og einkum virðist það vera vera starfsnámið sem sótt er að, af hálfu ríkisins.
Svo dæmi sé tekið, mun vera búið að tvístra Vélskóla Íslands þannig að hluti námsins er í Hafnarfirði, en hinn hlutinn er enn í Sjómannaskólanum í Reykjavík.
Því hefur verið hvíslað, að ástæðan sé að pólitísk gæludýr eigi sér þá ósk heitasta, að komast yfir hina glæsilegu byggingu við Háteigsveg.
Byggingu sem hýsir Stýrimannaskólann og Vélskólann (að hluta) og að draumurinn sé að taka hana undir hótelhald.
Hvort það er rétt mun tíminn leiða í ljós.
Nemendur eyða nú fé og dýrmætum tíma í ferðalög milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Minningin um hugmyndir um að koma Vélskólanum fyrir í gömlu verslunarhúsnæði austur á Höfða, gott ef ekki fyrrverandi bílasölu, lifir enn í huga þeirra sem kynntu sér hana.
Allt átti það að vera á einni hæð og skólastofunum stóð til að raða umhverfis vélasalinn, sem vera átti í miðjunni.
Hvernig það samræmdist óskum um góða hljóðvist í bóknámsstofum, er ekki ljóst.
Trúlega voru hugmyndirnar ekki betur lukkaðar en svo, að málið sé að mestu gleymt.
Lausnin mun nú vera fundin suður í Hafnarfirði.
Nemendum utan af landi verður trúlega fundin gisting í Mosfellsbæ eða Seltjarnarnesi í hagræðingarskyni.
8.9.2023 | 09:28
Sameining framhaldsskóla
Það er ekki ofsagt að tillaga ráðherra menntamála, um sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á sama stað hafi vakið viðbrögð.
Undirritaður hefur leyft sér að grínast með málið, sem er ekki rétt að gera, sé það skoðað svo sem vert er.
Meiningin með hugmyndunum er örugglega góð, en hvort þær eru framkvæmanlegar á eftir að koma í ljós.
Í Morgunblaðinu birtist í dag (8.9.2023) aðsend grein eftir Þorstein Gunnarsson sem er fyrrv. rektor Háskólans á Akureyri og tekur þátt í að leiða stýrihóp mennta- og barna¬málaráðherra um eflingu framhaldsskólans.
Greinin er málefnaleg og skýrir nokkuð vel það sem um er að ræða og þar segir m.a.:
,,[John] Dewey benti á fyrir meira en einni öld síðan er aðgreining eða tvíhyggja milli bóknáms og verknáms úrelt. Í nútíma samfélagi eigum við að draga úr þessari tilgangslitlu flokkun í bóknám og verknám. Í framtíðinni ætti svo til hver framhaldsskóli hér á landi að geta boðið fram margs konar samsett nám, t.d. bóknám, iðn- og starfsnám og listnám, svo nokkrar tegundir náms séu nefndar, sem býr ungt fólk sem best undir framtíðina. Hér er þó ekki um algild markmið að ræða og taka þarf tillit til styrkleika hvers framhaldsskóla, sögu, hefða, staðsetningar og hagkvæmni í rekstri.
Vel getur verið að það aðgreining náms líkt og verið hefur sé ekki með öllu rétt og verður undirrituðum hugsað til þess, er hann stundaði sitt nám til starfsréttinda.
Þá sem stundum áður urðu ýmsar breytingar á námi til starfsréttinda til vélstjórnar.
Reglan hafði verið að fyrst tóku menn ,,sveinspróf eftir nám í iðnskóla og starfsþjálfun hjá meistara. Síðan breyttist það og gefinn var kostur á að fara þá leið að fara í svokallað námsskeið og síðan þrjá bekki í Vélskóla Íslands, en full starfsréttindi fengust að loknu sveinsprófi í járniðnaðargrein og starfsþjálfun á vettvangi.
Síðan var þessu breytt í ,,áfangakerfi, sem lauk með fullum réttindum, að lokinni þjálfun í starfi um tiltekinn tíma.
Í grófum dráttum var þetta svona, en vel getur verið að eitthvað hafi gleymst í þessu þróunarferli. Sveinsprófinu lauk undirritaður að lokum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti með ,,fullum réttindum, enda stafsþjálfuninni þá löngu lokið á starfsvettvangi.
Þessar hugleiðingar eru hér settar niður eftir lestur greinar Þorsteins sem eru allrar virðingar verðar, að mati ritara.
Menntamálin þurfa að vera í sífelldri þróun og hvers vegna eru MA og VMA ekki sama stofnunin sem gefur nemendum kost á námi sem greinist í ýmsar áttir að lokum?
Tenglar á greinar um þessi mál sem lesnar voru og kveiktu hugleiðingar:
Menntun í framhaldsskóla, jafnrétti og lýðræði (mbl.is); Efling framhaldsskóla - Vísir (visir.is); Illa ígrunduð áform Ásmundar - Vísir (visir.is); Vanhugsuð sameiningaráform - Vísir (visir.is).
8.9.2023 | 07:11
Að loknu tunnukúri og götulegu
Í nokkra daga hefur mátt fylgjast með fólki stunda stöður og legur.
Annarsvegar í tveimur hvalveiðiskipum, baklegan var á malbikaðri götu, þar sem átti karlmaður nokkur átti notalega stund með sjálfum sér og hugsaði til hvala sem synt höfðu í kringum bát hans er vélin bilaði á siglingu til Íslands frá Færeyjum.
Hvalirnir voru að sögn forvitnir og vildu fylgjast með því sem verið var að bauka í þeim undarlega fiski sem á sjónum flaut.
Sagan segir að konurnar í tunnunni hafi beðið þar í von um að þær myndu sjá aftur hina glæsilegu lögreglupilta sem höfðu heimsótt þær í tunnurnar.
Voru reyndar svo ótilkippilegir að þeir fengust ekki til að stíga skrefið til fulls og fara í tunnurnar til þeirra sem í þeim voru.
Enda þrengsli nokkur á því sérkennilega heimili.
Liggjandinn fór síðan á liggjandanum, líklega orðinn leiður á legunni sem enginn veitti athygli, nema einhver blaðamaður með myndavél sem átti leið hjá.
Unir nú hver við sitt og hvalveiðibátarnir eru farnir til veiða eftir nýrri reglugerð sem samin var í bráðræðiskasti í bráðræðisráðuneyti sem frægt er orðið af endemum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2023 | 13:45
Smalamennska og sameiningar
Þessa dagana er það sauðkindin sem er tákn sameiningarinnar, að minnsta kosti í hugum sauðfjárbænda. Þeir dvelja senn á fjöllum í góðum félagsskap og sameinast um að koma kindum sínum til byggða, en á fjöllum hafa þær dvalið um skeið sér til eflingar og þroska.
Enginn Eyvindur og engin Halla hafa verið þar kindunum til hrellingar og vonandi hefur skepnunum vegnað vel en ekki er víst að gróðrinum þar uppi hafi liðið eins vel, en við vonum það þó og vísum til góðrar tíðar í sumar.
Eitt sinn á unglingsárum - um það leiti sem The Kinks héldu ógleymanlega tónleika í Austurbæjarbíói - fengum tveir vinir og hvorugur í fríi, að fara til haustsmölunar á sunnlenskri heiði og minningin lifir í okkur báðum enn. Rifjuðum það og tónleikana líka upp fyrir nokkrum vikum austur í Svíaríki og höfðum gaman af. Vonandi gengur smalamennskan vel og við óskum þess öll að bæði menn og skepnur komi heil heim.
Sameiningar.
Það eru ekki flokkar sem nú skal sameina, af flokknum sem er að hverfa og ekki sveitarfélög heldur né fyrirtæki, heldur skólar og ef að líkum lætur skal það allt fara á ,,háskólastig", því nú er enginn skóli með skólum nema háskóli sé og er óhætt að segja að minnimáttarkenndin brjótist út með ýmsum hætti.
Ekki er reyndar svo að ætlunin sé að allt nám skuli fara á háskólastig, þó eðlilegt sé að menn haldi það sé litið til þróunar síðustu ára.
Búnaðarskólar eru flestir ef ekki allir komnir á það stig og finnst mörgum það sérkennilegt ef ekki er hægt að stunda landbúnað öðruvísi en vera með slíka pappírsgráðu að baki sér og eftirfarandi fáránleika sá bloggari fyrir sér og skellti inn á samskiptamiðil og sem hér fylgir með lítið eitt lagfærður:
,,Sagan segir að til standi að sameina Kokkaskólann Vélskólanum, enda sé það eðlilegt því í öllum almennilegum eldhúsum sé eldavél og þar sem allir þurfi að borða, verði það Vélskólinn sem verði sleginn af.
Kettir setja stundum upp ,,stýri" og því sé eðlilegt að Stýrimannaskólinn verði sameinaður Landbúnaðarháskólunum, því þar hljóti að vera eitthvað kennt um ketti og stýri."
Framtíðardraumurinn sé síðan sá, að sameina í framhaldinu allt það sem áður var sameinað og jafnvel meira til.
Að þessu mun standa stjórnmálaflokkurinn, sem sameinaður er um það eitt, að hverfa samkvæmt skoðanakönnunum, þ.e.a.s. VG.
Að þessum hálfkæringi rituðum, skal það tekið fram, að alls ekki er víst að það sé nema gott eitt um það að segja að Menntaskólanum og Verkmenntaskólanum á Akureyri sé breytt í fjölbrautaskóla, því líklegt er, að með því mætti spara peninga.
4.9.2023 | 08:32
Holur minnisvarði um pólitík
Göngin sem gerð voru undir Vaðlaheiði stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 11 mínútur eftir því sem segir í Heimildinni.
,,Vaðlaheiðargöng stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 kílómetra. Ef keyrt er á 90 km/klst. meðalhraða stytta göngin því leiðina um ellefu mínútur. Enn er hægt að keyra gömlu leiðina um Víkurskarð og sleppa þannig við að greiða í göngin, en vetrarfærð á þeim fjallavegi getur verið erfið og hann er stundum ófær."
Auðvelt er að benda á önnur jarðgöng sem betur hefðu þjónað tilgangi og getað skilað arði fyrir þjóðina og nærsamfélag sitt.
Vaðlaheiðargöngin voru vinstrigrænt og framsóknar- áhugamál og niðurstaðan er taprekstur líkt og margir óttuðust.
Til samanburðar má geta þess, að stundum er ófært um Hellisheiði og jafnvel Þrengsli líka, en fáum hefur dottið í hug að raunhæft sé að gera göng undir þá heiði.
Undirritaður hefur aðeins einu sinni heyrt talað fyrir því af stjórnmálamanni og sá var úr Framsóknarflokknum og á framboðsfundi, í félagsheimili í sveit og fékk litlar undirtektir.
Göngin undir Vaðlaheiði voru gerð og þjóðin situr uppi með þau og tapreksturinn sem þeim fylgir.
Í grein Heimildarinnr segir m.a: ,,Rekstrartekjur félagsins jukust lítillega milli ára, úr 603 í 641 milljón króna, en fyrir staka ferð fólksbíls í gegnum göngin þarf að greiða 1.650 krónur.
Handbært fé um liðin áramót var einungis 56 milljónir króna. Íslenska ríkið breytti fimm milljörðum króna af skuldum Vaðlaheiðarganga hf. við ríkissjóð í nýtt hlutafé í fyrra. Við það fór eignarhlutur þess úr 34 í 93 prósent.
Auk þess samdi ríkið við félagið um að lengja í lánum þess til ársins 2057 þannig að það greiði um 200 milljónir króna á ári af því.[...] Skuld Vaðlaheiðarganga við íslenska ríkið stóð í 14,8 milljörðum króna í lok síðasta árs. Afborgun þess árs af þeim skuldum er áætluð 53 milljónir króna."
Af þessu og fleiru sem kemur fram í greininni má sjá að að hið gamla spakmæli, að í upphafi skuli endinn skoða, er í fullu gildi.
Eftir situr mannvirki sem þjóðin og þeir sem fara um göngin, þurfa að greiða með almannafé, sem betur mætti nýta til annarra og þarfari hluta.
1.9.2023 | 17:35
Landbúnaðarþrenna
Það hefur verið í mörg horn að líta hjá matvæla- og sjávarútvegsráðherra síðustu daga.
Fyrir tveimur mánuðum bannaði hún hvalveiðar svo sem frægt varð og nú er ljóst að tilgangurinn var að fresta veiðunum fram á haustið, vegna þess að ekki hafði verið samin reglugerð um hvernig veiðarnar ættu að fara fram og hvernig ætti að þeim að standa.
Af þessu hefur orðið talsvart uppþot sem vonlegt er, enda ekki algengt að menn séu sviptir vinnu sinni fyrirvaralaust með eins dags fyrirvara. Reyndar fór ekki svo illa því eigandi fyrirtækisins sem í hlut á sá sér fært að hafa mannskapinn í vinnu við ýmislegt annað en veiðar þá tvo mánuði sem bannið gilti.
Ráðherranum hafði hins vegar ekki orðið litið á almanakið þegar hann setti bannið og því er liðinn besti tíminn til veiðanna og líklega hefur tíminn ekki heldur verið vel valinn til reglugerðasuðunnar sem staðið hefur yfir í ráðuneytinu að undanförnu.
Ráðuneytið hýsir reyndar einnig landbúnaðinn og þar hefur verið talsvert um að vera að undanförnu.
Sauðfjárbændur eru farnir að huga að sláturtíð og vilja sumir hverjir aflífa lömb sín og ær heima við, en helst með sem minnstu eftirliti, því eftirlit er dýrt og því dýrara á hvert kíló sem kílóin eru færri. Til að bjarga því hafa þeir bent á að hægt sé að notast við vefmyndavélar, sem eru þá væntanlega þeim eiginleikum búnar að geta velt fyrir sér skrokkhlutum og rakið garnir o.s.frv.
Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna lýsir vel stöðunni sem landbúnaðurinn er í, í aðsendri grein í Morgunblaðið þar sem hún segir í inngangi:
,,Búnaðargjaldið afnumið, Bjargráðasjóður lagður niður, Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagður niður, Lánasjóður landbúnaðarins lagður niður, landbúnaðarráðuneytið vængstýft, landbúnaðarháskólarnir sveltir, óeðlileg hagræðingarkrafa sett á ráðgjafarþjónustuna, regluverkið blýhúðað með gríðarlegum tilkostnaði, tollvernd sem ekki heldur og búvörusamningar sem duga ekki til."
Það er sem sagt búið að taka til í landbúnaðarpólitíkinni á undanförnum áratugum og það svo, að fátt er eftir af því sem áður var og við rekum augun í, að ,,Bjargráðasjóður" er ekki lengur til og höfum við vitað það um nokkurra ára skeið og þó imprað hafi verið á að gott gæti verið að eiga slíkan sjóð, þá hefur það litlar undirtektir fengið.
Gott er að eiga góðan að ef á þarf að halda, eins og þar stendur og Bjargráðasjóður hljóp stundum undir bagga þegar áföll urðu líkt og geta orðið, þar sem menn eiga sitt undir veðri og vindum, svo ekki sé nú minnst á sjúkdóma og sýkingar af ýmsu tagi, sem geta sótt að fénaði.
Sauðfjárbændur eru tryggðir gagnvart niðurskurði vegna riðu, en aðrir bændur lifa í óvissu um hver muni þá grípa og/eða hvort.
Það má augljóst vera að rétt væri að endurvekja sjóðinn og koma þá á regluverki um hvernig iðgjöld yrðu í hann greidd. En vegna þess að ekki verður allt séð fyrir væri gott að eiga ríkið að sem bakhjarl.
Anton Guðmundsson oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ, á grein í Morgunblaðinu og fjallar um tollvernd á landbúnaðarvörum, sem þingmenn komust að af visku sinni, að væri óþörf á úkraínskar vörur vegna þess hve Úkraína væri langt í burtu frá Íslandi.
Kemst hann að þeirri niðurstöðu að ,,Hækka þarf tafarlaust tolla á innflutt lambakjöt til þess að verja íslenska bændur sem eru að berjast fyrir tilvist sinni á markaðnum".
Líkt og Framsóknarmanna er vani, þá er landbúnaður sauðfjárrækt og sauðfjárrækt landbúnaður og því kemur þessi málflutningur ekki á óvart.
Þegar alþingmenn okkar Íslendinga (ekki Úkraína), komust að hinni afstæðu stöðu Úkraínu á landakortinu, voru þeir að opna fyrir innflutning á kjúklingakjöti og þar sem þeir hafa eflaust vitað, að þar um slóðir eru kjúklingar útsettir fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum, sjálfsagt talið það bara vera til bóta.
Haldið sem vonlegt(?) er, að það þýddi að slíkt ónæmi yki hollustu vörunnar og bætti bragðið, ef eitthvað.
Því ekki getum við farið að láta okkur detta það í hug að þeir hafi haft annað í huga en hagsmuni ,,sinnar þjóðar"!
31.8.2023 | 09:49
Slátrun, sundrun og sameiningar
Sauðfjárbændur vilja slátra fé sínu heima á búum sínum, á sama tíma og afurðastöðvarnar vilja fá heimildir til hagræðingar í rekstrinum með sameiningu.
Gunnar Þorgeirson formaður Bændasamtaka Íslands hvetur til sameiningar afurðastöðva í hagræðingarskyni, en umbjóðendur hans í sauðfjárræktinni hvetja til hins gagnstæða og vilja auk þess fá afslátt af eftirlitsgjöldum.
Þeir telja sig ekki þurfa að hagræða heldur hið gagnstæða, nema það falli undir hagræðingu að fylgst sé með vinnslu kjötafurða í gegnum vefmyndavélar; vélar sem þá eru svo næmar að þær skila góðri mynd af áferð og jafnvel lykt og eru það fullkomnar, að þær eru sem dýralæknar séu á vakt sinni.
Hvort hugmyndirnar eru annað og meira en draumórar líkir þeim sem sjást í vísindaskáldsögum á hvítu tjaldi og/eða sjónvarpsskjá, mun koma í ljós. Sé svo, þá hljóta þær að koma að sama gagni í stærri sláturhúsum og er þá gott til þess að vita, að ekki þurfi að stóla á mannshönd, né auga í þeim framtíðartrylli sem sauðfjárbændur sjá fyrir sér og hyggjast innleiða.
Það hefur verið tínt til að í Bandaríkjunum sé leyfð ,,heimaslátrun" til kjötsölu og að aðfarir við aflífanir séu svo sem sést á mynd hér til hliðar, sem birtist í Bændablaðinu þegar fyrri umræðuholskefla af þessu tagi reið yfir.
Slátrun gripa heima á búum hefur verið stunduð um aldaraðir, en við búum í breyttu samfélagi frá því sem var og því er vert að skoða það sem formaður Bændasamtaka Íslands. segir í viðtali við Morgunblaðið 30. ágúst s.l., þar sem rætt er um sameiningu sláturhúsa og afurðastöðva:
,,Ég er nýkominn af fundi í Danmörku með formönnum bændasamtakanna í Skandinavíu og þar hitti ég sláturhússtjóra Danish Crown sem slátrar um 90% af öllum gripum í Danmörku. Ég held ekki að samkeppniseftirlitið í Danmörku sé að tala um að skipta því ágæta fyrirtæki upp. Samkeppniseftirlitið hér mælir aftur á móti ekki með því að þessi heimild verði veitt, hvorki til samruna, samvinnu né annars. Þessar einingar okkar eru alls ekki hagkvæmar í rekstri, fyrirkomulagið er allt of dýrt. Með því hvernig Samkeppniseftirlitið túlkar þetta þá er verið að koma í veg fyrir hagræðingu. En ég vona að frumvarpið, sem matvælaráðherra ætlar að leggja fram, leiði til hagræðingar í rekstri í afurðageiranum. Það er það sem okkur dreymir um, segir Gunnar Þorgeirsson."
Á sama tíma og verið er að berjast fyrir aukinni hagræðingu bændum og neytendum til hagsbóta, eru sumir sauðfjárbændur að berjast fyrir því að slátrun og að m.k. frumvinnsla geti farið fram á búunum sjálfum.
Hvernig fer þetta saman?
30.8.2023 | 07:49
Hættutímar
Við lifum á tímum þar sem hætta á heimstyrjöld virðist lúra á bak við hornið og í The ZeroHedge er viðtal við forseta Ungverjalands þar sem hann varar við og vill fá Trump aftur til valda í Bandaríkjunum og segir að þá hafi utanríkisstefna þess ríkis verið björgulegri fyrir heimsfriðinn.
Einnig er sagt frá því í sama miðli, að Financial Times hafi sagt frá því að Úkraínar séu farnir að senda menn sem komnir eru af léttasta skeiði til þjálfunar í hernaði og þjálfunin fer fram á vesturlöndum.
Og a.m.k. einn þeirra spræku karla var sjötíu og eins árs, eftir því sem þar segir.
Sé allt þetta rétt, sem líklegt verður að telja, er hætt við að fjáraustur úr íslenskum ríkissjóði hafi haft lítið að segja til að hressa við stöðuna fyrir Úkraína.
Sú var eitt sinn tíð, að Rússland náði allar götur yfir Pólland og þó ekki sé rétt að miða við það í nútímanum, þá eru litlar líkur til annars en að stefna rússneskra stjórnvalda sé að halda fullri og óskorðari stjórn á héruðunum sem samþykktu í kosningum að tilheyra rússneska ríkjasambandinu.
Sumir hafa slegið því fram að Krímskagi tilheyri Úkraínu og víst er að úkraínsk stjórnvöld standa í þeirri meiningu að svo sé.
En sannleikurinn er sá, að skaginn hefur ekki í seinni tíma sögu tilheyrt því landi, nema að nafninu til eftir að Krjútsjev gaf upprunalandi sínu skagann í ölæði, að því sem sagan segir.
Margar þjóðir hafa fórnað ungmennum sínum í tilgangslausri baráttu um Krímskagann og meira að segja damlað á seglskipum frá Bretlandi og Frakklandi fyrr á öldum, í þeim tilgangi að reyna sölsa undir sig þann eftirsótta skaga.
Skaginn er nú landtengdur við Rússland með brú yfir Kersh sund, sem byggð var, eftir að draumur hafði staðið til þess að gera það í nokkrar aldir.
Ráðamenn koma og fara í tímans rás og það er varasamt að telja sér trú um að einn slíkur sé alvaldur og skiptir þá ekki máli hvað hann heitir.
Að því sögðu má þó gera ráð fyrir að Putin ráði meiru í Rússlandi en Zelensky gerir í Úkraínu og skiptir þá litlu hversu mikið upp við þann síðarnefnda íslenskar stjórnmálakonur viðra sig.
Sá síðarnefndi er talsmaður þeirra sem stjórna, en ekki stjórnandi og þeir sem að baki eru, halda sig til baka og eru lítið í sviðsljósinu.
29.8.2023 | 17:36
Svarta hagkerfið, góði hagnaðurinn o.fl.
Ríkisstjórnarflokkarnir eru ósammála um orkumál, búsetuúrræði og hvalveiðar og er þá eflaust ekki nærri allt upptalið, en þeir eru sammála um eitt og það er, að hanga saman í ríkisstjórn svo lengi sem límið á stólsetunum heldur.
Þó er von hjá sumum og hún felst í því, að til eru þeir sem gætu hugsað sér að stíga fram og koma með vantrausttillögu og það er meira að segja sagt í fyrirsögn að tillagan sé væntanleg!
Hvort af því verður veit víst enginn og um afdrif slíkrar tillögu er vont að spá, en svarta hagkerfið hefur vaxið mikið og sagt er að ólögleg starfsemi sé í flestum iðngreinum.
,,Staðan er sú að eftirlit með því að starfað sé á grundvelli tilskilinna leyfa, þ.e. sveins- og meistarabréfa, í iðngreinum á Íslandi er lítið sem ekkert. Það er sambærileg staða í öllum iðngreinum. Einstaklingar geta stofnað fyrirtæki og veitt þjónustu án þess að hafa réttindi eða leyfi til þess." [...]
,,,,Vandamálið er mun víðtækara en áður var talið. Það sem er verra er að stjórnvöld hafa ekki gefið neytendum þau tæki sem þarf til að kanna hvort einstaklingar séu með tilskilin réttindi. Það er hvergi að finna opinbera skráningu yfir þá sem hafa sveins- og meistarapróf. Neytendur eiga mjög erfitt með að átta sig á því hvort veitandi þjónustu er til dæmis í raun og veru húsasmiður eða snyrtifræðingur." [...]
,,Björg segir ljóst að fylgni sé til staðar milli fyrrgreindra lögbrota og svarta hagkerfisins sem blómstri. Þar sem einstaklingar án réttinda greiða ekki skatta til samfélagsins. Fjölmörg fyrirtæki á Íslandi starfa ekki í samræmi við lög."
Ljósi punkturinn er, að góður hagnaður er hjá Landsvirkjun, en dregst hins vegar saman hjá Orkuveitu Reykjavíkur.