Orkuöflun í óeiningu og orkukreppu

Við förum létt í þetta til að byrja með, en þyngjum það kannski þegar á líður.

2023-12-16 (16)Á myndunum, sem fengnar eru annars vegar af visir.is (Halldór) og hins vegar af mbl.is (Ívar) sjáum við tekið á orkumálunum á hraðsoðinn og gamansaman hátt.

Á þeirri til vinstri er túlkun á húllumhæinu sem fram fór í Abu Dabi á dögunum, þar sem saman var kominn fjöldi vel meinandi fólks, skulum við vona, sem telur sig vera að bjarga plánetunni okkar frá, a.m.k. hitasveiflum í komandi framtíð.

Sá hængur er samt á að hitasveiflur hafa komið og farið í sögu plánetunnar og það alveg án þess að farið hafi verið í ferðalög þvert um heiminn til að sporna við því. Sveiflurnar hafi farið upp og síðan gengið til baka en þær hafa líka farið niður og síðan hefur það líka gengið til baka.

2023-12-16 (11)Í Morgunblaðinu hefur talsvert verið fjallað um þessi mál, bæði frá pólitísku sjónarhorni en líka hinu raunsæa og við sjáum hér dæmi um það síðarnefnda. Það er sem sé skortur á raforku sem hefur hindrað að hægt hafi verið að selja orku og þar með skapa aukin atvinnutækifæri og nota vistvæna orku til innlendrar starfsemi og í staðinn hefur verið brennt olíu við framleiðsluna og það er líka verið að skerða afhendingu orku til íslenskra fyrirtækja þriðja árið í röð.

Það er dapurlegt til þess að hugsa, að kerfislægar og pólitískar hindranir valdi því að ekki sé hægt að undirrita samninga um sölu á orku til fyrirtækja og að það sé gert undir yfirskini umhverfisverndar.

Samfylkingin styður aukna orkuöflun segir í fyrirsögn og þar er vitnað í þingmann flokksins, og þó það nú væri að flokkur sem rekur ættir sínar til vinnandi alþýðu hafi skilning á málinu, en eins og við sjáum á teikningunni, þá getur verið að raddir finnist í flokknum sem telji úr og að þær hafi verið dálítið háværar á köflum.

2023-12-16 (12)Á myndinni til vinstri er verið að fjalla um ,,orkuleka“, en á myndinni sem er til hægri er verið að fjalla um mál sem við eigum ef til vill betra með að skilja.

Skortur er á iðnmenntuðu fólki og ástæðan er, að ekki er varið nægu fé til menntunar iðnaðarmanna! Alls kyns dularfull merki hafa sést í samfélaginu um að ráðamenn telji iðnmenntun ekki þess virði að hún sé stunduð og er þar eitt skýrasta dæmið, að menn hafa fundið það út að óþarft sé að kenna vélstjórn og skipstjórn í Sjómannaskólanum.

Hafa sem sé fundið það út, að þess í stað eigi að nota húsnæðið til þess að dæma í dómsmálum.

Sé hugsað til þess hver stærð hússins er og sé allt eðlilegt við mat á því hve heppilegt það sé fyrir fyrrgreinda starfsemi, þá er illa komið í samfélaginu okkar, svo ekki sé meira sagt.

Hér í lokin skal minnt á að eins og við sáum, þá er glímt við kuldabola með raunsæjum aðferðum þar sem sagt er frá byggingu nýs miðlunartanks fyrir heitt vatn, en við sjáum líka að iðnaðarráðherra telur vera þörf fyrir aðgerðir sem geti orðið að raunveruleika bæði fljótt og vel.

Eins og við er að búast, kennir hann Orkuveitunni um hve hægt hafi miðað.

Hér verður tekin sú afstaða að líta á þau ummæli sem pólitískt skot, því allir vita að það fyrirtæki ber ekki umtalsverða ábyrgð á hve hægt hefur gengið. Það er landsmálapólitíkin sem hefur brugðist og er aðal sökudólgurinn, eða með öðrum orðum þeir sem stjórna landinu.

Ríkisstjórnin er skipuð þremur flokkum og með forystu í henni fer flokkurinn sem berst gegn uppbyggingu orkufyrirtækja, svo sem hann getur, en síðan er þar flokkur iðnaðar- og orkumálaráðherrans sem þarf að hugsa sinn gang.

Sjálfstæðisflokkurinn lætur bjóða sér að sitja í ríkisstjórn sem stendur í vegi fyrir virkjanaframkvæmdum, en svo auk þess að glíma mannskap sem notar sér alla tiltæka lagakróka til að kæra framkomnar tillögur um nýjar virkjanir, svo sem nýlegt dæmi er um varðandi Hvammsvirkjun í Þjórsá.

En auðvitað er reynt að ,,benda á eitthvað annað“, þegar menn eru komnir í vandræði með að afsaka það sem ekki gengur sem skyldi.

Hvort ,,Eyjólfur hressist“ í því samstarfi sem varð til eftir kosningarnar til alþingis og sem eru stundum kenndar við Borgarnes, er varlegt að treysta, en það þarf örugglega mikið að ganga á áður en flokkurinn sem fer með forystu í stjórninni áttar sig á því, að það er að koma að ögurstundu í málaflokknum.

Ef til vill verður allt gott eftir næsta heimshornaflakk og samkundan svo góð og áhrifarík, að smámál eins og raforkuskortur til fyrirtækja og jafnvel heimila á Íslandi, hverfi eins og dögg fyrir sólu.

Menn þurfa bara að muna að taka með sér nóg af sólskini næst þegar farið verður í vistvænt flug yfir hálfan hnöttinn til að hitta mann og annan!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband