Skák og mát

Skákdrottningin fór á kostum í Silfri Egils í dag. Hún upplýsti þar fyrir alþjóð hver er munurinn á einleikara við skákborðið annars vegar og hins vegar þeim sem tekur þátt í hópíþróttum og í því finnur hún til samkenndar með Ögmundi. Guðfríður má samt ekki gleyma því að lið hennar er fyrst og fremst þjóðin og því er það, að hún verður að reyna að rífa sig upp úr einleiknum.

Vitanlega er það ömurlegt að staðan skuli vera þannig að ekki er annað að sjá en að núverandi stjórnarmynstur sé hið eina í stöðunni. Ekki er um að ræða að stjórnarandstaðan, þ.e. hrunflokkarnir séu neitt við það að finna fjölina sína; ábyrgðarleysið er algjört og lýðskrumið yfirþyrmandi. Ekki er kannski við öðru að búast frá framsókn, því þar virðast þeir einir ráða ríkjum þessa dagana sem ráðlausir eru, þar virðast búa fáir og hugsa smátt, hlaupandi eftir hverju því mýrarljósi sem þau koma auga á, en tekst vitanlega ekki að höndla neitt þeirra, sem betur fer.

Sjálfstæðisflokkurinn er ein rjúkandi rúst, logandi stafna á milli af innanflokksátökum eins og sást á Ísafirði um daginn og ekki síður í átökunum um Morgunblaðið, eða það sem eftir er af því. Helsta hagfræðiséníið þeirra þessa dagana Tryggvi Þór virðist með öllu skoðanalaus á köflum, en þó kom fram í máli hans greining á VG sem hægt er að taka undir. Þau hafa a.m.k. ekki hingað til sýnt að þau séu í stjórnmálum til að byggja upp.

Árni Páll fær mörg prik fyrir hve vel hann stóð sig í því að reyna að koma því inn fyrir hinar skotheldu höfuðskeljar þeirra Tryggva og Sigmundar hvernig hin raunverulega staða er. Vitanlega er það vonlaust verk en gott að gefast ekki upp þó afneitunin sé algjör, nema að ábyrgðarleysið sé bara svona mikið að einskis sé svifist og hagsmunir þjóðarinnar komi þeim einfaldlega ekkert við. Vitað er að löngun þeirra til að komast í Stjórnarráðið er mikil, þó ekki sé nema vegna þess að þá telja þeir eflaust að þeim opnist greiðari leið til að fela og geta síðan tekið til við helmingaskiptin að nýju.

Þorvaldur Gylfi var svo rúsínan í pylsuendanum og studdi hann mjög vel við málflutninginn sem Árni Páll hafði haldið uppi, var faglegur og málefnalegur að vanda. 


mbl.is Samþykktu Icesave blindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband