9.7.2009 | 21:03
Keisarans skegg
Bjarni vildi fá afsökunarbeiðni og fékk, en er ekki komið að því að hann hætti að gaspra og snúi sér að því að koma með eitthvað jákvætt og uppbyggilegt inn í umræðuna. Það vill nú þannig til að flokkur hans ber ásamt Framsókn stærsta ábyrgð á hvernig komið er þó þau vilji ekki horfast í augu við það og einbeiti sér að því að ræða um útrásarvíkinga, þeir hafi gert þetta allt saman og verið nöðrurnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi alið sér við brjóst. Vel getur verið að málflutningur af þessu tagi falli í kramið hjá hinum innvígðu og innmúruðu og framfallandi fylgismönnum FLokksins, en í aðra gengur þetta ekki og það er allt að því svívirðilegt að stærsti flokkur þjóðarinnar til margra ára hafi ekkert til málanna að leggja við þær kringumstæður sem nú eru uppi. Það eina sem þau hafa lagt inn í umræðuna í langan tíma er sparðatíningur, orðhengilsháttur og útúrsnúningar, flokkurinn þeirra fór þó í innhverfa íhugun og naflaskoðun fyrir kosningar, sem að vísu féll ekki í kramið hjá hinum mikla leiðtoga, en vegna þessa framtaks hefði verið hægt að hugsa sér að málflutningur þeirra á sumarþinginu yrði í meira jafnvægi.
Bjarni lætur sem hann vilji ekki skrifa uppá Icesave samninginn sem vonlegt er, hver vill það svo sem? Líklega hefði verið klókt af Steingrími J. að senda Bjarna í samningaviðræðurnar, ekki síst ef miðað er við hvern árangur hann hafði er hann gekk til samninga við samvisku sjálfstæðismanna varðandi endurgreiðslu á ofurstyrkjunum sem FLokkurinn fékk og sem mest voru í umræðunni fyrir kosningar. Ekkert vaxtavesen þar og verðbólgan étur upp lánið sem þar að auki er í ísl. krónum og allir vita hve mikils virði hún er einkum eftir hina einstöku efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Komið hefur fram hugmynd um að setja fyrirvara við samþykkt þingsins varðandi hina umdeildu ábyrgð og hlýtur það að vera allrar skoðunar vert og ef þingmenn geta hugsað sér að fara úr skotgröfunum og vinna fyrir þjóð sína, eins og þeir eru reyndar kosnir til, þá ættu þau sem á þingi sitja að snúa sér að því að leysa málið og hætta innantómu þrasi um keisarans skegg. Samþykkja svo í framhaldinu að sækja umsvifalaust um aðild ESB og fara í sumarfrí, sem að þessu loknu væri verðskuldað og hvíla þjóðina á pólitísku þrasi í nokkrar vikur.
Fór fram á afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.