9.5.2009 | 21:31
Stjórnarmyndun
Það sem ekki átti að gerast, er að gerast. Fyrir tilstuðlan Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkanna er komið til valda svartasta afturhaldið í íslenskum stjórnmálum, VG.
Flokkarnir tveir komu þjóðfélaginu á vonarvöl eftir að hafa úthlutað öllum helstu gulleggjum þjóðarinnar í hendur dekurbarna sinna og slík er ógæfa þeirra að þeir hafa enga getu til að koma með lausnir á vandanum sem þeir sköpuðu.
Sjálfstæðisflokkurinn hékk á því eins og hundur á roði, að halda fyrrverandi foringja sínum í stól seðlabankastjóra, halda honum við völd, eins og viðurkennt var í aðsendri grein í Morgunblaðinu um daginn. Í stað þess að leggja til að eitthvað yrði gert í málunum, þegar í óefni var komið, eyddu þau allri sinni orku í þetta eina atriði og spekingurinn hugumstóri hafði ekki annað til málanna að leggja en að þvælast fyrir að leitað yrði aðstoðar AGS, auk þess að dreifa sögum um að von væri á peningaflóði frá Rússum og hringla í stýrivöxtunum í fullkomnu örvæntingarfálmi.
Viðhengi Sjálfstæðisflokksins, til margra ára, hafði svo ekki annað til málanna að leggja en rífast innbyrðis, sem endaði svo með því að formaðurinn gafst upp og forðaði sér til Kanaríeyja.
Því er staðan núna sú að Samfylkingin, sem er eini flokkurinn sem mótað hefur stefnu þar sem horft er til framtíðar, á ekki annan kost en að teyma til valda VG afturhalds og forsjárhyggju fólkið, fólkið sem engu vill breyta, óttast nær alla nýjungar og vill hafa allt eins og það hefur alltaf verið, það er það sem þau þekkja, það sem þau ekki þekkja getur ef til vill og hugsanlega verið varasamt og því má ekki breyta neinu nema í algjörri neyð.
Á meðan Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkarnir fást við það eitt að elta skottið á sjálfum sér, er ekki annað í stöðunni en VG og Samfylkingin, í þeirri von að síðarnefndi flokkurinn geti með því samstarfi leitt þjóðina út úr feninu sem hún er í og vonin er sú að tætingsliðið í VG verði til friðs og að skynsemin verði ofan á hjá stjórnarandstöðuflokkunum, þó ekki væri nema af og til.
Vonandi tekst að gera það sem gera þarf, en Samfylkingin er ekki öfundsverð af hlutskiptinu.
Þingflokkur VG kallaður saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.