Þjóð í hlekkjum hugarfarsins

Titill þessa pistils er fenginn að láni frá sjónvarpsmynd sem sýnd var á síðasta áratug síðustu aldar. Myndin fjallaði um það hve íslenska þjóðin hefði verið og raunar væri hlekkjuð og klemmd af stöðnuðum hugsunarhætti. Að auki var fjallað um þráa sauðkindarinnar, sem af vonsku sinni og þrjósku legði flest á sig til að níðast á íslenskri fold. Þrjóska hennar, að sögn myndarhöfundar, væri slík, að er hún væri búin að éta upp allan þann gróður sem hún gæti fundið, þá réðist hún á grjótið í hlíðum íslenskra fjalla í þeim tilgangi að naga það upp til agna. Myndin var að sjálfsögðu talsvert umdeild, enda öfgarnar sem haldið var að áhorfendum slíkar að engu tali tók. Svo var að sjá og heyra, að höfundur hennar gerði ekki ráð fyrir að áhorfendur byggju yfir minnsta snefli af sjálfstæðri hugsun, væru líkast til bæði ólæsir og óskrifandi, hefðu aldrei hleypt heimdraganum og ekkert séð eða frétt af sögu annarra þjóða sem bornar voru saman við þá íslensku.

Þetta kemur upp í hugann þegar fylgst er með málflutningi varðandi það að sótt verði um inngöngu í ESB. Þöngulhugsunin er slík að engu tali tekur og ekki laust við að í hugann komi hvort höfundur fyrrnefndrar myndar hafi eftir allt haft að einhverju leiti rétt fyrir sér. Er það Sumarhúsaþráinn sem eftir allt, er það sem svona ríkt er í okkur, stjórnar hugsun okkar og heldur henni fastri í öngstræti. Við erum upp að vegg og í stað þess að leita leiða til útgöngu og síðan framrásar, þá virðist sem stór hluti vilji leita lengra til fjalla, flýja veruleikann enn lengra, eins og Bjartur forðum.

Sagan um Bjart var skáldsaga, það sem við horfumst í augu við í dag er hins vegar ískaldur veruleiki og því verðum við að fara að átta okkur á. Þeir sem fylgst hafa með umræðum stjórnmálamanna að undanförnu hafa tekið eftir hve illa þeim líður, svo dæmi sé tekið, þeim formönnum Sjálfstæðisflokksins og VG, að tala fyrir arfavitlausri stefnu  flokka sinna, varðandi Evrópumálin, sem mótaðar voru á landsfundum flokkanna nýlega. Þeir sitja uppi með stefnu sem þeir eru í stökustu vandræðum að tala fyrir, enda er niðurstaða þessara flokka í málinu ekkert annað en stórslys fyrir þá báða og annað skynsamt fólk í flokkum þeirra . Kannski ekki síst Sjálfstæðisflokkinn sem hefur a.m.k. stundum verið að reyna að láta líta svo út sem að um stjórnmálaflokk væri að ræða, en ekki bara hagsmunagæslubandalag.

Er góður og gegn sjálfstæðismaður segir í örvæntingu sinni sannleikann í málinu í grein í föstudagsblaði Morgunblaðsins og ákallar þjóð sína um að taka ábyrga afstöðu, þá reka allir upp stór augu og furða sig:

Hvað sagði maðurinn, er Flokkurinn nakinn?

Já, Flokkurinn er nakinn í þessum skilningi og það er slæmt, við eigum kröfu á, íslendingar, að flokkur af þeirri stærð og með það fólk innanborðs, sem Sjálfstæðisflokkurinn er, að hann taki afstöðu með þjóð sinni en ekki á móti.


mbl.is Til Evrópu með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæll Ingimundur.

Þú segir: "Í stað þess að leita leiða til útgöngu og síðan framrásar, þá virðist sem stór hluti vilji leita lengra til fjalla, flýja veruleikann ..."

Ég leyfi mér að fullyrða að hver einasti Íslendingur sem kominn er til vits og ára, sé að velta þessum málum fyrir sér. Allir vilja finna leið út úr kreppunni og farveg til uppbyggingar. Enginn vill flýja veruleikann. Menn eru bara ekki á sama máli um hvaða leið er vænlegust til árangurs.

Það er engum málstað til framdráttar að tala um þá sem eru ósammála sem "arfavitlausa". Ég er í hópi þeirra sem tel að staða okkar utan ESB sé mun vænlegri til árangurs. Og ég gef ekki mikið fyrir dómsdagsspá Benedikts, þó að hann hafi sett hana fram í 7 tölusettum liðum og sé "góður og gegn sjálfstæðismaður" eins og þú kallar hann.

Menn eiga bara að gefa sér tíma til að klára þessa umræðu. Eftir kosningar verður hanaslagurinn kannski minni. Það eru til rök með og á móti báðum kostum. Ef við skoðum það sem við höfum úr að spila, bæði fólkið og aðrar auðlindir, eigum við alla möguleika á að byggja upp það sem fjárglæframenn skemmdu á aðeins fimm árum. Að endurreisa gott samfélag, velmegun og öryggi. Ég fæ ekki séð að umsókn um aðild að Evrópusambandinu hjálpi okkur mikið á þeirri vegferð.

Haraldur Hansson, 21.4.2009 kl. 18:10

2 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Ragnar Arnalds virtist vera með lausnina í Kastljósinu í Sjónvarpinu áðan: Framleiða okkur út úr vandanum og hafa gengið á krónunni bara nógu lágt.

Framtíðarsýn, sem mér hugnast ekki, takk fyrir samt, ansi hræddur um að þetta dugi skammt og gangi illla í nútímafólk og það sem verst væri, að líklega sæum við á bak unga fólkinu ef þessi leið er valin

Ingimundur Bergmann, 21.4.2009 kl. 20:10

3 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Viðbót: Ég fjallaði um arfavitlausa stefnu, en ekki arfavitlaust fólk. Sjálfur hef ég tekið margar arfavitlausar ákvarðanir í lífinu, en það er svo annarra að dæma um hvort ég sé jafn vitlaus og það sem ég hef gert rangt, eða hvort ég hafi kannski bætt það upp með einhverju öðru o.s.frv..

Ingimundur Bergmann, 21.4.2009 kl. 20:17

4 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Ingimundur. Við spjöllum nú lítið um kvótan eftir að ESB fer að úthluta honum til Spánverja og Portúgala.

Ég fæ ómögulega skilið hvers vegna fólk er að eyða tíma sínum og annarra í jafn fánýtt hjal og ESB nákvæmlega núna.

Ég er 55 það er jafnoft búið að segja alþjóð það, bara í þessum mánuði að í núverandi stöðu höfum við engar forsendur til að sækja um aðild að ESB. Er þetta ekki að verða nokkuð ljóst.

Þar fyrir utan, vegna þess hvað ég hef gaman af að tala illa um ESB verð ég að hengja við skoðun minni á þetta fyrirbrigði.

Þau þjóðríki sem stjórna ÖLLU í ESB eru eftirfarandi. Spánn, Portúgal, Frakkland, Þýskaland, Holland og Belgía. Nú, hvað eiga þessar þjóðir sameiginlegt? Svarið blasir við, þetta eru allt saman gamlir nýlendukúgarar. Að hverju eru þessar þjóðir að leita? Eru þær að leita að einhverjum til að gera góðverk á? Eru þær að sinna samfélagsþjónustu til að bæta fyrir brot sín gegn fyrrum nýlendum sínum? Eru þær að leita að eyðieyju til að urða sorp? Það síðastnefnda er langlíklegast. Hin atriðin öll eru frekar ótrúverðug eða hvað finnst ykkur lesendur góðir. Jú ESB tæki okkur fagnandi jafnvel þó öll værum við illa smituð af sárasótt. Við eigum nefnilega það sem ESB er að sækjast eftir, við eigum auðlindir, við eigum nánast ósnertar auðlindir. Það er það sem ESB ásælist. Þær þjóðir sem ég áður upp taldi eru að verða búnar með auðinn sem þær rændu af fyrrum nýlendum sínum og skyldu síðan eftir sem flakandi sár og allt logandi í styrjöldum. Hingað vilja þær koma og taka til við fyrri iðju, ræna og rupla og skilja eftir auðn og tóm.

Ég þakka lesturinn.

Þórbergur Torfason, 21.4.2009 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband