Framsókn eftir lofti

Framsóknarflokkurinn er í vanda: Guðni er farinn , Bjarni er farinn, Kristinn er farinn, Finnur er farinn, Valgerður er að fara, Höskuldur var í korter og er farinn, Björn Ingi er farinn og skildi eldhúsáhöldin eftir og svona mætti lengi telja, nánast út í hið óendanlega.

Stefna flokksins er líklega það eina sem ekki er farið veg allrar veraldar hjá þeim blessuðum, en af hverju fór hún ekki bara líka? Það er náttúrulega vegna þess, að það sem ekkert er, getur ekki farið eitt né neitt. Og því er það að stefnan fer ekki, því ef það gerðist þá hyrfi flokkurinn, þar sem stefna hans er ekki önnur en sú að vera til. Það er að segja Framsóknarflokkurinn er einungis til fyrir sjálfan sig og sína tilvist, svo loftkennt sem það er.

Þannig er það raunar með æði mörg samtök og félög og alls ekki þannig að Framsókn sé sér á báti hvað þetta varðar, það sem er sérstakt við maddömuna er hins vegar að hún þarf sífellt að reyna að láta líta út fyrir að tilvera hennar sé byggð á raunverulegri þörf, að þjóðfélagið geti notið góðs af að flokkurinn sé til og því er það, að alltaf þarf sífellt að vera að finna upp á einhverju sem gengur í fólkið.

Margir muna eftir slagorðunum um: Ísland án eiturlyfja, atvinnu fyrir ég man ekki hvað, mörg þúsund manns, 90% húsnæðislán fyrir alla svo unglingurinn væri ekki lengur að þvælast fyrir á heimilinu og síðan kórónan: Flugvöll á Lönguskerjum!

Nýjasta hugdettan er svo að koma fram með hugmynd sem er svo yfirmáta vitlaus að engu tali tekur, að skera 20% af skuldum landans hvort sem hann þarf þess með eða ekki. Loftbólukennt fyrirbrigði svo ekki sé nú meira sagt og ber þess vitni, að framsóknarmönnum er flest betur gefið annað en að gera sér grein fyrir orsök og afleiðingu.

Munurinn á framsóknarmanni og töframanni er, að töframaðurinn veit í hverju galdurinn er fólginn og að í raun er ekkert ,,hókus pókus" til.

Formaðurinn loftkenndi þyrfti að taka þetta til athugunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hinir flokkarnir hafa ekkert lagt ti , ekki skritið að þér svíði það.

JK (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:47

2 Smámynd: Jón Finnbogason

Endurnýjun krefst þess að fólk "fari" það er ósköp eðlilegt. Stefnan er hins vegar sterk og sjálfbær, þarf lítið annað en að skoða söguna til þess.

Varðandi slagorðin sem þú nefndir þá er það orðið tíska að rakka niður "Ísland án eiturlyfja" en fólk áttar sig ekki á því að þó nafnið hafi verið versti hluti átaksins skilaði það ýmsu góðu til stofnana hins opinbera með tilliti til aukinna forvarna og samhæfingar starfssemi stofnana.

Atvinna fyrir ## þúsund manns, tókst nú bara þannig að það þarf ekki að hlægja að því. Nema þú viljir hafa atvinnuleysi og aumingjaskap.

90% húsnæðislánin áttu að gilda fyrir fyrstu kaup að hámarki 9 milljónir, hafði ekki nokkurn skapaðan hlut að gera með aukið aðgengi að lánsfé frá Japan og BNA. Ekki spinna lygavefi, sannleikurinn eyðileggur þá á endanum.

Flugvöllinn á Löngusker var tillaga sem hefði vel getað náðst lending um, hvað sem öðrum hugmyndum líður. Framsóknarmenn þora hið minnsta að opna á sér munninn án þess að renna því í gegnum skoðanakannanir fyrirfram.

Varðandi samlíkinguna við galdramenn þá er það rétt að galdramenn vita í hverju galdurinn er fólginn en það vita Framsóknarmenn líka, hættu hatrinu og byrjaðu að hlusta, þú gætir lært eitthvað á gamals aldri.

Jón Finnbogason, 27.3.2009 kl. 12:33

3 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæll Jón Finnbogason

Uss, uss, það er af og frá að ég hati ykkur, þið eruð allt of skemmtilegt fólk til þess og svo þekki ég svo marga ágæta framsóknarmenn.

Ingimundur Bergmann, 27.3.2009 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband