Áhyggjur Björns

Þegar þjóðin er að reyna að átta sig á hruninu, þegar skuldir heimilanna hafa vaxið fólki yfir höfuð, þegar atvinnuleysi er komið uppí hæstu hæðir, margfalt hærri en sést hefur í langan tíma, bankakerfið hrunið og fyrirtækin mörg hver gjaldþrota og orðspor þjóðarinnar er stórskert, þá hafa sjálfstæðismenn með Björn Bjarnason í broddi fylkingar áhyggjur, og krefjast skýrslu.

  Það er sem sé komið að því, að þeir telja, að skoða þurfi málið, eitthvað alvarlegt hafi gerst.

  Björn stendur í ræðustól alþingis og er alvörugefinn, enginn sem á horfir getur verið í minnsta vafa um, að eitthvað mjög slæmt hafi komið fyrir. Þunginn í málflutningnum er mikill og alvaran slík að athygli vekur og hvert skildi nú umræðuefnið í ræðunni vera. Er það ástandið á fjármálamörkuðunum eða atvinnuleysið, er það kannski gagnrýni á ríkisstjórnina, er eitthvað sem hún  ætti að gera öðruvísi, eða betur. Er þessi reyndi þingmaður að vanda um við flokksmenn sína sem hafa tileinkað og tekið sér til fyrirmyndar frammíkallahegðun sumra þeirra þingmanna sem áður voru í andstöðu, voru í stjórnarandstöðu er maðurinn sem nú stendur í púltinu var dómsmálaráðherra.

  Er hann kannski að reka á eftir því að eitthvað raunhæft verði gert í efnahagsmálunum til framtíðar litið, eins og til dæmis að sækja um aðild að ESB og taka upp evru. Nei, auðvitað er hann ekki að því, það er nefnilega nokkuð sem ekki má nefna, svoleiðis framsækni á ekki uppá pallborðið hjá flokkssystkinum hans, ekkert frammúrstefnukjaftæði á því heimili. Heimili þar sem húsbóndinn hefur ekki rænu á að taka upp símann til að hringja, líklegast vegna þess að hann hefur ekki vitað númerið hjá kollega sínum og ekki munað eftir hve liprar og flinkar að finna númer þær eru stúlkurnar á símanum.

  Björn er heldur ekki í púltinu til að biðjast afsökunar á að hann og flokkur hans hafi farið með stjórn efnahagsmálanna árum saman, hafi byggt upp og stýrt hagkerfi því sem er svo nöturlega komið í strand. Nei, Björn er alltof áhyggjufullur til að hann geti verið að hugsa um svoleiðis hégóma og hann vill fá skýrslu frá utanríkisráðherra, um misskilning. Forseti þjóðarinnar hefur nefnilega fallið í þá gryfju, að spjalla við þýskan blaðamann og smáatriði í texta hafði skolast til, skolast til á þann veg, að Geir félagi Björns hefur líkast til glaðst við, svo ekki sé nú minnst á leiðtogann hinn eina og sanna.

  Blaðamaðurinn hafði það sem sagt eftir forsetanum, að íslenska þjóðin væri orðin blönk og gæti ekki borgað allt sem krafist er.

  Um misskilning virðist að ræða, en hvernig má það vera, að það fari svona fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum að forsetinn segi það sem þeir eru búnir að tala um í margar vikur?

Er ef til svo auðvelt að skipta um hlutverk, að Björn hafi eitt andartak gleymt, hvoru megin línunnar í pólitíkinni hann stendur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband